Miðvikudagur 19.3.2008 - 09:39 - 3 ummæli

Efnhagspólitík samfylkingar.

Samfylkingin er í ríkisstjórn núna með mínum mönnum. Sjálfsagt hefur einhverntíma verið meira stuð á stjórnarheimilinu en akkúrat núna. Hér stefnir allt til fjandans segja þeir. Bankarnir vilja fá meira af peningum til að sólunda í vitleysis fjárfestingar á eigin vegum og annarra. Nú er það flókið því vondir útlendingar hafa misst trú á snillingunum úr norðri og vilja selja okkur peninga of dýru verði. Þetta er grafalvarlega staða hjá þjóð sem alin er upp við það að geta bara fengi aura hvenær sem er til hvers sem er. Sama gildir um bankana. Þeir verða að rifa seglin og hætta i bili að lána verbréfa tippurum peninga.

Þessi staða er á allra vörum. Efnahagsmálin eru málin. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera er spurt. Hún ætlar að gera sem minnst sýnist mér. Geir sjálfum sér líkur, rólegur og lætur lítið fyrir sér fara enda eðlilegt að hið ofur dynamíska hagkerfi okkar komi sér á réttan kjöl sjálft.

Á meðan á öllu þessu gengur er það eina sem samfylkingin hefur til málanna að leggja að við eigum að vera í ESB og notast við evruna. Nú í nokkur misseri hefur þvi verið haldið fram að við getum bara víst tekið upp evruna án þess að ganga ínn í ESB. Þessu hafa menn trúað án þess að hafa neitt sérstakt fyrir sér í því annað en að heyra Eirík Bergmann segja þetta. Kannski er langtíma hagsmunum okkar borgið innan ESB en er þetta það sem skiptir máli í dag?

Mér finnst samfylkingin koma sér undan því að vera með og taka ábyrgð með þessu. Við erum eini flokkurinn sem vill inn er sagt og tónninn allur á þann veg að ef við hefðum drifið okkur inn þá væri hér allt í gúddí. Kannski það.

þarna eru samræðupólitík samfylkingar rétt lýst. Þetta er þörf umræða og góð en gerir ekkert fyrir okkur eins og staðan er núna. Nú er samfylkingin komin í ríkisstjórn og þá dugir ekki að tuða lengur um hluti sem ekki eru á dagskrá núna og engin pólitískur meirihluti er fyrir.

Nú getur enginn skorast undan ábyrgð með ódýrum trixum sem dugðu svo vel í andstöðunni forðum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.3.2008 - 23:58 - 1 ummæli

Djöfullinn danskur…

Ég er oft spurður um það af hverju ég virðist ekki þola helstu útrásarhetjur Íslands. Þreytist helst ekki á að tala um að þessir stórlaxar flestir hafa nú komið efnahag fyrirtækja sinna og reyndar hagkerfinu okkar á kaldan klaka með fulltingi bankanna. Og flestir þegja þunnu hljóði.

Hannes Smárason var einn af hinum ósnertanlegu. Ósigrandi snillingur og það var ekki fyrr en hann var bannfærður af sínum eigin mönnum að fjölmiðlar tóku til við að hafa skoðanir á honum. Fram að því höfðu flestir staðið og setið opinmynntir yfir snilldinni.

Hér á landi stundum við það að geta illa unað því að útlendingar hafi neikvæðar skoðanir á okkar mönnum. þetta sést vel á því hvernig fullkomlega hlutlausir fjölmiðlar í eigu sumra af þessum víkingum útrásar taka á því að danir hafa nú alllengi reynt að benda okkur á hætturnar

þetta er almennt afgreitt sem öfund og illgirni. Jafnvel í dag þegar margir verstu spádómar danskra hafa gengið eftir látum við ekki segjast. Danir eru fífl. Öfundsjúk fífl sem hafa ekkert betra að gera en að atast í vinnandi mönnum ofan af Íslandi.

Hvað ætli þurfi að gerast svo augun opnist? Pínulítill hópur manna á hér allt þvers og kruss. Menn selja og kaupa af hvor öðrum seint og snemma og við sauðirnir borgum brúsann. Fákeppni er regla. Ógagnsæjið algert. Fyrirtækjum skipt upp og þau seld aftur og aftur áður en þau eru bútuð niður og þá seld á nýjan leik. Milljarður í vasann hér og þar í hvert skipti. Og enginn veit fullkomlega hver seldi og þaðan af síður hver keypti.

Glöggt er gests augað. Af hverju fáumst við ekki til þess að gefa þessum röddum erlendis frá möguleika? Hafa menn þar kannski eitthvað til síns máls? Eða var kannski kappnóg að fórna einu peði til þess að friða okkur? Sameinumst bara um að Hannes Smárason hafi verið vondi kallinn og hann hafi verið vondur án þess að allir hinir hafi vitað af því.

það dugar ekki á mig. Enda mundi ég skyndilega að ég er danskur. Meira og minna. Amma mín var dönsk. Danska blóðið er að rugla mig í ríminu greinilega. Ég ræð þess vegna ekkert við þetta. Við danirnir höfum efasemdir um þessa menn og mig rennur í grun að fyrr en síðar muni Íslenski helmingurinn líka vakna…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.3.2008 - 22:25 - Rita ummæli

67 000 milljóna taprekstur.

Sextíu og sjö þúsund milljónir. Milljarður er þúsund, ekki hundrað, milljónir. Hættum að tala um milljarða. Stór hluti þjóðarinnar heldur að milljarður séu hundrað milljónir.

67 000 milljónir er tap FL group en það fyrirtæki er rekið af Jóni Ásgeiri. Hann bregst nú geðvondur við eðlilegum spurningum hluthafa um reksturinn. það kemur ekki á óvart því hann er ekki vanur að þurfa að svara slíkum leiðinda spurningum. Hann er langt kominn með að komast upp með það að kenna fyrrverandi forstjóra einum um tapið. Það hlýtur að vera PR afrek ársins.

Hélt í einfeldni minni að formaður stjórnar bæri ábyrgð á forstjóra. Maðurinn er ósnertanlegur. Enn um sinn…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.3.2008 - 11:52 - 1 ummæli

Bubbi bullar.

Ég er beinlínis alinn upp við Bubba. Hann bjargaði mér frá dískóinu á sínum tíma. Pönkið hjálpaði til þó mér finnist í dag sú músik sem var kölluð pönk þá vera rokk og ról. Andstæðurnar við sykursætt dískóið voru bara svona miklar. Bubbi kom eins og stormsveipur og hefur verið á sveimi síðan.

Mjög misgóður segi ég og reyndar nánast handónýtur hin síðari ár. Langt síðan ég hef fundið knýjandi þörf fyrir að fjárfesta í honum. Hann er samt aðal og veit af því og fer orðið fremur illa með það.

Nánast hjákátlegt hjá manninum að henda skít í alla þá sem kunna að hafa skoðun á honum, nema hún sé kónginum þóknanleg. Nú síðast fær Biggi í Maus á baukinn hjá Bubba. Einstaklega ósmekklegt hjá Bubba og ómálefnalegt að telja að einhverju máli skipti hvort Biggi syngur falskt eða ekki. Geta þeir einir sem syngja eins vel og kóngurinn haft vit á Bubba?

Bubbi er ekki lengur reiður ungur maður. Hann er orðinn reiður og önugur miðaldra poppari. það fer honum illa.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.3.2008 - 23:26 - Rita ummæli

Sendiherrapælingar.

Sé það bloggarar hneykslast á því að Sigríður Anna sé orðin sendiherra. Ég var reyndar hissa á að hún hafi orðið ráðherra en það er önnur saga. Veit ekki hvort skynsamlegt er að reyna að gera vísindalegan samanburð á því hver sendiherra okkar í gengum tíðina hefur verið slappastur en í þeim efnum er af nógu að taka.

Engu skiptir hverjir eru við kjötkatlana frá einum tíma til annars. Það er í gangi einhver díll og allir fá sitt. Reglan er ein. Stjórnmálamenn og konur fá þetta hvort sem mér að þér finnst það eðlilegt eða ekki og alveg óháð því hvað hvort við sérskipaðir sérfræðingar teljum viðkomandi hæfa eða ekki.

Hef oft velt því fyrir mér hvernig þetta geti verið öðruvísi. Eru ekki einhverjar líkur á því að stjórnmálamenn séu tilvaldir í þessi störf? Eru fyrrverandi stjórnmálamenn kannski liðónýtir starfskraftar?

Hvernig vlijum við hafa þetta?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.3.2008 - 13:17 - 1 ummæli

VG á móti sameiningu.

Alveg var það jafn öruggt og að morgundagurinn rennur upp að VG myndu andæfa þegar Iðnskólinn í Reykjavík var sameinaður fjöltækniskóla Íslands og einkaaðilar fengnir til verksins. Holur tónn í málflutningum sem snýr í raun alls ekki að sameiningunni. VG talar meira um að opinberir aðilar kunni ekki að reka skóla. Það er oft rétt.

Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni að þessi sameining skuli ganga fram. Allt mælir með henni og flott að fagaðilar atvinnulífsins komi að rekstrinum. Ég bara get ekki skilið þessi sjálfvirku krampakenndu viðbrögð í hvert sinn sem ríkið fær einkaaðila til þess að vinna fyrir sig störfin.

Heyrist að í þetta sinn neinni enginn að taka undir með VG. Kannski vegna þess að almenningur hefur lítinn áhuga á þessum skólum en vonandi vegna þess að fleiri eru nú að sjá að aðrir geta sinnt kennslu en bara opinberir aðilar.

Auk þess legg ég til að þingmönnum VG verði boðið á námskeið þar sem útskýrður verður í eitt skipti fyrir öll munurinn á einkavæðingu og einkarekstri.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.3.2008 - 09:44 - Rita ummæli

Aðild er víst á dagskrá…

Ég skrifaði fyrir allnokkru um að við sjálfstæðismenn þyrftum að herða okkur upp í að setja aðild að evrópusambandinu á dagskrá. Er ekki endilega að segja að við eigum að skipta um kúrs í málinu en það er óskaplega barnalegt viðhorf að halda að með því einu að við viljum ekki ræða málið að þá verði það ekki rætt.

Atvinnulífið er meira og minna að komast á þá skoðun að við eigum að fara inn og það viðhorf ætti að skipta forystu sjálfstæðisflokksins miklu. Þunginn úr þeirri átt eykst stöðugt.

Eins og málum er háttað þá tala þeir sem vilja inngöngu nánast einir um málið, eiga sviðið. Að vísu tuða VG en það tuð er daglegt brauð enda öllu mótmælt úr þeirri áttinni.

Innganga í ESB er að sönnu ekki á dagskrá ríkisstjórnar en umræðan um inngöngu er svo sannarlega til staðar um allt þjóðfélagið hvort sem mínum mönnum líkar það betur eða verr.

Auðvitað þarf Geir að fara varlega svo flokkurinn leysist ekki upp í frumeindir en kannski gerir hann það á endanum einmitt vegna þess að flokkurinn neitar að taka þátt í umræðunni. Telji flokkurinn að ekki eigi að fara inn þá er að verja þá skoðun með umræðum en ekki tilraunum til þess að ræða málið ekki.

Skortur á snerpu og frumkvæði er að verða einkenni á núverandi forystu flokksins.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.3.2008 - 14:41 - 1 ummæli

Rassía.

Ég er ekki einn af þeim sem vill að fangelsi séu dýflyssur. Hlekkir og myrk herbergi. Mér finnst að fangelsi eigi að vera manneskjuleg. Hefndin gerir ekkert fyrir mig. Betrun hljómar betur og á að vera meginstefið þegar menn eru fangelsaðir ef ég þekki rétt.

Margir hafa þær hugmyndir að litla hraun sé hálfgert hótel. Þar séu menn í fótbolta og tölvuleikjum á milli þess sem menn slaka á í heitum pottum og stunda steralyftingar. Hef sem betur fer ekki gist þetta hótel en finnst sjálfum að frelsissviptingin sjálf sé aðalrefsingin. Til mikils er að vinna að menn komi skárri út en þegar þeir fóru inn.

Margrét Frímannsdóttir er nýtekin við sem stjóri þar. Fáir geta efast um að hún er réttur maður á réttum stað. Nú tókst henni að gera allt vitlaust í samfélagi fanga þegar gerð var rassía á gangi einum í leit að fíkniefnum. Hef ekki skoðun á því í smáatriðum hvernig staðið var að því en treysti því að ef farið hefur verið yfir strikið í umgengi við fanga verði slíkt greint og ekki endurtekið.

Hitt er öndvegis að reyna að reka það slyðruorð af litla hrauni að hvergi sé auðveldara að ánetjast fíkniefnum en þar. Okkur sem hefur fram til þessa tekist að rata meðalveginn þrönga gengur bölvanlega að skilja hvers vegna sögur um stanslausa neyslu fíkniefna berast úr fangelsinu.

Er þetta svona flókið og stórt samfélag? Eru sögurnar kannski ekki nákvæmar? Veit ekki en fagna því eindregið ef nú á að gera skurk í málinu því gersamlega hlýtur að vera vonlaust að ætlast til að betrun muni eiga ssér stað ef neysla heldur áfram þarna inni eins og ekkert hafi í skorist.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.2.2008 - 08:56 - 3 ummæli

Sprunginn meirihluti.

Bíð spenntur eftir beinni útsendingu frá aukafundi sveitastjórnar Þingeyjarsveitar. Hef heyrt að ungliðahreyfingar sumra flokka hvetji fólk til að fjölmenna á fundinn til að stunda borgaralega óhlýðni og andæfa. Enda full ástæða til.

Þar er meirihlutinn fallinn af því að einn fulltrúinn skipti um lið. Slík óhæfa er að sjálfsögðu ekkert annað en svik jafnvel þó fulltrúinn haldi því fram að þetta geri hann af prinsippástæðum.

Tómt vesen á þessum prinsippmönnum alltaf.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.2.2008 - 20:56 - 1 ummæli

Viðskiptasiðferði Lúðvíks bæjarstjóra.

Hann er stundum skrýtinn bæjarstjórinn minn hér í hafnarfirði hann Lúðvík Geirsson. Hann seldi OR hlut hafnarfjarðar í hitaveitu suðurnesja. Ljómandi gott mál þannig séð.

En þá fer samkeppnistofnun að hafa skoðun á málinu. Gæti gerst að gjörningurinn dæmist ólöglegur. Það eru klárlega viss leiðindi og vesen. En Lúðvík tekur ekkert mark á svoleiðis.

Heyrði hann segja í útvarpinu í kvöld að hann væri með samning hvað sem tautaði og raulaði og þar væri ekki stafkrókur um samkeppnistofnun. Þetta væri því alfarið mál kaupandans!

Skil ekki þessa afstöðu Lúðvíks en þá ryfjast upp fyrir mér að þarna fer maðurinn sem seldi fyrirtæki lóð undir álver en taldi sig svo alls ekki bundinn af því að leyfa þeim að byggja álver.

Hann heldur í stílinn.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur