Mánudagur 09.10.2017 - 11:25 - FB ummæli ()

Helsjúka heilbrigðiskerfið sem þaggað er stöðugt niður – okkar er nú valið

Byggingaframkvæmdir (2015-2020) við Nýja háskólasjúrkahúsið í Álaborg, Norður-Jótlandi sem verður 140.000 fm2 og kosta mun um 85 milljarða íslenskra króna, fullbúið 2020.

Fyrir rúmlega tveimur árum skrifaði ég pistil hér á Eyjunni í tilefni baráttu SBSBS (Samtaka um betri spítala á besta stað) á þjóðhátíðardeginum 17. júní 2015 og sem er líka afmælisdagur sonar míns sem er í sérfræðingslæknisnámi erlendis. Ég hafði m.a. áhyggjur af hans starfsumhverfi á Íslandi í framtíðinni. Þöggun, sérstaklega hjá RÚV á nauðsynlegri uppbyggingu heilsugæslunnar í landinu, bráðaþjónustu við aldraða, ásamt ásamt byggingaáformum nýs kreppuspítala á Hringbraut var þarna þegar komið til umræðu, en sem átti eftir að versna mikið. Útgangspunktur á greininni var að stundum eru kerfin helsjúk og þjóðin sjálf þarf þá að vera læknirinn.

„Byggingaráformin á Nýjum Landspítala við Hringbraut eru helsjúk. Minnir á geimveru sem er að reyna að endurfæðast út úr sjálfum sér á Hringbrautinni til að geta orðið eilíf. Það ætti flestum ólæknismenntuðum að vera nokkuð ljóst og sem kynna sér málið. Þjóðin (læknirinn) þarf að vitja sjúklingsins strax og sem er að því er virðist veruleikafyrtur (tekur ekki tiltali). Afkvæmið hans er þegar komið á vergang, en sem þarf á öruggum stað að halda sem fyrst, Nýjan Landspítala á betri stað. Hlúum að sjúklinginum nú með bráðaaðgerðum, fjölgun leguplássa og bættum mannauð í heilbrigðiskerfinu. Skoðum strax mögulega framtíðarbúsetu fyrir afkvæmið svo það verði ekki vargfuglunum að bráð.“ Síðan hafa verið tvær kosningar til Alþingis og ekkert hefur breyst!

Pistlarinir um þetta efni eru óteljandi bæði fyrir og eftir. Síðar átti eftir að koma enn betur í ljós að fréttastofu RÚV var bannað að fjalla um gagnrýni á framkvæmdir við Nýja Landspítalann. Jafnvel sem varðar þætti um þjóðaröryggi eins og örugga aðkomu sjúkraflugs á Reykjavíkurflugvöll í framtíðinni og til lendinga sjúkraþyrla á nýja spítalanum á Hringbraut. Eins var án ástæðu hætt við að sýna Kastljósþátt sem búið var að gera með viðtölum við undirritaðann, klínískan dósent við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Guðmund Löve, framkvæmdastjóra SÍBS um mikilvægi forvarna í heilslugæslu, einkum til langtímasparnaðar fyrir þjóðfélagðaið allt og minni lyfjanotkunar í flestum lyfjaflokkum þar sem við erum, ef ekki heimsmeistarar, þá a.m.k. norðurlandameistarar. RÚV hefur aldrei svarað fyrir sig nema með einu bréfi til undirritaðs frá ritstjóra Kastljóss í desember 2015, þar sem hann áréttaði skoðun stofnunarinnar að ekki eigi að rugga bátnum hvað byggingaáform Nýs Landspítla varðar!!

Strax fyrir 3-4 dýrmætum árum voru sömu rök notuð og notuð eru í dag. Að ekki mætti hreyfa við byggingaáformunum að því þau væru svo langt komin og hefðu kostað svo mikið (þetta heyrðum við síðast hjá starfandi forsætisráðherra í gærkvöldi). Samt eru framkvæmdir ekki hafnar, ef undan er skilið framkvæmdir við eitt sjúkrahótel á lóðinni. Allir sjá líka hvað sérhagsmunaaðilarnir eru margir í þessu máli. Verktakafyrirtæki og arkitektar hafa verið feimnir að tjá sig nokkuð, enda miklir hagsmunir í húfi hjá þeim. Stærstir er sjálf Reykjavíkurborg, enda spítalinn stærsti vinnustaður landsins og mikið kappsmál hjá borginni að hafa hann innan borgarmarkanna og helst sem næst gamla 101 miðbænum. Samt klipið af upphaflegu landsvæði spítalans eftir geðþótta til að græða meira á byggingalandi umhverfis, m.a. til hótelrekstrar. Síðast 2012, þegar lóðinn var skorin niður neðan nýju Hringbrautarinnar við Vatnsmýrina, við NA enda neyðarbrautarinnar svokölluðu og sem þegar er byrjað að byggja á (Valslóðinni). Þrátt fyrir að ein megin forsenda upphaflegs staðarvals hafi verið einmitt nálægðin við Reykjavíkurflugvöll!! Svipað er upp á tengingnum er varðar nú aðgangshindranir að spítalanum þar sem nauðsynleg ný umferðarmannvirki sem einnig var meginforsenda upphaflegs staðarvals á Hringbraut, voru aflögð hjá Reykjavíkurborg!

Sérhagsmunatengslin eru reyndar þvers og kruss og hafa alltaf verið frá því fyrir aldarmót og flestir stjórnmálaleiðtogar lagt eið sinn við gjörninginn og pressað á þá sem eftir komu. Eingu máli hefur skipt rök aðila sem gagnrýnt hafa byggingaáformin sl. ár í öllu veigamestu atriðum og er varðar líka góða stjórnsýslu, þjóðaröryggi og umhverfisskipulag. Vinstri menn og Samfyllkingarfólk fer þar fremst í flokki, svo furðurlegt sem það kann að virðast, og sem telja sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Píratarinir virðast of saklausir til að taka afstöðu og margir Sjálfstæðsmenn of stoltir. Við sáum það reyndar vel í sjónvarspkappræðunum í gærkvöldi hvað stjórnmálaleiðtogarnar vissu í raun lítið um heilbrigðiskerfið og hvað umræðan var yfirborðskennd.

Sennilega skiptir þó mestu máli skattfé almennings sem útlit er fyrir að verði illa varið með 100 milljarða króan framkvæmd við illan leik á Hringbraut, á þröngri og illa skipulagðri lóðinni. Þar sem tæpur helmingur byggingamangns heildarframkvæmda er allsherjar uppgerð eða enduruppbygging gamalla og jafnvel ónýtra húsa (u.þ.b 60.000 fm2). Hugmyndir um heilsgræðandi umhverfi spítala er einnig látið fjúka og þess í stað stílað inn á þröngar og lokaðar vistarverur  í nýjum Meðferðarkjarna auk rannsóknabyggingu (Áfanga 1, sem tilbúinn á að vera 2023 (uþb 80.000 fm2) fyrir áætlaðar í dag um 50 milljarða króna. Kostnaður sem á eftir sennilega að tvöfaldast miðað við svipaða reynslu annarra við álíkar aðstæður eins og nú í Stokkhólmi. Svo ekki sé talað um öll óþægindin, hávaðan, mengunina, umferðateppurnar við spítalann á byggingatíma næstu 15 árin. Fjölgun sjúkrarúma á einum stað eru heldur ekki í kortunum miðað við sem við höfum í dag og upphaflega var hugmyndin með einu stóru háskóasjúkrahúsi og fyrirséð að reka verði LSH í Fossvogi áfram.

Samt vilja flestir stjórnmálaflokkar í dag nú rétt fyrir kosningar 2017 bara stinga hausnum í sandinn og láta framkvæmdir halda ótrauðir áfram, án endurskoðunar!!! Þrátt fyrir líka fyrirséða sviðsmynd sem jafnvel stjórnendur spítalans hafa nefnt, að framkvæmdirnar verði aldrei nema til bráðabirgða, segjum 20-30 ár, og svo verði að byrja að finna nýjum þjóðarspítala betri og nýjan stað (og sem gæti þá verið vandfundnari en á þeim svæðum sem við höfum þó þegar yfir að ráða í dag). Miðlægt og gott fyrir allt höfuðborgarsvæði sem tryggir góða og örugga aðkomu, bæði fyrir sjúklinga, sjúkraflutninga og starfsfólk.

Rúsínan í pylsuendanum og SBSBS hafa margsinnis bent á, er að með sama fjarmagni og nú er áætlað að klára klúðrið á Hringbraut við illan leik, má byggja á besta stað mikið fullkomnari þjóðarspítla sem endast mun til miklu lengri framtíðar, á mikið ódýrari og hagkvæmari máta og á styttri tíma en áætlað er ljúka öllum framkvæmdum á Hringbraut. Yfir þá allt að 100 milljarða króna sparnað fyrir þjóðfélagið allt til lengri tíma litið, svo ekki sé talað um meira heilsuöryggi fyrir sjúklinga í græðandi umhverfi og öruggara og aðgengilegra starfsumhverfi fyrir heilbrigðisstarfsfólk.  Mörg dæmi er um álíka slík verkefni á Norðurlöndunum nú, álíka stór háskólasjúkrahús sem reist eru á besta stað á 7-8 árum með undirbúningstíma, fyrir u.þ.b. 80-90 milljarða íslenskra króna, fullbúinn. Þar má t.d. nefna Álaborgar-háskólasjúkrahúsið Norður Jótlandi, Hilleröd-háskólasjúkrahúsið Norður-Sjálandi í Danmörku (2013-2020) og Kalnes-háskólasjúkrahusið í Noregi.

Auðvitað ættum við úr því sem komið er, eftir allt klúðrið og þöggunina, að geta kosið um heildarendurskoðun á framkvæmdum á Nýjum Landspítla við Hringbraut og hugsanlga mikið skynsamlegri ákvarðanir á stærstu og dýrustu ríkisframkvæmd sögunnar. Í stað þess að láta þröngsýni sérhagsmunahópa ráða áfram ferðinni. Og ef Danir og Norðmenn geta þetta svona auðveldlega, af hverju ekki við á mestu hagsældartímum Íslandsögunnar? Eða viljum við eins og bara áður safna upp í nýja IceSave skuld fyrir komandi kynslóð?

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn