Mánudagur 9.2.2009 - 09:37 - 7 ummæli

Ætlaði Jóhanna ekki að reka manninn?

Hvurslags rugl er á Jóhönnu forsætisráðherra? Ætlaði hún ekki að reka Davíð úr bankanum? Nú læðist hún um eins og kéttlingur og sendir bréf og fer fram á að hann reki sig sjálfur. Meðferð hennar á þessu máli er í hlægileg.

Þetta er allt leikur. Hún er að reyna að mjólka vinsældir út á óvinsældir Davíðs hjá hennar fólki. Þetta getur snúist í höndum hennar nema hún hysji upp um sig.

Stjórnin sem nú situr lofaði mörgu en fátt var eins naglfast og að reka Davíð. Ekkert mál er að reka stjórnir lánasjóða og skipta út ráðuneytisstjórum en nú er hik. Hvernig má það vera?

Hefur Davíð kannski helling til síns máls? Ég hef margsagt það að þróttlitlir stjórnmálamenn og auðjöfrar hafa notið þess lengi að hafa Davíð óvinsælan í bankanum. Kannski hentar bara ekki lengur að reka hann.

Er ekki bara betra að hafa hann þarna til þess að athyglin beinist ekki að því sem skiptir máli. Á meðan mótmælasveitir vinstri manna eru að lemja potta og pönnur eru slappir fjölmiðlar ekki að fjalla um alvörumál.

Sem eru lausnirnar góðu á vandamálum heimila og atvinnulífs. Lausnirnar sem okkur var lofað að væru til en fyrri stjórn gat ekki komið auga á. Þess vegna er bara gott að hafa Davíð í bankanum og halda áfram að ala á óánægju með hans störf.

Svo enginn nenni að hugsa um störf stjórnmálmannana sjálfra.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.2.2009 - 10:44 - 2 ummæli

Staða Samfylkingarinnar.

Er að hugsa um Samfylkinguna. Nú verður almennilega áhugavert að sjá hvert hún stefnir á næstu vikum. Ánægjan sem hríslaðist um Samfylkingarfólk þegar Sjálfstæðisflokknum var bolað burt úr ríkisstjórn mun að ég held gleymast fljótt.

Formaður flokksins er veikur og það í mörgum skilningi og eitt og annað bendir til þess að gamlir andstæðingar innan dyra geti vel hugsað sér stólinn. Innanflokkserjur eru ekki alveg óþekktar í þessum félagsskap.

Samfylkingin hefur eiginlega byggt alla sína tilveru á einum hlut. Inngöngunni í ESB. Öll umræða um efnahagsmál hvort sem rætt hefur verið um orsök eða afleiðingu krísunnar hefur verið afgreidd á einn veg. ESB hefði reddað okkur og mun gera það ef við bara drífum okkur í sæluna.

þetta hefur verið rauði þráðurinn í öllu sem frá flokknum hefur komið. Nú situr Samfylking pikkföst í stjórn með VG sem gerir litið annað en að ögra með daðri við norska olíukrónu. Verður áhugavert ef Steingrími tekst nú að koma á myntsamstarfi við flokksystur sína frá Noregi til þess eins að láta Samfylkinguna hafna því.

Vel getur verið að VG láti líta út fyrir að þeir geti samþykkt ákvæði um atkvæðagreiðslur en ekki er séns að þeir muni gera neitt annð en að berjast með kjafti og klóm gegn ESB þegar á hólminn er komið.

Margt bendir svo til að þeim sé að vaxa verulega fiskur um hrygg sem vilja láta sverfa til stáls gegn ESB og kröfum þeirra og annarra um að við borgum skuldir óreiðumanna erlendis eins og maðurinn sagði. Andstaðan við inngöngu mælist nú talsvert meiri en fyrir nokkrum vikum síðan og er barátta þeirra sem ekki vilja inn þó ekki hafin.

Samfylking getur varla annað en tekið slaginn þó hún hafi ítrekað sýnt nokkra aðlögunarhæfni þegar hentugt er að skipta um skoðanir. Fyrir örfáum vikum virtist flokkurinn vera með gjörunna stöðu enda var þjóðin tilbúin að gleypa ESB hrátt og án athugasemda. Nú gæti mómentið verið að snúast.

Ef flokkurinn sleppur við innri átök í ætt við þá klæki sem hann sýnir öðrum og ef andstaðan við ESB eykst ekki getur þetta orðið gott vor fyrir Samfylkinguna.

Eða alvont vor sem markast af þeirri taugaveiklun og stjórnleysi sem einkenndi flokkinn þegar hann sprengdi síðust stjórn. Væntingar flokksins eru án efa mjög miklar og allt annað en mjög góð kosning með umboði til inngöngu í ESB munu verða vonbrigði. Að ég tali nú ekki um ráðherrastólana….

Eins og staðan er í dag getur brugðið til beggja vona fyrir þennan flokk sem stundum virðist ekki vita hvort hann á að sitja eða standa fyrr en einhver hefur gáð til veðurs.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.2.2009 - 23:19 - 7 ummæli

Nú, er Jón Ásgeir ekki góði kallinn?

Velti því fyrir mér hvað hefur eiginlega breyst. Skrýtið hvernig almenningsálitið getur snúist snögglega. Núna finnst flestum sem Jón Ásgeir sé orðinn snarruglaður að kenna Davíð um fall sitt. Samt hefur hann árum saman notað þetta trix á þjóð sína og hún kokgleypt bullið.

Snilldin hjá Jóni Ásgeir var að fá heilan stjórnmálaflokk til að búa til pólitískt skjól fyrir sig. Hann og lögfræðingahjörð hans tóku ræðu Ingibjargar Sólrúnar í Borgarnesi fagnandi. Í því skjóli og skjóli fjölmiðla sinna sem ekki mátti hreyfa við heldur af sömu handónýtu pólitísku ástæðum hóf hann að blóðmjólka þjóðina í fullkomnum friði.

Þeir sem reyndu að benda á hvernig viðskipti hann stundar voru umsvifalaust stimplaðir Davíðsmenn en það var og hefur verið skammaryrði lengi. Gagnrýni á viðskipti þessa manns snérist aldrei um stjórnmál enda Jón Ásgeir ekki pólitíkus. Vörn hans árum saman var hins vegar pólitísk og það hentaði sumum flokkum betur en öðrum og því var dansað með og ekki hirt um kostnaðinn.

Tjaldið er fallið loksins og stórskuldug þjóðin er að vakna. En hún vaknaði ekki fyrr en allt var farið til fjandans. Ekkert hefur nefnilega breyst. Jón Ásgeir stundar sin viðskipti eins núna og alla tíð. Á meðan þjóðinni var haldið upptekinni í því að hata einn af örfáum sem reyndu að benda á hvernig viðskipti væru stunduð hér tóku nokkrir menn sig til og stálu þjóðarauðnum og við borgum brúsann.

Siðleysið er svo greypt í merg og bein þessara manna að engu tali tekur. Þjóðin þarf sárlega á þvi að halda að koma bankakerfinu í stand. Það verður ekki gert nema að uppgjör geti farið fram. Að menn átti sig á hverjar skuldir eru og eignir. Núna þegar bankamenn og sérfræðingar ætla að fara í þá vinnu bregst þessi maður við því að væla um að hann tapi peningum.

það erum við sem erum að tapa peningum af því að hann getur ekki borgað það sem hann skuldar bönkunum. Flóknara er það nú ekki. Hvert mannsbarn skilur þetta held ég bara. Loksins er eins og menn geti leyft sér að sjá það sem hefur blasað við alla tíð.

Af hverju er það?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.2.2009 - 22:26 - 3 ummæli

Fjölmiðlar i silkihönskum.

Það mætti halda að sú ríkisstjórn sem nú situr snúist eingöngu um að reka Davíð Oddson. Hann er fyrsta mál á dagskrá á fundum og oft það síðasta líka. Hundslappir fjölmiðlamenn eyða löngum tíma í spurningar eins og þær hvort embættismenn ætli að fá umsamin laun greidd. Algert aukaatriði.

þetta er orðinn hreinn farsi og populismi. Þjóðinni hefur verið talin trú um að seðlabankinn sé upphaf og endir alls hér. það hentar auðvitað ónýtum stjórnmálamönnum. Ekki síst fólki sem hefur mátt heyra það undanfarnar vikur að það sé vanhæft. Hver er ástæðan fyrir því að fjölmiðlar fara svo mjúkum höndum um Samfylkinguna eins og raun ber vitni?

Eða VG með Steingrím í broddi fylkingar. Hann er búinn að mala vikum saman um að aðgerða og úrræðaleysi hafi einkennt síðustu ríkisstjórn en hefur svo ekkert fram að færa sem ekki var þegar í vinnslu. Dómsdagsþvaður hans um IMF vikum saman er nú gleymt.

Vissulega er gott að að koma með tillögur um siðferði og ábyrgð. Almennt held ég að ekki nokkur maður geti sett sig upp á móti mörgu af því sem þetta fólk hefur sett á blað. Það eru hlutirnir sem ekki eru á blaði sem vekja furðu.

Vaxtalækkanir og að koma bönkunum í starfhæft ástand eru helst nefnd. Það er nú þannig að vaxtalækkanir voru á dagskrá síðustu ríkisstjórnar í samvinnu við IMF og því beinlínis magnað að heyra Steingrím muldra um að hann ætli að setjast niður með sjóðnum til að semja um þær. Ef áætlanirnar sem voru gerðar við hávær mótmæli VG ganga eftir verða vextir hér orðnir lágir í árslok og verðbólga er nú þegar á hröðu undanhaldi.

Mér sýnist úrræðaleysi annars vegar VG og hinnar vanæfu Samfylkingar í efnahagsmálum vera augljóst. Sjálfstæðismenn eru nú að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun sem dagaði uppi í þingflokki Samfylkingar sem ekki mátti vera að því að klára málið enda menn þar uppteknir í öðru.

það hlýtur að renna í gegn enda voru ráðherrar Samfylkingar búnir að samþykkja það. Ekki veit ég hvað þetta fólk ætlar að taka sér fyrir hendur þegar Davíð verður farinn úr bankanum. Þá fara fjölmiðlar kannski að beina sjónum að því sem skiptir máli.

Sem er efnahagsmál og lausnirnar sem þetta fólk hafði fyrir hálfum mánuði en eru nú ekki annað en að halda því áfram sem verið var að gera.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.2.2009 - 09:45 - 1 ummæli

Upphaf kosingabaráttunnar.

Þá er ný stjórn tekin við. Verkefnaskráin er áhugaverð. Fullt af góðum hlutum sem hægt er að kvitta undir þar en eins og við mátti búast er kannski merkilegast hvað ekki er á dagskrá. Töfralausnirnar til bjargar heimilum og atvinnulífi. Nú heitir það að leitast við þetta og hitt. ESB er ekki til umræðu heldur. Enda kannski bara eðlilegt að vera ekki að láta ágreiningsmál þvælast fyrir. Myndun þessarar ríkisstjórnar er kannski ekki annað en sniðug byrjun á kosningabaráttu.

Mig grunar að bæði VG og Framsókn séu búin að átta sig á að það voru mistök að leysa Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk undan samstarfinu. Ég held að stjórnarandstaðan hafi trúað eigin orðum um að hægt væri að gera svo mikið betur en fyrri stjórn reyndi að gera. Ef eitthvað er að marka verkefnalistann góða er ljóst að Samfylkingin hefur gert mönnum ljóst að svo er ekki. Svigrúmið er og var verulega takmarkað. Fyrri stjórn var líka að leitast við að lækka vexti og bæta kjör.

Við verðum að vona að nú bretti þetta góða fólk upp ermar og láti verkin tala því trúin á Jóhönnu er sterk. Hún hefur þó sagt að tíminn sé naumur. Sæludagar stjórnarandstöðunnar eru á enda.

Rúmir 80 dagar eru líftíminn. Ég held að þeir dagar verði mun færri því flokkarnir þrír munu fyrr en seinna hefja slaginn um atkvæðin. VG mun þurfa að skerpa á ESB andstöðunni því við lestur verkefnalistans má sjá að ekki náðist neitt samkomulag þar. Samfylking mun að sama skapi þurfa að fara hina leiðina. Ekki gleyma því að ESB er svo miklvægt fyrir Samfylkinguna að hún hótaði Sjálfstæðisflokknum bannfæringu ef hann beygði ekki af snarlega og gengi sæluveginn inn í ESB.

Enduskoðun stjórnarskrárinnar er þjóðþrifamál. Stjórnlagaþing gæti verið málið og að fá sérfræðinga til umræðunnar. Þetta hljómar ekki alvitlaust en í því ljósi kemur á óvart að hin nýja stjórn þarf ekki að bíða eftir því þingi.

VG hefur að mestu hætt að úthúða IMF stofnuninni enda taktlaust að slá á einu hjálparhöndina sem í boði er, allavega á meðan setið er í stjórn. Fullkomlega er vonlaust að VG og Samfylking geti unnið saman til langs tíma eftir kosningar. Það held ég að forystumönnum þessara flokka hafi orðið ljóst nú undanfarna daga og því finnst mér líklegt að kosningabaráttan verði undarleg þetta vorið.

Framsókn ætlaði að safna prikum með því að verja stjórnina falli en stóðst ekki mátið og ber núna 100% ábyrgð á rekstri þessarar stjórnar. Vikulegir leyfisfundir þar sem Jóhanna og Steingrímur biðja um leyfi til að gera þetta eða hitt. Þetta er klaufaskapur hjá Framsókn sem hefur haft góð spil á hendi en leggur nú allt undir að óþörfu. Samfylking mun svo launa flokknum greiðan með því að reyna enn einu sinni að ganga milli bols og höfuðs á þeim því atkvæðin hafa verið að skila sér heim til Framsóknar aftur. Atkvæði sem Samfylking fékk þegar hún sótti inn á miðjuna. það var í þá daga að veiðileyfið á Framsókn var að fullu nýtt. Eitthvað verður flóknara núna að hefja veiðarnar. Til að bæta gráu ofan á svart rauk svo nýji formaðurinn til og færði flokkinn til vinstri svo nú verður enn þrengra þar.

Mér sýnist flest benda til þess að nú stefni í langvarandi ófrið og óróa á pólitíska sviðinu. Talað er um sveiflu til vinstri en geta flokkarnir til vinstri sameinast um það sem skiptir máli? Stóru málefni dagsins eru bara sett á hold þangað til búið er að telja upp úr kjörkössum.

Að aflokinni kosningabaráttu sem hófst með myndun þessarar ríkisstjórnar.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.1.2009 - 00:38 - 1 ummæli

Vantar okkur hryðjuverkalög?

Hvernig væri að við kæmum okkur upp hryðjuverkalögum til að geta komið lögum yfir þá menn sem áttu bankana gömlu? Sú hugsun kemur æ oftar upp í huga mér hvort það séu kannski einu lögin sem geta náð yfir starfsemi þeirra.

Nánast daglega berast fréttir af ótrúlegum æfingum þessara manna. Og flutning peninga í reiðufé til eyja hingað og þangað á meðan bankarnir sáu fram á peningaþurð. Kannski áttu Bretar ekki annarra kosta völ…

Hitt er allavega alveg ljóst að rekstur þeirra og aðferðir hafa skilið landið eftir eins og við höfum orðið fyrir hryðjuverkaárás.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.1.2009 - 17:21 - 2 ummæli

Réttindi opinberra embættismanna.

Væri það ekki verulega skemmtilegt ef Davíð þyrfti að leita til BSRB til að verja rétt sinn til vinnu?! Les það á vísi að hugsanlega sé flókið að víkja kallinum frá enda ekki hlaupið að því að losna við opinbera starfsmenn.

Mér hefur lengi fundist að við þurfum að breyta þessu. Af hverju þurfa opinberir aðilar að sitja uppi með starfsmenn sem ekki duga? Vissulega þarf að huga að réttindum vinnandi fólks en af hverju þurfa þau að vera öðruvísi varin hjá opinberum aðilum en einka?

Ráðherrar koma og fara en ráðuneytisstjórar sitja endalaust. Er samt viss um að ráðherrar eru oft algerlega upp á þá komnir með upplýsingar og faglega þekkingu. Í Bandaríkjunum er öllu skipt út þegar nýr maður kemur í ráðuneytið. Er það ekki sniðugt?

Ókostirnir eru trúlega að þá getur tekið smá tíma að koma sér inn í kerfið en er það ekki bara gott? Menn sem hafa komið sér makindalega fyrir í kerfinu eru nefnilega ekki endilega það sem er hagstæðast fyrir okkur.

Ný sýn og ný nálgun getur verið af hinu góða. Og auk þess yrði ábyrgð allra sem i ráðuneytum starfa augljósari og hagsmunir sameiginlegir. Eins og þetta er núna þá virðist ábyrgð þeirra sem starfa þar ekki vera nein þó þátttakan í ákvörðunum sé án efa mjög veruleg oft ef ekki hreinlega afgerandi.

Datt þetta svona í hug….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.1.2009 - 11:33 - 6 ummæli

Forseti á villigötum.

Stjórnmálamaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson ríður nú húsum á Bessastöðum. Í gær fabúleraði hann um það hvernig ríkisstjórn hér ætti að vera samansett og hvað hún ætti að leggja til grundvallar. Ég minnist þess ekki að neinn hafi óskað eftir því áliti hans eða leiðbeiningum.

Hann var ekki kosinn til þess að vera pólitískur forseti. Vel má vera að mörgum finnst hann eiga að vera það en þá er rétt að nefna það í kosningum að til standi að skipta sér með beinum hætti af stjórnmálum. Þannig hefur það ekki verið og frá mínum bæjardyrum séð á það ekki að vera þannig. Nema um annað sé samið, við kjósendur.

Næg hafa afglöp þessa tiltekna aðila verið þegar hann hefur verið að skipta sér af. Þetta er maðurinn sem skrifaði glaður undir lög um eftirlaun en gat alls ekki hugsað sér að skrifa undir nauðsynleg lög um eignarhald á fjölmiðlum. Engin skýring hefur fengist á því en ástæðan liggur þó í augum uppi.

Held ég nenni ekki að fjalla um daður hans við þá sem rændu þjóðina en þar brást honum dómgreindin eins og stundum áður og fyrr þó ekki hafi pólitískur bakgrunnur hans valdið í því tilfellinu.

Tek það fram að mér finnst framvindan eðlileg núna en þykir fullkomlega út í hött að hann sé að lýsa einkaskoðunum sínum með þessum hætti. Ég er örugglega ekki einn um að vera búinn að fá nóg af hans einkaskoðunum og útúrdúrum.

Hann að mínu mati ófær um að túlka skoðanir þjóðarinnar. Sagan vinnur ekki með honum þar.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.1.2009 - 18:59 - 4 ummæli

Eitt er að hætta í ríkisstjórn….

…..annað að rugla svona um ástæðurnar.

Núna er rifist um það hver ber ábyrgð á fjörbroti ríkisstjórnarinnar. Eitt er þó víst og það er að Samfylkingin hefur verið gersamlega heillum horfin og hver maðurinn á fætur öðrum vaðið uppi seint og snemma með allskonar skoðanir bæði á samstarfinu og samstarfsflokknum. Þetta er óumdeilt og hefur verið öllum ljóst og er auðvitað handónýt aðferð til að vera í samstarfi.

Nú slítur Samfylkingin samstarfinu á forsendum sem eru í meira lægi hæpnar og aðferðin hreinn brandari. Þar ráða vitaskuld mestu hrakfarir flokksins í könnunum. Liðið fór á taugum. Þrátt fyrir að hafa kennt Sjálfstæðisflokknum að alla hluti mælist þessi sundurleita hjörð næst minnst allra flokka. Fylgið eins gisið og flokkurinn sjálfur.

Allar götur þangað til um helgina hefur Ingibjörg Sólrún staðið þétt við bakið á Geir og lýst því að algert glapræði væri að hætta í miðjum björgunarleiðangri sem gengi vel og væri á áætlun. Ekkert hefur breyst í þeim efnum nema fylgi flokksins í skoðanakönnunum. Mér sýnist að Ingibjörg hafi verið ein um það í flokknum að hafa viljað halda áfram. Það var stríð sem hún hlaut að tapa.

Hún talar um að það sýni hroka og skort á auðmýkingu að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki taka afarkostum hennar um að láta af hendi embætti forsætisráðherra. Á sama tíma er því lýst yfir að málið snúist alls ekki um stóla! Og nú um hádegi í dag er skyndilega nefnt nafn Jóhönnu Sigurðardóttur. Formennirnir tveir sátu á fundum alla helgina en ekki var unnt að nefna þann kost þá. Á meðan á þessu öllu stendur er þessi flokkur að ganga frá samningi um stjórn landsins við VG og Framsókn. Ég veit ekki hvernig Ingibjörg Sólrún skilgreinir hroka en þarna kom hún með kennsluefni í bæði hroka og skorti á auðmýkt enda algerlega augljóst að þessu sýndartilboði yrði ekki tekið.

Nú gefst öðrum flokkum kærkomið tækifæri til að taka nú til hendinni úr því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur fyrir. Verður áhugavert að fylgjast með og verðum við öll að vona að ekki verði farið út í vanhugsaðar skammtímalausnir sem eru til þess eins fallnar að auka tímabundið fylgi óháð langtímakostnaði.

það er þó hættan því bæði þarf stjórnandstaðan að standa við stóru orðin og koma með patentlausnirnar og Samfylking þarf að fá gott veður svo skoðanakannana guðirnir verði nú hliðhollir.

Um það snýst þetta nú allt saman.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.1.2009 - 13:11 - 2 ummæli

Ekkert annað í stöðunni.

Þá er það orðin staðreynd. Geir hefði átt að fara að mínum ráðum og slíta þessu samstarfi við Samfylkingu í síðustu viku. Enda var ekkert samstarf orðið lengur. Stjórnlaus Samfylkingin talaði út og suður um stjórnarslit þvert á formanninn sem ekki var til staðar. Það eru engin vinnubrögð. Liðið fór á taugum með þungaviktarmenn í broddi fylkingar. Þess vegna fannst mér einboðið að hætta þessu.

Hef ekki trú á þjóðstjórn og þá er annað hvort kosið fljótlega eða mynduð minnihlutastjórn flokka sem ekki eru sammála um nokkurn skapaðan hlut. Kosningar strax eru ólíklegar því Samfylking mælist illa núna. Auk þess er andstaðan við ESB aðild að aukast svo flokkurinn þarf tíma til að ná vopnum sínum.

Nú verðum við að vona að þeir sem taka við fari nú ekki að ráðum Steingríms J í efnahagsmálum. Samfylkingin mun aldrei taka það í mál að ögra ESB í neinu svo líklegt er að Steingrímur verði að kokgleypa stóru orðin.

Get varla beðið eftir því að sjá hvað verður soðið saman núna og hvort nú verði horfið frá ráðleysi gömlu ríkisstjórnarinnar eins og andstaðan hefur kallað aðgerðir undanfarinna mánaða.

Nú er að standa við stóru orðin og gera betur. Tækifærið er komið!

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur