Mánudagur 10.11.2008 - 11:35 - Rita ummæli

Eru stjórnvöld alltaf heimsk?

Það er þetta með eðli hlutanna. Liggur það bara í eðli hlutanna að hagfræðingar sem vinna hjá seðlabankanum séu að jafnaði á annarri skoðun en aðrir hagfræðingar? Man varla eftir öðru en að hagfræðingum bankans hafi verið mótmælt hátt og snjallt áratugum saman af hagsmunaaðilum.

Fjölmiðlar eru stútfullir af hagfræðingum og öðrum sérfræðingum sem fullyrða að stjórnvöld og seðlabanki séu að steypa okkur í glötun. Lausnin blasir við öllum öðrum en þeim sem stjórna hvar sem niður er borið í stjórnkerfinu.

Ef lausnin er að skipta um mynt á viku eins og hagfræðingur einn fullyrðir að sé ekki bara skynsamlegt heldur beinlínis auðvelt og fljótlegt, af hverju er það þá ekki gert? Vinna bara hálfvitar hjá hinu opinbera? Fólk sem veit ekki neitt og vill okkur hið versta? Vantar ekki eitthvað í þessa jöfnu?

Fyrir marga vantar ekkert. Þeir hafa hatrið á Davíð til að styðjast við. En dugar það? Varla getur hann haldið Samfylkingunni og öllum fulltrúum í bankaráði í faglegri og pólitískri gíslingu þó geðveikur sé.

Ég man varla eftir því að fjölmiðlar hafi getað haft upp á einum einasta sérfræðingi sem hefur stutt aðgerðir seðlabankans og stjórnvalda. Hvort það er matreiðsluaðferð þeirra sem þar ræður eða bara að engir slíkir finnist veit ég ekki.

Hitt veit ég að mér gengur illa að trúa því að þeir sem ákvarðanirnar taka séu illa innrættir. Samvinna við erlend stjórnvöld og sjóði daglegt brauð en samt ekki hægt að taka almennilegar ákvarðanir handa okkur. það eru bara þeir sem ekki ráða sem hafa lausnirnar.

Meirihluti þjóðarinnar vill ESB og evru. Hann vill líka afnema verðtrygginguna. Hann vill losna við Davíð. Hann vill meiri upplýsingagjöf. Hann vill kosningar. Og hann vill svo margt sem þeir sem ráða hlusta ekki á.

Hvernig stendur á þessu? Eru ráðamenn heyrnalausir eða bara hreinlega óheiðarlegt fólk sem vill illa? Varla, enda væru það mikil vonbrigði fyrir þann mikla meirihluta sem kaus núverandi stjórnarflokka. Verður til einhver sjálfvirk tregða hjá valdhöfum sem birtist þannig að aldrei er hvikað frá ákvörðunum sama hversu vitlausar sem þær reynast?

Er það málið? Misskilið stolt og þrjóska. Ætli þetta sé þá fjölþjóðlegt fyrirbrigði því fá stjórnvöld virðast hafa staðið sig í bankastykkinu og lenda nú í sömu súpunni og við þó kostnaðurinn sé víðast viðráðanlegur. Heimsk stjórnvöld sofa á verðinum á meðan þeir sem ekki stjórna segjast hafa séð þetta allt fyrir, og hafa lausnirnar sem þessi heimsku yfirvöld geta ekki komið auga á.

Er þetta kannski lögmál? Hæfasta fólkið vinnur kannski ekki hjá ríki og sveitarfélögum. Ég skil vel tregðuna hjá yfirvöldum að láta ekki þrýstihópa stjórna frá degi til dags. Núna er staðan þannig að þrýstihópurinn sem vill evru er eiginlega orðinn nánast allt atvinnulífið.

Ef lausnin á öllum okkar vanda liggur í því að taka hana upp með öllum ráðum á skömmum tíma af hverju er það ekki gert? Eru góðar ástæður fyrir því? þekki það ekki nógu vel en þekki það ekki heldur hvort lausnin svona augljós og auðveld.

Mér finnst vanta að stjórnvöld verji hendur sínar. Segi mér af hverju þetta en ekki hitt. Seliji mér það betur að bestu ákvarðanir séu teknar að vandlega yfirlögðu ráði eins og ég er viss um að sé reyndin.

Stjórnvöld eru að verða eins og hæstiréttur. Þegja bara í fullvissunni um að hafa rétt fyrir sér. Og að „þurfa“ ekki að rökstyðja það frekar. Þar er ég ósammála.

Nú þurfa stjórnvöld að snúa vörn í sókn og fara í grendarkynningu á starfi sínu. Annars verða þau kafffærð varnarlaus af sérfræðingum utan kerfisins sem hafa lausninar. Eða hvað?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.11.2008 - 12:10 - 11 ummæli

Ekki kenna veginum um.

það er gaman að hlusta á Jón Baldvin. Skeleggur og fluggáfaður. Talar af ástríðu og langoftast virkar hann mjög sannfærandi. Við erum þó að jafnaði ekki sömu skoðunar…

Hann var í útvarpinu í morgun að verja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þær reglur sem þar gilda en þær reglur eru einmitt reglurnar okkar. Frelsi í viðskiptum og frjálst fjármagnsflæði og þess háttar.

Hann líkti þessu við að lagður yrði vegur með akreinum til beggja átta til að auðvelda mönnum umferð. En þvertók fyrir að nokkurn tíma yrði hægt að kenna þeim sem lagði veginn um glæfra og eða glæpaakstur þeirra sem um veginn færu.

þarna komst hann vel að orði blessaður. því þó vegurinn sé lagður og ekki hægt að koma algerlega í veg fyrir að menn fari óvarlega þá er það varla veginum um að kenna menn hagi sér eins og bjánar. Ekki frekar en að innflytendur eiturlyfja geti með nokkru móti komið sér undan ábyrgð á eigin gerðum með því einu að benda á að eftirlit með landamærum sé svo gloppótt að þeir hafi hreinlega ekki komist hjá því að gera þetta.

Gerum við götin sem komu í ljós þegar misgráðugir bankamenn tóku sig til en látum þá ekki komast upp með að kenna öðrum um. þeir óku eins og brjálaðir menn um veginn sem lagður var.

það er ekki veginum að kenna. Jón Baldvin orðar þetta best…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.11.2008 - 12:41 - 13 ummæli

VG hendir reikningunum.

það er engu logið upp á VG. Steingrímur aðal birtist okkur grautfúll yfir því að stjórnvöld reyni að bjarga okkur frá hörmungum. Hann er á móti eins og alltaf og mun væntanlega minna okkur á það eftir 12 ár að hann hafi nú verið á móti skuldsetningu ríkissjóðs. þannig póltíkus er hann.

Eftir höfðinu dansa lirmirnir stundum og í dag ætla ungir VG liðar að bjóða til samkvæmisleiks. Fólki býðst nefnilega að henda reikningum sínum í ruslið fyrir framan þinghúsið. Sniðugt, og þá eru þeir væntanlega úr sögunni. Svo hjálpar svona auðvitað í þeirri uppbyggingu sem nauðsyn er. Í besta falli misheppnaður brandari.

Ef þetta er nauðsynlegt af hverju er þá ekki mótmælt við bankana? Þetta minnir á vörubíla mótmælin um daginn. Sökudólgar látnir í friði en nördast í stjórnvöldum. Það var ekki pólitísk ákvörðun að losa menn undan ábyrgðum.

Muna svo bara að eyða reikningunum út úr heimabankanum líka. Þá erum við orðin eins og fólkið sem við erum svo reið út í.

Ég kemst ekki…..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.11.2008 - 09:38 - 7 ummæli

Þrískiptingin..

Katrín Jakobsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru í viðtali um daginn sammála um að alþingi væri hálflömuð afgreiðslustofnun fyrir ráðherra og ráðherra frumvörp væru einu frumvörpin sem fengju afgreiðslu þingsins. Þetta fannst þessum ágæti þingkonum ótækt og lái þeim hver sem vill.

Þær ræddu um hvernig mætti breyta þessu. Nefndu breytta vinnutilhögun og fleira gott en ekki það sem er augljósast. Sjálfstæði þings gagnvart framkvæmdavaldinu er í dag ekkert. Framkvæmdavaldið setur okkur lög og reglur. Þingmenn rétta svo upp hendur þegar við á. Ráðherrarnir skunda svo út í bæ að vinna eftir reglunum sínum.

Þetta er og hefur alltaf verið ótækt. Þingið á ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir stjórnvöld. Þingið er löggjafasamkoma sem á að setja stjórnvöldum leikreglur. Við kjósum fólk til þings í þeim tilgangi. Til að setja lög en ekki til að framfylgja þeim. Dómstólar sjá svo um að lögum sé fylgt. Þrískipting valds.

Hér hjá okkur er þetta ekki þannig. Ráðherrar, framkvæmdavaldið, setur sjálfu sér reglurnar. það er vandinn sem þær stöllur ræddu. Þetta er grunnvandinn. Engu mun breyta þó við reynum að bæta verklag í þinginu. Þetta system er bara þannig að það mun alltaf virka illa.

Þess vegna var þrískiptingin sett í stjórnarskrána. það var ekkert djók eða vanhugsuð aðgerð. Og núna þegar margir tala um allsherjar uppstokkun á kerfinu er gráupplagt að skoða nú þennan þáttinn.

Og tryggja að þrískipting valds verði ástunduð svo stjórnvöld, framkvæmdavaldið, á hverjum tíma geti ekki farið fram án aðhalds þings og þjóðar. Og sett sjálfu sér leikreglurnar. það var aldrei meiningin.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.11.2008 - 19:41 - 5 ummæli

Rífa nú fram fjölmiðlafrumvarpið.

Margt er skrýtið í kýrhausnum. Mér hefur verið tíðrætt um það lengi að við verðum að passa upp á fjórða valdið, fjölmiðlana. Nú er kominn upp staða sem ekki má koma upp. Stórlega varasamur fýr hefur eignast allt heila klabbið. Allir virðast sjá að það er óhæfa.

Verulega er skemmtilegt að fylgjast með fólki sem barðist hér með oddi og egg gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sinum tíma. Andstaðan gegn því þá snérist auðvitað ekki um neitt annað en pólitíska andúð á Davíð. Þingið var sátt og þverpólitíkst.

Málflutingur andstæðinganna snerist meðal annars um að frumvarpið væri sett til höfuðs Jóni Ásgeir. Líklega eitthvað til í þvi enda hann sá maður sem mest átti og á enn. Frumvarpið snérist um grundvallaratriði en ekki persónur. Persónurnar sem voru í yfirburðaaðstöðunni héldu öðru fram og kannski eðlilega. Hagsmunirnir lágu bara þannig. Frumvarpinu var ætlað að koma í veg fyrir slysið sem nú ríður yfir. Fikniefnainnflytendur gætu með sömu hundalógík kvartað yfir þvi að löggjöf um innflutning á eiturlyfjum snérist gegn þeim!

Rukkum nú forsetann og einkaþotufarþegann Ólaf Ragnar um hvernig honum lýst á stöðuna. því jafnvel þó kjölturakkar eins og Reynir Traustason telji það litlu máli skiptir hver á fjölmiðla þá fullyrði ég að það skiptir eiginlega öllu máli. Af hverju halda menn að þessir atvinnubraskarar telji sig þurfa að tapa þúsundum milljóna árlega á þessu eignarhaldi?

Við erum nú að drölsa þessu liði út úr bönkunum okkar og nú er kominn tími á að löggjafinn taki aftur upp fjölmiðlafrumvarpið og tryggi að þessir menn stjórni ekki allri umræðu hér áfram. kannski er einhver von til þess að fólkið sem taldi öllu fórnandi á sinum tíma til að koma höggi á Davíð geti látið þetta þjóðþrifamál ganga fram.

Einhverjir munu nú, eins og síðast, rjúka til og minna mig á að hér hafi Mogginn verið með yfirburðastöðu lengi og ekkert hafi verið gert þá. Röksemdin um að óréttlætið hafi verið lengi við lýði og því sé eðlilegt að viðhalda því fellur kylliflöt hvernig svo sem hún verður krydduð pólitískt og snædd.

Hugsanlega dettur ábúandanum á Bessastöðum ekki lengur í hug að þjónusta vini sína aftur eins og síðast. þetta mál hefur aldrei snúist um stjórnmál þó embættisfærsla Ólafs hafi svo sannarlega gert það. þann blett þvær hann ekki af sér héðan af.

Skaðinn ætti að vera öllum ljós…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.11.2008 - 17:01 - 5 ummæli

Fjölmiðlafarsinn fullkomnaður.

Ég vill óska þjóðinni til hamingju með að Jón Ásgeir hefur nú eignast alla fjölmiðla landsins að ríkisútvarpinu undanskildu. Jafnvel þó menn þjáist heiftarlega af ofnæmi fyrir Davíð þá hljóta menn að sjá að þetta er fullkomlega fáránlegt og snýst ekki um stjórnmál.

Er ekki einu sinni viss um Berlusconi hafi þessa stöðu í hinni gerspilltu Ítalíu. Þeir sem harðast fagna þessu eru eru svo pikkfastir í pólitískri fötlun að engu tali tekur. það að menn í stöðu Jóns Ásgeirs geti ráðið því hvernig fjölmiðlun er er grafalvarlegt mál í prinsippinu. Við höfum öll horft upp á hvernig fréttastofan hans hefur verið nánast ónýt undir hans eignarhaldi.

Engu betra væri ef Björgólfur kæmist þessa stöðu. Þetta er hvergi leyft hjá siðuðum þjóðum. Enda búa ekki allar þjóðir að forseta eins og við hér. Veit ekki hvort vó þyngra þegar hann tók að sér að taka fram fyrir hendur á þinginu sem var kosið til að setja okkur reglur, pólitískt eðlið eða vinargreiði við gamla samherja og vini. Sagan mun ekki fara fögum orðum um þennan gjörning.

Eftir sitjum við í súpunni með einn aðal útrásarvíkinginn rétt nýbúinn að setja okkur á hausinn kominn með öll spil á hendur. Hann er ekki af baki dottinn blessaður og snarar hér fram einhversskonar gjaldmiðli til að ná þessu til sín. Hvort það eru aurar eða ekki aurar veit ég ekki.

Skipti lítlu. Ef að líkum lætur mun einhver annar borga á endanum…..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.10.2008 - 09:28 - 9 ummæli

Rúv burt af auglýsingamarkaði.

Páll Magnússon ríkisútvarpsstjóri er borubrattur. Eins og áður búin að steingleyma því hvernig er að reyna að standa í samkeppni við ríkisfyrirtæki. Nú er hann nebbla réttu megin við óréttlætið.

Hvaða réttlæti er í því að ríkið þjösnist á einkaaðilum sem eru að reyna að reka fjöliðmla í þessu landi eins og gert er með rekstri rúv ohf? Fullkomlega óþolandi að lesa um uppsagnir hjá 365 og skjánum á meðan blaðskellandi starfsmenn ríkissins framleiða niðurgreidda dagskrá alla daga. Og selja auglýsingar í leiðinni með undirboðum og alles.

Stöndum endilega vörð um ríkisútvarpið ef við teljum nauðsynlegt að ríkið sé í þeim bransa. En gerum það ekki þannig að mismunun eins og nú er stunduð komi í veg fyrir að aðrir geti verið á markaðnum. Splæsum þessu á okkur á fjárlögum eða með skattheimtu en ekki með þessu óréttlæti sem nú viðgengst.

Burt af auglýsingamarkaði og það strax. Það getur enginn unnið í þessu umhverfi eins og við sjáum núna. Nema Páll Magnússon. Hann nýtur lífsins með hærri laun en fjölmargir mikilvægir starfsmenn ríkissins. Og man nú ekki í hverju óréttlætið er fólgið.

Kippum þessu nú snarlega í liðinn. þetta snýst ekki um hægri vinstri stjórnmál. Þetta snýst einfaldlega um lágmarks sanngirni.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.10.2008 - 09:24 - 10 ummæli

Molbúarnir gapa af aðdáun.

Loksins þegar feðgarnir fégráðugu skríða undan feldinum og þora að horfast í augu við fólkið sem treysti þeim fyrir peningunum sínum þá vantar ekki að menn neita að taka ábyrgð á viðskiptum sínum.

Bjöggarnir eru með sama sönginn og Jón Ásgeir. Vandinn lá að sjálfsögðu í því að ekki var hægt að fá meiri peninga að láni og nú að þessu sinni frá skattgreiðendum hér heima. Þessi menn hafa byggt allt sitt upp á því að fá meira og meira að láni.

Hvenær fá menn hér nóg af þessari þvælu? Átti seðlabankinn bara að hlaupa til og henda ótrúlegum upphæðum á bálið? Bál sem ekkert benti til að myndi slokkna við það að kasta peningum á það. Frekjan og græðgin á sér engin takmörk.

Einu bankamennirnir sem kunna sig núna og reyna ekki að spila á lægstu pólitísku hvatir landans, með fínum árangri, eru kaupþingsmenn. þar á bæ ýmist þegja menn eða reyna að axla þó ekki væri nema hluta ábyrgðar.

Hvoru tveggja er rismeira en þessi fáránlegi málflutningur sem við horfum upp á dag eftir dag. Nú er orðið tímabært að við hættum að láta þetta mál snúast um seðlabankann og pólitík. Þetta snýst um það hvernig þessi menn ráku sín fyrirtæki og ábyrgð þeirra.

Hvernig þessir menn hafa sópað til sín peningum fólks og skammtað sjálfum sér ríkulega og vonandi eru sögurnar sem nú ganga um það hvernig þeir umgengust bankana síðustu klukkutímana ekki sannar. En þó þær væru sannar tækist þeim hugsanlega að skrifa það á seðlabankann.

Við erum ótrúlegir molbúar. Við snobbum fyrir þessu liði og látum hafa okkur að fíflum. Virðing fyrir fólki sem annað hvort lítur út fyrir að eiga peninga eða á þá er hér barnaleg. Dettur engum í hug að þessir menn séu ekki að tala af hlutleysi um eigin mál???

Talar Thor um sjálfan sig og sitt klúður eins og óháður sérfæðingur? Voru það sérstakir hagsmunir seðlabanka að setja bankana á hausinn eða voru þessir kallar búnir að keyra skútuna á kaf með þeim hætti að ekki varð neinu bjargað?

Hvar annarsstaðar reyna bankamenn að kenna öllum öðrum um en sjálfum sér? Ábyrgðin er engin! Það þarf meira en lítinn vilja til að trúa þessu. Pólitísk fötlun hjálpar vissulega til en dugar varla ein og sér.

Hættum nú að gapa af aðdáun þegar þessir aðilar opna munninn þó þeir eigi einkaþotur og fótboltafélög erlendis. Tökum á þeim með gagnrýnum huga og látum ekki pólitík blinda okkur. Mig skiptir nákvæmlega engu máli hvað Jón Ásgeir, Bjöggarnir eða kaupþingsliðið kýs í kosningum. Framkoma þeirra og aðferðir eru ekki stjórnmál. Jafnvel þeir sem telja að það sé reglunum að kenna að menn haga sér svívirðilega hljóta að geta seð að þessir menn eru ekki í stjórnmálum.

Gleymum því ekki í miðju þrasinu að kalla þessa menn til ábyrgðar. Og hættum að gapa af aðdáun þegar millarnir tala um eigin mál eins og hlutlausir sérfræðingar. Smáborgarahátturinn hér er stundum algerlaga fáránlegur.

Kannski eigum við þessa menn skilið…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.10.2008 - 12:39 - 6 ummæli

VG.

Fáir velkjast í vafa um það hvar ég er staðsettur í stjórnmálum. það kemur því ekki á óvart að ég finni mig knúinn til þess einn ganginn enn að skrifa um VG.

Forystumenn flokksins fjargviðrast núna út í stjórnvöld sem leggja nótt við dag til að bjarga okkur úr fpraðinu sem bankarnir komu okkur í. Ekkert þykir VG vera nógu gott og tortryggnin ræður algerlega för.

Steingrímur talar eins og við höfum um fjölmarga góða kosti að velja. Hitt nátttröllið, Ögmundur, skammast yfir því að stjórnvöld ætli að skuldsetja ríkissjóð án umboðs!

Ég veit sjálfur ekki hvaða umboð vinstri stjórnir síðustu aldar höfðu til að skuldsetja ríkissjóð en í þeirri stöðu sem nú er upp komin er ekkert annað í stöðunni. Um það eru að ég held allir sammála nema þessi tveir.

Ég var og er á móti, taktíkin þeirra verður til þess að þeir eru algerlega vonlaus valkostur þegar kemur að því að raða saman ríkisstjórnum. Þeir hafa alltaf hreina samvisku enda gerir þessi flokkur í raun ekkert. Annað en að vera á móti.

Til þess að VG verði valkostur þarf flokkurinn að losa sig við Steingrím og Ögmund úr forsvari. VG á nefnilega þrælefnilegan varaformann sem gæti fært flokkinn eitthvað inn í nútímann.

Þá verður kannski hægt að líta VG. Í dag er er þeir óravegu frá að vera nothæfur flokkur.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.10.2008 - 11:54 - 8 ummæli

Stækkum álverið.

Hvenær ætli verði bankað upp á hjá mér og mér boðið að skrifa upp á það að kosið verði aftur um deiliskipulag hér í Hafnarfirði? Þá gefst tækifæri til að leiðrétta fyrri kosningu sem kom í veg fyrir að álverið hér fengi þá stækkun sem lofað hafði verið.

Pólitískt hugleysið í Lúlla bæjó kom í veg fyrir að staðið yrði við loforðin. Nú er lag og ekki eftir neinu að bíða enda hefur þessi vinnustaður aldrei truflað nokkurn mann hvorki hér í Hafnarfirði né annarsstaðar.

Bíð með penna í hönd…

Röggi.

p.s. Ég bý á völlunum….

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur