Þá er blessaður forseti vor búinn að setja stafina undir lögin um Icesave. það var viðbúið og gott og rétt hjá honum enda á forsetinn ekki að taka fram fyrir hendur þingsins, að mínu viti. Sá forseti sem nú situr hefur sýnt okkar það svo að sífellt færri efast um það lengur að ákvæðið um málskotsrétt forseta er óþarft ef ekki hreinlega varasamt þegar verst lætur.
Ég er í prinsippinu á móti því að einn maður hafi þann rétt sem málskotsrétturinn er og það jafnvel þó embættið væri betur skipað en nú er. það er lýðræðislegt að þingið fjalli um mál og komist að meirihlutaniðurstöðu.
Kannski finnst mörgum málskotsrétturinn alger snilld og nauðsynlegur öryggisventill ef svo bagalega vildi til að rúmlega 30 þingmenn yrðu allt í einu óvenju bilaðir og settu yfir okkur slík ólög að ekki yrði undan því vikist að neita að skrifa undir. Ég er bara ósammála samt og tel að embættisfærslur Ólafs Ragnars í málskotsréttarmálum sanni mitt mál.
Mér er í raun nákvæmlega sama hvort það var vegna pólitískrar fötlunar eða af einhverjum öðrum annarlegum hvötum sem hann taldi sig þurfa að neita undirskrift fjölmiðlalaganna á sínum tíma. Þá notaði han rök sem eiga betur við núna auk þess sem það sem nú var til undirskiftar er sennilega eitt stærsta mál sem til undirritunar hefur komið frá upphafi vega.
Af hverju forsetinn skrifar undir núna en ekki þá er óútskýrt og óskiljanlegt með öllu ef hann hefur á annað borð minnsta áhuga á að láta taka sig alvarlega. Ólafur Ragnar tók rétta ákvörðun núna í grundvallaratriðum en það gerði hann alls ekki þegar hann neitaði fjölmiðlalögunum. Og í hvorugt skiptið eru ákvarðanirnar byggðar á sannfærandi rökum.
Hann var ekki kosinn til pólitískrar varðgæslu eða undanlátsemi við kaupahéðna sem létu hann og hans fólk fljóta með í einkafarkostum sínum veðsettum í framtíð barna okkar.
Ólafur Ragnar er að fara langt með að eyðileggja embættið og líklega hefur fylgi við að leggja það niður aldrei verið sterkara. Það verður arfleifð Ólafs Ragnars…
Röggi