Mjög áhugaverð umræða er farin af stað um getuskiptingu í hópíþróttum barna. Þetta hófst með grein eftir Vöndu Sigurgerisdóttur lektors í HÍ. Vanda telur getuskiptingu vandamál sem beri að banna.
Ég er ekki sannfærður. Siggi Raggi landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta kemst býsna nærri því að túlka það sem mér finnst um þetta. Hvaða gagn gerir það iðkendum sem hafa af einhverjum ástæðum ekki getu eða burði á við þá sem lengst er komnir að verða undir og afgangs á æfingum?
Ég er alls ekki að segja að ekki eigi að sinna þeim sem skemur eru komnir, öðru nær. Enda ér ég sammála lektornum um það að það kemur ekki strax í ljós hverjir munu ná langt.
Ég held jafnvel að það geti stuðlað að brottfalli úr íþróttum að vera settur með einhverjum sem er á allt öðrum stað.
Getur þetta átt við á fleiri sviðum? Hvað með skólana? Þar er ef ég þekki rétt til ekki getuskipt. Þar sitja börn með mjög ólíkar aðstæður og burði saman í bekk og keppst er við að koma þeim öllum í gegnum sama ferlið, á sama hraða og með sömu aðferðum oft.
Þangað til allt er í óefni komið og þau börn sem ekki geta haldið uppi hraðanum eru sett í sérkennslu. Sem er ekkert annað en að getuskipta en kannski of seint til þess að viðkomandi líði beinlínis vel með ráðhaginn.
Ég veit ekki hvort ég er að höndla sannleikann hér en kemst ekki hjá því að velta því fyrir mér hvor hópurinn, sá sem þarf að hægja á sér, eða sá sem rembist við að draga hina uppi, fer betur út úr þessu.
Til lengri tíma vel að merkja.
Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri á Ísafirði var í mjög skemmtilegu viðtali á rás 2 í morgun. Þar talaði hún um áhrif sérkennslu, en snerti reyndar á ýmsu öðru. Viðtalið við hana byrjar á 70. mínútu.
Hún þorir að hugsa út fyrir boxið hún Jóna. Er að velta þvi fyrir sér hvers vegna við erum að reyna að koma skólabörnum í gegnum nákvæmlega það sama, á sama hraða og í sömu röð?
Hún finnur skemmtilega vinkla í þessu efni.
Ég vona að ég geri mér grein fyrir ókostum þess að getuskipta. Ég er þó sammála Sigga Ragga um að þeir þurrkast út með góðum þjálfurum. Þjálfurunum sem sjá um að færa þá til sem færa þarf til svo iðkendurnir fái sem mest út úr æfingum. Og ekki síst keppni…
Nýlega voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem sýndi að að börn fædd seint á árinu séu líklegri til að dragast aftur en þau sem fædd eru fyrr. það finnst mér líka áhugavert í þessu samhengi.
Ættum við kannski að getuskipta oftar og meira og markvissar?
Röggi