Laugardagur 12.03.2011 - 12:34 - FB ummæli ()

Flug og fall, á hjóli

Það er margt furðulegt í heiminum og eftir því sem maður verður eldri, því gáttaðri verður maður oft á dægurumræðunni. Málefnin dagsins hafa líka legið mis hátt undanfarið en fátt toppar umræðu sem hefur verið gegn lögleiðingu almennrar notkunar höfuðhjálma á hjólum. Ekki síður málflutning þeirra sem ná að tengja lögin við verri lýðheilsu og sem hefti áhuga almennings á hjólreiðum. Umræðu og rök á svipuðum nótum og ég man eftir að hafa heyrt fyrir sléttum 30 árum þegar lögleiða átti bílbeltanotkun og sumir lögðust eindregið gegn á þeirri forsendu að verið væri að svipta þá frelsinu. Sumir geta að minnstka kosti skilið umræðuna á þann veg, ekki síst börn, að hjólahjálmurinn sé óþarfur. Alvarlegast er þó þegar rætur umræðunnar eiga upptök sín hjá sjálfum forsvarsmönnum samtaka hjólreiðarmanna og sem maður skyldi ætla að tækju fyrst og fremst tillit til öryggis hjólreiðarmanna , ekki síst þess hóps sem mest hjólar á sumrin á Íslandi. Að þeir fullorðnu gætu að minnsta kosti sýnt þeim ungu gott fordæmi og látið þau njóta síns eigins efa.

Aðstæður hér heima eru allt aðrar en í samfélögum þar sem hjólreiðar eru rótgrónar samgöngumenningunni og æskunni og því ólíku saman að jafna hvað öll öryggismál varðar. Sérhagsmunagæsla virðist þó ráð för hjá ýmsum sem samt hjóla mikið hér á landi og sjónarmiðin virðast einskorðast við umræðuna um frelsissviptingu og að það sé hallærislegt og óþægilegt að bera hjálma. Það hefti „frelsið“ og takmarki áhuga fólks á hjólum og heilbrigðum lifnaðarháttum. Sumir hafa haft sig mikið í frammi undanfarið, jafnvel í nafni hjólreiðasamtaka og vígbúast nú af kappi í áróðrinum gegn almennri hjálmanotkun. Því skal nú snúast til varnar.

Hjólreiðarmaðurinn er sjálfur hluti því samgöngutæki sem hjólið er þegar það er á ferð um götur bæjarins. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að ökumaðurinn sé varinn að lágmarki með einn lítinn hjálm á höfði og að hann og hjólið sé vel sýnilegt m.a. með endurskinsmerkjum í rökkrinu. Það hlýtur að vera meira skammsýni en heimska að halda að ökumenn bifreiða taki minna tillit til hjólreiðarmanna sem klæddir eru þessum lágmarks „hífðarfatnaði“. Sjálfir sitja reyndar flestir ökumenn bílanna sinna öryggir með sig, umluktir stálhjúp til varnar og spenntir í beltin. Þeir eru löngu hættir að hugsa um lög í því samhengi enda vita vel hvað alvarlegum slysum á fólki í umferðinni hefur fækkað mikið þrátt fyrir aukin fjölda bifreiða og meiri hraða.

Ég ætla heldur ekki að endurtaka það sem ég sagði í fyrri færslu minni um málið nema árétta þá staðreynd að eggin brotna ef þau detta óvarin í gólfið eins og börnunum er sýnt í skólum landsins. Þó ekki ef þau eru klædd „frauðköggli“ eins og Pawel nefnir hjálminn í sinni grein sem sjá má hér til hliðar. Þó verð ég að endurtaka þá staðreynd að hausinn fer fyrst niður ef snögg og mikil hindrun kemur á framhjólið. Afleiðinguna sér maður síðan allt of oft á Slysa- og bráðamóttökunni.

Í dag skrifar Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi hjá Umferðarstofu, grein í Fréttablaðið og bendir á þá staðreynd að alvarlegum hjólaslysum í umferðinni hér á landi fjölgaði um helming milli áranna 2009 og 2010. Í helmingi tilfellana var ekki notaður hjálmur og ótalin eru alvarleg hjólaslys á Íslendingum erlendis. Á sama blaði  er viðtal við Láru Stefánsdóttur, balletdansara um hörmulegt hjólaslys systur sinnar sem  varð einn góðan veðurdag sl. sumar og sem aldrei þessu vant var því miður ekki með hjálminn sinn þegar hún datt á höfuðið og fékk alvarlegan heilaáverka.

Rökum ákveðins hóps manna sem gagngert leggst gegn lögleiðingu hjálmanotkuar við akstur reiðhjóla voru hins vegar gerð góð skil í Morgunblaðinu nýlega þar sem m.a. var rætt við Árna Davíðsson, formann Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM). Hann varaði fyrst og fremst við forræðishyggju og sagði að þar sem hjálmaskylda hafi verið innleidd hafi hún oftar en ekki leitt til minni hjólreiða!. Fækki hjólreiðamönnum dragi úr öryggi hjólreiðamanna. „Öryggi hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda sé best tryggt ef margir ganga eða hjóla,“ Rök sem að mínu mati gilda aðeins ef almennu umferðaröryggi er hægt að fylgja eftir, göngu- og hjólastígar sem víðast og ef veðráttan leyfir, allt atriði sem oft er erfitt að uppfylla á Íslandi. Rök sem heldur aldrei gilda ef maður fellur eða dettur beint á höfuðið.

Í Morgunblaðsgreininni kemur líka fram að „Rannsóknarnefnd umferðarslysa segir í sinni umsögn að rannsóknir hafi sýnt að 75% banaslysa hjólreiðafólks verði vegna höfuðáverka og vísa til skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Til mikils sé að vinna að koma í veg fyrir þessa skaðlegu áverka. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á varnaráhrifum hjólreiðhjálma/hlífðarhjálma sýni að þeir dragi úr líkum á alvarlegum höfuð- og heilaáverkum um 69-79%. „Varnaráhrif hjálma eru þau sömu fyrir alla aldurshópa. Að mati RNU ætti að skylda allt hjólreiðafólk til að nota hlífðarhjálma,“ segir í umsögn nefndarinnar.“

Oft hef ég öfundað fuglana að fljúga frjálsa og fylgist oft með ferðum þeirra um himinblámann, sumar, vetur, vor og haust. Á vorin vaknar allt til lífsins  eins og gerist á næstu vikum og börnunum er þegar farið að hlakka til að komast út að hjóla á hjólunum sín fínu sem fengið hafa að vera í geymslunni í allan vetur. Mér sem lækni á Slysadeild er að sama skapi farið að kvíða því sem í væntum er og gerist oft á hverju vori.

Mörg börnin og fullorðnir eru ryðguð á hljólunum sínum í byrjun vors eins og reyndar mörg hjólin sem eru ekki alltaf ný enda langt frá því þau voru notuð síðast og ekki öll nýsmurð og yfirfarin. Sumir fara full geyst miðað við aðstæður og bremsur og annar öryggisbúnaður á hjólunum er ekki alltaf í fullkomnu lagi. Allt staðreyndir sem gott er að hafa í huga þegar umræðan snýst um að bera okkur saman við þjóðir þar sem hjólreiðar er hversdaglegur viðburður frá blautu barnsbeini allt árið um hring. Því eru aldrei mikilvægara að bera hjálm á hausnum en einmitt þar sem aðstæður til að hjóla eru ekki jafngóðar eins og á landinu okkar annars fagra og fróða.

Fuglarnir þurfa svo sannarlega ekki hjálma, það er alveg rétt, enda eiga þeir loftin blá. Annað verður sagt um götur og hættulega stíga hér á Fróni. Á landinu þar sem okkur var fyrst og fremst ætlað að nota tvo jafngóða og stundum fjóra góða.

Sjálfur ólst ég að hluta upp í sveit á sumrin. Jörðin kringum bæinn voru mínir heimahagar. Þar undi ég mér vel og fór nánast allt fótgangandi, en stundum á hestbaki. Maður lærði að finna sín takmörk og ég undi glaður við mitt. Þessa tilfinningu þekkja flestir sem hafa búið lengi í sveit að náttúran og umgengni við hana kennir manni mest, ekki síst hvernig maður umgengst dýr og vélar eftir aðstæðum. Hjól eru farartæki, stálhestar sem geta farið hratt og umferðin er skeikul. Við getum engan veginn treyst bara á okkur sjálf, hversu klár sem við erum og hjólin góð og flott.

Fuglarnir eru nú óðum að tínast heim og í gær sá ég hópa gæsa fljúga í oddaflugi, magrar og sjálfsagt þreyttar eftir langt flugið yfir hafið. Oddaflug sem móðir náttúra kenndi þeim og þeirra almenna skynsemi og rökhyggja. Ekkert meira eða minna en það nauðsynlegasta. En þær komust heilar heim í ár og ég býð þær velkomnar.

Hettumávar eru ekki hallærislegir og þeir þurfa ekki að nota hjálma. Þeir eru líka frjálsir eins og aðrir fuglar þótt svartir séu á höfðinu. Börn og annað fólk sem ekki fljúga en hjóla þurfa hins vegar að bera hjálm til að verja höfuðið sitt við óvænt fall. Svo einfalt er það nú. Förum öll varlega í sumar og komum öll heil heim eins og farfuglarnir okkar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn