Þriðjudagur 12.4.2011 - 15:47 - Rita ummæli

Tímasetningar eru svo mikilvægar í pólitík, og reyndar víðar. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn ákveðið að leggja fram löngu tímabært vantraust á ríkisstjórnina. Tímasetningin virkar pínu skrýtin á marga þar sem formaður flokksins greiddi Icesave samningum atkvæði sitt en hleypur svo til og þegar nei varð niðurstaðan og heimtar vantraust á

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.4.2011 - 11:26 - Rita ummæli

Morgunblaðið tekur mildari afstöðu til forystu Sjálfstæðisflokksins í morgun en undanfarið og mér finnst það benda til þess að þar á bæ hafi menn áttað sig á því árásir blaðsins á Bjarna Ben séu í raun einskonar sjálfsmorðsárásir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.4.2011 - 11:14 - Rita ummæli

Nú hefur hluti framsóknarflokksins opinberað þann vilja sinn að koma andvana ríkisstjórn til aðstoðar. Þetta hefur verið í pípunum í nokkurn tíma þó allir hafi þrætt fyrir aðspurðir en telur flokkurinn rétt að spila þessu út.

Kannski var þetta sniðugt plott fyrir framsókn fyrir nokkrum mánuðum síðan en ég hef efasemdir um það núna. Mig grunar að pólitískt sjálfstraust Sigmundar Davíðs sé í sögulegu hámarki núna eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.4.2011 - 09:32 - Rita ummæli

Nú þarf landsfund

Við Sjálfstæðismenn tölum gjarnan niður til VG þegar talið berst að órólegu deildinni þeirra. Þar er stanslaus ófriður og ónauðsynlegt fyrir flokksmenn að leita út fyrir flokkinn eftir óvinum eða pólitískum og persónlegum andstæðingum. Nú orðið nennir varla nokkur þar á bæ að reyna að þræta fyrir þetta.

Steingrímur reynir að sigla milli skers og báru í hverju málinu á fætur öðru í máttvana viðleitni sinni til að halda flokknum saman og sitt sýnist hverjum. Margt bendir til þess að hann hafi tekið ákvörðun um að hætta þessari siglingu og hyggist nú reyna í síðasta sinn að ná flokknum undir sig.

Eins og andstæðingar Bjarna Ben innan Sjálfstæðisflokksins tala og skrifa nú eftir nei niðurstöðuna sýnist mér ekki eftir neinu að bíða með að boða til landsfundar og láta sverfa til stáls. Ég ætla rétt að vona að flokkurinn láti mál ekki þróast á þann veg sem VG hefur gert sem er að stinga höfði í sand og láta eins og allt sé í lagi þegar það er alls ekki þannig.

Ég er sammála þeim sem segja að forysta flokksins þurfi nýtt umboð eftir nei niðurstöðuna þó mér líki ekki aðfarirnar sem notaðar eru stundum þegar menn koma þeim vilja sínum í orð eða á prent.

Átök eru eðlileg innan flokka og ekki ástæða til að fela þau þannig séð en eins og umræðan er að þróast hjá andstæðingum Bjarna get ég ekki betur séð en best sé að boða til landsfundar og reyna að hreinsa til og velja flokknum forystu hvort sem þar er sú sveit sem nú stýrir eða einhverjir aðrir….

….enda get ég ekki séð að það verði sérlega áhugavert né heilsufarslega hollt pólitískt fyrir formann flokksins að sitja undir þeirri orðræðu sem andstæðingar hans hafa uppi núna. Það er hvorki skynsamlegt fyrir hann né flokkinn sjálfan að slíkt gangi lengi án uppgjörs.

Og hana nú….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.4.2011 - 22:51 - Rita ummæli

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 12:19 - 1 ummæli

Herra forseti, ég segi……

Stundin er runnin upp og ég ætla á kjörstað að merkja við kjörseðilinn. Andskotans Icesave málið….

Ég hef reynt að halda því fram að ekki sé hægt að komast algerlega til botns í því hvað sé rétt eða hvað sé rangt að gera í kjörklefanum. Firnagóð rök séu til beggja átta og óvissan æpandi hægri vinstri. Þannig er auðvitað ekki hægt að skilja við málið og því hef ég þvingað mig til að komast til botns í mínum eigin kolli. Ekki lítið í ráðist….

Það hef ég gert með því að lesa mér til og reyna betur að skilja það sem ég er að lesa. Og ég hef talað við fólk sem ég treysti vel og hefur um margt svipaða lífssýn og skoðanir en ég vissi að hefði aðra skoðun en ég á málinu. Slíkt er bráðhollt öllum mönnum.

Og ég fór að reyna að skilja hugtakið „kalt hagsmunamat“ sem Bjarni Ben notar svo iðulega. Reyndi að skilja tilfinningar eins og réttlæti og vanmáttinn og reiðina sem við finnum þegar stórar þjóðir beita okkur kröftum til að koma fram sínum málum.

Í mínum huga er ekkert réttlæti í því að við borgum þetta og nálgun Steingríms í þessu máli frá fyrstu dögum þess hefur forhert margan manninn í andstöðunni enda enginn maður núlifandi reynst viðsemjendum okkar drýgri vinur en formaður VG. Ég hreinlega lem fastar á lyklaborðið við uppryfjunina á baráttu Steingríms og félaga fyrir fyrsta samningnum….

Margir myndu segja að það styrki nei afstöðuna að ryfja upp söguna í þessu enda hefur endurtekið nei tryggt okkur mun betri samning. Aðrir benda svo á að nei núna tryggi okkur einungis málaferli sem muni aldrei fara á þann veg að við borgum ekki neitt.

Ég hef áður sagt að ekki gengur að tengja þetta mál við ESB eða líf ríkisstjórnar. Það er pólitískur sandkassaleikur sem ég nenni ekki að leika. Þetta mál er ekki hægra vinstra þras og ekki má það snúast um það með hvaða liði maður heldur.

Þetta stendur eitt og sér finnst mér og það þarf að sortera frá hugsanir um það hvað ef og hvað ef ekki. Ef heimurinn væri betri og viðsemjendur okkar öðruvísi. Ef reglur væri ekki svona eða hinsegin. Af hverju er lífið svona ósanngjarnt? „Við“ gerðum ekkert rangt og af hverju geta „þeir“ ekki séð það?

Staðan sem upp er komin er bara þannig að annað hvort semjum við svona eða förum inn í réttarsal og treystum á hugvísindi sem heita lögfræði. Það er núið sem við horfumst í augu við. Tilfinningar um réttlæti heimsins heyra gærdeginum til í þessu tilliti. Nú þarf kaldan haus…

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa verið algerlega úti á túni í þessu öllu og málfutningur þeirra grútmáttlaus enda hver höndin þar uppi á móti annarri sem endranær. Ég hef því ekki fundið hvöt til að taka mark því sem þar hefur verið sagt. VG veit ekkert hvað stendur til og Samfylkingarfólk kýs út á pólitíska rétthugsun.

Ég hef talað við ótrúlega margt frábært fólk í mínu pólitíska umhverfi og skipst á skoðunum undanfarna daga. Í stuttu máli þá hef ég komist að því að þó nei sé „rétta“ svarið í prinsippinu er já skynsamlegt. Réttlætiskenndin æpir á nei en við förum bara svo skammt á henni…

Skoðun mín á regluverkinu hefur ekki breyst. Skoðun mín á þeim sem ábyrgð eiga að bera ekki heldur. Álit mitt á bankaræningjunum er óbreytt. Ég heinlega þoli ekki að þurfa að borga krónu af þessum meintu skuldum okkar. Ég er beinlínis hundfúll með það…

..en hef látið sannfærast um okkur sé samt hagstæðast að gera það. Ég hef látið sannfærast um að við munum aldrei fara þannig út úr dómsmáli að við sleppum ódýrar eða á jöfnu. Ég trúi því að endurheimtur úr búi bankans verði jafnvel betri en menn héldu. Ég hef stækkað rökin fyrir því að gott sé að semja við fólk fremur en að fara í langvinnt tvísýnt stríð. Og síðast en ekki síst hef ég skilgreint sigur upp á nýtt í þessu samhengi.

Trúlega mun ég hugsa eins og margir hvort ég sé nú örugglega að gera rétt og líklega sækja góðu rökin fyrir neiinu duglega á mig strax eftir að ég hef merkt við jáið. En ég hef tekið ákvörðun og lifi með henni og ætla að bera virðingu fyrir niðurstöðunni hvernig sem hún verður og ekki að láta það eftir mér að gleðjast komi síðar í ljós að mín niðurstaða hefði skilað okkur betur fram en hin.

Herra forseti; ég segi já

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.4.2011 - 10:01 - 3 ummæli

Nei eða já?

Ég hef verið að reyna að koma mér upp heilsteyptri og rökréttri skoðun á Icesave og gengið misvel. Ég hef samúð með málsstað beggja fylkinga í þessu máli og finnst enginn hafa alveg rétt fyrir sér eða fullkomlega rangt.

Hræðsluáróður einkennir málflutning beggja og kannski er það engin furða því áhætta fylgir báðum ákvörðunum og óvissa. Margir nota afstöðu sína til ESB til að komast að niðurstöðu en það finnst mér liðónýt aðferð. Sumir vilja fella ríkisstjórnina með því að segja nei og það er í sjálfur sér göfugt markmið en má ekki móta afstöðuna til þessa máls að mínu viti.

Innst inni held ég að við séum öll nei fólk. Við myndum ekki taka það í mál að borga skuldir Actavis erlendis þó ríkisstjórn einhvers lands hefði ákveðið að gera það og senda okkur svo reikning fyrir. Í prinsippinu er það auðvitað galið og sífellt fækkar þeim sem nenna að reyna að halda því fram að til séu lög sem skylda okkur til þess…

..heldur heitir það að það sé skynsamlegt og hagstætt að gera það samt. Ég var í hópi þeirra sem börðust gegn „stórsigri“ Svavars og Steingríms í upphafi Icesave sögunnar og það hefur kannski mótað mína afstöðu dálítið og ég kann illa að skipta um gír í málinu.

Steingrímur lagði allt sítt líf og kraft í að koma okkur til þess að borga 700 milljarða og lofaði okkur enda heimsins ef það gerðum við ekki. Steingrímur varð lítill inni í sér og sá allan heiminn fá okkur á heilann og ekki tala eða hugsa um annað. Það hefur auðvitað ekki gerst og nú tala fáir þannig um þetta mál lengur.

Þrátt fyrir allt þetta eru ýmsir sem ég ber mikla virðingu fyrir sem ætla að segja já. Og nota til þess margfrægt kalt hagsmunamat. Þetta fólk talar margt af skynsemi finnst mér og minnir á hversu mikilvægt getur verið að semja um hluti fremur en að stofna til stríðs sem enginn vinnur þegar upp er staðið. Engum sé beinlínis einum um að kenna að þessi vandi sé til staðar og því sé hollt og gott að semja og halda svo áfram.

Nei fólkið segir tölur um endurheimtur úr búi bankans ofmetnar en já fólkið vanmetnar og langmenntaðir menn í hagfræði draga fram tölur máli sínu til stuðnings og allt virðist þetta geta verið líklegt. Fyrir okkur sem viljum taka ákvörðun sem byggð er á öðru en pólitískri rétthugsun er úr verulega vöndu að ráða.

Hvað á ég að láta ráða minni afstöðu? Er það réttlætiskenndin kannski en henni er stórlega misboðið ítrekað bæði af Íslenskum yfirvöldum og erlendum. Er það áhættumat og þá spyr ég á hverjum er mark takandi? Er það prinsippið um að borga ekki skuldir einkafyrirtækja en það myndu ríkisstjórnir Hollands og Englands líklega aldrei gera?

Á ég að trúa því að allt fari til fjandans ef við ekki semjum núna og láta þá grundvallarsjónarmið víkja fyrir skynseminni?

þetta er ljóta ástandið og styttist mjög í kjördag og á bakvið nei afstöðu mína er ekki enn full sannfæring…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.3.2011 - 15:31 - 2 ummæli

Lækkum bensínskattinn, það er ekkert að óttast.

Ég heyrði í einum helsta sérfræðingi Samfylkingar á þingi í efnhagsmálum, Magnúsi Orra Schram, tala í útvarpi um tillögu Sjálfstæðisflokksins um lækkun bensinskatts tímabundið hið minnsta. Magnús er lipur viðmælandi og tekur starf sitt alvarlegum tökum og telur þessa tillögu þess virði að um hana sé rætt. Mikið er það þó gott.

Og þá út frá því hvort ríkið muni tapa tekjum ef þetta verði gert. Mér finnst reyndar gaman að sjá að Magnús sér það ekki eingöngu sem umhverfismál að hækka á okkur bensínið en það gerir félagi Steingrímur blygðunarlaust og fyllir svo á ráðherrabílinn út í okkar reikning. Þess má geta að Magnús og Steingrímur tilheyra báðir stjórnarliðinu.

Ég veit ekki hvað þarf að gera til að ríkisstjórnin kveiki á perunni og geri sér grein fyrir því að auknir skattar í síminnkandi kaupmætti og atvinnuleysi munu ekki auka skatttekjurnar til lengri tíma, öðru nær. Magnús Orri er einn af yngri mönnum í þessum bransa en virðist haldinn þessum ranghugmyndum og mér liggur við að segja áunninni þrjósku og kreddum sem fylgt hafa hinum eldri lengi.

Hvernig erfist þessi della? Hvað er að óttast þó að ríkið slái af bensínlítranum til áramóta? Vinstri menn verða hreinlega að gefa þeirri hugsun sinni frí að refsa beri þeim sem verða og þurfa að nota bíl því stór hluti þjóðarinnar á ekkert val í þeim efnum.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2011 - 12:05 - Rita ummæli

Orð í tíma töluð hjá ríkissaksóknara

Auðvitað telur Jóhanna Sigurðardóttir að ríkissaksóknari þurfi að draga til baka orð sín um umgengni forsætisrráðherra við löggjafar og dómsvald. Jóhanna er af þeirri kynslóð stjórnmálamanna sem skilur hvorki upp né niður í þrískiptinu valds og mikilvægi þess í lýðræðisþjóðfélagi.

Hún fattar bara alls ekki að það er hreinlega út í hött hvernig hún og ráðherrar hennar hafa talað og hagað sér í kringum dómsvaldið undanfarið þar sem ítrekað er ráðist á alla þá sem ekki kunna að komast að hentugri niðurstöðu fyrir ríkisstjórnina. Forsætisráðherra sem situr bæði sem löggjafi og framkvæmdavald grefur hiklaust undan dómsvaldinu ef það hentar pólitískt.

Þeir sem ekki sjá þetta skilja bara alls ekki hversu mikilvægt er að skilja á milli valdsins. Reyndar sáu sumir þetta mun betur í tíð ýmissa fyrri ríkisstjórna en við þurfum að komast upp úr þessum handónýtu pólitísku hjólförum þegar um svona stór grundvallarmál er að ræða.

Helgi Hjörvar og Skúli Helgason ríða að mínu mati á vaðið þegar þeir komast að þeirri fullkomlega rökréttu niðurstöðu að ekki sé eðlilegt að sniðganga niðurstöðu hæstaréttar með þvi að búa til stjórnalagaráð með þeim sömu einstaklingum sem hæstiréttur hefur úrskurðað ólöglega kjörna til stjórnalagaþings.

Í þessari afstöðu þeirra sé ég von. Von um að kannski séu nýjar kynslóðir að komast á rétta sporið. Með fullri virðingu fyrir persónu Jóhönnu Sigurðadóttur þá er það alveg augljóst að tími stjórnmálamanna með hennar afstöðu og skilning á þrískiptingu valds er og verður að vera liðinn.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.3.2011 - 12:35 - Rita ummæli

Ástandið

Það eru vissulega tíðindi þegar fólk segir sig úr þingflokkum en úrsögn Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur í morgun kemur þó engum á óvart og í raun ætti Jón Bjarnason að fara líka en hann fæst ekki til að yfirgefa ráðherrabílinn og gefur því prinsippum sínum frí rétt á meðan þó hann sé ekki sammála neinu sem ríkisstjórnin hans gerir.

Upp er komin merkileg staða því lengi vel hélt Samfylkingin að hún ætti útgönguleið úr gildrunni sem VG hefur læsta hana í. Nú þegar meirihlutinn er orðin afar naumur og óstöðugur hlýtur ókyrrð Samfylkingar að ná áður óþekktum hæðum. Útgönguleiðin var að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi og leysti VG af.

En ég fæ ekki betur séð en að Bjarni Ben hafi loks ákveðið að fyrr skuli kosið áður en flokkurinn komi að ríkisstjórn. Ekki er langt síðan Sjálfstæðisflokkurinn mátti ekki heyra minnst á kosningar af ótta við óánægjuframboð hugsanleg. Nú hefur þetta breyst að sjá og er það vel.

Það setur Samfylkinguna í fáránlega stöðu. Þar er foringjavandinn óleystur og lausn ekki í sjónmáli svo langt sem augað eygir og því eru kosningar ekki hagstæðar. Að ég nefni ekki hvernig staða flokksins er í skoðanakönnnum og hvernig vont getur enn versnað ef þjóðin neitar að borga Icasave.

Ég hef spáð því oftar en ég kæri mig um að muna að þessi guðsvolaða ríkisstjórn muni fara frá en hef nú komist að þeirri niðurstöðu að engin lögmál áður kunn í stjórnmálum dugi þegar um hana er fjallað. Það hentar VG alveg ágætlega að sitja sem fastast og hafa samstarfsflokkinn í spennitreyju eins og nú er og geta þá í friði lagt landið í efnahagslegar rústir haldandi á lofti grunngildum VG um að allt skuli skattlagt og bannað og allt skuli vera ríkis.

Ég ætla rétt að vona að Sjálfstæðislokkurinn haldi haus í þessu og gefi ekki minnsta ádrátt um ríkisstjórnarsetu án kosninga.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur