Mánudagur 26.7.2010 - 10:56 - 3 ummæli

Mörður og ég

Hvað ætli sé að gerast með mig þessa dagana? Mér finnst Mörður Árnason setja saman afburðaskemmtilegar greinar bæði hvað varðar efni og niðurstöður aftur og aftur og ekki skemmir stíllinn. Hið minnsta tvær í röð núna…..

Sennilega er ekkert að gerast með mig en mun líklegra að Mörður sé að koma til….

..eða hvað?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.7.2010 - 23:00 - Rita ummæli

Össur utanríkis er í undarlegri stöðu. Hann endasendist heiminn þveran og endilangan og reynir að sannfæra sjálfan sig og aðra um að stuðningur við ESB sé að aukast bæði hjá þingi og þjóð. Össur veit eins og aðrir að það er þvættingur.

En hvað annað getur hann gert? Þetta er stóra mál Samfylkingar og nánast það eina og tæknilega séð er hann bara að framfylgja „vilja“ þingsins og að vinna eftir stjórnarsáttmála.

Ég kenni í brjósti um Össur og raunar finn ég á undarlegan hátt til með Samfylkingunni að sitja svona pikkföst í ríkisstjórn sem getur ekki unnið saman en kann ekki og getur ekki hætt þó að flestum hljóti að vera augljóst að ekkert er eftir annað en óttinn við uppgjörið við kjósendur.

Félagi Össur velur skemmtilega leið til að fá útrás fyrir gremjuna vegna hverfandi stuðnings við aðild að ESB. Hann les Sjálfstæðisflokknum pistilinn hvenær sem hann getur þegar reiðin er klárlega í garð VG. Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki í veginum heldur samstarfsflokkurinn.

Óbrúanlegt bil milli flokkanna í þessu máli og raunar fleirum eins og við sjáum er orðið svo mikið vandamál að lífdagar stjórnarinnar eru í raun taldir. Nú er bara beðið eftir hentugri leið til að slíta.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.7.2010 - 14:22 - Rita ummæli

Dómurinn

Héraðsdómur hefur fellt sinn dóm í gengistryggingamálinu lánveitendum í hag eins og það heitir. Ég veit ekki hvort mig langar að sjá niðurstöðuna þannig. Hver tapar á þessari niðurstöðu staðfesti hæstiréttur hana?

Er ósanngjarnt að endurreiknað sé og lántakandi haldi áfram að borga lánveitanda fé sitt til baka? Tvennt stóð aldrei til. Að lánin hækkuðu um 100% var aldrei inni í myndinni. Né heldur að forsendur gætu breyst þannig að gengistryggingin félli niður óbætt og strípaðir samningsvextir stæðu eftir. þetta er öllum augljóst….

….og hvoru tveggja er ósanngjarnt. Skuldarar hafa kallað eftir sanngirni og leiðréttingu. Nú er hún í boði og þá vilja menn meira. Þá koma lántakendur og benda á að forsendur hafi breyst svo mikið að á þá halli stórlega. Varla verður því mótmælt með haldbærum rökum.

Samningurinn sem gerður var milli aðila var báðum hagfelldur á sínum tíma samanborðið við gömlu verðtryggðu lánin. það reyndist ólöglegt og því sanngjarnt að færa þau til þess sem er eðlilegt hér á landi með leiðréttingum afturvirkt.

Löggjafinn virðist tryggja samningsaðila gagnvart stórvægilegum forsendubreytingum og það gildir í báðar áttir. Snýst þetta mál ekki um það?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.7.2010 - 15:23 - 18 ummæli

Örvænting götustráks

Götustrákurinn Jón Ásgeir grípur til gamalla úrræða þegar ekki virðist ætla að takast í einu hendingskasti að fá erlenda dómstóla til að gleypa fjarstæðukenndan málflutning hans.

Nú ræðst hann á persónurnar sem vinna störfin. Honum tókst í baugsmálinu að hræða svo allt systemið hér að ekki var nokkur leið að fá hann sakfelldan og varla saksóttann!. Hann réðist persónulega á alla saksóknara og lögreglumenn sem mögulegt var að nafngreina og fékk til þess fokdýra lögfræðinga….

…í fjölmiðlum sem honum voru tryggðir. Svona gékk þetta árum saman og virkaði á endanum. Og það svo vel að enn eru til fullorðnar konur sem trúa því að Jón Ásgeir og pabbi hans séu bestu synir þessa lands og skilja ekki sífelldar árásir á þá.

Örvæntingin er augljós og opinber þegar Jón Ásgeir leyfir sér að nefna mögulega kyrrsetningu eigna formanns slitastjórnar Glitnis.

Auðvitað er hann að djóka….eða hvað?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.7.2010 - 13:10 - 7 ummæli

Ópólitískur mótmælabransi?

það er ekki nýtt að ég fatti ekki alltaf hvað rekur menn til mótmæla. Núna er einhver örsmár hópur mótmælenda að þvælast á milli stofnana dag eftir að mótmæla. Alltaf hægt að andæfa einhverju og ekki skemmir blíðan.

Fólk mætmælti fyrir framan Seðlabankann í tómum misskilningi og svo færði hópurinn sig lauslega og mótmælir nú fyrir framan skrifstofur AGS. Og allt er þetta skemmtilegur misskilningur eins og maðurinn sagði.

Þetta fólk á að mótmæla fyrir framan stjórnaráðið. Þar situr fólk sem á að vera að vinna okkur til hagsbóta en gerir ekki neitt og hefur gert ekki neitt í tvö ár. Þar situr forsætisráðherra sem sérsaumaði starf handa Seðlabankastjóranum. Þar situr ríkisstjórn sem vinnur í samstarfi við AGS.

Þar situr ríkisstjórn sem gat reynt að grípa inni í og leiðrétta vanda þeirra skuldugu en gerði ekki. Af hverju er ekki setið á tröppunum hjá því fólki og andæft? Líklega verður næst borið niður hjá Magma þó það fyrirtæki hafi ekki gert neitt af sér annað en að vera ekki frá Svíþjóð.

Hver ætlar að reyna að segja mér að mótmælabransinn sé ópólitískur?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.7.2010 - 21:44 - 1 ummæli

HM, frábær Howard Webb

Betra liðið vann úrslitaleik HM í fótbolta. Úrslitaleikurinn var ótrúlegur en öðruvísi en margir áttu von á. Hollendingar komu feikna ruddalegir til leiks og tókst næstum því að brjóta Spánverja niður í bókstaflegri merkingu. Ég hélt með Hollandi en þó mest með Howard Webb fyrir þennan leik og hann fékk trúlega erfiðasta verkefni sitt til þessa.

Mér fannst hann frábær en hann gerði sín mistök eins og við má búast í hverjum einasta leik þó auðveldari séu en þessi. Bókstafstrúarmenn á reglur geta klárlega fundið eitt og annað og kannski sluppu Hollendingar vel með ruddaskap sinn í fyrri hálfleik.

Webb sýndi mikinn leikskilning þegar hann fann leikinn vera að byrja of sterkt og þá sáum við skapfestu hans og styrk en hann féll þó ekki í þá gryfju að reka menn út af í bunum heldur beitti öðrum aðferðum til að koma mönnum á rétt ról. Það gerði mikið fyrir leikinn.

Sumir munu tala um að Holland hafi átt að fá hornspyrnu í sókninni áður en Spánn skoraði og það með réttu. En menn fá ekki á sig mörk vegna þess að dæmd er markspyrna í stað hornspyrnu hinu megin á vellinum….

Mistök dómara eru hluti leiksins og ég er handviss um að Webb fær toppeinkunn fyrir þennan leik enda besti dómari heims núna.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.7.2010 - 19:52 - 6 ummæli

Leiðinlega fullkomnir Spánverjar

Nú líður að lokum HM í fótbolta. Aldrei þessu vant hefur mér tekist að sniðganga allmarga leiki enda golf tímaferk íþrótt og mun skemmtilegri en leiðinlegur fótboltaleikur en nægt framboð var af þeim sér í lagi framan af.

Spánverjar eru með besta liðið og ekki mikill business að veðja á sigur þeirra. En mér finnst þeir leiðinlegur að sjá. Þeir spila vissulega algeran fótbolta eins og það heitir og geta ákveðið að halda boltanum í 3 vikur sýnist þeim það henta. En þeir eru óspennandi að sjá.

Fleiri hundruð heppnaðar stuttar sendingar á litlu svæði á félaga sína heilu og hálfu korterin er ekki spennandi áhorfs til lengdar. En árangurinn er frábær og fræðingar telja þetta fullkomnun en það dugar mér ekki……

Ég ætla því að halda með Hollandi á sunnudag og svo ætla ég líka að halda með Howard Webb dómara sem er langbesti Englendingurinn á þessu móti.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.7.2010 - 13:27 - 4 ummæli

Peninga á ég enga

Peninga á ég enga. Þessi orð sagði bankaræninginn Jón Ásgeir fyrir stuttu og bætti því við að hann væri búinn að vera. „þeir“ þ.e. íslenska þjóðin hefði tekið hann niður. Ég varaði við því að þessum leikþætti skyldi enginn trúa. Diet coke getur hann þó keypt og eina litla íbúð í Ameríku líka og pabbi nurlar saman fyrir sumarhúsi á Florida. Það þarf dugnað til að redda sér svona í kreppunni.

Auðvitað fellur ekki nokkur maður fyrir þvælunni sem frá honum kemur lengur en alveg er þó kengmagnað að þau heiðurshjón skuli fá að halda fjölmiðlarisanum skuldalausa og vera í samningaferli með restina.

Getur einhver sem þetta les skýrt fyrir mér í hverju hreðjatök Jóns Ásgeirs á bankamönnum Íslenskum eru fólgin? Þau gera grín að bæði þessum bankageira og okkur öllum og kaupa og selja íbúðir og skíðaskála eins og þeim hentar hverju sinni.

Það er svo sem rétt hjá kappanum. Hann á ekki þessa peninga…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.7.2010 - 09:32 - 2 ummæli

Mótmæli og lánamál

Nú virðist mótmælabransinn vera að lifna við aftur með hefðbundnu sniði þar sem lögin og verðir þeirra eru vandamál en ekki hegðun mótmælenda. Í gær safnaðist fólk saman við seðlabankann og í dag við stjórnarráðið.

Full ástæða er til að andæfa mögnuðu kjark og dugleysi Gylfa Magnússonar og félaga frá því ríkisstjórnin tók við. Á meðan ríkisstjórnin röflar um villfé og bannar sólbekki og stripp hefur það sem skiptir máli verið látið reka á reiðanum. Ríkisstjórnin hafði tækifæri til að grípa inn í þegar bankarnir voru í ríkisumsjá og finna lausn fyrir alla skuldara en ekki bara suma eins og nú blasir við.

það var auðvitað ekki gert og því er sú staða upp komin núna að einungis þeir sem tóku mesta áhættu og græddu á henni fyrir hrun fá ríflega lausn sinna mála en aðrir síður. Um þá lausn verður aldrei friður enda slik skilaboð fráleit.

Mér sýnist seðlabankinn vera að reyna að verja bankakerfið með tilmælum sínum. Kannski setja lán til einstaklinga kerfið ekki á hliðina en hvað með lán til sveitarfélaga og fyrirtækja? Úr vöndu er að ráða og fáir góðir leikir í stöðunni.

Ríkisstjórnin sem ætlaði að mynda skjaldborgina en gerði minna en ekkert til þess er sökudólgurinn hér, ekki seðlabankinn. Tækifærið til þess að gera eitthvað í málinu var ekki nýtt. Það er mergurinn málsins og eðlilegt að mótmæla því.

Ég sjálfur er með bílalán og reikanði hvorki með því að það myndi hækka um 100% né að mér stæði á einhverjum tíma til boða að fá lán án verðtryggingar, gengistryggingar og nánast án vaxta. Dómur hæstaréttar virðist tryggja mér þau kjör að ég þurfi kannski ekki að borga lánið mitt til baka.

það var aldrei meiningin……

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.7.2010 - 23:39 - Rita ummæli

Lánablúsinn

Þá er fólk tekið til við mótmæli á ný og samkvæmt venju verður lögreglan fljótt vandamálið. Það skal aldrei vanta að þegar mótmælendur komast upp á kannt við laganna verði eru lögin og verðir þeirra vandinn.

Núna er því mótmælt að dómur hæstaréttar skuli ekki túlkaður á þann hátt að þeir sem tóku gengistryggð lán skuli fá þau lán að mestu felld niður. Fólkið krafist leiðréttingar og sanngirni en þegar hún er í boði dugar það lítt. Á þessu eru margar hliðar og ekki búið að skera úr um ágreiningsefnin öll. Eftir því er erfitt að bíða og þolinmæðin á þrotum og það er eðlilegt en í þessari stöðu finnst mér erfitt að koma á eitthvert eitt réttlæti.

Af hverju mótmælti fólk ekki fullkomnu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar þegar bankarnir voru í ríkiseign? Margir urðu til þess að benda á að dómstólaleiðin myndi flækja stöðuna og fátt leysa. Ef engin breyting verður á munu þeir sem tóku áhættu og græddu sumir í nokkur ár fá lausn sinna mála en aðrir ekki. Er það sanngjarnt? Verður friður um það?

Auðvitað ekki en það er kannski ekki mál þeirra sem ekki tóku verðtryggðu lánin með seðlabankavöxtunum en er samt hluti af vandannum núna sama hvað hver segir. Stjórnvöld áttu og gátu tekið á málinu en gerðu ekki enda upptekin við að banna okkur að stunda ljósabekki og nektardans.

það kann að vera löglegt að skella á fólk verðtryggingu og okurvöxtum og að þau lán snarhækki og það gerir lítið fyrir það fólk að horfa upp á hina sem tóku hagstæð gengistryggð lán á sínum tíma fá sig nánast leysta undan því að borga þau til baka.

Þetta er einn vandinn og hann áttu stjórnvöld að reyna að leysa. Nú situr seðlabankinn í súpunni sem stjórnvöld elduðu með rolugangi sínum og hugleysi. Fyrirséð er að fleiri dómsmál þarf til að leiða þetta mál endanlega til lykta og á meðan er gripið til þess ráðs að setja alla undir sama hatt.

Stóra vandamálið hér eru kannski ekki bílalán eða húnsæðis heldur miklu frekar lán til sveitarfélaga og fyrirtækja. Dæmist þau öll ólögleg og ónýt er vandséð hvernig bankakerfið lifir það af. Þá sitjum við kannski í verri súpu en við höfum séð áður og allir tapa öllu endanlega.

Ég kannski tek það fram hér að ég er með bílalán sjálfur og reiknaði hvorki með því að það hækkaði um 100% né að ég gæti fengið óverðtryggt lán með engum vöxtum…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur