það er ekki auðvelt að vera stjórnmálamaður. Skiptir í raun engu hvort um góða tíma er að ræða eða slæma. Nú eru slæmir tímar og bankar ramba á barmi gjaldþrots um allan heim. Útlitið er hreint ekki gott og krafan um að stjórnvöld geri eitthvað í málinu hefur verið hávær mjög.
Fjölmiðlamenn hafa farið hamförum undanfarnar vikur. Varla hefur liðið fréttatími án þess að einhver hafi ekki birst og kvartað yfir svefni ríkis og seðlabanka. Almennar og óbeinar aðgerðir hafa ekki þótt nægar og menn heimtað beinar og sjáanlegar.
Nú gerist það að Glitnir kemur til seðlabankans og nánast segir sig á sveitina. Ríkisstjórnin tekur þá ákvörðun að höfðu samráði við seðlabankann að bjarga bankanum frá því að fara í þrot. Gott mál hélt ég en ekki aldeilis….
Nú tala þeir sem áttu bankann um eignaupptöku og fara að tuða um að nú séu þeir að tapa peningum sem og aðrir hluthafar. Þeir vildu nefnilega fá lánaða peninga frá skattborgurunum og þá trúlega bara út á goodvillið!!. Þeir hafa rekið bankann í þrot þó ég viti að hluti af þvi er óheppni en samt hafa þeir rekið bankann í þrot.Útlán hafa verið þeirra ær og kýr. Innlán undantekning og aukábúgrein. Nú kemur það í bakið á þeim. Og að því er virðist algerlega í opna skjöldu.
það er bara þannig hjá mér og þér að þegar ég kem í bankann minn og bið hann um að bjarga mér frá gjaldþroti en að vísu hafi ég engar tryggingar fyrir peningum sem ég mun þurfa að þá verður svarið trúlega nei takk.
Telji bankinn hins vegar að það þjóni stórum hagsmunum að redda málinu getur hann að sjálfsgöðu keypt mig út úr veseninu. En það þýðir þá væntanlega að þeir sem voru hluthafar með mér í fyrirtækinu munu eins og ég tapa peningum. Það getur alls ekki verið seðlabankanum að kenna. Eins og segir í sögunni. Það skrifast alfarið á Glitni…
Þess vegna var frábært að sjá Sigmar í kastljósi kvöldsins hamast á forsætisráðherra vegna þess að Glitni var bjargað. Og ástæðan, jú Jón Ásgeir og félagar tapa svo miklu ásamt öðrum hluthöfum! Hvurslags rugl er þetta? Hvað hefði Sigmar blessaður sagt ef Glitnir hefði fengið þvert nei?
Stærstu hluthafar Glitnis hafa án efa haft betri yfirsýn yfir stöðuna en aðrir. Þeim er eðlilega vorkunn að tapa nú peningum en að reyna að gera seðlabankann og ríkisstjórnina að skúrki hér skil ég ekki. Miklu eðlilegra er að spyrja hvernig hefði farið fyrir fólki ef ekki hefði verið tekið vel í beiðnina.
Ég legg til að Sigmar og félagar fari frekar að leita eigendur bankans uppi og veiða svör og skýringar upp úr þeim í stað þess að fjargviðrast út í þá sem rétt björguðu okkur öllum frá enn meira tjóni en þessir aðilar voru búnir að koma sér og öðrum hluthöfum í.
Röggi.

Rögnvaldur Hreiðarsson