Laugardagur 26.09.2020 - 18:20 - FB ummæli ()

Kálfanes á Ströndum 2020

 

Kálfanes og Ós við Steingrímsfjörð 25.9.2020

Ekki er hjá því komist að tengja líðandi atburði við söguna og landið, í gær á göngu minni upp í Kálafanesfjall, eins og fyrir rúmlega 4 árum og sem ég skrifaði þá um. Í aðdraganda forsetakosninga og sem mig langar að rifja upp og þar sem sumir spá nú upphafi mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar, hvað svo sem það merkir. Í tilefni af lífsbaráttu almennings gegnum aldirnar við oft óblíða ströndina, mikla fátækt og plágur og ekki síst baráttuna við stórhöfðingjana sem öllu réðu. Einn var þó sá stórhöfðingi sem lét skoðanir valdaklíkunnar ekkert á sig fá og var mikill vinur smábændanna. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1203) og sem barðist fyrir fátæklingana. Þegar Guðmundur tók við embætti biskups á Hólum fyrir um 800 árum skipaði hann svo fyrir að enginn í biskupsdæmi sínu skyldi svelta og allir sem kæmu að Hólum ættu að fá tvær máltíðir á dag, í mikilli óþökk höfðingjavaldsins. Guðmundur góði varð hins vegar svo vinsæll að tugir manna fylgdu honum hvert sem hann fór um héruð, væntanlega með vitneskjuna um að þá væru mestu líkurnar á að fá magafylli. Guðmundur góði heimsótti ennfremur frekar fátæk héruð eins og Strandirnar og sem sagan segir að hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Einn sá staður sem hann gisti á var Kálfanes og reist hafði verið kirkja 1182. Í jarðabókinn 1709 kemur fram að Kálfanes var þá meðal stærstu bújarða Strandasýslu og hlunnindi lágu m.a. í silungsveiði í Ósá og Tröllkonusíki, auk mikillar grasa- og hrísræktar. Tenging við aðra kirkju í mínum huga í fjarlægum heimshluta á svipuðum tíma.

kirka kálfanes

Kirkjurústir í Kálfanesi

Ófáar eru laugarnar á Ströndum sem Guðmundur góði blessaði á leið sinni og sem taldar voru veita lækningamátt löngu eftir hans daga, löngu fyrir sögu læknisfræðinnar á Íslandi 1760. Í dag er ég hins vegar læknirinn á Ströndum og reyni að beita nútíma læknisfræði í þágu íbúanna. Í stað lækningajurta og lauga áður fyrr. Reyndar má enn finna uppsprettuna góðu í Kálfanesi, en vatnið í henni var talið svo heilagt og kröftugt að bera mætti það yfir þveran Steingrímsfjörð í lopahúfu, án þess að dropi færi til spillis. Á öðrum stað við Kaldbak má enn finna lind sem ætluð var sjónveikum. Á Laugarhól í Bjarnafirði má síðan baða sig í Guðmundarlaug.  

Á bæjarhlaðinu við Kálfanes vex enn sjaldgæf fræg lækningajurt, stórnetlan. Stórnetlunnar er getið í heimildum frá 18. öld og talið var að rót hennar hefði sérstaklega mikinn lækningarmátt. Ef hún væri soðin í víni og hunangi að þá gagnaðist hún gegn brjóstveiki, hósta og hryglu og getið er m.a. um í ritum Ólafs Olavius og í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Líklega hefur þessi jurt verið flutt til landsins og ræktuð fyrst og fremst til lækninga, en einnig var hægt að vinna úr henni hör til dúkagerðar og til skrifpappírsgerðar og sem þótti mjög góður víða erlendis. Jörðin Kálfanes lagðist í eyði árið 1940 en þar eru nú nýir ábúendur. Flugvöllur Hólmavíkur liggur nú í landi gamla Kálfaness.

Á Kálfanesi á Ströndum mætist nútíminn og fortíðin. Gömul læknisfræði og ný og sem ég hef stundum skrifað um áður. Eins saga góðmennsku, heiðarleika og umburðarlyndis. Guðmundur góði biskup skaraði fram úr hvað þessa hugsun varðar fyrir 800 árum og sem sumir stjórnmálamenn dagsins mættu taka sér til fyrirmyndar og stundum vilja mest hygla sér og sínum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn