Fimmtudagur 10.09.2015 - 12:07 - FB ummæli ()

Dýrkeyptur einn fugl í hendi á Landspítalalóðinni

a bird in handSennilega eru flestir sammála að við þurfum nú nýjan og góðan þjóðarspítala sem jafnframt verður áfram okkar háskólasjúkrahús, hvar sem hann kynni svo sem að rísa. Ef marka má undirbúning sl. áratugar og umræðu sl. vikna í ræðu og riti meðal stjórnmálamann og stjórnenda Landspítalans, virðist málamiðlunin um bráðabrigðarkost og bútasaum á gömlu og nýju húsnæði á Hringbrautarlóðinni hafa orðið ofan á og þar sem stefnt að hefja framkvæmdir nú sem fyrst. Engu virðist breyta að sýnt hefur verið fram á mikla óhagkvæmni og kostnaðarauka með staðarvalið til lengri tíma litið nema e.t.v. nálægðina við Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni, í samanburði að byggja nýtt á betri stað. Í raun viðurkenna þó flestir innst inni að velja á versta kostinn, gegn þá sinni betri vitund og sem er í hendi fjárveitingavaldsins og Alþingis. Á sama tíma virðist þó nóg fjármagn vera til, til annarra framkvæmda. Menn tala jafnvel meira um nýjan þjóðarleikvang auk hótelbygginga og bankahalla í miðbænum. Þar óttast menn greinilega ekki þenslu- og verðbólguáhrif á þjóðarsálina og sem stjórnmálamennirnir annars vara stöðugt við. Það versta við þetta allt saman er að eftir aðeins nokkra áratugi þarf að hefja allt spítalaferlið upp aftur og finna framtíðarsjúkrahúsi þess tíma hentugri að lokum besta stað.

Bent hefur verið á að byggingahraðinn geti verið mikið meiri ef byggt er strax á opnu svæði sem ein heild og sem heldur þarf ekki að trufla starfsemi sem þegar er í rekstri á Hringbrautarlóðinni, auk aukinna samgönguerfiðleika. Í þessu sambandi er rétt að nefna að Danir eru að hefja framkvæmdir við álíka stórt sjúkrahús á Norður-Sjálandi við Hilleröd og sem á að klárast á 5 árum (2020) eftir eins árs undirbúnings- og hönnunartíma. Mjög nútískulegt og manneskjulegt sjúkrahús sem á að kosta álíka mikið og Hagfræðideild Háskóla Íslands (HHÍ) reiknaði að Nýr Landspítali á Hringbrautarlóð, (Kostur 2) myndi kosta (rúmar 80 milljarðar króna). Hvað ef menn hefðu bara verið opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala en á aðþrengdu Hringbrautarlóðinni, t.d. á Vífilstaðatúninu, í Elliðavogi eða jafnvel Fossvoginum og sem kostar jafnvel mun minna en framkvæmdir að lokum nú á Hringbrautarlóðinni? Og hvað eru önnur sveitafélög í nágrenni Reykjavíkur eiginlega að hugsa er varðar aðgengi að sjúkrahúsi okkar á höfuðborgarsvæðinu öllu?

Miklar umræður hafa farið fram meðal manna á fésbókarsíðu Samtaka um Betri spítala á betri stað. Rúmlega 6000 manns hafa líkað við síðuna og mikill meirihluta t.d. lækna og hjúkrunarfræðinga eru ósátt við núverandi byggingaráform (staðsetninguna). Listinn þar og rök á óhagræðinu og auknum kostnað við að byggja á Hringbrautarlóðinni er óendanlega langur og ekki ráðrúm til að tíunda hér mikið en sem lesa má nánar um á síðunni þeirra. Útreikningar sýna meðal annars allt að 100 milljarða króna tap fyrir þjóðarbúið að lokum. Auk þess mikilvæg rök fyrir of miklu umferðaálagi vestur í miðbæinn og skertan aðgang fyrir sjúkraflutninga. Eins sjúkra- og þyrluflug framtíðarinnar og flugvöllurinn farinn. Á síðustu metrunum nú fyrir nokkrum vikum fyrir framkvæmdirnar, pöntuðu heilbrigðisyfirvöld til réttlætingar nýja kostnaðaráætlun frá KPMG. Hún var í raun kynnt um leið og hönnunin var staðfest með undirritun við hátíðlega athöfn og þar sem loforð voru gefin að framkvæmdirnar færu í útboð á næstu vikum. Eins sem var tilefni til greinaskrifa á óendalegu hagræði að byggja á Hringbrautarlóðinni  og þar sem staðsetningin var meðal annars réttlætt með aðeins 14 mínúta göngu- og hjólatíma helmings starfsmanna, frá heimili til vinnunnar (sennileg þa sem átti að vera fyndið). Aðeins örfáum dögum eftir að skýrslan var kynnt opinberlega og þannig í raun ekki gefinn neinn kostur á gagnrýni eða umfjöllun sem breytt gæti Hringbrautarplaninu.

Vinnubrögðin eru þannig ótrúleg í þessu máli öllu saman frá a-ö. KPMG skýrslan nú og undirritun samninga örfáum dögum síðar er aftast í því stafrófi öllu en þar sem reyndar endurskoðendurnir sjálfir hjá KPMG vöruðu við óáreiðanlega og ónákvæmni vegna skorts á upplýsingum. Hvöttu hins vegar til, eins og stendur í formála skýrslunnar, að menn rýni í gögnin til að skapa heilbrigðari umræðugrundvöll um ákvarðanir. Það hafi verið megin tilgangur skýrslunnar. Engu breytir auðvitað með undirbúningstímann sem tekið hefur um 15 ár og því fjármagni sem varið hefur í glataða hönnun og í fyrri nefndarstörf sem vægast sagt var mjög ábótavant, upp á kostnað um 3 milljarða króna (en sem er samt aðeins um 1% af heildarkostnaði). Ábyrgðin nú liggur hjá Alþingi og sem sjálfur forsætisráðherra hefur lýst undrun sinni á að sé ekki meiri.

Hér verður samt að lokum að gera enn og aftur alvarlegar athugasemdir við allt of lágt mat á endurnýjunarkostnaði á gamla húsnæðinu á Landspítalalóðinni. Athugasemdir sem verður að svara betur og sem gjörbreytt getur glansmyndinni í KPMG skýrslunni og sem HHÍ frá því fyrir ári varaði sterklega við. Að endurnýjunarkostnaður á 50-60 ára gömlu húsnæði sem þarf að berstrípa inn að steinveggum vegna myglu og fúkka, auk endurnýjunar á öllum lögnum, sé aðeins um 110 þúsund krónur á fermetir, í stað um 550 þúsund krónanna ef byggt er nýtt (1/5). Tala sem auðvitað er út í hött og sem sennilega getur orðið hærri en nýbyggingakostnaður á fermetir þegar upp verður staðið. Aldrei heldur auðvitað sem hagstæðasta hönnun vegna samnýtingaráhrifa og t.d. færri gangnabygginga og ef byggt er sem nýtt. Af þessu gefnu og að kostnaður verði að lokum sá sami og þegar byggt er nýtt, verður kostnaður við Hringbraut 20 milljörðum króna dýrari samkvæmt viðmiðum KPMG á nýbyggingakostnaði og heildarkostnaður þá upp á tæpar 70 milljarða króna, en sem HHÍ hafði reiknað árið áður að lágmarki um 87 milljarða (endurnnýjunarkostnaður að lágmarki 250.000 krónur á fermetir). Og síðan tapast þá auðvitað söluverðmæti eignanna á gömlu spítalalóðunum í báðum dæmunum upp á 10-20 milljarða króna og ef spítalanum væri valinn alveg nýr og betri staður. Tölur sem virkilega er þess virði að spá nú betur í áður en lengra verður haldið.

Flestir Íslendingar hljóta að vilja geta verið stoltir af þjóðarsjúkrahúsinu sínu til lengri framtíðar, og sem gamli Landspítalinn var fram eftir síðustu öld. Jafnvel getað litið á hann sem okkar þjóðardjásn á nýrri tækniöld en ekki sem eitthvert skuggahverfi í miðborginni. Stuðningsmenn framkvæmdanna nú benda hins vegar endurtekið á að ekki fáist nóg fjármagn til framkvæmda á nýjum spítala í einum áfanga og sem þeir telja þá þrátt fyrir allt besta kostinn. Að betra og öruggara sé að fá eitthvað nýtt nú á 3-4 árum, þ.á.m. nýjan meðferðarkjarna. Að einn fugl í hendi sé þá betri en tveir i skógi. Vel má vera að það máltæki eigi við hvað lukku okkar varðar í daglega lífinu, en tæplega þjóðardjásnið okkar og framtíðarvonir sem reiknað hefur verið svo rækilega út á alla vegu. Það er a.m.k. mikið hugleysi að skýra ekki út alla og bestu valkostina fyrir þjóðinni og selja henni 3.flokks úrlausn, gegn betri vitund. Eins hvað varðar Reykjavíkurborg sem ekki vill sleppa fuglinum nú úr hendi hvað sem það kostar og hótar ríkisvaldinu viðskiptaþvingunum varðandi sölu á gömlu eignunum og hugsanlegri nýrri lóðaúthlutun en sem þess vegna gæti verið utan borgarmarkanna. Þá sé fuglinn eini í hendi á stærsta vinnustað landsins betri kostur og sem skýrir allt varðandi þeirra afstöðu.

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/08/12/hvad-ef-nyjum-landspitala-er-valinn-betri-stadur/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/10/20/akvordunin-um-nyjan-landspitala-arid-1900-eir-viii/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/11/11/forsendubrestur-og-meinloka-21-aldarinnar-nyr-landspitali-i-gamla-midbaenum/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/05/nyr-landspitali-eins-og-slaemur-draumur-i-dos/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn