Ég geri mér grein fyrir því að hægt er að finna mikilvægari mál en þau að ákæra ofbeldfisfólk sem ræðst á opinbera starfsmenn þings og lögreglu. Og ekki hef ég sérstakt vit á því hvort eitt ár er langur eða skammur tími til að rannsaka slíka framkomu.
En hitt veit ég að mér finnst magnað að fólk skuli endalaust nenna að taka upp hanskann fyrir slíkt og slíka framkomu og telja þá sem véla um þau mál vera sérstakt vandamál. Ofbeldið er vandamálið en ekki þeir sem rannsaka það.
Þeir sem telja eðlilegt að gefa fólki sem ræðst gegn öðru fólki með ofbeldi upp sakir verða að skýra þær skoðanir sínar með öðrum rökum en þeim að málsstaðurinn standi þeirra hjarta svo nærri að allt sé réttlætanlegt.
Þau rök eru ónýt og hugsunin þar á bak við of grunn til að hægt sé að taka mark á. Ofbeldi á alltaf að mótmæla hverjum sem það beinist gegn. Þeir sem telja að það þjóni tilgangi að berja á lögreglumönnum eða þingvörðum hafa afleitan málsstað að verja.
Röggi