Það var svosem viðbúið að menn færu í skotgrafir og skiptust í lið eftir útkomu skýrslunnar. Menn halda með sínum og sjá allt hjá öðrum. Bloggarar eru flestir eins og liðið sem var kallað fyrir nefndina. þeir sjá enga ábyrgð hjá sínum. kannski er það bara eðlilegt….
það sem er ekki eðlilegt eru tilraunir manna til þess að reyna að finna stóru sökina hjá öðrum en bankaræningjunum. Gallað eftirlitskerfi og hálfónýt stjórnsýsla er glæpalýðnum sem rændi bankana okkar engin vörn. Vanþekking, vankunnátta eða vanmáttur kerfisins er æpandi í skýrslunni og er auðvitað hörmuleg niðurstaða. En…
…þeir sem sá ekki muninn á mistökum stjórnvalda, stundum heiðarlegum, og auðgunarþjófnaði eigenda bankanna eru í miklum vanda. Af því að það var hægt að fremja glæpinn er þá eðlilegt að hann sé framinn??
Ætlum við bara að hundelta vanhæfa opinbera starfsmenn og stjórnmálamenn sem stóðu vaktina ekki nógu vel en láta þá sem sitja uppi með peningafjallið sem við skuldum ganga lausa? Ég spyr?
Með hverjum standa þeir sem reyna að koma vörnum fyrir eigendur og stjórnendur bankanna með tali um að vegna þess að enginn sá glæpinn eða bannaði mönnum beinlínis að ræna bankanna að þá sé sökin ekki til?
Ég efast ekki um að Davíð og Jónas Fr og Geir og Ingibjörg og Björgvin G eða hvað þetta fólk allt heitir muni fá það sem því ber. Ég hef meiri áhyggjur af Jóni Ásgeir og Björgúlfum og bakkabræðrum og Kaupþingseigendum og því liði öllu. Hvers vegna er þetta fólk enn þar sem það er?
Gleymum okkur ekki svo í pólitískum leðjuslag að að við sjáum ekki hverjir græddu því ég get ekki séð að fólkið í opinberu stjórnsýslunni hafi gert sín mistök til að moka undir sjálft sig fjárhagslega. Gerum upp og lærum en munum það sem nefndarmenn segja.
það er fámennur hópur bankaræningja sem kom okkur á kaldan klaka. Þeirra er sökin og þeir högnuðust en allir aðrir tapa. Hættum að reyna að verja þetta lið með því að gera hrunið að pólitík.
Röggi