Föstudagur 22.8.2008 - 20:07 - 10 ummæli

Lýðræði Dags B.

Mikið er nú gott að nýr meirihluti er tekinn við í borginni. Hann er kannski ekkert sérstaklega nýr. Nú er nánast búið að endurnýja sambandið sem fór út um þúfur þegar mínir menn klúðruðu . Gömul saga…

Hún er líka gömul sagan um viðbrögð þeirra sem ekki eru í meirihluta. Upphrópanir og slagorðaflaumurinn magnaður. 15 menningarnir hafa hver um annan þveran eytt hálfu kjörtímabili í að reyna að ota sínum tota og komast sem næst því verða aðal. Flestir virðast hafa logið meira og minna á einhverjum tímapunkti.

Nú var komin upp staða sem bauð ekki upp á annað en nýjan meirihluta. Það er skylda þessara fulltrúa að mynda meirihluta. Lýðræðisleg skylda. Ekkert annað í boði, alls ekkert. Þeir sem geta og vilja mynda slíkan meirihluta eru því ekki að gera neitt annað en það sem þeim stendur skylda til. Alveg eins og félagi Dagur gerði þegar hann sjálfur laumaðist til að mynda kvartettinn sáluga.

Núna kallar hann þetta misnotkun á valdi og lýðræði. Þvílíkur vaðall. Stundum held ég að stór hópur þeirra sem sífellt hrópar á torgum um lýðræði skilji hreinlega ekkert um hvað lýðræði snýst. Hvernig getur meirihlutinn misnotað lýðræðið núna? Í hverju er misnotkunin fólgin?

Hvað er ólýðræðislegt við það að skipta um samstarfsaðila á miðju kjörtímabili? Hvaða vald er þar misnotað? Hvenær tapa stjórnmálamenn réttinum til að fylgja sannfæringu sinni? Eða að skipta um skoðun.

Lýðræðið er tryggt hér hjá okkur. Það liggur í kerfinu. Við kjósum okkur fulltrúa sem að afloknum kosningum rotta sig svo saman og mynda meirihluta ef svo ber undir. Slíkt samstarf er bara þannig að stundum getur slitnað upp úr því, af ýmsum ástæðum.

Þá stokka menn upp á nýtt. Og upphaflegu reglur lýðræðisins enn í fullu gildi. Fínt system segi ég en Dagur B Eggertsson skilur lýðræðið ekki svona.

Lýðræðið hans snýst um að hann sé aðal…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.8.2008 - 08:57 - 1 ummæli

Einn Framsóknarmaður eftir..

Enn og aftur gerist það. Heill flokkur ruglast í ríminu og yfirgefur einn aðila. Týnir stefnunni og tekur rangan kúrs með manni og mús. Og þá gerist það. Marsibil áttar sig á því að hún er eini Framsóknarmaðurinn sem eftir er. Hinir eru allir farnir.

Þessi saga endurtekur sig í hvert einasta skipti sem einhver finnur sig knúinn til að yfirgefa flokka. það að vera í flokki innifelur þann möguleika að meirihlutinn eða stofnanir flokksins geti ákveðið að færa víglínurnar til frá einum tíma til annars. þannig er það bara.

Þá getur það auðvitað gerst að einstaklingar finni sig ekki lengur í flokknum af prinsippástæðum. Og taki þá þann kostinn að yfirgefa skútuna. Þetta er algerlega eðlilegt og sanngjarnt gagnvart eigin samvisku og kjósendum. Hefði ég haldið…

En Marsibil eins og aðrir sem sem yfirgefa flokkana sína ætlar að halda sínu striki og mæta til vinnu sinnar enda þægileg innivinna. Ég veit vel að henni er það heimilt en er ekki eitthvað bogið við þetta?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.8.2008 - 08:52 - Rita ummæli

Vatnið sótt….

…yfir lækinn.

Nú er ég ekki KR ingur, öðru nær. Hef samt eins og allir sem fylgjast með fótbolta nokkurn áhuga á því félagi. þeir eru stórveldi. Ekki bara vegna þess að þeir tala um það ótt og títt heldur eru þeir stærsti klúbburinn og með glæsta sögu. Hellings business og fullt af peningum.

Þess vegna þola margir ekki félagið og gríðarmargir fagna þegar þeim gengur allt í mót. Ég missi ekki svefn þó KR tapi fótboltaleik en fyndist afleitt ef þeir færu niður. KR verður að vera í efstu deild. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu félagi og veit að fá félög búa við eins mikil fríðindi og verðmæti eins og KR hefur í sínu fólki.

Hann virkar þó undarlegur kúltúrinn hjá KR stundum. Hörkuleikmenn keyptir hægri vinstri og breytast þá miklu oftar en ekki í miðlungs. Treyjan sýgur einhvern vegin algerlega úr mörgum loftið, þeir lofttæmast. Hjá KR eru bestu bitarnir. Þeir kaupa sér lið reglubundið.

Harðneita að læra af reynslunni sem segir þeim að þessi aðferðafræði skilar ekki nógu miklum arði. Nú nýverið fengum við ljóslifandi sönnun þessa. Innkaupastjórinn komst á snoðir um að Bjarni Guðjónsson væri hugsanlega á lausu.

Bjarni er á góðum degi frábær leikmaður. Var í fyrra besti miðjumaður deildarinnar en náði sér ekki á strik þetta sumarið á Skaganum og vildi á endanum yfirgefa sökkvandi kjúklingaskítsskútuna sem pabbi hans stýrði með glæsibrag til þriðja sætis í fyrra.

Bestu lið deildarinnar fóru af stað. Mínir menn vildu fá kappann enda búnir að missa sinn besta mann af miðjunni. KR hafði vinninginn og til hamingju með það. En þá kom babb í bátinn…

KR vantaði alls ekki Bjarna Guðjónsson. Liðið þeirra var á fínu róli og það var ekki síst öflugri miðju liðsins að þakka. Jafnvægi liðsins raskaðist enda vandséð hvaða leikmaður á að detta út. Þjálfari liðsins hefur verið stálheppinn því menn hafa meiðst lítillega og þá hefur tekist að skutla drengnum inn á hingað og þangað.

þetta höfum við séð áður hjá KR. Ungir menn og sprækir settir til hliðar. Mér finnst sorglegt að horfa upp á kallgarminn þvælast í bakvarðarstöðum eða bara einhversstaðar. Síðast var Rúnar Kristinnson sóttur með látum og þá fór allt á sama veg.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.7.2008 - 09:49 - 4 ummæli

Er beiting valds alltaf misbeiting?

Ólafur borgarstjóri er ekki alltaf að gera gott mót. Honum virðist alveg fyrirmunað að ná hylli. Flest sem hann segir eða tekur sér fyrir hendur dæmist til að mistakast. Eins gott að hann varð ekki forseti borgarstjórnar eins og Dagur ætlaði honum!

Hann virðist njóta aðstöðunnar sem hann er í. Mínir menn eru í skrúfstykki og geta lítið aðhafst þó hann bulli. þannig gerast kaupin á eyrinni og þannig hefði það líka orðið hjá fyrri meirihluta nema reyndar að þá hefðu skrúfstykkin verið fleiri af augljósum ástæðum.

Hann liggur svo vel við höggi. Vinalaus og landlaus maður með fulla vasa af völdum. Svikari í hugum margra þó hann hafi í raun ekki gert neitt annað en það sem aðrir reyndu. Nefnilega að ota sínum tota…

Nú skipti hann út trúnaðarmanni i nefnd. það er gjörningur sem mér finnst ekki stórmál. Sígalandi minnihlutinn ærist. Ég spyr, má þetta ekki? Er konan ekki fulltrúi hans í nefndinni? þarf ekki að vera fullur trúnaður milli þeirra?

Hér finnst mér úlfaldi gerður úr mýflugu. Pólitískur rolugangur er plagsiður hér. Venjan er frekar sú að enginn axlar neina ábyrgð og fáir þora að taka af skarið. Nefndir skila af sér handónýtum meðalmennsku álitum sem ekkert gagn er að.

Við búum í litlu samfélagi og kannski þess vegna sem erfitt er að taka svona ákvarðanir. Nálægðin við einstaklinginn er svo mikil og margir vita að viðkomandi er öndvegis. En það er aukaatriði. Alveg eins og persóna borgarstjóra.

Af hverju er útilokað að ákvörðun borgarstjóra hafi eingöngu verið faglegs eðlis? Þarf valdhroki og mannvonska að koma við sögu? það að stjórnmálamenn beiti valdi sínu er ekki sjálfkrafa misbeiting valds. Stjórmálamenn sem þora að hafa skoðanir og standa við þær eru fátíðir.

Ég mun aldrei greiða Ólafi atkvæði mitt en ber þó virðingu fyrir því að hann þori að standa við sín prinsipp og velja sem trúnaðarmenn fólk sem hann treystir.

Hvernig getur þetta verið öðruvísi?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.7.2008 - 11:55 - 1 ummæli

Manngangurinn.

Í dag lærði ég mannganginn. Fór einu sinni sem oftar í heimsókn til pabba míns sem dvelur á Grensás. þar eru fótalausir og heilbilaðir saman í sátt. Menn eðlilega misglaðir eins og gengur frá einum degi til annars. Ég hætti alveg að finna til í hnénu…

Pabbi er að jafna sig eftir alvarlegt heilablóðfall. Gengur of hægt auðvitað en örugglega. Oft er hann hreinlega eins og hann á að sér að vera og þá gleymir maður veikindunum og afleiðingum þeirra.

Enda er það þannig að á Grensás er fólk bara heima hjá sér. Fólkið þar lifir lífinu eins vel og mikið og unnt er. Ég er hættur að horfa þó fóta eða handalaus heimilsmaður setjist við hliðina á mér og taki mig tali. Eða heilabilaður tali við mig á máli sem ég skil alls ekki.

Allt í einu bendir pabbi á taflborð og heimtar að tefla, eins og við gerðum iðulega áður. Þetta er í fyrsta skipti sem hann sýnir frumkvæði af þessu tagi eftir áfallið. Hann getur ekki lengur talað eðlilega og hann getur ekki telft. það vitum við…

Samt teflum við. Andlitið dettur af mér því karlinn er með sitt á hreinu. Hugsar mikið og einbeitingin er fullkomin. Einhver glampi í augum og hann nýtur sín. Skákin er í jafnvægi.

Svo flækist staðan og þá gerist það. Hann fer að gera mistök, ruglast á litum og telfir mínum mönnum og riddari verður peð. Á endanum tapa ég skákinni þegar hann drepur kónginn minn með sínum þvert yfir borðið.

Gleðin fölskvalaus. Við upplifum báðir fullnaðarsigur. Ég mun aldrei læra mannganginn í skákinni hans til fullnustu. En ég mun reyna af lífs og sálarkröftum. Hver ætlar að segja mér að þessi manngangur sé ekki réttur?

Hans aðferð er eina aðferðin og það í víðasta skilningi. Skákin heldur áfram og við sem teljum okkur gjörþekkja mannganginn verðum að halda áfram að tefla þó reglurnar breytist.

Fólkið sem býr með pabba mínum á Grensás er allt meira og minna að læra mannganginn upp á nýtt. Ég mun ekki skorast undan þegar pabbi skorar á mig næst. Á svo margt eftir ólært á skákinni hans.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.7.2008 - 22:33 - 9 ummæli

Ranglátur minnihluti.

Hver hefur áhuga á saving Iceland í dag? Mótmæla ofbeldi innfluttra aðila er fyrir lifandis löngu orðið hlægilegt. Aðferðirnar hafa alltaf verið lögbrot ef ég er spurður. Að ryðjast inn á vinnandi fólk í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir fullkomlega löglega hluti er bara hægt að kalla ofbeldi og vanvirðingu við lýðræðið.

Vörubíla mótmælin viðfrægu voru sama merki brennd. Og líka skrílslætin þegar nýjasta útgáfan af borgarstjórn Reykjavíkur tók við. Í öllum þessum tilfellum ryðst fólk fram í nafni lýðræðis en er í raun að skrumskæla það.

Ekkert yfirvald bannar mótmæli eða setur neinar skorður á tjáningu, öðru nær. Hnefarétturinn er bara fyrir löngu aflagður. Af hverju fólk telur nauðsynlegt að brjóta á öðru fólki um leið og það lýsir sig áánægt með löglegar ákvarðanir er mér fyrirmunað að skilja.

Hvað varð um virðingu fyrir ákvörðunum meirihlutans? Hver getur svipt meirihlutann réttinum til að taka heimskulegar en löglegar ákvarðanir? Anarkismi er í besta falli barnalegur.

Höldum okkur við grundvallaratriðin því aðeins þannig tryggjum við lýðræðislegar niðurstöður. Upphlaup sem beinast gegn því að lýðræðið nái fram að ganga á ekki að líða.

Réttláttur minnihlutinn verður annað hvort að andæfa löglega eða bíða næstu kosninga…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.7.2008 - 09:20 - 1 ummæli

Fánahylling.

Stundum erum við kaþólskari en páfinn, við Íslendingar. Tökum okkur mjög hátíðlega og höfum engan húmor fyrir okkur sjálfum. þetta held ég að sé einkenni á smáþjóðum, stundum.

Við erum stolt fólk og harðduglegt. Höfum böðlast frá örbirgð og vesöld á undrastuttum tíma. Höfum náð að gera okkur gildandi í samfélagi þjóðanna svo að eftir er tekið. Kassinn þrýstist út í loftið þegar við heyrum þjóðsönginn og berjum fánann okkar augum.

Enda fáninn okkar fallegasti fáni veraldar, er það ekki? Samt er það þannig að hann má eiginlega hvergi sjást. Nema á tyllidögum á fánastöngum við opinberar byggingar. það hef ég aldrei skilið. Af hverju má ekki flagga fánanum oftar og víðar? Danir nota fánann sinn ótt og títt. Danski fáninn sést út um allt, og þegar Danir vilja gera sér glaðan dag, og það gerist oft, þá flagga þeir gjarnan og skreyta húsakynni með fánanum. Hér er slíkt hugsanlega lögbrot en fyrir mér er þetta hylling.

Hér sett samasem merki milli þess að vilja nota fánann og að sýna honum óvirðingu. það skil ég varla. kannski þarf að finna einhvern milliveg ef hann er þá til. í dag er það talið merki um virðingu við fánann að nota hann helst ekki.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.7.2008 - 12:41 - 2 ummæli

ÍA rekur og ræður.

Starf þjálfara er ekki tryggasta starf í veröldinni. Árangur af vinnu þeirra ef eingöngu mældur í sigrum og stigasöfnun. Þannig er það þó stundum sé það ósanngjarnt. Og nú fékk Guðjón þórðarsson að fjúka.

það getur ekki komið neinum á óvart. Ég þekki til manna sem hafa unnið með Guðjóni og enginn efast um yfirburða þekkingu og kunnáttu hans í fótbolta þjálfun. Reynslu hefur hann yfirburða.

það bara dugar ekki alltaf. Neikvætt viðhorf hans og fyrirferð í minnsta mótlæti held ég að hafi ráðið því að allt fór í handaskol núna. Skortur á sjálfsgagnrýni og auðmýkt er eitthvað sem Guðjón á ekki til. Grunar að aggresívt andrúmsloftið hafi smátt og smátt étið upp alla gleði hjá liðinu.

Þá taka menn bara algerlega öfugan pól í hæðina og ráða til liðsins Arnar og Bjarka. Þeir eru án vafa algerlega á hinum enda skalans. Sókn er besta vörnin og gleði. Varla sama fagkunnáttan en þetta gæti svínvirkað, til skammst tíma hið minnsta.

Svo er þetta bráðgott fyrir FH því að mínu viti tóku þeir pláss í FH liðinu sem verður betur fyllt af öðrum. Hér gætu því allir grætt.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.7.2008 - 23:55 - 2 ummæli

Myndbandið um götustrákana.

