Hvurslags rugl er á Jóhönnu forsætisráðherra? Ætlaði hún ekki að reka Davíð úr bankanum? Nú læðist hún um eins og kéttlingur og sendir bréf og fer fram á að hann reki sig sjálfur. Meðferð hennar á þessu máli er í hlægileg.
Þetta er allt leikur. Hún er að reyna að mjólka vinsældir út á óvinsældir Davíðs hjá hennar fólki. Þetta getur snúist í höndum hennar nema hún hysji upp um sig.
Stjórnin sem nú situr lofaði mörgu en fátt var eins naglfast og að reka Davíð. Ekkert mál er að reka stjórnir lánasjóða og skipta út ráðuneytisstjórum en nú er hik. Hvernig má það vera?
Hefur Davíð kannski helling til síns máls? Ég hef margsagt það að þróttlitlir stjórnmálamenn og auðjöfrar hafa notið þess lengi að hafa Davíð óvinsælan í bankanum. Kannski hentar bara ekki lengur að reka hann.
Er ekki bara betra að hafa hann þarna til þess að athyglin beinist ekki að því sem skiptir máli. Á meðan mótmælasveitir vinstri manna eru að lemja potta og pönnur eru slappir fjölmiðlar ekki að fjalla um alvörumál.
Sem eru lausnirnar góðu á vandamálum heimila og atvinnulífs. Lausnirnar sem okkur var lofað að væru til en fyrri stjórn gat ekki komið auga á. Þess vegna er bara gott að hafa Davíð í bankanum og halda áfram að ala á óánægju með hans störf.
Svo enginn nenni að hugsa um störf stjórnmálmannana sjálfra.
Röggi.

Rögnvaldur Hreiðarsson