Miðvikudagur 2.9.2009 - 20:08 - 2 ummæli

Ólafur Ragnar

Þá er blessaður forseti vor búinn að setja stafina undir lögin um Icesave. það var viðbúið og gott og rétt hjá honum enda á forsetinn ekki að taka fram fyrir hendur þingsins, að mínu viti. Sá forseti sem nú situr hefur sýnt okkar það svo að sífellt færri efast um það lengur að ákvæðið um málskotsrétt forseta er óþarft ef ekki hreinlega varasamt þegar verst lætur.

Ég er í prinsippinu á móti því að einn maður hafi þann rétt sem málskotsrétturinn er og það jafnvel þó embættið væri betur skipað en nú er. það er lýðræðislegt að þingið fjalli um mál og komist að meirihlutaniðurstöðu.

Kannski finnst mörgum málskotsrétturinn alger snilld og nauðsynlegur öryggisventill ef svo bagalega vildi til að rúmlega 30 þingmenn yrðu allt í einu óvenju bilaðir og settu yfir okkur slík ólög að ekki yrði undan því vikist að neita að skrifa undir. Ég er bara ósammála samt og tel að embættisfærslur Ólafs Ragnars í málskotsréttarmálum sanni mitt mál.

Mér er í raun nákvæmlega sama hvort það var vegna pólitískrar fötlunar eða af einhverjum öðrum annarlegum hvötum sem hann taldi sig þurfa að neita undirskrift fjölmiðlalaganna á sínum tíma. Þá notaði han rök sem eiga betur við núna auk þess sem það sem nú var til undirskiftar er sennilega eitt stærsta mál sem til undirritunar hefur komið frá upphafi vega.

Af hverju forsetinn skrifar undir núna en ekki þá er óútskýrt og óskiljanlegt með öllu ef hann hefur á annað borð minnsta áhuga á að láta taka sig alvarlega. Ólafur Ragnar tók rétta ákvörðun núna í grundvallaratriðum en það gerði hann alls ekki þegar hann neitaði fjölmiðlalögunum. Og í hvorugt skiptið eru ákvarðanirnar byggðar á sannfærandi rökum.

Hann var ekki kosinn til pólitískrar varðgæslu eða undanlátsemi við kaupahéðna sem létu hann og hans fólk fljóta með í einkafarkostum sínum veðsettum í framtíð barna okkar.
Ólafur Ragnar er að fara langt með að eyðileggja embættið og líklega hefur fylgi við að leggja það niður aldrei verið sterkara. Það verður arfleifð Ólafs Ragnars…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.8.2009 - 19:21 - 1 ummæli

Gunnar Helgi talar um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Gunnar Helgi stjórnmálafræðingur tjáði sig um möguleikann á því að forsetinn skrifi ekki undir Icesave samninginn heldur skjóti honum til þjóðarinnar í fréttum í gær. Ég sit hér og reyni að botna í málflutningum og velta fyrir mér hlutleysi og fagmennsku fræðimannsins.

Hann sagðist hafa lesið stjórnarskrá Dana og komst eftir lesturinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri eðlilegt að Íslenska þjóðin hefði skoðanir á málum sem snertu efnahag og fjármál og alþjóðlega samninga. Einnig væri varhugavert að vera með þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta tiltekna málefni vegna þess að höfnun þýddi að við værum að senda þau skilaboð til heimsins að við ætlum ekki að borga til baka þau lán sem við fáum.

það var og. Hinn hlutlausi fagmaður á sviði stjórnmála telur sumsé að vegna þess að honum sjálfum þykir höfnun ekki góð niðurstaða að þá sé engin ástæða til þess að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Það er ekki stærð málsins eða mikilvægi sem vegur þyngst hjá fræðimanninum heldur óttinn við ranga niðurstöðu þjóðarinnar. Þetta er fullkomlega furðuleg nálgun og afhjúpar fræðimanninn að mínu mati.

Ég sjálfur hef þá skoðun að forseti eigi ekki undir neinum kringumstæðum að taka fram fyrir hendur á þinginu sem kosið er til þess að véla um mál af þessu tagi. Vítin eru til að varast og ég á ekki von á því að forsetanum detti í hug að neita undirskirft eins hrapaleg mistök og það voru hjá honum síðast þegar hann taldi sig þurfa að svívirða ákvarðanir löggjafans til að þjóna hagsmunum sem við öll þekkjum nú.

Þó ég sé hundóánægður með samninginn og niðurstöðuna þá er ég sammála fræðimanninum Gunnari Helga um að hreyfa ekki við málinu eftir að löggjafinn hefur afgreitt það. Hjá mér er um grundvallaratriði að ræða…

..en ég held að eitthvað annað hafi hugsanlega áhrif á niðurstöðu fræðimannsins.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.8.2009 - 20:57 - Rita ummæli

Hann er mælskur hann Árni Páll.

Ég horfði á viðtal sem tekið var við félagsmálaráðherra í kastljósi. Árni Páll er um margt nokkuð ásjálegur stjórnmálamaður og honum finnst gaman að hlusta á sjálfan sig tala. Hann kemur vel fyrir sig orði en oft er þar meira magn en gæði. Í þessu viðtali hefði eiginlega þurft að texta kappann því ekki var vel gott að átta sig hvaðan hann var að koma né heldur hvert hann vildi fara.

Mér fannst maðurinn tala eins og hann hefði verið í stjórnarandstöðu undanfarna mánuði. Hann virtist bærilega meðvitaður um að fátt af þvi sem ríkisstjórnin hafi verið að reyna að gera skuldugri þjóð til bjargar hafi mistekist þegar spyrillinn gékk á hann um það.

Og það sem meira er, hann leit út fyrir að halda að hann vissi hvernig betur væri hægt að gera þó ég sjálfur gæti með engu móti verið honum sammála þar. það sem vekur auðvitað furðu er að hann skuli ekki hafa gert eitthvað í því sem hann telur vera lausnir.

Því miður óttast ég að Árni Páll og samherjar hans viti ekkert hvað til bragðs á að taka. Reyndar hélt félagsmálaráðherra þvi blákalt fram í kosningabaráttunni að allt færi á besta veg um leið og hægt væri að koma með umsóknaraðild að ESB. það var í besta falli byggt á óskhyggju.

Ekki dugir endalaust að tuða um vandinn sé öðrum um að kenna. þetta fólk sem nú situr í stjórn lofaði skjaldborgum og bjargráðum hástöfum en efndirnar láta heldur betur á sér standa.

Samræðu og blaður stjórnmál eins og félagsmálaráðherra sýndi okkur í kastljósi eru því miður léttvæg fundin í þeirri stöðu sem margir eru í núna.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.8.2009 - 10:56 - 2 ummæli

Jón Ásgeir finnur fé!

Þvílík gleðitíðindi!!

Jón Ásgeir segist hafa fundið fé erlendis til að koma með inn í Haga. Nú er í uppsiglingu enn eitt snilldarbragðið á þjóðina og ef af líkum lætur munu fjölmiðlarnir hans dansa með af fullum styrk. Mér verður bumbult að lesa þetta og vona að svo sé hjá fleirum því þetta atriði má ekki ganga fram.

Gaman væri að kallgarmurinn gramsaði í hirslum sínum og galdraði fram fé til að borga eitthvað af skuldum sínum sem ýmist er búið að afskrifa eða á eftir að afskrifa að ég nefni nú ekki skuldirnar sem einhver þarf að borga fyrir hann vegna 365.

Þessi frétt er brandari og þessi tilraun í raun sama móðgunin og hann bar á borð fyrir okkur þegar hann reyndi að fá þessa „vini“ sína erlendis til að kaupa eignir okkar fyrir skít og kanel mínus skuldir á fyrstu dögum hrunsins . Eignir sem nota þarf upp í skuldir sem hann hefur ánafnað okkur af mikilli rausn og myndarskap.

það mega þeir eiga þessi kónar að ekki er gefist upp og endalaust er hægt að reyna að finna smugur. Dugnaður og harka hafa komið þessu gaurum áfram í gegnum tíðina en nú vona ég að við öll höfum séð hvernig fólk hér er á ferðinni.

Þeir sem hafa komið sér upp víðtæku siðleysi kunna ekki að skammast sín og hér sjáum við kennslubókardæmi um slíkt.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.8.2009 - 10:52 - 7 ummæli

Er Jón Ásgeir gjaldþrota?

Þeir segja að Baugur sé gjaldþrota. Hér er vist um að ræða risagjaldþrot og hlýtur það að vera eigendum Baugs mikið áfall að svona skuli hafa farið. Fyrir venjulegt fólk er gjaldþrot stórmál og áfall. En eigendur þessa fyrirtækis hafa aldrei verið venjulegt fólk.

Ekki hefur mátt snerta þetta fólk eða að reyna að koma lögum yfir það án þess að þær tilraunir allar væru kallaðar pólitík. Ekki mátti koma í veg fyrir að þetta fólk eignaðist alla fjölmiðlun hér á landi og enn í dag hefur þar ekkert breyst.

Liðið sem gékk nánast af göflunum vegna niðurfellinga á skuldum morgunblaðsins hefur ekki séð neitt athugavert við snúninginn, vafninginn, kennitöluæfingarnar eða hvað trixið heitir sem Jón Ásgeir notaði til þess að losa 365 við 10 milljarða skuldir sem aðrir borga fyrir hann.

Gjaldþrotið hefur heldur engin áhrif á það hver á bónus gullkálfinn. Þar ræður „fjölskyldan“ en ríkjum eins og ekkert hafi í skorist enda hefur ekkert í skorist. Peningar voru fengnir að láni hjá þjóðinni til þess að stinga bónus undan. Og Jóhannes hefur þær áhyggjur helstar að syni sínum hljóta að líða illa vegna þess sem á honum hefur dunið!

Hvenær fær vesalings þjóðin nóg af þessu fólki? Gjaldþrot er í hugum Jóns Ásgeirs ekki vandamál. Gjaldþrot er handhæg aðferð til að losa sig við skuldir. Að fara á hausinn þýðir að búið sé að taka það út úr fyrirtækjum sem eftirsóknarvert er en skilja skuldirnar eftir fyrir okkur hin til að díla við.

þetta er saga Jón Ásgeirs og Baugs. Hvað er langt síðan Jón Ásgeir varð eins og Gabríel erkiengill í framan og kannaðist ekki við neitt þegar Egill Helgason spurði hann um Tortola? Hversu lengi ætlum við að láta þetta lið hafa okkur að fíflum?

Látum gjaldþrot Baugs verða að gjaldþroti Jóns Ásgeirs en ekki bara okkar.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.7.2009 - 09:21 - 2 ummæli

Engum öðrum um að kenna.

Nú ryðjast bloggarar Samfylkingarinnar fram og hamast á þeim sem ekki eru tilbúnir að kokgleypa Icesave snilld Svavars Gestsonar hráa. Ríkisstjórnin hefur haldið þannig á málum að AGS og aðrir sem ætla að lána okkur fé treysta sér ekki til þess, í bili.

það er ekki vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn vilji fella stjórnina. það þvaður er orðið hlægilegt enda órökstutt og ómálefnalegt. Icesave þvælist nefnilega fyrir fleirum en bara andstöðunni á þingi. Og í raun held ég að fáir trúi því að þar hafi náðst viðunandi lausn en hótanir um ævarandi bannfæringu ESB gerir sitt.

Ekki er langt síðan Samfylkingu tókst með ærinni fyrirhöfn að svínbeygja samstarfsflokkinn til hlýðni. Núna ætlar það að verða erfiðara og pirringurinn yfir því er öllum ljós enda er lýðræðið til leiðinda stundum.

Ríkisstjórnin getur ekki kennt neinum öðrum um en sjálfri sér núna. Og nú er ekki tíminn til að fara á taugum. Nú þarf að sýna styrk en ekki kvarta undan eigin verkum og því að löggjafinn sinni skyldum sínum.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.7.2009 - 11:29 - 2 ummæli

Hvenær springur VG?

Mikið held ég að sé gaman að vera vinstri grænn þessa dagana og ekki síst í dag. Flokkurinn er að fórna allri sinni arfleifð á altari Samfylkingar og formaðurinn vinnur baki brotnu. Dugnaður og harka Steingríms hlýtur að hrifa hvern mann á meðan veggspjaldið Jóhanna Sigurðardóttir mætir ekki til vinnu. En laun heimsins eru vanþakklæti.

VG tapar meira en Samfylking samkvæmt skoðanakönnun fréttablaðsins og ef að líkum lætur mun sú þróun halda áfram. það er auðvitað óskiljanlegt með öllu því ríkisstjórnin er undir forsæti Samfylkingar og á sjálfstýringu sem félagi Össur hefur hannað af mikilli íþrótt og kænsku.

Pirringurinn innan VG hlýtur að fara að nálgast suðumark. Á meðan félagi Össur flengist um allar koppagrundir í ESB æfingum situr Steingrímur uppi með glæpinn að handónýtum forsætisráðherra ásjándi. þetta getur ekki verið ásættanlegt fyrir VG.

Hvað á maður að gefa þessu sambandi langan tíma? Varla nema örfáa mánuði í besta falli….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.7.2009 - 10:40 - 3 ummæli

Jóni Bjarnasyni skortir alla staðfestu.

Verulega áhugavert að fylgjast með hvernig hlutum getur stundum verið snúið algerlega á haus. Núna er sú staða uppi að Jóni Bjarnasyni er víða hrósað fyrir að standa fastur á sinni meiningu í ríkisstjórninni varðandi afstöðuna til ESB. Ég sé þetta ekki þannig.

Í minum huga fellur Jón svo gersamlega á staðfestu prófinu að annað eins sést varla. Hann er ráðherra í ríkisstjórn sem hefur tekið ákveðinn kúrs sem hann er fullkomlega andvígur. Getur einhver sem þetta les útskýrt fyrir mér í hverju dygðin er fólgin?

Vissulega er talað um að þingmenn eigi að fylgja sannfæringu sinni og ég skil það en Jón Bjarnason er ekki þingmaður. Hann er ráðherra og þar með framkvæmdavald. Ríkisstjórnir eru myndaðar utan um verkefni og hugmyndir. Þeir sem ekki eru sammála um stefnuna sitja einfaldlega ekki í ríkisstjórninni. það heitir ef ég skil hugtakið rétt að vera staðfastur og trúr sinni sannfæringu.

Ekkert að þvi að berjast fyrir sinni sannfæringu á vetfangi ríkisstjórnar en ef menn hafa ekki sitt fram er bara um tvennt að ræða. Að fylgja stefnumarkandi ákvörðun eftir af fagmennsku eða að kveðja. Jón Bjarnason gerir hvorugt.

Hann situr sem fastast og þiggur sín ráðherralaun og fríðindi í ríkisstjórn sem vinnur þvert gegn öllum lifsgildum mannsins. Og fyrir þetta er honum hrósað víða! Ef hann væri staðfastur og einarður stuðningsmaður eigin skoðana og gilda…

..tæki hann hatt sinn og staf og færi frá borði.

Veit einhver af hveru hann gerir það ekki?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.7.2009 - 14:23 - 4 ummæli

Látum þá neita því….

Er hugsi enn einu sinni yfir ábyrgð fréttamanna. Tilefnið er frétt stöðvar 2 um fjármagnsflutninga auðmanna úr landi og viðtal við fréttastjórann i kjölfarið. það er ekki bara að ég treysti ekki þessum tiltekna fréttastjóra heldur er ég líka að hugsa um hvað er lagt til grundvallar þegar vaðið er af stað með sögur í fjölmiðla.

Þeir sem hlusta á viðtalið skynja að fréttastjóranum líður ekki of vel með þetta. Staðan er þannig í okkar þjóðfélagi núna að jarðvegurinn fyrir svona sögur er frjór og kannski hefur hann álpast til að taka sénsinn. Fjölmiðlamenn eiag ekki að taka sénsinn jafnvel þó um sé að ræða menn sem liggja vel við höggi eins og hér. Alls engin ástæða er til að gefa neinn afslátt af fagmennskunni.

Fréttastjórinn lifir eftir gömlu reglunni um að þeir sem bornir eru sökum skuli sýna fram á sakleysi sitt. Hversu hættulegt er það hugarfar? Ég er alfarið á móti svona löguðu enda getum við öll sett okkur í þau spor að þurfa að reka af okkur slyðruorð sem misgáfulegir fjölmiðlamenn gætu fyrir algera óheppni misst á forsíður sínar.

Allra vegna er ljóst að sannleikurinn verður að koma í ljós hér því annars hangir þetta bara yfir mönnum vegna þess að fyrir marga skiptir í raun alls engu hvað skjöl og pappírar þeirra stofnana sem um er að ræða segja. Dómstóll götunnar notast ekki alltaf við staðreyndir heldur stýrist af tilfinningum og nú sem aldrei fyrr.

það er mergurinn málsins og menn eins og Óskar Hrafn eiga að geta bakkað upp sínar sögur ellegar láta kyrrt liggja.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.7.2009 - 13:41 - 9 ummæli

Er Jóhönnu sjálfrátt?

Ég verð að vona að eitthvað hafi skolast til í frásögninni frá umræðum í þinginu um Icesave klúðrið. þar á Jóhanna Sigurðardóttir að hafa sagt að það sé ekki kostur að samþykkja ekki þennan gjörning vegna þess að hann hafi verið gerður með fyrirvara um samþykki alþingis!

Ég las þetta alloft og trúi ekki enn því sem ég les. Er forsætisráðherra ekki sjálfrátt? Ef hún meinar það sem hún segir þá hefur hún ekki snefil af skilningi á hlutverki alþingis eða það hvað þrískipting valds merkir.

Hefur enginn annar en ég áhyggjur af því að fólk með svona hugsunarhátt skuli vera að véla með okkar mál alla daga?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur