Miðvikudagur 4.5.2011 - 08:46 - Rita ummæli

Við Íslendingar fögnum ekki dauða fólks. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson í tilefni þess að Osama Bin Laden var veginn. Diplomatískt svar hjá stjórnmálamanninum og vísast rétt hjá honum. Ég hef verið að skoða hug minn í þessu efni og hef komist að því að ég fagnaði því ekki sérstaklega að þessi maður skyldi vera til og ekki gladdi ævistarf hans mig heldur.

Viðbrögð manna við drápinu á Osama eru mismerkileg. Sölvi Tryggvason fann enn einu sinni fáránlegan útgangspunkt þegar hann vildi bera saman hausafjölda þeirra sem Osama hefði fellt og þeirra sem hefðu fallið í baráttunni við að kveða niður hryðjuverk. Ég hef hreinlega ekki heilsufar í að reyna að skilja þessa nálgun stjörnubloggarans…

Benedikt Erlingsson var í útvarpinu í morgun og eins og við var að búast reyndi hann að halda því fram að kannski hefðum við vesturlönd, og reyndar sérstaklega Bandaríkjamenn, eiginlega knúið þennan mann til verka í einhverskonar sjálfsvörn. Osama hafi í raun verið að senda táknræn skilaboð með því að færa vettfang átaka inn í borgir vesturlanda. Benedikt er bráðskemmtilegur og greindur með afbrigðum en seilist langt hér…

Í fullkomnum heimi eru allir góðir. Engar styrjaldir og engin heimska. Allir á einu máli um einn Guð og vopnaframleiðendur ekki til. Ágreiningur leystur með samræðustjórnmálum og hagsmunir allra manna renna fallega saman í einum góðum alheim.

Benedikt spyr hvaðan reiðin sé runnin. Hvaða reiði ætli hann sé þar að tala um? Reiði Osama eða reiði þeirra sem vildu hann feigann. Ég get skrifað langa sögu um það sem gerist fyrir botni miðjarðarahafs og í Asíu og afskiptasemi vesturlanda af málum þar og reynt að skilja af hverju menn eins og Osama verða til.

Líkast til er ekkert skrýtið að upp úr þeim jarðvegi sem sáð hefur verið til þar spretti skrattar eins og Osama Bin Laden þó vísbendingar séu kannski að koma fram um að fólk þar sé að uppgötva aðra aðferð til að koma sínu fram en með ofbeldi hugar og handa.

Allt fínar og góðar heimspekilegar og pólitískar vangaveltur. Þeir eru líka til sem segja að meira að segja í skítugum styrjöldum verði að vera siðferði og regla og menn sem kunna ekki að feta þann veg eru hundeltir sem stríðsglæpamenn. Verri glæpur fyrirfinnst víst ekki en stríðsglæpur.

Sumir segjast ekki sjá meginmun á Osama og þeim andskotum sem hann barðist gegn. Kannski er eitthvað að mér en fyrir mér er munurinn þar allur. Ég hef ekki skýra mynd af því í höfðinu hvaða hagsmuni ég tel verðskulda blóðuga baráttu enda bý ég í vernduðu umhverfi þar sem allt ætlar af göflum að ganga ef stórhættuleg rándýr eru felld nærri mannabyggð.

það er svo auðvelt að setja fram þær skoðanir að ekki megi drepa svona fólk og gott að þetta gerist allt lengst í burtu. Mannskepnan er ferleg stundum og sumir eru ferlegri en aðrir og Osama Bin Laden var djöfullega ferlegur.

Kannski ég taki bara hentugu leiðin á þetta eins og Sölvi og Benedikt og hafi snyrtilega og „þægilega“ skoðun á dauða Osama. Hvernig hann bar að og hvað var gert við líkið. Við þrír vitum að heimurinn er betri staður án hans og grefilli gott að „vondu“ kallarnir taka skellinn fyrir drápið.

Þá getum við tekið þá óábyrgðu afstöðu að eltingarleikurinn við þennan fjöldamorðingja hafi snúist um það að klappa honum á kinnina og biðja hann um að drepa ekki fleiri saklausa borgara….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2011 - 18:45 - 2 ummæli

Björn Valur í ruglinu

Björn Valur Gíslason þingmaður VG er það sem sumir vilja kalla skeleggur en ég kalla hann einu nafni kjaftask. Hann hefur upplýst okkur um það að hann telji styrki sem Guðlaugur Þór galdraði fram séu mútur og ekkert minna.

Ég hef þá skoðun bjargfasta að styrkir til stjórnmálaflokka og einstakra þingmana eigi alls ekki að vera leyndarmál. Og ég reyni ekki að halda því fram að styrkjamálið fyrir síðustu kosningar hafi glatt mig sérstaklega en það er önnur saga..

Björn Valur fabúleraði um það að gaman gæti verið að dröslast með þetta mál fyrir dómstóla því þá þyrfti Guðlaugur Þór að afsanna fullyrðingar hans. Það er auðvitað ekki Björn Valur sem fann upp þvæluna um að menn afsanni það sem er á þá borið. Alltaf jafn ömurlegt þó þegar menn leita í smiðju gamla McCarty…..

Svo er líka gott til þess að hugsa að þingmenn skuli gera það af pólitískum stráksskap að finna dómstólum eitthvað að gera akkúrat núna. Síðast þegar Björn Valur og félagar duttu í það stuðið var Geir Harrde ákærður fyrir landsdómi og sú skömm sem það mál hefur valdið þeim sem það gerður verður ævarandi.

En þetta styttir honum auðvitað stundirnar blessuðum og hann getur þá litið upp frá þeirri þrotlausu vinnu sem hann og félagar hann leggja á sig við að draga út lífsgæðum okkar.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2011 - 14:52 - Rita ummæli

Er drápið á Osama kannski stríðsglæpur?

Osama Bin Laden er dauður segja þeir í dag. Ég er vonandi ekki blóðþyrstari en næsti maður en treysti mér þó til að segja að farið hefur fé betra. Sumir hafa þó notað dauða þessa andskota til að hnýta í þá sem drápu hann, nefnilega Bandaríkjamenn.

Hann var myrtur segir einhversstaðar og Sölvi Tryggvason talar um alla þá sem fallið hafa í stríðum sem Bandaríkjamenn hafa staðið að eftir árásirnar á tvíburaturnana og sér líkindi með falli þess fólks og þessa manns.

Í fullkomnum heimi eru ekki til vondir menn eða konur. Engin stríð til að heyja og öll dýrin í skóginum vinir. Nema sum….

Ég nenni ekki að lýsa yfir sérstakri hryggð við fráfall þessa manns. En ég get alveg sagt það hér að ég er dapur yfir því að fólk sé drepið hvar sem er í heiminum og þá skiptir mig það ekki neinu hvort það eru hermenn Bandaríkjanna, Breta eða Rússa sem dunda sér við af og til að eyða Tetjaníu án þess að hljóð komi úr sumum hornum.

Stríð eru viðbjóður og munu alltaf vera alveg áháð því hverjir heyja þau. Kannski vilja menn hártoga það sem þjóðir heims hafa kallað að berjast gegn alþjóðlegum hryðjuverkamönnum og kalla það eltingaleik morðhunda Bandaríkjanna við fólk sem hafði bara kannski einhvern rétt til að senda farþegaflugvélar á tvíburaturnanna.

Vissulega eru tvær hliðar á öllum málum en óakaplega er hann holur tónninn hjá þeim sem ætla að reyna að sjá dauða Osama Bin Laden og aðdraganda hans sem hálfgerðan stríðsglæp.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.4.2011 - 17:29 - 1 ummæli

Aðeins um fótbolta „leikara“

Stundum horfi ég á fótbolta og hef gaman af. Ég horfi mikið á dómarana enda eru prinsippin í dómgæslu oft þau sömu og hjá okkur körfuboltadómurum. Ég læt hafa mig í það að horfa á meistardeildina og get alveg notið hennar þegar vel tekst til. Annars er enski boltinn minn bolti.

Í gær spiluðu Real Madrid og Barcelona og gríðarspenna eins og alltaf þegar þau spila og ekki síst núna þar sem þau mætast oft á stuttum tíma. Þessir leikir ættu ef allt væri sem best að vera veisla fyrir fótboltaáhugamenn. Þjálfari Real er magnaður karakter sem kann að stela sviðsljósinu og kynda undir og það getur verið skemmtilegt. Dýrasta fótboltalið sögunnar í höndum hans að spila við….

….hugsanlega eitt besta lið sögunnar sem hefur innanborðs eitt af undrum fótboltans í Messi. Gríðarlegur ljómi yfir Barca og vilji þeir halda boltanum í 90 mínútur þá gera þeir það. Af sögulegum ástæðum eru þessir leiki el classico fyrir alla fótboltaáhugamenn hvar sem er í heiminum.

Eftir leikinn í gær rífast menn yfir rauðu spjaldi og forheimskum dómara og það munu menn gera svo lengi sem fótbolti verður stundaður. Ég hef meiri áhuga á öðrum punkti þessarar sögu.

Af hverju tala fáir um það hversu óþolandi er að horfa á þessa milljónamæringa eyða nánast heilum leik í að blekkja dómara? Feiknagóðir leikmenn liggja eins og afvelta grasbítar emjandi af kvölum án ástæðu og rísa svo upp frá dauðum þegar andstæðingurinn er kominn með ósanngjarna refsingu eða að dómarinn sýnist ekki ætla að falla fyrir trikkinu. Og þá alheilir….

Allt er leyfilegt og tilgangurinn helgar meðalið. Það væri verulega áhugavert að taka saman tölfræði í þessu efni og gera samanburð. Þið verðið að afsaka að mér er alveg sama hversu „góðir“ þessir gæjar eru í fótbolta, ég get ekki borið virðingu fyrir mönnum sem reyna án afláts að hafa rangt við.

Í gær fékk leikmaður sem er reyndar allt að því ofbeldismaður í fótbolta rautt spjald fyrir að koma eiginlega ekkert við einn af þessu rándýru leikurum. Margir, dómarinn þar með, trúðu leikaranum sem vann magnaðann leiksigur enda ekki að annað að sjá við fyrstu sýn að um gróft brot væri að ræða.

Hvers á dómarinn að gjalda? Þeir sem halda að auðvelt sé að sjá i gegnum svona nokkuð hafa líklega aldrei dæmt kappleik í neinu sporti. Í gær töpuðu allir og fótboltinn varð algert aukaatriði. Snilldartilþrif Messi megna ekki að fá mig til að hugsa um annað en þessa hörmung sem þessir „leikmenn“ nenna að bjóða okkur upp á.

Mikið óskaplega vona ég að hvorugt þessara lið vinni stóru dolluna. Mér finnst fair play skipta miklu og það er hugtak sem leikmenn spænsku risanna þekkja ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 15:31 - Rita ummæli

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Davíðs Oddssonar og man og veit hversu mikil og góð áhrif hann og hans hugmyndafræði hafði þegar við hurfum frá þjóðfélagi hafta og banna. Yfirburðamaður lengst af og söguskrifarar framtíðarinnar munu fara mun betri orðum um hann en andstæðingar hans gera í dag.

Það er eins með Davíð og aðra menn að kostir hans geta einnig verið gallarnir. Ég þekki manninn reyndar ekki persónulega og hef aldrei nennt að trúa því sem mestu þjófar og ribbaldar sögunnar hafa kosið að segja um hann í fjölmiðlum sínum áralangt. En í því efni hefur dropinn holað steininn og margir hafa komið að máli við mig og trúað mér fyrir því að hann sé hreinlega geðveikur og allt haft frá fyrstu hendi, eða annarri til vara….

Davíð hefur stillt sér upp á vísum stað í póitíkinni og gefur fjandakornið ekkert eftir frekar en fyrri daginn. Hann hefur að vísu tapað nokkur af sínum baneitraða húmor og það er miður og kemur á köflum niður á honum. Harðskeyttur sem aldrei fyrr og ekki ætla ég að halda því gegn honum en finnst stíllinn orðinn nokkuð brattur og umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra á hröðu undanhaldi.

Ég veit ekki hverju það skilar að nefna þá nöfnum sem ekki sjá hlutina sömu litum og maður gerir sjálfur. Það hjálpar umræðunni ekki og varla skilar það miklu til lengdar litið.

Sjálfstæðisflokkurinn rúmar fólk með ýmiskonar sýn á lífið. Fátt er algott eða alvont og ég er ekkert viss um að heimurinn sé annað hvort alhvítur eða kolsvartur. Í stórum málum er tekist á innan flokksins og það bara má en þá reynir á styrkinn.

Davíð hefur látið eftir sér að slást við þá Sjálfstæðismenn sem vilja inn í ESB og allt er það gott og blessað. Hann er líka að nudda okkur sem sögðum já við Icesave upp úr því að hafa tekið þá afstöðu. Davíð kemst að mér sýnist að þeirri niðurstöðu að þeir sem sögðu já við Icesave hljóti að hafa gert það til þess eins að liðka fyrir inngöngu okkar í ESB.

Og vandar slíku fólki ekki kveðjurnar. Ég tel mig ekki verri Sjálfstæðismann en aðra þó ég hafi af praktískum ástæðum sagt já og hafna því að niðurstaða mín tengist andstöðu minni við inngöngu í ESB á nokkurn hátt.

Og velti því fyrir mér hvort þeir sem tengja þetta já við ESB með þessum hætti hafi einmitt sagt nei á þeim forsendum að halda úti leiðindum milli ESB og Íslands. Þessi rök virka nefnilega í báðar áttir…

Núna eru tímar gerjunar á mörgum sviðum og ekki síst í pólitík. Samherjar takast á um grundvallarmál framtíðarinnar og þá er mikilvægt að framverðir umræðunnar haldi sjó en missi sig síður í stóryrði og persónulega meiðandi ummæli þó ekki rói allir alveg sama sjó um tíma.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 23:09 - 2 ummæli

Einræði Ólafs Ragnars

Byltingin étur nefnilega stundum börnin sín. Það sannast svo rækilega á vinstri mönnum sem nú get alls ekki þolað Ólaf Ragnar Grímsson sem hefur þó ekki tekið neinum eðlisbreytingum hvort sem horft er til persónueinkenna eða pólitískra frá því hann var fyrst kjörinn forseti við húrrahróp.

Auðvitað er það svo kaldhæðnislegt að það fólk sem helst hefur barist fyrir því að allt niður í 15% landsmanna geti krafist þess að blásið sé til þjóðaratkvæðis um hvað eina skuli nú skyndilega setja sig eindregið upp á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave en fagna hugmyndum um samskonar afgreiðslu á kvótanum.

Fólkið sem mest og lengst hefur stutt Ólaf Ragnar og hans embættisfærslu sem hefur alla tíð markast af pólitískri hentistefnu hans og samherja hans ber hvað mesta ábyrgð á því hvernig hann er að meðhöndla embættið. Við sem gerðum athugasemdir við það hvernig hann misnotaði embættið í kringum fjölmiðlalögin máttum þola háð og spott og ásakanir um pólitískan rétttrúnað. En í raun var það einmitt pólitískur rétttrúnaður fylgismanna Ólafs Ragnars sem nærði þann forseta sem nú hagar sér eins og konungborinn einvaldur á Bessastöðum.

það er vont að kunna ekki að hafa grundvallarskoðanir og það sannast hvað best á fyrrum vinum Ólafs Ragnars í pólitík. það er ekki fyrr en besti vinur aðal kann ekki að hafa réttar skoðanir sem systemið er gagnrýnt. Fram að því höfðu vinstri menn í þessu landi enga aðra skoðun á málskotsréttinum og beitingu hans en þá sem hentaði þeirra pólitík frá einum degi til annars.

Ég hef sagt það lengi að ef Ólafur Ragnar ætlar sér að breyta embættinu ber honum að leyfa okkur kjósendum að taka afstöðu til þeirra breytingu þegar hann er kosinn. Ég tek það fram að ég nenni ekki að taka þátt í orðhengilshætti um að hann sé einungis að nýta sér rétt sem embættið hefur alltaf haft…

Í mímum huga er meðferð hans á embættinu út í hött og óþolandi hvernig hann umgengst bæði löggjafa og framkvæmdavald í þessu landi. Eitt er þó að senda mál eftir pólitískri og persónulegri hentisemi í þjóðaratkvæði…..

…annað er að túlka efnislega og taka hápólitíska afstöðu til mála sem réttkjörin stjórnvöld eiga að véla um í hvert skipti sem fjölmiðlar allra landa setja upp myndavél eða taka upp símtól. Þetta er í prinsippinu tómt rugl og alger stefnubreyting sem ég hygg að Ólafur Ragnar hafi bara ekkert umboð til að taka.

Ég geri mér grein fyrir því að margir eru ánægðir með það hvernig hann er að reyna að verja málsstað okkar nú enda höfum við engin stjórnvöld til þess. Þau eru hreinlega ekki til neins því miður en það litla sem úr þeirri átt hefur komið hefur eiginlega ruglað umheiminn fremur en hitt enda skilja siðmenntaðar þjóðir auðvitað ekki hvernig stjórnsýsla er notuð hér uppi.

En þó margir sjái Ólaf Ragnar sem bjargvætt þessa dagana þá er gott að muna að gæði þess að einhver einn afdankaður stjórnmálamaður taki stjórn landsins yfir eru ekki mæld af góðu dögunum heldur þeim slæmu.

Þar liggur hættan og því er best að hafa eina grundvallarskoðun og í mínu tilfelli er hún sú að Ólafur Ragnar sé á fullkomunum villigötum með embættisfærslu sinni og á skjön við það sem hann var kosinn til. Á meðan við viljum þingræði legg ég til að við höldum okkur við það en ekki duttlungafullt einræði Ólafs Ragnars Grímssonar.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 16:46 - Rita ummæli

það er auðvitað hreint magnað að fylgjast með forsetanum okkar leikia pólitíkus í hvert skipti sem einhver vill tala við hann.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2011 - 22:18 - 1 ummæli

Icesave vörn Svavars Getssonar

Félagi Svavar Gestsson heldur úti þætti á INN sjónvarpsstöðinni. Ég hef almennt ekki þrek til að horfa á þann þátt en rakst fyrir tilviljun á þátt þar sem Svavar tekur til varna fyrir fyrsta Icesave samningi hans og Steingríms fjármála.

Svavar er óvitlaus maður og röskur málafylgjumaður og auðvitað er það í mannlegu eðli að trúa því að maður sé að gera rétt og verja þá trú þó að í tilfelli Svavars sé sú vörn harla vonlaus. Svavar dregur þarna upp skilti frá Þórólfi Matthíassyni hagfræði gúru vinstri manna sem hefur með málflutningi sínum í Icesave málinu tryggt sér ævarandi faglegt áhrifaleysi.

þórólfur kemst auðvitað að þeirri niðurstöðu að við hefðum best gert með því að kokgleypa stórsigur þeirra félaga, hans, Svavars. Indriða H og Steingríms J. Þetta getur Þórólfur sett upp á glæru og stutt tölum. Mögnuð grein hagfræðin og ekki verður hún skiljanlegri þegar menn hætta að greina mun á henni og pólitík eins og Þórólfur hefur nú gert að karrier.

Ég hef ekki heilsu í að fara mjög djúpt í þessa stórmerkilegu vörn Svavars en vill þó nefna það að hann talar þar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þurft mál til að vera á móti og fundið heppilegt mál Í Icesave.

Svavar lítur sem sagt á það sem skemmdarverk sem var rekið áfram af annarlegum pólitískum hvötum að bjarga þjóðinni frá hörmunginni sem hann og hans gömlu félagar í hópi sósíalista ætluðu að lauma inn á okkur.

Þetta er kyngimögnuð söguskoðun og skýring og varla getur Sjálfstæðisflokkurinn fengið betri vottun á það verk sitt að hafa staðið í farabroddi þeirra sem stöðvuðu Svavars samninginn en þetta tal.

Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né þjóðin „þurft“ neitt mál til að vera á móti. Ríkisstjórnin bara færði henni þennan landráðasamning og það er vissulega rétt hjá Svavari að það var ekki síst Sjálfstæðisflokknum að þakka að honum var hafnað.

Ég held bara að við Sjálfstæðismenn verðum að gangast við glæpnum sem félagi Svavar ber á okkur í þessum efnum.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2011 - 22:32 - 5 ummæli

Af hverju þessi móðursýki?

Ég les það í dag og kvöld að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru hreinlega farnir á límingum sem reyndar voru ekki þolmiklar fyrir. Hver á fætur öðrum fjargviðrast vegna þess að stjórnarandstöðuflokkur dirfist að bera upp tillögu um vantraust á ríkisstjórn.

Bloggarar missa sig sumir í óhemjuskap og stóryrði og meira að segja ritstjóri eyjunnar nennir að elta ólar við kjaftasögu af einum „svikaranum“ eins og um heimssögulegan stórviðburð sé að ræða. Hvurslags vetfangur er þessi ágæti miðill að verða??

Hitinn og móðursýkin í umræðunni er algerlega út í bláinn og byggist að mér sýnist á staurblindum pólitískum rétttrúnaði með talsverðu af skilnings og virðingarleysi fyrir lýðræðisreglum og venjum þingræðisríkja.

Mín skoðun var að þessi tímasetning væri kannski ekkert sérstaklega sjarmerandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sú afstaða mín hefur ekki breyst.

En ef eitthvað er að marka yfirgengilegan pirring þeirra sem styðja ríkisstjórnina sýnist mér að það sem í fyrstu virðist sigur í atkvæðagreiðslu ekki endilega vera neinn sigur þegar upp er staðið heldur miklu fremur afhjúpun…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2011 - 19:21 - Rita ummæli

Nú gerast þau undur og stórmerki að félagi Össur Skarphéðinsson talar um stjórnmál og tilefnið er vantrauststillaga á ríkisstjórnina sem hann tilheyrir. Það er kjaftur á kalli eins og venjulega og hann talar í fyrirsögnum.

Það er til marks um það hversu slæm sú ákvörðun er að koma með þessa tillögu nú að maður eins og Össur skuli telja sér óhætt upp úr holunni sem hann hefur grafið sig ofan í mánuðum saman og þagað á meðan ríkisstjórnin hans hefur engst til og frá í tilgangsleysi sínu.

Félagi Össur er nefnilega meiri klækjadýr en svo að hann snerti á neinu sem gæti talist óvinsælt eða snúið heldur lætur aðra um slíkt. Fyrir vikið er hann orðinn slíkur léttadrengur pólitískt að hans hlutverk er loftkenndara en alltaf áður.

Ég get tekið undir sumt af því sem hann segir um stjórnandstöðuna í palladómum sínum og skil ofnæmið sem hann af hentisemi nærir innra með sér til Sjálfstæðisflokksins alveg þangað til að hann myndar með honum næstu ríkisstjórn um leið og hinir pólitísku veðurguðir gera Samfylkingunni kleift að losna úr gildrunni með VG.

En ég get ekki skilið af hverju hann talar niður til þeirra þingmanna stjórnarnadstöðunnar sem velja að styðja vantraust á ríkisstjórn sem nýtur hvergi trausts nema hjá þeim sem hana mynda og varla það.

Össur þekkir auðvitað ekki þá tilfinningu lengur að geta tekið prinsippákvarðanir í pólitík svo gegnsósa er hann orðinn af spuna og klækjastjórnmálunum sínum. Þannig stjórnmál miða alltaf að því að hafa þá skoðun sem „skilar“ mestu í hina pólitísku hönd.

Össur þarf ekkert að hlusta á skýringar stjórnandstöðuþingmanna eða umræður um málefni. Össur skilur ekki slíkt tal. Hann heldur bara sínu liði nema þegar eitthvað þungt of leiðinlegt er að gerast…

..þá fer hann í felur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur