Föstudagur 21.11.2008 - 17:05 - 10 ummæli

Óskynsamlegt að kjósa núna.

Nú rísa hárin á Samfylkingarfólki vegna þess að Ingibjörg Sólrún lýsir því yfir að ekki sé tímabært að kjósa. Ég heyrði hana ekki segja að ekki yrði kosið áður en kjörtímabilinu lýkur. Bara að þetta væri ekki tíminn.

Enda er þetta ekki tíminn. Öfugt við það sem mætir menn halda fram þá þarf hér ríkisstjórn. Þeir sem halda að við þurfum núna að fara í nokkurra vikna kosningabaráttu og slag á meðan Róm brennur hugsa þetta ekki í botn.

Vissulega er freistandi fyrir Samfylkingarfólk að innleysa fylgisaukningu núna en það má varla kosta hvað sem er. Núna syttist að krónan verði sett á flot og þá gengur hreinlega ekki að vera í kosningabaráttu.

Einhverjir munu nú koma með tugguna um að við viljum ekki að ÞETTA fólk taki þessar ákvarðanir heldur eitthvað óskilgreint annað fólk. Hvaða fólk er það? Er einhver von til þess að flokkarnir umpólist bara allir og fyllist af glænýju fólki einn tveir og þrír.

Miklu líklegra er að ef kosið er síðar að þá muni flokkunum gefast ráðrúm til að endurmeta alla hluti. Það gerist ekki á tveimur mánuðum. Eina „nýja“ fólkið sem í boði er eru frjálslyndir og svo „nýja“ fólkið sem stýrir VG. Rétt upp hendi sem vill að Steingrímur J komist að til að skila lánunum sem við erum að fá.

Svo er hinn möguleikinn auðvitað. Demba sér í kosningar til að kjósa sama fólkið aftur en bara í nýjum hlutföllum og sleppa því að setja krónuna á flot á meðan. Gera eins og VG vill hafa það, sumsé ekki neitt. Þá erum við alveg örugg um að fyrirtækin fara öll á hliðina. Hver græðir á því?

Kosningar núna eru út í hött. Efast ekki um fólk sem ekki hefur neitt málefnalegt til málanna að leggja telur að ég segi þetta vegna þess að ég er Sjálfstæðismaður. Ég held því fram að margir af þeim sem leggja þetta til séu Samfylkingarfók sem sér fylgisaukingu í kosningum í hyllingum.

Ég geri mér stútfulla grein fyrir því að kosningar fyrir timann eru eðlilegur hlutur. það verður þó að vera síðar en fyrr þvi nú er verk að vinna fyrir stjórnvöld. Þau stjórnvöld sem nú eru við völd eru örugglega ekki verr til þess fallin en fólkið sem er á hliðarlínunni.

Þar eru engar lausnir. Bara róið á reiðina og óánægjuna. Hún kann að vera réttlát en skilar okkur engu.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.11.2008 - 11:08 - 3 ummæli

Rausandi ráðherrar.

Hvað ætlar Samfylkingin að verða þegar hún er orðin stór? það er brennandi spurning. Mér finnst Ingibjörg Sólrún vera á góðri leið sjálf. Gríðarlega mælsk og beinskeytt og fer nánast aldrei yfir strikið. Er að reyna að búa til landsföðurslega ímynd sem er svo nauðsynleg.

Núna er hún í ríkisstjórn með mínum mönnum við skilyrði sem enginn stjórnmálamaður hefur nokkru sinni þurft að horfast í augu við. Ólíkir flokkar um flest og ágreiningur um stór mál öllum ljós. Geir og Ingibjörg fara býsna vel með samstarfið og ágreininginn. Eru hófstillt og virka samhent.

Enda ekki vanþörf á akkúrat núna. Margir heimta kosningar núna þó flestum virðist augljóst að slíkt tal eru í besta falli broslegt. Kosningar núna þegar við þurfum mest á stöðugu stjórnafari að halda gagnvart okkur sjálfum og umheiminum væri glapræði.

Reyndar voru þeir skoðanabræður, Sigmundur Ernir og Sigurjón Egilsson, saman í útvarpinu í morgun að éta þessa kröfu upp eftir hvor öðrum. Annar taldi stjórnmálamenn hrædda við kjósendur og hinn taldi okkur ekki þurfa ríkisstjórn! það væri hvort eð er búið að taka allar ákvarðanir. Þetta er fólkið sem býr til fjölmiðlana…

þeir eru kannski að taka þetta upp eftir tveimur ráðherrum Samfylkingar. Af hverju ráðherrarnir rjúka nú til og bulla um þetta er mér hulin ráðgáta. það er akkúrat svona uppákomur sem hafa staðið vinstri flokkunum fyrir þrifum árum saman. Upphlaup og óstöðugleiki.

Ekkert er að því að hafa þessa skoðun og lang líklegast er að fljótlega verði kosið. Þetta fólk er að leitast eftir stundar vinsældum en sú leit hefur leikið margan stjórnmálamanninn grátt. Þetta veit Ingibjörg enda hefur hún stórbætt pólitískt stöðumat sitt og tímasetningar.

Og hafi hún líka kjarkinn þá fjúka þessir ráðherrar nokkuð örugglega úr stólum sínum og geta þá hafið eftirsóknina eftir vindi sem óbreyttir. Með því tæki hún stórt pólitískt frumkvæði og styrkur hennar yrði öllum ljós.

það er nefnilega þannig hjá okkur að alltaf er leitast við að fyrirgefa og gleyma. Verja sitt fólk í gegnum þykkt og þunnt. Akkúrat þessa dagana fer þetta rosalega í taugarnar á fólki.

Með því að losa sig við þessa ráðherra sem er þreyttir þá tæki hún frumkvæðið af mínum mönnum sem þyftu svo sannarlega á andlitslyftingu að halda líka.

Þetta er dauðafæri.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.11.2008 - 10:55 - 7 ummæli

Dómgreindin hans Ólafs.

það er svo sem ekki nýtt að dómgreindin og eðlið svíki Ólaf Ragnar. Allur hans pólitíski ferill, sem enn stendur yfir, er meira og minna markaður því að karlinn tapar dómgreind reglubundið.

Nú situr hann á Bessastöðum og hefur gersamlega einangrast frá þjóð sinni eins og vinir hans útrásavíkingarnir. Hann sleikti þá og kjassaði seint og snemma árum saman. Gékk svo erinda þeirra í fjölmiðlafrumvarpinu og gerði þjóðinn mikinn óleik í leiðinni eins og öllum ætti nú að vera ljóst.

Þar var Ólafur á sögulegum lágpunkti því kostnaður okkar vegna þessa pólitíska vinargreiða er verulegur. Og nú skrifar hann bók á meðan hann enn gegnir embætti. Kannski er kostnaður okkar eitthvað minni við þann gerning enda svívirðir hann bara embættið með þessu en ekki bæði þing og þjóð.

Situr svo bara í hásætinu og neitar að tjá sig um bomburnar sem hann setti fram. Enda grunar mig að honum finnist blóðið sitt vera farið að blána mikið. Fyrir neðan hans virðingu að svara spurningum um bókina en í góðu lagi að skrifa hana.

Já dómgreindin hans Ólafs Ragnars lætur ekki að sér hæða….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.11.2008 - 12:01 - 6 ummæli

Flottur forstjóri Landspítala.

Nú er fyrirsjáanlegur niðurskurður sem mun ná til allra með einum eða öðrum hætti. Ríkið verður líka að spara og þá byrjar venjulega mikill harmagrátur. Á sumum sviðum er sparnaður erfiðari en öðrum eins og gengur.

Í heilbrigðskerfinu hefur öllum sparnaðar og hagræðingartillögum verið tekið mjög illa. Forstjórar hafa farið mikinn venjulega og talið sparnað útilokaðann. Þess vegna var sérlega ánægjulegt að sjá lítið viðtal við nýráðinn forstjóra Landspítalans í gær.

Þar kvað við nýjan tón. Hún taldi þetta allt gerlegt og var jákvæð og bjartsýn. Með skynsemi og skipulagningu væri þetta mögulegt og það án þess að skerða þjónustu. Öðruvísi mér áður brá.

Ég efast ekki eitt augnablik um að þetta verður snúið i framkvæmd. Fitan sem safnast hefur utan á ríkisrekið heilbrigðiskerfið verður ekki svo auðveldega skorin af. Starfsfólkið mun líklega andmæla eins og vant er enda ekki í vinnu hjá rikinu heldur öfugt.

Svona finnst mér að forstjórar í vinnu hjá ríkinu eigi að vera. Rífast og berjast fyrir auknum fjárheimildum við ráðherra á réttum vetfangi en koma svo fram af fagmennsku út á við. það er jákvætt og býr til góða umgjörð um reksturinn og þær breytingar sem óhjákvæmilegt er að gera. Sjúklingum og starfsfólki mun bara líða betur í stað þess að selja fólki endalaust þá hugmynd að viðkomandi sjúkrahús sé sífellt í svelti og geti ekki staðið sig.

Fram til þessa hafa sjúkrahús forstjórar yfirleitt hlaupið í fjölmiðla og kvartað. Það er trúnaðarbrestur gagnvart yfirvöldum og ætti ef allt væri eðlilegt að reka slíka menn. Hvernig ætli yrði tekið á forstjóra í einkageiranum ef hann hlypi í fjölmiðla til að úthrópa vinnuveitendur sýna vegna ákvarðana sem þeir þurfa að taka?

Er harðánægður með þennan nýja forstjóra.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.11.2008 - 12:55 - 2 ummæli

Frammistaða fjölmiðla.

Góðir menn héldu fund á NASA í gær. Þar var rætt um frammistöðu fjölmiðla undanfarið. Var ekki á staðnum en fékk sérvalið úrtak í fréttum áðan. Þar kenndi ýmissa grasa.

Auðvitað er hverjum manni ljóst að fjölmiðlar hafa brugðist. Flestir virðast hafa áhyggjur af því að stjórnvöldum hafi ekki verið veitt nægilegt aðhald. Eflaust má endalaus bæta það en mér finnst nú ekki minna mál að eignarhaldið á þeim hefur komið í veg fyrir að auðmennirnir okkar hafi fengið það aðhald sem þeir hefðu svo sannarlega þurft.

Upprifinn Sigmundur Ernir kvartaði yfir því að lygnir stjórnmálamenn fengju kosningu aftur og aftur. Sérlega magnað að heyra þetta frá manni sem er í vinnu hjá fyrirtæki sem hefur hlaðið undir eiganda sinn árum saman. Sá maður hefur verið í baráttu fyrir frelsinu og eftirlitsleysinu allan tímann til að geta stundað sín viðskipti. Verið í slag við bæði löggjafann og framkvæmdavaldið. Heimsku stjórnmálamennina sem létu plata sig. Stjórnmálamennina sem nú er sagt að hefðu átt að stoppa ósómann. Hvað hefðu þessir hlutlausu fjölmiðlar sagt ef það hefði verið reynt. Kannski talað um pólitískar hefndir og annað í þeim dúr. það er nefnilega vandlifað…

þeir sem halda því fram að fjölmiðlar hafi ekki reynt að veita stjórnvöldum aðhald hafa ekki fylgst með. Þeir hafa ekki gert neitt annað. Reyndar af sérstakri yfirborðsmennsku sem oftar en ekki hefur snúist það með hverjum er haldið. Og þegar þú færð laun frá einum þá heldurðu víst ekki með hinum.

þasð er mergurinn málsins þó vissulega megi endalaust deila á augljósan skort á fagmennsku og reynslu. Til þess að fjölmiðlun verði sjálfstæð og eðlileg verður að setja lög um eignarhald og tryggja viðgang einkarekinna fréttamiðla eins og þess ríkisrekna.

Hér eru bara til lög um einn miðil og það er rúv og þau ólög tryggja bara enn frekar í sessi yfirburði þess miðils. Það er engum hollt og allra síst rúv sem má svo búa við ásakanair um að vera handbendi stjórnvalda ofan í kaupið.

Kannski er ekki við því að búast að í okkar mjög svo ófullkomna þjóðfélagi séu fjölmiðlar í hæsta klassa. Það væri nánast stílbrot. Á þessum tímum hefðum við þurft öfluga og sjálfstæða fjölmiðla sem gætu veitt alvöru aðhald.

Ekki bara stjórnvöldum því ég bara veit ekki hvað ætti að hafa komið í veg fyrir að Sigmundur og félagar hefði veitt þeim aðhald, heldur líka viðskiptalífinu en ég veit vel af hverju þeir gátu ekki veitt þeim aðhaldið sem þeir ekki fengu.

Af hverju var Ólafur Ragnar ekki boðaður til þessa fundar? Hann hefði átt þarna fullt erindi enda stöðvaði hann lög um eignarhald á fjölmiðlum til að vernda hagsmuni….

Hverra?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.11.2008 - 14:11 - 3 ummæli

Skúrkarnir sleppa.

Egill Helgason setti fram þá kenningu að Hanesi Smárasyni hafi hugsanlega verið umbunað fyrir að taka að sér að verða blóraböggull þeirra útrásarvíkinga. Eitt er víst að hvort sem það var gert með samþykki Hannesar eður ei að þá hefur tekist að gera hann að holdgervingi spillingar.

Og hann á allt skilið sem um hann er sagt en frá mínum bæjardyrum séð var hann peð. Peð sem Jón Ásgeir og félagar fórnuðu þegar allt fór fjandans til. Engu skiptir hvort menn tala um viðskiptin með Sterling eða rekstur FL group/Stoða eða Baugs. Eða Icelandair áður. Eða…..

Allt í kring og alls staðar er sami maðurinn aðalsöguhetjan í bakgrunninum. Maðurinn sem er með aurana og er oftast formaður stjórna félaganna og ber því mesta ábyrgð á rekstrinum. Ræður forstjóra og rekur og tekur grundvallar ákvarðanir. Leggur línurnar og ræður för.

Þessi maður heitir Jón Ásgeir. Hef ekki tölu á því hvað maðurinn sat og eða situr í mörgum stjórnum. Og varla dettur nokkrum manni í hug að hann komi ekkert að ákvörðunum þeirra fyrirtækja sem hann og hans fólk á meirihluta í.

Hann segist hafa komið inn í stjórn Stoða um síðustu áramót og tekið til við að skera niður stjórnunarkostnað. þvílík ósvífni. Stoðir/Fl group eru fyrirtæki í hans eigu. Rúmlega 6 000 milljóna kostnaður á örfáa starfsmenn árum saman var ekkert að koma flatt upp á Jón nú um áramótin.

þeir eru kræfir þessir menn. Litli Björgólfur heldur því fram að hann hafi bara ekki ráðið neinu um rekstur Landsbanka vegna þess að bankanum sé svo þröngt skorinn stakkurinn af eftirlitsstofnunum. Á sama tíma tala menn í bankanum um að skortur á aðhaldi og eftirliti hafi verið málið.

Þetta er allt meira og minna gleypt hrátt í fjölmiðlum hér. þeir sem hafa vogað sér að benda á þetta árum saman hafa að jafnaði verið úthrópaðir og eru jafnvel enn. Þetta var allt pólitík…

Flettum nú ofan af þessum mönnum og drögum þá til ábyrgðar og hættum að gapa af aðdáun þegar þeir ljúga að okkur ítrekað. Þeir geta ekki vísað á neinn. Eins og ég sé þetta þá standa þeir á berangri og svívirðan blasir við þeim sem vilja sjá.

En við erum svo upptekin af því að berja á stjórnmálmönnum að við gleymum gerendunum sjálfum. Þeir kenna reglum ESB um að þeir svindluðu. Næst hlýt ég að geta kennt bankanum mínum um að hafa lánað mér svona mikinn yfirdrátt. Vel kann að vera að reglur bankans um útlán hafi verið of sveigjanlegar en ég ber þó fjandakornið ábyrgð í mínum eigin gjörðum og ákvörðunum.

það eiga þessir menn að gera líka. Ekki bara Hannes Smárason. Hann var ekki aðal. Nú er mál að við beinum sjónum okkar að kóngunum og sér í lagi Jóni Ásgeir. Hann er nefnilega kóngur eins og við sjáum aftur og aftur. Ekki bara er siðferðið á viðskiptasviðinu laskað heldur er virðing hans fyrir úrskurðum dómstóla lítil.

Hversu lengi ætlum við að láta bjóða okkur þetta? Fórnarkostnaðurinn er nefnilega miklu meiri en bara einn Hannes. Reikningurinn er á leiðinni og við ætlum að láta skúrkana sleppa af því okkur finnst svo gaman að lemja á ríkisstjórninni.

Við skulum ekki snuða okkur um það en kíkjum nú á þessar alþýðuhetjur okkar líka því stjórnmálamenn munu fá það sem þjóðin vill á endanum. Útrásarhetjurnar eru að sleppa létt með fangið fullt af aurum….

Sem börnin okkar eiga eftir að borga…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.11.2008 - 13:10 - 4 ummæli

Enn og aftur um Steingrím….

það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að skrifa einn ganginn enn um Steingrím J og VG. Mér sýnist í fljótu bragði sem þessu tæplega 30% flokkur, ef marka má skoðanakannanir, sé að mestu algerlega liðónýtur þegar kemur að því að stunda stjórnsýslu.

Enn tuður æðstipresturinn yfir því að yfirvöld eru að reyna að koma undir okkur fótunum aftur. Blessaður maðurinn lætur eins og um fjölmargra góða kosti sé að ræða.

Við höfum vondan málsstaða að verja og höfðum allan tímann. það er auðvitað á mörkum þess siðlega að ætla að verja innistæður sumra en ekki annarra. Við bara föttuðum það ekki enda þjóðaríþrótt hér að gera þetta svona. Aðrar þjóðir tóku þetta ekki í mál.

Og þegar það gerðist áttum við enga kosti aðra en að standa okkar pligt. Þeir sem nú æpa hæst á aðild að ESB ættu að fagna, því ef við hefðum haldið því til streitu að standa okkur ekki hefði verið þrautin þyngri að komast í ESB ylinn enda regluverkið okkar ættað frá Brussel.

Hvernig væri nú að fjölmiðlar þessa lands settust nú niður með þessum óánægjumanni og bæðu hann að útlista fyrir okkur hvernig hann tæki á vandanum. Í þeirri stöðu sem nú er upp kominn skiptir akkúrat engu hvað honum hefur fundist um það sem gerðist undanfarin ár.

Núna þurfum við að fá að vita hvað hann vill gera. Ekki bara hvað hann vill ekki gera. Í þeirri stöðu sem við erum í núna er ekkigera stjórnmál nánast landráð. Kannski þurfum við annað fólk en núna er við stjórnvölinn.

En alveg er öruggt að það fólk er ekki Steingrímur J og félagar. Ég skora á fjölmiðla að pressa upp úr Steingrími hvað hans aðgerðaleysi myndi þýða fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið til lengri tíma.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.11.2008 - 15:31 - 3 ummæli

Patentlausn og það strax.

Hann er stór hópurinn sem heldur að ráðamenn okkar séu dusilmenni sem ekkert eru að gera. Enda fjölmiðlar fullir af fólki dag eftir dag sem hefur lausnirnar sem reynast síðan handónýtar við nánari skoðun.

Iss þetta er ekkert mál. Fáum bara peninga hjá gjaldeyrissjóðnum og málið reddast. Nú eða Rússum eða jafnvel Kínverjum. Norðurlandaþjóðirnar láta okkur svo líka hafa aur og allt verður gott.

Svo eru þeir að koma upp núna sem geta reddað málinu á viku! Tökum bara upp Evruna og þá verður þetta ekkert mál. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að halda að nú sé til einhver patentlausn. Það er Íslenska aðferðin.

Svo er skammast yfir því að ekki birtist einhver ráðherra daglega og segi við okkur að allt verði nú gott. Best væri ef allar upplýsingar lægju á borðinu frá einni klukkustund til annarrar.

Við eigum reyndar einn svona ráðherra. Hann Össur okkar sem er skemmtilegasti ráðherrann svo af ber. Hann rýkur til og lofaði okkur 1 000 milljörðum um leið og REY hugmyndin komst á rekspöl. Nú er það olían. Þetta er allt gott og blessað en ekki sérlega ábyrgt.

Betra er að tala þegar hlutirnir eru klárir. Nú eru ráðamenn lika skammaðir fyrir að lánið sem þeir töluðu um að kæmi sé ekki komið. Hefðu kannski betur þagað! Samt voru fulltrúar gjaldeyrissjóðsins sjálfir búnir að segja á fundi hér að allt væri meira og minna klappað og klárt.

Kannski er bara verið að greiða úr flóknum stöðum sem breytast dag frá degi alveg án þess að þær breytingar sé kokkaðar upp hér. Engin ástæða hvorki til þess að vekja upp falsvonir eða hræða. Róleg og yfirveguð skilaboð eru málið en ekki popúlismi.

Fólk hittist niðri í bæ vikulega núna og heimtar breytingar. Væntanlega kosningar. það væri snilld, fá stjórnarkreppu ofan í allt annað. Engin önnur stjórn mun gera þetta betur eða öðruvísi.

Við trúm því líka að með því einu að lýsa því yfir að við ætlum í aðlildarviðræður um inngöngu í ESB að þá muni allt lagast. Engin möguleg stjórn er sjáanleg í kortunum sem er tilbúin í það núna. Kosningar eru því óþarfi og leysa ekkert.

Patentlausna þjóðin lætur ekki að sér hæða. Gerir sér ekki grein fyrir þvi að við höfum slæman málsstað að verja og ríkistjórnin virðist hrekjast undan í vonlitilli tilraun til að reyna að komast undan ábyrgð. Ábyrgð sem umheimurinn allur virðist á einu máli um að við losnum ekki undan.

það eru engar góðar fréttir greinilega og mér sýnist mjög margt af því sem hérlendir fjölmiðlar hafa étið upp ef erlendum vera getgátur einar.

það verða engin töfrabrögð sem redda okkur núna. Hvorki stjórn né stjórnarndstaða munu galdra okkur á þurrt land. En menn geta verið handvissir um að unnið er nótt og dag við að finna leiðina þó það sé ekki gert í beinni.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.11.2008 - 20:30 - 4 ummæli

Gjaldeyrinn heim.

Okkur vantar gjaldeyri. Og það snarlega því ef ég hef trausta heimildarmenn þá er gjaldeyrir seðlabankans hreinlega að verða uppurinn. Varla þarf að ræða hvað það þýðir ef rétt reynist.

Á meðan sitja útgerðarmenn og fleiri á gjaldeyri sínum erlendis og koma ekki með hann heim. Þrýstingur á að menn sýni ábyrgð og komi með þessa peninga heim hlýtur að fara að aukast.

Og kannski ekki alveg ólíklegt að þær raddir sem vilja hreinlega hætta að notast við kvótakerfið verði háværari og fleiri. Hugsanlega ætti bara að fara að hóta útgerðinni að það muni gerast ef þessi leikur heldur áfram. Öllu skipt upp og gefið upp á nýtt.

Ég þekki fólk sem hingað til hefur ekki mátt heyra á þetta minnst ræða þetta af alvöru nú þegar menn þykjast sjá þessar tilhneigingar….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.11.2008 - 13:08 - 14 ummæli

Er ESB með ofbeldi í okkar garð?

Nú les maður að ráðherrar ESB séu að reyna að kúga smáþjóðina til að borga skuldir einkafyrirtækja í löndum ESB. Reglur ESB gerður reyndar ekkert til að koma neinum böndum á bankana eins og við vitum öll.

Bretar og Hollendingar virðast vera með gjaldeyrissjóðinn í skrúfstykki. Stórþjóðirnar hika ekki við blanda málum sínum saman við faglega umsókn okkar um lán.

Nú gæti liðið hratt að ákvörðuninni. Um það hvort við látum vaða og reynum að fara í ESB eða snúum okkur annað eftir bandamönnum. Ég er ekki viss um þvinganir ESB og Breta og Hollendinga eigi eftir að verða vatn á myllu aðildarsinna.

Spennandi tímar…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur