Föstudagur 18.4.2008 - 15:06 - 4 ummæli

Sérfræði Gunnars Smára.

Menn sem ég ber virðingu fyrir segja mér að Gunnar Smári sé frábær fagmaður. Frjór, skemmtilegur og endalaus uppspretta hugmynda. Þessu trúi ég vel og auk þess er hann á góðum degi stórskemmtilegur.

Breytir þó ekki því að ég get með engu móti skilið hvað Jón Ásgeir fær út úr því að hafa hann í fullri vinnu árum saman við að tapa peningum. Man í svipinn ekki eftir neinu sem hann hefur komið nálægt sem hefur gengið upp.

Hann er nánast orðinn sérhæfður í því hvernig hægt er að gefa út blöð sem enginn vill lesa eða kaupa. Að visu tókst honum eftir að hafa sett Fréttablaðið á hausinn einu sinni að fá menn til liðs við sig sem gátu bæði gefið blaðið út og auglýst í því líka. Það er viss snilld.

Þá var honum spyrnt upp og gerður að stjóra. Það gékk ekki upp hann var þá sendur til Danmerkur til þess að tapa fé á rekstri fríblaðs. Það gékk auðvitað ekki enda ekki vitað til þess að vinnuveitendur Gunnars eigi nógu mikið af fyrirtækjum í Danmörku til þess að halda út auglýsingum í heilu blaði. Þaðan lá svo leiðin til Ameríku í sömu erindagjörðum og ég sé ekki betur í blöðum núna en að það ævintýri sé nú á enda, væntanlega með skelli. Nenni ekki að tala um NFS…

Hvenær er fullreynt? Svo birtist maðurinn í spjallþáttum sérfróður um efnhagsmál. Merkilegt alveg.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.4.2008 - 11:26 - 1 ummæli

Hvert fer hæfasta fólkið?

Gamla klisjan segir að besta fólkið vinni ekki hjá hinu opinbera. Það hljómar ekki nógu vel fyrir allt það fína fólk sem vinnur þar. Allt um það, margir trúa þessu.

Bestu skólar heimsins eru ekki ríkisreknir né heldur öflugustu sjúkarhúsin. Ekki endilega vegna þess að þar vinni vont fólk heldur miklu frekar vegna þess að opinberir aðilar eru að mínu viti vondir vinnuveitendur, oft. Eru ekki samkeppnisfærir í launum og kjörum almennt.

Þess vegna vinna „allir “ hjá bönkum núna. þar er vel gert við fólk í flestu og sóst eftir hæfileikamesta fólkinu, stundum með bægslagangi og yfirboðum. Þau fyrirtæki sem dragst aftur úr og keppa ekki verða einfaldlega að sætta sig við það sem af gengur. Lögmál markaðarins.

Getur verið að þetta sé farið að hafa verulega áhrif á það hvaða fólk gefur sig að stjórnmálum? Fáum við kannski ekki lengur hæft fólk til að vinna þau störf. Hefði Davíð kannski orðið lögfræðingur kaupþings ef hann væri að hefja störf núna?

Þurfum við ekki að gera eitthvað til þess að gera þessi mikilvægustu störf landsins eftirsóknarverð fyrir okkar besta fólk? Hækka launin til dæmis. Þá fer reyndar af stað kór mikill sem telur að þessi starfsstétt þurfi helst að vera láglauna.

Hér á landi gæti forsætisráðherra verið messagutti hjá hinum og þessum millistjórnendum í bönkunum.

það er brandari.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.4.2008 - 23:48 - Rita ummæli

Kjörþokki.

Ég skil hvorki upp né niður í kjörþokka. Veit ekki til þess að hann sé einhversstaðar skilgreindur nákvæmlega. Örugglega mikið af fólki sem ætti erindi í pólitík en annað hvort getur ekki eða nennir ekki að reyna að koma sér upp kjörþokka.

Ég er ekki einn af þeim sem trúi því að leiksýningarnar sem settar eru upp í fjölmiðlum daglega skipti öllu þegar kemur að daglegum störfum stjórnmálamanna. Þing og sveitastjórnir eru án vafa skipuð fólki sem vinnur mikla vinnu en að mestu ósýnilega. Svo koma flassararnir og stela senunni fyrir framan myndavélarnar. Laun heimsins eru stundum vanþakklæti.

Þetta er ég að hugsa þegar ég hugsa um Kjartan Magnússon. Hann er í mínu liði en ég hef samt aldrei skilið í hverju hans kjörþokki liggur. Hann kemur vel út úr prófkjörum aftur og aftur svo ekki er með góðu hægt að halda því fram að hann beiti klíkuskap eða trixum.

Hann hefur einhvernveginn verið þarna allan tímann en samt ekki. Hefur tekist að sigla lygnan sjó án þess að styggja neinn innan dyra eða utan. Forðast átök og verið í bakgrunni. Þetta er allt gott og blessað þannig séð. Allverulega óspennandi en skynsamlegt.

Séerstaklega fyrir fólk sem hefur mikinn metnað til þess að gera pólitík að ævistarfi. Fyrir mér hefur hann alltaf verið atvinnumaður í faginu. Gæti varla stunið upp úr mér fyrir hvað hann stendur nákvæmlega. Örugglega þó almenn gildi og góð en reynir þó að sníða þau þannig að þau henti flestum og skipi honum ekki í neinar fylkingar. Það er óhollt til lengdar, segja þeir.

Þegar þetta tekst vel þá gerist það, eftir nógu margar kosningar, að viðkomandi hefur óhjákvæmilega færst ofar í goggunarröðina. Röðin er einfaldlega komin að honum. Þetta sjáum við oft í flokkunum öllum. Þá skiptir hæfi miklu minna máli en reynsla.

Núna hef ég á tilfinningunni að Kjartan sé kominn í stöðu sem hann hvorki kann né nýtur þess að vera í. Nú er hann kominn svo framarlega í röðinni að hann nýtur ekki skjóls lengur. Ábyrgð orða hans og skoðana hefur stóraukist. Grunar að lífið hafi verið honum betra þegar hann var bara „óbreyttur“ en ekki aðal eins og hann virðist vera í dag.

Guðfaðir nýja misheppnaða meirihlutans og nefndakóngur. Situr uppi með REI ruglið sem enginn skilur. Meira að segja strigakjafturinn Svandís þoldi ekki það mál, og hvað þá Kjartan sem virðist laus við karisma.

Við sjálfstæðismenn virðumst hafa gleymt okkur í endurnýjuninni. Leiðtogar okkar í borginni eru nákvæmlega sama merkinu brenndir. Þeir hafa beðið nógu lengi og lifað nógu oft af til þess að röðin kæmi að þeim.

Villi lifði af ótrúlega marga leiðtoga áður en hann kom til greina. Maður gékk undir manns hönd til þess að galdra utanaðkomandi að árum saman. Engum datt í hug að Villi væri maðurinn. Og líklega enn færri sem sáu leiðtoga í Kjartani.

En kannski hef ég fullkomlega rangt fyrir mér. Kannski er Kjartan akkúrat dæmið um manninn sem hafði það ekki í sér að trana sér fram en er samt afbragðs liðsmaður. Vonandi en á þessari stundu finnst mér fátt benda til þess.

Verst að ég fæ ekki að kjósa í Reykjavík. Ef fram fer sem horfir mun okkur ekki veita af öllu okkar næst þegar gengið verður til kosninga.

Okkur snarvantar fólk með kjörþokka. Og eitthvað á bak við hann líka.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.4.2008 - 15:02 - 2 ummæli

Körfubolti er fyrir alla.

Bara ef ské kynni að einhver væri að missa af því þá bendi ég áhugafólki um hámenningu og skemmtun að úrslitakeppnin í körfubolta er að ná hámarki. Þeir sem héldu að ekki yrði betur gert en í fyrra höfðu sem betur fer alrangt fyrir sér. Kofarnir stútfullir og stemningin ólýsanleg. Gæði leikjanna í raun ótrúleg. Frábær umgjörð bragðbætir svo.

Ef við Íslendingar erum eins og allur meginþorri Evrópubúa þá styttist í körfubolti verði langstærsta inniíþrótt okkar. Á meðan handboltinn þjáist blómstrar karfan sem aldrei fyrr. Ef ekki væri fyrir það að við eigum heimsklassalandslið í handbolta sem fær aðgang að öllum stórmótum á háls árs fresti eftir að hafa unnið Makedoniu í tveimur leikjum væri handboltinn hér í alvarlegri útrýmingarhættu.

Hef ekki áhyggjur af því enda mómentið algerlega með körfunni. Og skyldi engan undra. Forysta KKÍ hefur hugsað langt og hægt en ekki stutt og hratt eins og algengt er hérlendis. Markviss uppbygging til lengri tíma er það sem skiptir máli og traustar undirstöður.

Mörgum fannst ekki takast nógu vel til að vinna úr NBA sprengjunni sem hér varð um árið. Það er misskilningur því við erum að sjá langtímaáhrif þeirra sprengju þessi misserin.

Við höfum verið lánsöm með forystumenn fyrr og nú. Ævintýramennska í fjármálum óþekkt og stundum hafa menn þurft að taka sársaukafullar ákvarðanir til þess að halda sjó í þeim efnum. Aldrei hefur staðið til að gleypa heiminn í einum bita. Þeir sem nú stýra skútunni eru akkaúrat réttir menn og konur á réttum stað.

Fjölmiðlar sífellt að verða betur og betur með á nótunum og enginn kemst hjá því að hrífast með. Mæli eindregið með því allir sem vettlingi geta valdið drífi sig á leik því ódýrari skemmtun og hollari er ekki að fá.

Við erum rétt að byrja.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.4.2008 - 09:30 - Rita ummæli

Málgagn morðingja.

Þeir eru sýnu merkilegri morðingjarnir ef þeir eru pólskir. Ekki er verra ef þeir hafa framið hrottaleg morð með áhöldum sem að jafnaði eru notuð við kornuppskeru.

Fjölmiðlar, sér í lagi DV, eru undirlagðir umfjöllun um tvo misyndismenn pólskrar ættar sem hafa nú fundið sér málgagn þar sem þeir bera hvern annan sökum. DV er greinilega búið að taka afstöðu í málinu og hefur ákveðið að halda með öðrum aðilanum.

Ekki þekki ég sannleikann í þessu máli en ætla að leyfa mér að halda að ekki sé til einn sannleikur í þessum farsa. Hversdagslegt fólk eins og ég kemst í gegnum lífið án þess að lenda í útistöðum við sveðjumorðingja og annað hyski af þeim toga. Enda aldrei verið í glæpabransanum.

Afleitt þegar morðingjum sinnast svona. Veit ekki hvort gerandi er grín að þessu því svona gaurar koma óorði á allt sem pólskt er hér og það hlýtur að vera erfitt fyrir yfirburðameirihluta þeirra pólverja sem hingað hafa komið í eðlilegum tilgangi.

Fólk sem aldrei hefur tilheyrt, eða vera boðið að tlheyra, glæpaklíkum. Þekkir ekki glæpamenn og síðast en ekki síst, hefur aldrei myrt nokkurn mann.

Og aldrei haft varnarþing á síðum DV.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.4.2008 - 19:18 - 4 ummæli

Sturla býr í bananalýðveldi.

Þreytist ekki á að tala um talsmann vörubílstjóra. þekki þann fína mann ekki neitt en finnst framganga hans vera svo kristaltært dæmi um það þegar menn snúa hugtökum á haus að ég stenst ekki mátið.

Málsstaður hans virðist svo veikur núna að hann ákveður að draga málið niður í pólitík og atar forsætisráðherra auri þegar hann er beðinn um að gefa skýrslu hjá lögreglu vegna meintra lögbrota sem hann reyndar kannast ekki við núna. Öðruvísi var það reyndar þegar hann stóð keikur í stafni á vetfangi mótmælanna.

Þetta er þekkt og þróuð aðferð því baugsmenn fluttu hana inn og þróuðu. Þegar um allt þrýtur er best að kenna stjórnmálamönnum bara um. Það verður alltaf vinsælt. Sturla Jónsson á bara að svara fyrir sig eins og aðrir þegnar þessa þjóðfélags. Hann er varla undanþeginn landslögum. Það þarf engan forsætisráðherra til þess að krefja hann um skýringar á athæfi sínu. Lögreglunni ber að gera það. Sýnist stuðningurinn mikli sem þessir menn fengu tímabundið hafa ruglað þá í ríminu.

Sturla talar um að hann búi í bananalýðveldi. Það má vel vera rétt hjá honum. Vandinn er að hann skilur greinilega ekki hver er bananinn í þessu lýðveldi.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.4.2008 - 13:24 - Rita ummæli

Möller.

það er greinilega ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera ráðherra samgöngmála. Man ekki eftir neinum í svipinn sem almenn sátt var um. Enda hvernig á að vera hægt að gera nógu vel? Í Kristjáni Möller fengu menn það sem þeir báðu um.

Nú kemur stjórnandstöðu blaðrið hans illa í bakið á honum. Hann hefur alltaf verið hagsmunapotari af gamla skólanum. Stundum orðhákur og þegar verst hefur staðið á hjá honum í gengum tíðina stóryrtur í garð þeirra sem vilja samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. það kallaði hann gjarnan að menn hefðu ekki skilning á þörfum landsbyggðar eða að menn væru haldnir andúð á landsbyggðinni.

Hef ekki haft heilsu í að setja mig inn í hvaða stefnu málefni sundabrautar eru að taka undir hans forystu. Kallinn virðist stefnulaus og reikandi þegar kemur að því að framkvæma en kraftmikill þegar kemur að því að gagnrýna menn. Hver man ekki frumhlaupi hans þegar hann gerði tilraun til að eyðileggja heiður og starfsæru verkfræðings í ferju skandalnum?

Nú eru hann og vegamálastjóri ropandi óánægðir með að fólk keyri hvert annað niður ótt og títt á vegum sem eru ýmist í viðgerð eða byggingu. Ekki er langt síðan að banaslys varð við vegaframkvæmdir í garðabæ vegna ónógra merkinga.

Þá litu þessir menn það alvarlegum augum og nú skyldi bætt úr. Þessi sömu alvarlegu augu líta nú á hvert slysið við Voga afleggjarann. Vegamálstjóri var að ýja að því að þeir yrðu að fara að lögum í þesum efnum. Hvaða lög eru það sem banna traustar merkingar á vinnusvæðum? Fatta þetta ekki.

En kannski batnar Möller og lærir. Skyldi samt ekki af hverju hann fékk stólinn í upphafi. Líklega bara til þess að stoppa tuðið, gamalt trix að gera slagsmálahundinn að lögreglumanni.

Hér virðist trixið ekki vera að gera sig.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.4.2008 - 12:55 - Rita ummæli

Geta lögbrot verið heimil?

Þá er loksins búið að taka skýrslu af umferðardónanum Sturlu Jónssyni. Les það að hann geti ef allt fer á versta veg átt von á fangelsi. Óska engum fangelsisvistar en þetta var viðbúið.

Samt finnst mér ótrúlega margir vilja bara gefa honum upp sakir. Losa hann undan landslögum sem þó nýttust svo vel þegar kárahnjúkum var mótmælt með ólöglegum hætti. Og gegn leikfimifólkinufrá Kína sem var handsamað og læst í skólahúsinu.

Get ekki skilið af hverju fólk sér ekki hvaða fordæmi er gefið ef einum er leyft að brjóta lög bara af því að hann er góður gæi með fínan málsstað. Grunar að margir taki afstöðu til þessa máls út frá áunninni andúð á stjórnvöldum og valdboði.

„Látum þessa andskota heyra það, loksins birtist einhver sem þorir að bjóða þessum köllum byrginn“. Allt gott og blessað, þangað til lög er brotin. Flóknara er þetta nú ekki.

Ef allt er rétt hjá okkur er enginn undanþeginn lögum. Hvorki háir eða lágir. Um það hljótum við að verða að vera sammála.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.4.2008 - 09:57 - 2 ummæli

Öfgar Árna Finnssonar.

Árni Finnsson skammast í Agli Helgasyni vegna þess að hann vogar sér að taka ekki möglunarlaust undir heimsendaspár snillingsins Al Gore. Kallar hann loddara. Árni Finnsson er skilgetið afkvæmi umhverfisverndar iðnaðarins og nánast orðinn vanhæfur til að fjalla hlutlaust um málefnið.

Hann kallar það hægri öfga að efast. Frá mínum bæjardyrum séð er það nánast fötlun að tapa hæfileikanum til að efast og halda áfram að spyrja spurninga. Al Gore notar sömu aðferðir og öfga prestar í sjónvarpi þar vestra. Þeir sem efast skulu til fjandans. Hvenær fékk Al Gore úrskurðarétt í málinu? Skolaði hann ekki bara á fjörur umhverfisbransans þegar hann hröklaðist við hlátrasköll úr stjórnmálum?

Virðingarleysi Árna fyrir öðrum skoðunum en sínum kristallast hér vel. Mér í sjálfu sér alveg sama hvort öfgarnir hans liggja til hægri eða vinstri. Hann er öfgamaður sem hefur fundið sannleikann eina og þeir sem ekki sjá það sama og hann eru dæmdir menn.

það er fólk eins og Árni sem stendur málefnum umhverfis fyrir þrifum. Fólk sem vill eigna sér hlutina og draga fólk í pólitíska dilka. Ýmsir hægri menn gátu vel hugsað sér herinn burt á sinum tíma en vegna þess að hörðustu vinstri spírurnar eignuðu sér málstaðinn urðu þeir frá að hverfa.

Umhverfismál eru ekki hægri vinstri mál. Þau eru okkar allra og þess vegna væri öndvegsi að fýrar eins og Árni slepptu takinu á málinu og hættu að ata alla auri sem vilja ekki vera sömu skoðunar og kalla þá hægri öfgamenn. það er þannig meðferð á málinu sem kemur í veg fyrir eðlilega umræðu um málið og kemur í veg fyrir sátt.

Enda öfgarnir til vinstri ekki betri. Kannski öðruvísi en ekki betri.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.4.2008 - 16:54 - 1 ummæli

Hannesarofnæmið.

Hannesarofnæmið. Vinstri menn fá almennt útbrot og ógleði þegar minnst er á Hannes Hólmstein. Hann á vitaskuld eitthvað af því skilið enda stíllinn knappur hjá honum í gegnum tíðina. Reyndar er það þannig að megnið af því sem hann hefur haldið fram alla sína tíð eru í dag almenn gildi.

Hann hefur ekki þurft að skríða í felur eða skipta um lífsskoðanir eins og margir vinstri menn þurftu að ganga gegn um, ef þeir þá gerðu það. Þetta virðist pirra marga mjög.

Nú ryðjast vinstri menn margir fram og vilja sparka í kallinn eftir klúðrið með Laxness bókina. Yfirskyn umræðunar er dómurinn en fæstir ná að halda sig við þau efnistök. Fyrr en varir snýst málið um pólitík. Vinskap við Davíð og hreina skítapólitík. þar fór fagmennskan af.

Dómurinn snýst ekki um pólitík Hannesar. Og refsingin snýr kannski mest að honum sem fræðimanni. Þá kemur að því að ekki er bráðeinfalt að refsa opinberum starfsmönnum. Það er ótækt ef ég er spurður en ekki samdi Hannes þær reglur þó hann hafi lýst sig óánægðan með þær áður.

Honum er núið það um nasir að vinna hjá hinu opinbera þó afstaða hans til opinbers reksturs sé neikvæð. Furðulegt að þrástagast á þessu enda hljóta vinstri menn og ríkissinnar að geta hugsað sér að vinna hjá einkareknum skólum. Hver vill stunda akademískt nám í algerlega einsleitu andrúmsofti, þar sem allir eru á einni skoðun? Veit reyndar um marga….

Breytum endilega reglum sem vernda opinbera starfsmenn umfram aðra menn á vinnumarkaði. Þá fengi Hannes trúlega að fjúka enda fræðimannsheiður hans nú laskaður.

En hættum skítkasti um einkahagi manna og pólitískar skoðanir eins og flestir stunda núna. Þetta mál er ekki pólitískt. Greinilegt er þó að ofnæmið fyrrnefnda auk mikils vilja til að innleiða ameríska skítapólitík sem snýst mest um persónur og þeirra einkahagi en minna um málefni er mönnum hugleikið viðfangsefni.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur