Miðvikudagur 09.03.2011 - 07:59 - FB ummæli ()

Enn dregst bólusetning gegn miðeyrnabólgu barna á Íslandi

mynd með rafrænni eyrnarsjá af bólginni hljóðhimnu af völdum miðeyrnabólgu

grátandibarn2

Eyrnabólga getur valdið slæmum verkjum

Í dag er Öskudagurinn, gleðidagur barnanna. Fréttir dagsins herma engu að síður að seinkun verði á að tekin verði upp bólusetning gegn pneumókokkum,  (Streptococcus pneumoniae) algengasta og einum alvarlegasta meinvaldi ungra barna á Íslandi í dag. Foreldrum finnst sjálfsagt skrítin sú tregða yfirvalda að taka upp eina gagnlegustu bólusetningu sem völ er á gegn smitsjúkdómum barna og einni mestri heilbrigðisógn þjóðarinnar. Bólusetning sem þó hefur staðið öllum ungbörnum í nágranalöndum okkar til boða sl. ár. Vissir alþingismenn hafa beitt sér í málinu og Siv Friðleifsdóttir ásamt fleirum lagði fram þingsályktunartillögu um málið á Alþingi fyrir rúmu ári síðan.

Loks þegar bólusetning gegn pneumókokkum verður tekin upp hér á landi má betur ráðast að meginrót vandans sem hefur verið of mikil notkun sýklalyfja í þjóðfélaginu, ekki síst meðal barna. Skýringa sem meðal annars er að leita í mikilli undirmönnun lækna í heilsugæslunni um árabil og miklu vaktarálagi og skyndilausnum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, ástand sem versnar stöðugt í stað þess að skána. Um þetta er m.a. fjallað í nýjasta hefti Neytendablaðsins, en ungbörn sem aldurshópur er einn stærsti neytandi heilbrigðisþjónustu í landinu. Bólusetning mun verulega draga úr tíðni slæmrar miðeyrnabólgu og fækka væntanlega skyndikomum barna á vaktir sem og notkun sýklalyfja af litlu tilefni. Ekki má heldur gleyma áhyggjum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á vandamálinu í þessu samhengi sem hefur skilgreint þróun sýklalyfjaónæmis sem eina mestu heilbrigðisógn framtíðar og hvetur til að leitað verði allra leiða að berjast gegn, m.a. með minni og skynsamlegri notkun sýklalyfja í þjóðfélaginu.

Til stóð að hefja bólusetningar í apríl nk. en aðeins hjá börnum fæddum það herrans ár 2011. Búið var að taka tilboði GlaxoSmithKline með bóluefnið Synflorix en mótkeppnisaðilinn í útboðinu, Icepharma ehf. náði að kæra og þarf því að fara fram nýtt útboð. Nokkra mánaða töf getur verið yngstu börnum dýrkeypt því hámarks árangur næst aðeins ef byrjað er að bólusetja börn við 3 mánaða aldur. Áður hefur verið gagnrýnt að ekki skuli öllum börnum til 3 ára aldurs vera boðin ókeypis bólusetning. Þá yrði hún mun skilvirkari og börnum væri ekki mismunað í heilsuverndinni, nokkuð sem skiptir miklu máli þegar traust foreldra á henni er í húfi. Í dag eru hins vegar margir foreldrar sem kjósa að kaupa þessa bólusetningu fyrir börnin sín en kostnaður fyrir hvert barn sem þarf þrjár bólusetningar er um 36.000 kr.

Vökvi/gröftur í miðeyrnabólgu

Vökvi/gröftur í miðeyrnabólgu

Pneumókokkar í hrákasýni lungnabólgusjúklings, gjarnan tveir og tveir saman.

Pneumókokkar í hrákasýni lungnabólgusjúklings, gjarnan tveir og tveir saman.

Miðeyrnabólgur eru algengasta ástæða fyrir komu barns til læknis og skýrir yfir helming af öllum komum vegna veikinda þeirra, ekki síst á læknavöktum. Meirihluti ungra barna fær miðeyrnabólgu, á fyrsta aldursárinu og sum oft. Flestar miðeyrnabólgur læknast þó af sjálfu sér og best er að bíða með sýklalyfjameðferð nema einkenni séu slæm eins og segir í klínískum leiðbeiningum Landlæknis. Leggja á áherslu á verkjastillingu og nánara eftirlit með þróun eyrnabólgunnar auk meiri fræðslu og ráðgjöf til handa foreldrum í heilsugæslunni. Eins nákvæmari greiningu og með nýrri greiningartækni og rafrænni myndatöku sem kynnt hefur verið hér á landi, má geina og fylgja eftir miðeyrnabólgum mikið betur en gert er í dag. Betur sjá augu en auga.

Einnig eru vísbendingar um, að endurteknar miðeyrnabólgur séu ólíklegri í framhaldinu ef sýklalyf eru ekki notuð af minnsta tilefni auk þess sem þá má koma í veg fyrir stórauknar líkur á að barn beri sýklalyfjaónæma stofna í kjölfarið. Stofnar sem síðan geta smitast á milli barna, meðal annars í leikskólum landsins. Alvarleg er sú staða, sem þegar er orðin hér á landi, að um helmingur alvarlegustu sýkingarvaldanna er orðinn ónæmur fyrir penicillíni og helstu varalyfjum. Því er mælst til að börn á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ástandið er verst, fái hæstu leyfilegu skammta af breiðvirku penicillíni þegar meðhöndla þarf slæmar miðeyrnabólgur hjá þeim. Í hverjum mánuði getur síðan þurft að leggja á annan tug barna á spítala til að fá sterkustu sýklalyf sem völ er á í æð eða vöðva, þar sem önnur lyf virka ekki lengur. Og þá spyr maður sig, hvað næst?

Vandamálið er augljóst og mjög alvarlegt. Flýta verður eins og kostur er að taka upp bólusetningu gegn pneumókokkunum, aðgerð sem getur fækkað miðeyrnabólgum um helming og dregið álíka úr notkun sýklalyfja hjá börnum. Ekkert síður til að ná tökum á sýklalyfjaónæmu stofnunum sem hér grassera og sem bólusett er gegn í leiðinni. Til að nýir sýklalyfjaónæmir stofnar komi ekki í staðinn fyrir þá sem bólusett er gegn VERÐUR hins vegar sýklalyfjanotkunin að vera markvissari í kjölfarið svo við vöðum ekki úr öskunni í eldinn.

Kostnaður þjóðfélagsins vegna vinnutaps foreldra, vegna lyfja og síðar rörísetninga sem allt að þriðja hvert barn fær á Íslandi er mikill, sennilega vel á annan milljarð króna. Spara má því mikið ef reikna má með allt að helmingi færri komum vegna miðeyrnabólgueinkenna til lækna eins og tölur frá Bandaríkjunum sýna eftir að þeir fóru að bólusetja sín börn þar árið 2000. Hundrað og fjörtíu milljónir króna sem er áætlaður kostnaður við bólusetningu hjá einum árgangi barna er því lítill kostnaður á móti væntanlegum langtímasparnaði. Aðgerðin yrði eins mikið markvissari og sparnaður kæmi hraðar fram ef öllum ungbörnum til 3 ára aldurs væri boðin bólusetningin strax fyrsta árið. Aðgerð sem skiptir öll ung börn og foreldra þeirra miklu máli á Íslandi í dag.

15 ára langri sögu að verða lokið- Grein í Morgunblaðinu 26.10.1997

Gerð hefur verið kostnaðarvirknigreining á hagkvæmni bólusetningarinnar og er sá útreikningur jákvæður þótt þar sé gert sé ráð fyrir minni ávinningi af bólusetningunni gegn miðeyrnabólgum en seinni rannsóknir hafa sýnt (allt að helmings lækkun í tíðni) og miðað við aðstæður hér á landi og hárri tíðni barna sem þurfa að fá hljóðhimnurör. Afleiddur sparnaður hér á landi vegna væntanlegra þá hagstæðari þróunar gagnvart sýklalyfjaónæmis til lengri tíma litið er einnig meiri að mínu mati. Eins vegna mikillar undirmönnunar lækna sem eiga að sinna frumheilsugæslunni. Ekki má heldur gleyma þeim ávinningi sem hlýst af góðu hjarðónæmi þegar ungbörn hætta að smita gamla fólkið, afa og ömmur af illvígum pneumókokkastofnum og sem oft  valda alvarlegum lungnabólgum hjá þeim.

Um er að ræða tvær gerðir bóluefnis sem þegar eru á markaði hér álandi.  Annars vegar er um að ræða bóluefnið Prevenar13 sem er 13 gilt bóluefni gegn 13 stofnum af pneumókokkum en sambærileg bóluefni frá sama framleiðenda hefur verið á markaði víða um heim frá síðustu aldarmótum. Hins vegar er um að ræða  Synflorix sem er 10 gilt bóluefni gegn 10 stofnum af pneumókokkum og einnig gegn Haemophilus influenzae (non-typeable) sem er sú baktería sem veldur næst oftast miðeyrnabólgu hjá börnum og jafnvel oftast þar sem farið er að bólusetja gegn pneumókokkum eingöngu. Upphaflegur tilgangur bólusetningar gegn pneumókokkum er engu að síður að ná að fyrirbyggja sem flestar alvarlegar blóðsýkingar sem pneumókokkar geta valdið og sem tekist hefur vel með þeim bóluefnum sem eru á markaði í dag.

Styrkja verður heilsugæsluna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, til að hún geti sinnt verkefnum sínum betur en hún gerir í dag og eins og alþjóðlegar leiðbeiningar segja til um og klínískar leiðbeiningar Landlæknis um meðferð miðeyrnabólgu miðast við. Það verður best gert með því að styrkja heilsugæsluna og fjölga umtalsvert heimilislæknum á næstu árum. Að lokum má ekki gleyma að eitt aðal markmið bólusetningarinnar er að auka lífsgæði barna og fjölskyldna þeirra. Atriði sem margir helstu fjölmiðlar landsins hafa látið sér í léttu rúmi liggja þótt andvökunætur foreldra séu margar og grátur barna mikill. Áhyggjur sem að því er virðist bara foreldrar ungra barna bera enda eiga ungbörnin sér engan opinberann málsvara. Vandamál í nútíma íslensku samfélagi sem snertir litlu börnin okkar mikið og sem hafa fengið ágætis heilbrigðisþjónustu þegar þau eru frísk í ungbarnaheilsuverndinni, þar til nú, en þó lakari þegar þau veikjast.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn