Mikið er nú gott að nýr meirihluti er tekinn við í borginni. Hann er kannski ekkert sérstaklega nýr. Nú er nánast búið að endurnýja sambandið sem fór út um þúfur þegar mínir menn klúðruðu . Gömul saga…
Hún er líka gömul sagan um viðbrögð þeirra sem ekki eru í meirihluta. Upphrópanir og slagorðaflaumurinn magnaður. 15 menningarnir hafa hver um annan þveran eytt hálfu kjörtímabili í að reyna að ota sínum tota og komast sem næst því verða aðal. Flestir virðast hafa logið meira og minna á einhverjum tímapunkti.
Nú var komin upp staða sem bauð ekki upp á annað en nýjan meirihluta. Það er skylda þessara fulltrúa að mynda meirihluta. Lýðræðisleg skylda. Ekkert annað í boði, alls ekkert. Þeir sem geta og vilja mynda slíkan meirihluta eru því ekki að gera neitt annað en það sem þeim stendur skylda til. Alveg eins og félagi Dagur gerði þegar hann sjálfur laumaðist til að mynda kvartettinn sáluga.
Núna kallar hann þetta misnotkun á valdi og lýðræði. Þvílíkur vaðall. Stundum held ég að stór hópur þeirra sem sífellt hrópar á torgum um lýðræði skilji hreinlega ekkert um hvað lýðræði snýst. Hvernig getur meirihlutinn misnotað lýðræðið núna? Í hverju er misnotkunin fólgin?
Hvað er ólýðræðislegt við það að skipta um samstarfsaðila á miðju kjörtímabili? Hvaða vald er þar misnotað? Hvenær tapa stjórnmálamenn réttinum til að fylgja sannfæringu sinni? Eða að skipta um skoðun.
Lýðræðið er tryggt hér hjá okkur. Það liggur í kerfinu. Við kjósum okkur fulltrúa sem að afloknum kosningum rotta sig svo saman og mynda meirihluta ef svo ber undir. Slíkt samstarf er bara þannig að stundum getur slitnað upp úr því, af ýmsum ástæðum.
Þá stokka menn upp á nýtt. Og upphaflegu reglur lýðræðisins enn í fullu gildi. Fínt system segi ég en Dagur B Eggertsson skilur lýðræðið ekki svona.
Lýðræðið hans snýst um að hann sé aðal…
Röggi.

Rögnvaldur Hreiðarsson