Sunnudagur 07.02.2010 - 16:23 - FB ummæli ()

Kreppubörnin og kvíðinn

Karius_ Baktus„Gamlir vinir okkar“ Karíus og Baktus náðu hjörtum okkar þegar við vorum lítil. Sennilega fyrst og fremst vegna þess hversu umkomulausir þeir voru. Þeir voru foreldralausir, stressaðir, kvíðnir fyrir morgundeginum, og húsnæðislausir í þokkabót undir lokin.

Samkvæmt nýjustu fréttum fjölgar nú börnum og unglingum sem þurfa á innlögn að halda vagna geðraskana, aðallega kvíða og þunglyndis. Yfir 2000 heimili eru tæknilega gjaldþrota og bíða bráðaúrlausna. Atvinnuleysið stefnir í að verða uggvænlegt. Við hverju halda menn að sé að búast við aðstæður sem þessar? Eitt er víst að tímabundnar bráðaúrlausnir í peningamálunum sem bankarnir veita, leysa ekki nema lítinn hluta af hinum raunverulega vanda.

Að mati Finna í kreppunni þeirra fyrir 3 áratugum, brugðust þeir allt of seint við með fyrirbyggjandi aðgerðum, sérstaklega gagnvart langvarandi streitu og kvíða foreldra sem leiddi síðar til þunglyndis og óeðlilegra samskipta í fjölskyldum. Börn og unglingar voru þannig hin endanlegu fórnarlömb kreppunnar. Mörg flosnuðu upp úr skóla, mörg með alvarleg kvíðavandamál og geðraskanir. Nú er því miður að koma á daginn fyrstu vísbendingar um að það sama sé að gerast hér á landi. Kreppan er þegar farin að bíta í börnin og unglingana eins og nýjustu upplýsingar frá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítala) sýna og sem  eru mikið í fréttunum. En þær tölur eru sennilega aðeins toppurinn á ísjakanum og meira fyrirboði þess sem koma skal enda hrunið ný yfirstaðið og kreppan rétt að byrja.

ópiðLíðan margra fjölskyldumeðlima á landinu öllu er slæm, en því miður oft mikið feimnismál. Heilbrigðisstofnanir hafa gert lítið til að kalla eftir þessum vandamálum til sín til úrlausna eða bara til að veita stuðning. Á föstudaginn var ég á áhugaverðu þingi fyrir heimilislækna um kvíða. Þar hélt m.a. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir gott erindi um kvíða og þunglyndi og mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks að koma fólki með slíkan vanda fljótt til hjálpar, ekki síst við aðstæður sem nú ríkja. Fólki með mikinn kvíða tengt yfirvofandi atvinnumissi sem stefnir öruggri afkomu barna sinna í hættu. Þessu fólki þarf að bjóða stuðning og reyna að minnsta kosti að koma í veg fyrir afleiddar geðraskanir þeirra sjálfra og barnanna þeirra með ráðgjöf og félagslegum úrræðum. Að minnsta kosti til ræða vandann sem er alltaf fyrsta skrefið.

Það getur verið erfitt að halda uppi eðlilegum samskiptum í fjölskyldum í mikilli kreppu, ekki síst gagnvart börnum sem eru mjög næm á líðan foreldra sinna. Við ættum því að forgangsraða stuðning heilbrigðiskerfisins við fjölskyldufólk, ekki síst af tillitsemi við börnin sem eiga að erfa landið og skuldirnar okkar. Við eigum að horfa meira til reynslu Finna og ekki gera sömu mistökin og þeir gerðu þegar þeir gleymdu börnunum sínum og sem í dag vildu hafa gert hlutina allt öðru vísi við þessar aðstæður.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær gera samt ekki allir jafn mikið úr vandanum hér á landi enn sem komið er og benda á öflugar grunnstoðir í heilbrigðiskerfinu sem muni standast álagið. Fleiri eru þó sammála um að vandamálin koma ekki alltaf strax fram og á það sérstaklega við um geðraskanir og félagslega erfiðleika hjá börnum í kreppu eins og áður segir. Það er því nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsfólk láti í sér heyra þegar það heyrir ópin í fjarska. Styrkja þarf strax þær grunnstoðir sem mest á reynir áður en þær svigna eða jafnvel brotna. Bjóða þarf strax upp á gott aðgengi að stuðningsviðtölum við sálfræðinga og félagsráðgjafa. Eins við þjónusta lækna heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu sem hafa margir áratug reynslu í stuðningsviðtölum og þverfaglegri vinnu með öðru heilbrigðisstarfsfólki, en sem hefur verið skorið niður. Ekki má síðaur gleyma að styðja við aðrar mikilvægustu stofnanirnar sem koma að uppeldi og menntun barnanna okkar og sem eru skólarnir og íþrótta- og tómstundafélögin. Jafnvel þótt það kosti tímabundið verri skuldastöðu þjóðarinnar. Annars er að litlu að stefna í framtíðinni.

Sjá nánar: http://visir.is/article/20100205/FRETTIR01/219007927

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn