Nú rísa hárin á Samfylkingarfólki vegna þess að Ingibjörg Sólrún lýsir því yfir að ekki sé tímabært að kjósa. Ég heyrði hana ekki segja að ekki yrði kosið áður en kjörtímabilinu lýkur. Bara að þetta væri ekki tíminn.
Enda er þetta ekki tíminn. Öfugt við það sem mætir menn halda fram þá þarf hér ríkisstjórn. Þeir sem halda að við þurfum núna að fara í nokkurra vikna kosningabaráttu og slag á meðan Róm brennur hugsa þetta ekki í botn.
Vissulega er freistandi fyrir Samfylkingarfólk að innleysa fylgisaukningu núna en það má varla kosta hvað sem er. Núna syttist að krónan verði sett á flot og þá gengur hreinlega ekki að vera í kosningabaráttu.
Einhverjir munu nú koma með tugguna um að við viljum ekki að ÞETTA fólk taki þessar ákvarðanir heldur eitthvað óskilgreint annað fólk. Hvaða fólk er það? Er einhver von til þess að flokkarnir umpólist bara allir og fyllist af glænýju fólki einn tveir og þrír.
Miklu líklegra er að ef kosið er síðar að þá muni flokkunum gefast ráðrúm til að endurmeta alla hluti. Það gerist ekki á tveimur mánuðum. Eina „nýja“ fólkið sem í boði er eru frjálslyndir og svo „nýja“ fólkið sem stýrir VG. Rétt upp hendi sem vill að Steingrímur J komist að til að skila lánunum sem við erum að fá.
Svo er hinn möguleikinn auðvitað. Demba sér í kosningar til að kjósa sama fólkið aftur en bara í nýjum hlutföllum og sleppa því að setja krónuna á flot á meðan. Gera eins og VG vill hafa það, sumsé ekki neitt. Þá erum við alveg örugg um að fyrirtækin fara öll á hliðina. Hver græðir á því?
Kosningar núna eru út í hött. Efast ekki um fólk sem ekki hefur neitt málefnalegt til málanna að leggja telur að ég segi þetta vegna þess að ég er Sjálfstæðismaður. Ég held því fram að margir af þeim sem leggja þetta til séu Samfylkingarfók sem sér fylgisaukingu í kosningum í hyllingum.
Ég geri mér stútfulla grein fyrir því að kosningar fyrir timann eru eðlilegur hlutur. það verður þó að vera síðar en fyrr þvi nú er verk að vinna fyrir stjórnvöld. Þau stjórnvöld sem nú eru við völd eru örugglega ekki verr til þess fallin en fólkið sem er á hliðarlínunni.
Þar eru engar lausnir. Bara róið á reiðina og óánægjuna. Hún kann að vera réttlát en skilar okkur engu.
Röggi.