Eins og margoft áður verð ég að leggja orð í belg. Hef allt frá þvi ég byrjaði bloggbröltið mitt bent á að hér vaða uppi menn um allt þjóðfélagið sem skara eld að sístækkandi köku sinni með aðferðum sem sagan mun dæma hart.

Myndbandið um FL group er enginn nýr sannleikur fyrir mig. Þetta eru staðreyndir sem hafa legið fyrir lengi. Þessi hópur manna hefur farið um sem stormsveipur og sópað til sín þúsundum milljóna sem þeir hafa látið félög sem þeir hafa keypt út og suður borga sér aftur og aftur.

Daglegt bruðlið er í raun smámál. Stöku 100 milljónir hingað og þangað í ráðgjafasporslur fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Hver tekur eftir því þegar milljarðarnir, milljarður er 1000 milljónir, fara að renna í hyldjúpa vasana. Og félögin skilin eftir í blóðugum skuldum. Og hverjum ætli blæði á endanum mest? Kannski mér? Nú eða þér???

Engar upplýsingar í þessu myndbandi eru nýjar en samt hefur ríkt undarleg þögn um þessa svívirðu, og ýmsa aðra sem þessir aðilar stunda. Lengi var Baugur í pólitísku skjóli. Það var þegar andstæðingar Davíðs sáu sér leik á borði og gengu í lið með Jóni Ásgeir og hófu að kenna Davíð um allt og ekkert. Upp frá því var Baugur stikkfrí og er það enn.

Þeir sem voga sér að tala illa um Baug og Jón Ásgeir eru vondir sjálfstæðismenn sem vilja verja Davíð! Trikkið gékk upp. Davíð er örugglega hitt og þetta en viðskipti Jóns Ásgeirs og félaga hafa bara ekkert með Davíð að gera.

Veit ekki hver vogaði sér að gera þetta myndband. Vona að sem flestir sjái það og geri sér grein fyrir því að þarna eru staðreyndir á ferð. Hætti að velta því fyrir sér hvaða bakgrunn þeir hafa sem koma með ásakanirnar og fari að snúa sér að því að fletta ofan af þessum mönnum sem hafa sópað til sín fleiri þúsundum milljóna árum saman og skilið allt eftir í rúst og skuldum sem þeir ætla sér ekki að borga.

Hannes Smárason er vissulega fallinn af stalli þó varla hafi hann fallið slyppur og snauður. En hver ætli sé nú aðal í þessum félagsskap? Hver hefur tögl og hagldir? Er aðaleigandi í flestum tilfellum og formaður stjórna.

Veit einhver hvað sá maður heitir?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.7.2008 - 20:02 - 2 ummæli

Guðmundur kemur til skjalanna..

það er auðvitað ekki fyrir venjulegan mann að skilja lætin sem nú eru í kringum starfslok Guðmundar þóroddsonar hjá OR. Allur almenningur er með það á hreinu að þegar þú lætur af störfum þá hefur þú ekkert að gera með gögn sem tilheyra vinnuveitenda sínum, fyrrverandi.

Guðmundur fetar svo í fótspor þórarins Viðars sem vann hjá símanum og heldur áfram að aka á bíl og nota bensínkort eins og ekkert hafi í skorist. Sá Guðmund á kastljósi áðan…

Þunglamalegur og ósympatískur með afbrigðum. Þekkir alls ekki muninn á orsök og afleiðingu. Telur það sanna sitt mál að vegna þess að nú sé að honum veist hafi það verið honum brýn nauðsyn að taka skjölin til varðveislu. Hér er öllu snúið á haus svo eftir hlýtur að verða munað. Hefði hann ekki tekið skjölin þá hefði enginn verið að „veitast“ að manninum.

Kæruleysislegt yfirbragðið virðist mér benda til þess að honum sé í raun alveg nákvæmlega sama um hvað öðrum finnst. Sléttsama um almenningsálitið, enda er það álit reyndar oft óskiljanlegt. Virkar eins og ofdekraður ríkisforstjóri úr fortíðinni.

Þreyttur og piraður á því að geta ekki bara farið sínu fram án þess að hinir og þessir séu með nefið ofan í hlutunum. Fulltrúi gamals tíma sem vonandi kemur ekki aftur..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur