Fimmtudagur 04.02.2010 - 14:37 - FB ummæli ()

Mismunun í heilsuvernd barna á Íslandi?

ChildrenSmilesHingað til hefur þeirri leið verið hafnað hér á landi að þeir efnameiri geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu en aðrir, sem betur fer. Ungbarnaheilsuverndin er þar ekki undanskilin en því miður hefur  tannheilsuvernd barna verið það eins og nú háttar enda tannheilsa íslenskra barna léleg og tannlæknakostnaður hár eins og fram hefur komið í umræðunni sl. daga (og ég hef áður rætt um í blogginu mínu undir fyrirsögnunum Góðærisbörnin og Kreppan étur börnin sín). Ekki hefur heldur verið deilt um að allar ungbarnabólusetningarnar sem heilbrigðisyfirvöld mæla með að séu ókeypis enda hagsmunir barnsins í húfi og miklu máli skiptir að þátttaka í bólusetningunum sé góð til að hún skili sem bestum árangri. En nú eru blikur á lofti. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki treyst sér, sennilega vegna fjárhagsvanda, til að taka upp nýja og að mínu mati nauðsynlega bólusetningu í ungbarnaheilsuverndinni gegn algengasta sýkingarvaldi barna sem er lungnabólgubakterían (pneumókokkur) sem veldur m.a. flestum eyrnabólgum og lungnabólgum meðal barna. Bólusetningin hefur verið tekin upp án endurgjalds sem hluti af nauðsynlegri ungbarnaheilsuvernd á öllum hinum Norðurlöndunum. Bólusetningin stendur hins vegar öllum foreldrum til boða hér á landi sem á annað borð hafa efni á að greiða fyrir hana.

Ætla má að um 80% barna fái miðeyrnabólgu strax á fyrsta aldursári og sum hver oft. Flestar eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum, stundum með takmörkuðum árangri enda mikið sýklalyfjaónæmi hér á landi. Eyrnabólgur eru auk þess ástæða fyrir meirihluta sýklalyfjaávísana meðal barna.  Um þriðjungur barna fer síðan í aðgerð og fær hljóðhimnurör hér landi, aðallega vegna endurtekna eyrnabólgna. Alvarlegastar eru þó blóðsýkingar og heilahimnubólgur sem þessi meinvaldur getur valdið. Í þeim löndum sem bólusetningin hafur verið tekin upp hefur tilfellum alvarlegra sýkinga fækkað um 80% og heimsóknum til lækna og sýklalyfjaávísunum vegna miðeyrnabólgu fækkað um allt að helming.  Því má sjá hvað almenn þátttaka í þessari bólusetningu gegn algengustu stofnum lungnabólgubakteríunnar getur haft gríðarmikil áhrif auk þess að draga úr sýklalyfjanotkun og aukið velferð barna á Íslandi.

Í dag, eins og áður segir,  geta foreldrar sem vilja og hafa efni á beðið um bólusetningu gegn lungnabólgubakteríunni fyrir börnin sín á fyrsta ári sem þurfa þá að fá 3-4 bólusetningar (sprautur) þar sem hver og ein sprauta kostar yfir 10.000 kr.  Á þeim er vaxandi áhugi og bóluefnin vel kynnt læknum. Því er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé verið að mismuna börnum eftir efnahag foreldranna þar sem greinilega hafa ekki allir foreldrar efni á að kaupa þessar bólusetningar fyrir börnin sín. Almenn þátttaka í bólusetningunni verður heldur aldrei góð og hætt er við að foreldrar sem ekki hafa efni á þessari bólusetningu horfi með neikvæðari augum til heilsuverndarinnar almennt sem svo aftur dregur úr þátttöku í öðrum nauðsynlegum bólusetningum barna í framtíðinni.

Ég hef áður fjallað um gagnsemi bólusetningarinnar hér á blogginu mínu sem hluta af aðgerðum gegn miklu sýklalyfjaónæmi hér á landi sem tengist mikilli sýklalyfjanotkun, ekki síst meðal barna. Eins hugsanlegum þjóðhagslegum sparnaði  vegna minni lyfjakostnaðar, minni fjarveru foreldra frá vinnu vegna veikinda barna sinna og hugsanlega fækkun aðgerða vegna hljóðhimnurörísetninga auk þess að bæta lífsgæði barna og foreldra þeirra. Málið var einnig til umræðu á nýyfirstöðnum Læknadögum og Fræðadögum heilsugæslunnar sl. haust.

Sjá nánar:

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2009/12/07/bolusetning-gegn-algengasta-heilsuvanda-isl-barna/

http://www.heilsugaeslan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4421

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn