Föstudagur 5.6.2009 - 12:54 - 3 ummæli

Bakari fyrir smið?

Hvurslags fyrirtæki er þessi seðlabanki eiginlega? Engu skiptir hvort þar ríkir Davíð eða norskur. Eða að Jóhanna skipi nefnd valinkunnra til að ráða ferðinni. Alltaf skal þessi banki komast að ómögulegri niðurstöðu. Og alltaf hefst sami söngur hagsmunaaðila sem helst vilja telja okkur trú um það að í þessum banka vinni helst bjánar sem ekkert hafa vit og vilja okkur alls ekki gott.

Hvernig stendur á þessu? Er ekkert hægt að lesa í ákvarðanir bankans? Stendur kannski upp á ríkisstjórnina að gera sitt? Ráðherrar og þingmenn meirihlutans skammast bæði út í seðlabanka og gjaldeyrissjóð seint og snemma og telja flestan vanda þaðan. það kaupi ég ekki.

Hvernig væri að þessi ríkisstjórn færi að hysja upp um sig buxur og hætta að lýsa yfir áhyggjum á milli þess sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að vandinn sé ekki eins mikill og allir vita að hann er. Aðgerða og úrræðaleysið er algert og yfirþyrmandi en samræðu pólitíkin lifir góðu lífi en hún er létt í maga núna og ekki fá atvinnulausir störf í kringum það spjall heldur.

Auðvitað má gagnrýna seðlabanka og gjaldeyrissjóðinn en ég bíð eftir þvi að fjölmiðlamenn afklæðist silkihönskum sínum og fari að berja aðeins á aðgerðaleysisríkisstjórninni og láti hana ekki komast upp með það ítrekað að kenna öðrum um eigin getu og úrræðaleysi.

Kannski eru háir vextir afleiðing en ekki orsök í okkar stöðu í dag. Svo bið ég þá sem telja ósanngjarnt af seðlabanka að krefja ríkisstjórn um aðgerðir í fjármálum áður en stórar ákvarðanir eru teknar í vaxtamálum að rétta upp hönd.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.5.2009 - 12:12 - 2 ummæli

Láglaunastefnan.

Hreinlega er kostulegt að fylgjast með fréttum frá Bretlandi um greiddann kostnað þingmanna. Ég kemst ekki hjá því að velta því fyrir mér hvernig svona system fæðist og kemst á laggirnar. Hvernig það braggast og verður normalt og allir þegja hvar í flokki sem þeir eru. Allir spila með.

Getur verið að það sé vegna þeirrar stefnu að laun skuli vera lág og jafnvel alltof lág? Það lítur nefnilega svo vel út í augum almennings að þingmenn og opinberir stórlaxar seu ekki að þiggja há laun. Þess vegna eru lagfærð og betrumbætt með sporslum og aukagreiðslum af ýmsu tagi sem ekki blasa við. Þetta þekkjum við vel hér og höfum dapra reynslu af.

Hjá okkur gæti stefnt í svona ástand. Skerum burt allt bruðl og óþarfa að ég tali nú ekki um ógagnsæi í launum eins og tíðkast greinilega í breska þinginu. En gerumst ekki kaþólskari en páfinn og viðurkennum að laun forsætisráðherra eru brandari.

Röggi.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.5.2009 - 09:52 - 1 ummæli

Blaðrið í Brown í víðu samhengi.

Gordon Brown kemur enn einu sinni af stað titringi hjá okkur Íslendingum með ummælum sínum. Nú segist hann vera að semja við IMF um skuldir okkar vegna Icesafe og allt verður vitlaust og enginn vill kannast við samningaviðræðurnar þegar nánar er spurt.

Þetta fer allt mjög í taugarnar á ESB sinnum því með þessu blaðri sínu minnir Brown okkur á að ESB er með fulltingi IMF að þvinga okkur til að borga skuldir óreiðumanna erlendis eins og það var orðað forðum. Vel getur verið að við eigum og verðum að borga en þá vilja margir gera það á okkar forsendum en ekki undir þvíngandi og níðþungum hælnum á ESB og Bretum.

Í mínum huga eru þessi mál öll í biðstöðu núna. Þau eru ekki rædd. Þjóðin er að reyna að átta sig á því hvernig henni muni reiða af næstu mánaðarmót og má bara ekki vera að því að velta því fyrir sér hvernig Brown og ESB líður þessa stundina.

Mín tilfinning er sú að andstaðan við ESB eigi eftir að aukast næstu mánuði. Við höfum verið upptekin af því að kjósa og flokkarnir sem nú eru við stjórn hugsuðu einna helst um að innheimta útistandandi fylgisaukningu en nú er komið því að standa við stóru orðin og koma með bjargráðin eins og lofað var. Þar verða ESB aðildarviðræður ekki til neins næstu mánaðarmót eða þar næstu.

Ég veit ekki hvert Samfylking stefnir ef ekki tekst að koma af stað viðræðum við ESB um aðild. Ég er í grunninn hrifinn af því að Alþingi ákveði hvert við förum í þessu efni. Þetta á að vera mál löggjafans ekki síður en framkvæmdavaldsins. En við búum ekki við neina skiptingu milli þessara aðila og því eru öll viðmið eðlilegrar stjórnsýslu í þessum efnum ónýt.

Nú vill ósamstíga ríkisstjórn fá umboð fyrir annan flokkinn til að sinna þessu verkefni. Tæknilega er trúlega hægt að troða þessu í gegnum þingið en hvað tekur svo við virðist óljóst. Hver á að ákveða samningsmarkmið? Hvernig verður farið með ágreining í ferlinu og áfanganiðurstöðum? Er hægt að fara í svona stórt mál án breiðarar samstöðu á þingi að ég tali nú ekki um einingu í ríkisstjórn? Kannski er það hægt en varla mjög skynsamlegt.

Samfylkingin berst nú af lífi og sál fyrir ESB enda er það eina mál flokksins. Í því máli er kálið enn langt frá ausunni og það jafnvel þó takist að koma málinu í gegnum þingið. Þjóðin er mjög viðkvæm núna og því eru svona upphlaup eins og hjá Brown ekki þægileg því þau minna okkur á ógreidda reikninga og þrýsting þeirra sem eiga að heita vinir okkar.

Á meðan okkur blæðir út innanlands að stjórnvöldum ásjáandi og aðgerðalitlum er ekki víst að það sé ESB sinnum sérlega hagfellt að við séum minnt á að okkur verða engin grið gefin þegar kemur að samskiptum við stóru apparötin úti í heimi hverju nafni sem þau nefnast.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.5.2009 - 08:56 - 7 ummæli

100 daga aðgerðaleysið.

Það er ekki laust við spennu hjá mér fyrir „nýju“ ríkisstjórninni sem Jóhanna og Steingrímur eru að smíða. Myndun hennar hefur í raun tekið um 100 daga og enn sér ekki til lands. VG og Samfylking tóku við skútunni með þeim orðum að nú yrði tekið til óspilltra málanna.

En málin eru ennþá spillt og ekkert er aðhafst. Tvær nefndir voru settar af stað í upphafi seinni bylgju stjórnarmyndunarviðræðna. Önnur um ESB og hin um stjórnskipan. Bæði þessi málefni eru mikilvæg og áhugaverð mjög en þau snúa lítið að því verkefni sem stofnað var til á sínum tíma.

Eins og málið snýr við mér er augljóst að ríkisstjórnin veit ekki sitt rjúkandi ráð í efnahagsmálum og þess vegna hefur VG ákveðið að gefa eftir í ESB málinu og trúa Samfylkingu sem heldur því fram að með því einu að ákveða að fara í aðlidarviðræður að þá lagist allt.

Skuldir heimilanna hverfi og atvinnulíf blómstri. Lamaðir ríkisbankar eru núna helst notaðir til þess að berja á atvinnulífinu og taka yfir fyrirtæki eftir smekk og mismuna þeim svo í samkeppninni við blæðandi markaðinn.

Ég get auðvitað ekki gert lítið úr vandanum en hér höfum við fólkið sem sagðist hafa lausnirnar og þetta er líka fólkið sem var lamið í ríkisstjórn með búsáhöldum forðum undir styrkri stjórn söngvaskáldsins sem virðist nú horfið af yfirborði jarðar þó fátt hafi lagast og ekkert í sjónmáli eftir 100 daga.

Þetta er erfið staða því öll orkan fer í að finna leiðir til að geta verið í ráðherrastólum á morgun. Jóhanna segir að hér sé starfandi ríkisstjórn í landinu og ekkert liggi á stofnun nýrrar. Þetta held ég að hreinlega enginn skilji nema kannski Ólafur Ragnar. 100 daga aðgerðaleysinu verður að ljúka.

Ekki er hægt með neinni sanngirni að biðja um kraftaverk en lágmarkskrafan getur ekki orðið ódýrari en að biðja um eitthvað annað en að þeir sem koma með tillögur séu skotnir í kaf án umhugsunar.

Kannski við hægri menn mætum með búsáhöldin okkar í næstu byltingu sem hlýtur að verða fyrr en seinna haldi aðgerðaleysisríkisstjórnin áfram á sömu braut.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.4.2009 - 09:30 - 10 ummæli

Bjarni Ben, XD og ESB umræðan.

Hún er skrýtin líðanin hjá okkur Sjálfstæðismönnum þessa dagana. Dagarnir eftir skellinn stóra. Sambland af svekkelsi en þó vissum létti. Botninum er vonandi náð en til þess að svo megi verða þurfum við kannski að hugsa margt upp á nýtt.

Ég kaus Bjarna Ben og er nú hugsi yfir hans stöðu. Honum verður ekki kennt um útkomu flokksins svo mikið er víst. Á sunnudag sagði hann að formennskutíð sín hæfist þann dag. Ég er að hluta sammála honum þar og nú eru hveitibrauðsdagarnir hans liðnir ef hægt er að kalla fyrsta mánuð hans í embætti hveitibrauðsdaga.

Hvert ætlar Bjarni sér með flokkinn? Ætlar hann að setja marki sitt á flokkinn og stefnuna til framtíðar eða verður hann rólega týpan sem fetar bara í fótsporin og forðast öll hugsanleg átök og ágreining? Sjálfstæðisflokkurinn þarf leiðtoga með bein í nefi en ekki formann með sjálfstýringu eins og má segja að hafi á stundum einkennt okkar fyrrverandi ágæta formann. Ágreiningur innandyra er eðlilegur hjá öllum flokkum og þá reynir á styrk og skapgerð forystumanna.

Stundum finnst mér flokkurinn minn vera eins og gömul kona sem ekki er hægt að bifa til eða frá. Ég sjálfur er langt frá því sannfærður um að aðild að ESB sé lausnin og deili þeirri skoðun með meirihluta flokksmanna. En ég er líka nokkuð viss um að stór hluti Sjálfstæðismanna er að komast á þá skoðun að ekki verði lengur umflúið að komast til botns í málinu. það er ekkert að óttast….

Flokkurinn á að sjálfsögðu að taka sér stöðu í málinu en lítil ástæða er til þess að tefja að málið verði tekið til skoðunar. Hvort sem menn eru á móti eða ekki þá þarf að flytja málið fyrir fyrir þjóðinni að lokum. Ef málsstaðurinn er góður þá mun þjóðin sannfærast með flokknum.

Líklega veit stór hluti Sjálfstæðismanna ekki nákvæmlega af hverju hann er á móti inngöngunni og ég er reyndar viss um að stór hluti fylgjenda veit ekki heldur af hverju innganga er góð. Okkur vantar mikilvægar forsendur til þess að geta tekið endanlega afstöðu. Þetta er óviðunandi staða þegar ESB umræðan er svo sterk sem raun ber vitni.

Sjálfstæðisflokkurinn á að sjálfsögðu að taka virkan og fullan þátt í umræðunni og fagna því að reynt verði að leiða málið til lykta. Mig grunar að Bjarni Ben sé þessarar skoðunar og kannski er þetta mál prófsteinn á það hvernig formaður hann ætlar sér að verða.

Hvernig hann mun leiða flokkinn í gegnum ESB málið. Haldi Bjarni að hægt verði að gera öllum til hæfis á þeirri vegferð er hann á villigötum. Bæði fylgjendur og andstæðingar innan flokksins hljóta þó að verða að sætta sig við aðildarviðræður og sanngjarna og málefnalega umræðu um samning í kjölfarið. Og una svo niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í því fellst enginn ósigur fyrir neinn heldur þveröfugt. Víglínan er bara ekki lengur þar sem hún var hvort sem okkur Sjálfstæðismönnum líkar betur eða verr. Við þurfum að beygja aðeins af en ekki að skipta um skoðun á málefninu.

Alls er ekki er víst að menn verði leiðtogar þó þeir veljist til formennsku. Nú reynir á hvern mann Bjarni hefur að geyma og ég hef fulla trú á honum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.4.2009 - 14:28 - 3 ummæli

Stjórnarkreppan.

það er eins og við mátti búast frekar snúið að mynda ríkisstjórn VG og Samfylkingar. Hver smáfuglinn á fætur öðrum þarf að láta ljós sitt skína og koma fram með stórar og stefnumarkandi yfirlýsingar sem allar eru sagðar ófrávíkjanlegar.

Því er komin upp sú staða að annar verður að gefa eftir og það verður erfitt. Eins og ég sé þetta er engin önnur stjórn möguleg því ég vill ekki sjá Sjálfstæðisflokkinn fara í stjórn með einum eða neinum núna. Í mínum huga væri það vafasamt að fara núna þegar flokkurinn er í sárum og þarf að byggja sig upp innanfrá og hugsa margt upp á nýtt að leiða hugann að stjórnarþátttöku.

Ég held að þó að hægt sé að reikna Borgarahreyfinguna í stjórn að þá sé sá möguleiki ekki uppi á borði af nokkrum ástæðum. Því er ekkert annað í stöðunni en að kosningabandalagið standi við stóru orðin og komi okkur út úr vandanum.

þar bíða menn og konur með uppbrettar ermar og lausnir til handa heimilum og atvinnulífi ef eitthvað er að marka það sem haldið var fram í kosningabaráttunni. Hún snérist reyndar of lítið um slíka hluti. Kosningabaráttan snérist um styrki þangað til aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn áttu i hlut og ESB.

Og enn er þráttað um ESB á meðan við öll bíðum eftir aðgerðum hér heima fyrir. Í 80 daga hafa flokkarnir reynt að komast til botns í því máli og deilan harðnar ef eitthvað er. Samfylkingin er orðin eins máls flokkur sem byggir tilveru sína algerlega á ESB aðild. Engar aðrar lausnir eru til umræðu og það er pólitísk fötlun og líklega gagnslaus þjóðinni í dag.

Niðurstaðan gæti orðið sú að Samfylking gefi eftir af þeirri einföldu ástæðu að hún getur það. VG þarf að fara alveg í duftið ef ganga á að afarkostum Samfylkingar. Á hinn bóginn getur Samfylking kannski sætt sig við einhverja tilsökun því VG er ekki að fara fram á að ESB verði hent út af borðinu.

Furðulegir tímar því kosningabandalgið vann fínan sigur en þrasar nú um það hvor hafi unnið meira og hvor eigi að fá að svínbeygja hinn. Ég vona að þetta taki fljótt af því engan tíma má missa.

þetta fólk hefur haft 80 daga til að gera ekki neitt og við bara höfum ekki efni á meiri tímasóun.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.4.2009 - 13:40 - 3 ummæli

Össur skiptir um skoðun!!

Þá hefur félagi Össur rekið pólitískt nefið út um gluggann. Og komist að því að síðasta skoðun hans á álversframkvæmdum á Bakka er sennilega ekki söluvæn núna. þá bara hefur hann nýja skoðun og uppfærða og tekur síðan bara á málinu síðar og þá væntalega tilbúin að kúvenda aftur. Allt eftir því hvað hentar þá.

Þetta er ástæðan fyrir því að hans pólitíska sól hnígur nú hratt til viðar. það snýst auðvitað ekki eingöngu um það hvað mér og minum finnst heldur miklu frekar um það hvað hans eigin segja, enda hefur styrkur hans minnkað hratt eftir prófkjörið góða. Pólitískt kjarkleysið og tækifærismennskan skín alltaf í gegn og vilinn til að segja það sem hann heldur að tilheyrendur vilji heyra hverju sinni.

Össur mærir samherja sína alltaf af mikilli íþrótt en finnur þeim svo allt til foráttu afturvirkt um leið og leiðir skilja og dregur þá hvergi af sér. Hann virðist maður líðandi stundar og það getur verið skemmtilegur eiginleiki á köflum en afleitur í pólitík.

Össsur hefur látið sig vanta nú í nokkra mánuði á tímum þegar við þurftum alvöru stjórnmálamenn. Þá hvarf kallinn og eftirlét öðrum erfiðu störfin óvinsælu en birtist svo blaðskellandi um leið og sigur er í nánd eða þá að einhver sýnist liggja vel við pólitísku höggi.

Þetta er pólitíkusinn Össur Skarphéðinnson í hnotskurn. Á sínum bestu stundum skeinuhættur andstæðingur og ljúfur samherji og betri penni finnst ekki. Hans ríkulegi heimamundur nýtist honum bara svo takmarkað því hann þolir ekki mótvindinn en það eru einmitt eiginleikar sem eru svo nauðsynlegir núna.

Þess vegna er það í sjálfu sér litil frétt þó hann skipti um skoðun og það verður heldur ekki nein frétt þegar hann skiptir um hana aftur.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.4.2009 - 11:24 - 6 ummæli

Hver á samleið með VG?

Auðvitað hlaut að koma að því að VG reyndu að slíta sig frá Samfylkingunni. Samfylkingin hefur algerlega verið í bílstjórasætinu í samstarfi vinstri flokkanna. Málefni VG hafa ekki komist að en mælingar á fylgi flokkanna hafa greinilega aukið sjálfstaust VG sem lætur nú loks á sér kræla.

VG ætlar, öfugt við Samfylkingu!, að hækka skatta og lækka laun. Mér finnst smart hjá þeim að segja þetta fyrir kosningar og heiðarlegt. Flokkurinn ætlar, öfugt við Samfylkingu, alls ekki inn í ESB. VG ætlar líka alveg á skjön við Samfylkingu alls ekki að leyfa fleiri álver og nú er upplýst að VG ætlar að snuða félaga Össur um olíuleitina.

Sérstaða VG er talsverð og undanfarna daga hefur flokkurinn verið að undirstrika hana og uppsker aukið fylgi af ástæðum sem mér eru ókunnar. Auðvitað nýtur flokkurinn þess svo að ekki hefur verið hægt að finna spillingarlykt úr þeirri áttinni, ennþá.

Um hvað eru vinstri flokkarnir sammála? Þeir eru að sönnu sáttir við að vinna sigur í kosningum og gleðjast yfir óförum Sjálfstæðisflokksins en lengra nær það nú varla. Það verður þó að teljast líklegt að flokkarnir lemji saman ríkisstjórn en hún verður ekki langlíf.

Ef málefni eru skoðuð sést að enginn á alvöru samleið með VG. Ekki einu sinni Samfylkingin og það er að renna upp fyrir henni nú á endasprettinu þegar VG skríður út undan feldinum.

Og hvað gera bændur þá?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.4.2009 - 17:48 - 10 ummæli

Styrkjafarsinn.

Mér sýnist kosningarnar núna ætla að snúast um styrki því miður. Þeir sem trúðu því að Samfylkingin væri með hreina samvisku í samskiptum við Baug hljóta að vera með böggum hildar nú. Í mínum huga er enn mjög mikið starf óunnið í því að moka skitnum sem liggur eftir þá mafíu upp á yfirborðið.

Fylgismenn Samfylkingar hvort sem er um að ræða hér á bloggsíðum eða annarsstaðar hljóta ef menn eru útbúnir einhverri sjálfsvirðingu að skammast sín. Ekkert hefur vantað upp á dónaskapinn nafnlausan oft og fúkyrðaflauminn. Ég bíð nú spenntur við skjáinn því ef ég þekki þetta fólk rétt þá tekur nú við dauðaþögn í ætt við þögnina sem varð þegar upplýstist um hótanir Ingibjargar sem Guðlaugi Þór voru ætlaðar. Og að likindum missa fjölmiðlar áhuga á málefninu.

Ég fyrir mitt leiti hef ekki farið dult með skoðanir mínar á Baugi og þeirri mafíu allri og finnst gersamlega óþolandi að þurfa að horfa upp á fólk úr mínum flokki hafa þegið fé þaðan. Sjálfstæðismenn hafa reynt að taka til hjá sér í kjölfarið og vona ég svo sannarlega að ekki finnist meira en nú þegar er kunnugt um. Nú verður æsispennandi að sjá hvernig Samfylkingin tekur á sínum málum. Ég spái vettlingatökum og þögn sem verðu þó að líkindum rofin með Morfísstælum frá olíumálaráðherra.

Þetta er rétt að byrja því enn er ekki upplýst hverjar skuldir flokkanna eru og hverjum þeir skulda. Ég hef aldrei skilið af hverju bókhald flokkanna er lokað og nú hlýtur að vera leitun að mönnum sem reyna að standa gegn því í framtíðinni.

Sagan er ekki hálfsögð og mig grunar að Samfylkingin hafi nú talsvert minnkandi áhuga á þeirri sagnfræði.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.4.2009 - 15:05 - 9 ummæli

Árni Páll og tjáningarfrelsið

Árni Páll Samfylkingarmaður virðist ekki bara telja að andstæðingar sínir séu fífl. Hann trúir því greinilega líka að fólk sé fífl. Nú krefst hann þess að Sjálfstæðisflokkurinn afneiti auglýsingum og vefsíðum og láti auk þess loka þeim. Látum ekki tala til okkar eins og við séum fífl.

Mikill er máttur stjórnmálamanna en að þeir geti slökkt á tjáningarfrelsinu eins og hentar félaga Árna Pál er vonandi ekki hægt. Ef Sjálfstæðisflokkurinn gerði svipaða kröfu á Samfylkinguna yrði hún trúlega að fastráða menn í fullt starf, á vöktum.

Við erum þjóðin hvort sem Árn Páll trúir þvi eða ekki og við þurfum ekki leyfi frá einum eða neinum til að tjá okkur. Auglýsingar flokkanna eru eftir því sem ég best veit greinilega auðkenndar og því algerlega út í bláinn að reyna að drepa málum á dreif með svona málflutningi.

Látum ekki kosningabandalagið komast upp með að ræða það ekki sem skiptir máli.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur