Laugardagur 21.7.2012 - 18:58 - FB ummæli ()

Gömul sannindi eða ný um tóbakið?

Tóbaksreykingar er ein mesta heilbrigðisvá samtímans og sem veldur hvað flestum ótímabærum dauðsföllum í hinum vestræna heimi. Lungnakrabbamein og æðasjúkdómar eru þar efst á blaði en sem níkótínið eitt og sér er saklaust af að valda. Allur reykurinn og tjaran sem berst ofan í lungun og síðan um líkamann er megin skaðvaldurinn.

Munntóbak (snus) sem framleitt er eftir ströngum reglum t.d. í Svíþjóð inniheldur minnst af hættulegustu efnum sem finnast í tóbaksreyknum og er auk þess talið geta dregið talsvert úr löngun í tóbaksreykingar. Munntóbakið sjálft er talið vera yfir 90% skaðminna fyrir hina líkamlega heilsu en tóbaksreykurinn. Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa því leyft framleiðslu og sölu á munntóbaki og sóttst eftir leyfi fyrir útflutningi á því til annarra EB landa með þeim rökum að neysla munntóbaks dragi úr tóbaksreykingum. Öll fíkn er hins vegar varasöm. Margir telja þannig munntóbakið meira ávanabindandi og valda meiri fíkn hjá ungu fólki en tóbaksreykingarnar og því hugsanlega varasamara til lengri tíma litið.

Hreinunnið munntóbak eins og snusið, er þó a.m.k. mikið „hreinni“ tóbaksvara en neftóbakið sem mest er notað sem munntóbak í vör hjá ungu fólki hér á landi. Íslensk tóbaksvara sem líklegri er að geta valdið sárum og jafnvel krabbameini í munni en snus. Það er þannig allt sem sýnist í þessum efnum enda heilbrigðisyfirvöld á Norðurlöndunum hálf ráðvillt og ósammála hvað gera skuli í tóbaksvarnamálum yfirhöfuð.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), seldi rúm 30 tonn af neftóbaki í fyrra og hefur salan hér á landi þrefaldast á aðeins 10 árum, á sama tíma og dregið hefur aðeins lítillega úr sölu á tóbaki til reykinga. Uggvænlegri eru þó upplýsingar um að um tuttugu prósent ungra karla, 16 -23 ára, neyti neftóbaks í munn reglulega. Sem er aðallega íslenskur fínkornóttur tóbaks“ruddi“ sem neytt er í óstöðluðu skammtamagni, ólíkt „neytendavænum“ og stöðluðum skömmtum munntóbaks (snus). Bara á síðasta ári hefur salan á neftóbakinu aukist um tæplega fjórðung og fréttir berast af jafnvel af íþróttafólki sem neyta „neftóbaks“ í munn á íþróttakappleikjum. Nýlegar upplýsingar eru líka um að neftóbaksneyslan hér á landi sem er nær eingöngu meðal ungra karla, hefur ekki dregið úr tíðni reykinga umfram stúlkna og virðist því sem um hreina viðbót á neyslu tóbaksefna að ræða, ólíkt því sem hefur sýnt sig hjá vinum okkar Svíum þar sem tóbaksreykingar eru miklu minni. Þess ber þó að geta að neysla „neftóbaks í munn“ hér á landi er engan vegin samanburðarhæf við mikla munntóbaksnotkun (snus) Svía og því verður að gera ráð fyrir að þróunin yrði svipuð hér álandi með tímanum.

Meginregla íslenskra tóbaksvarnarlaga er að banna innflutning og sölu á nef- og munntóbaki, en neftóbak hefur engu að síður verið framleitt á Íslandi lengi á undanþágu. Sama er að segja með nýja íslenska „neftóbakið“ Lundann sem kom á markað sl. haust og er innflutt frá Danmörku en markaðsett til notkunar sem munntóbak fyrst og fremst. ÁTVR hefur nýverið ákveðið að hætta innflutningi á Lundanum og taka ekki inn neinar nýjar tegundir á nef- og munntóbaki til sölu, meðan úr því verður skorið hvort selja megi Lundann sem munntóbak. Óskað hefur verið eftir afstöðu velferðarráðuneytsisins til málsins og endurmati á reglum um sölu á munn nef- og munntóbaki yfirhöfuð. Í frétt á heimasíðu ÁTVR segir að verði lagaumhverfið óbreytt blasi við að neftóbakstegundum og þar með munntóbakstegundum muni fjölga talsvert á næstunni.

Jóhanna S. Kristjánsdóttur, verkefnisstjóra hjá Ráðgjöf um reykbindindi skrifaði hins vegar athyglisverða grein í Fréttablaðið síðastliðinn vetur undir heitinu, Er í tísku að nota munntóbak?  Greinin fjallaði um skaðsemi munn- og neftóbaksins sem greinarhöfundur taldi að sumu leiti skaðsamara en sígaretturnar. Eitur sem hún taldi töluvert sterkara sem fíkniefni en tóbakið sem reykt væri og það sem er alvarlegra, oftar undanfari að neyslu sterkari vímuefna. Vil hér vitna í hluta greinarinnar varðandi eituráhrif nef -og munntóbaks:

„Munntóbak (hér er þó sennileg fyrst og fremst átt við neftóbak, notað sem munntóbak) er sambland af tjöru og nikótíni, sem telja um 2.500 efni og eru a.m.k. 28 þeirra þekktir krabbameinsvaldar. Munntóbak er mjög sterkt í samanburði við sígarettuna, þ.e. sum eiturefnin eru í hærra hlutfalli í munntóbakinu heldur en í sígarettunni. Nikótínmagn getur verið allt að fjórfalt meira í munntóbaki heldur en í sígarettu. Nikótín er ávanabindandi efni og veldur mikilli fíkn. Samkvæmt nýlegri rannsókn er nikótínfíknin sterkari en hass- og heróínfíknin. Þeir sem byrja að nota tóbak í vör verða mjög fljótt háðir því vegna mikils magns nikótíns í tóbakinu.

Þetta eru ansi stór og alvarleg orð um lausasölu á tóbaksvöru á Íslandi, framleitt og selt af sjálfu ríkinu. Af þessum orðum má ætla að jafnvel hættulegri efni séu að koma á markað í stað hefðbundins reykingatóbaks, sem þó mikið meira er vitað hvaða líkamlegum skaða getur valdið og margar rannsóknir liggja á bak við. Hins vegar þarf að hafa í huga í umræðunni til að gæta sannmælis að framleiðsla á munntóbaki er mjög misjöfn eftir framleiðendum og neyslupakkningar mismunandi. Hreinlæti og einangrun annarra skaðlegra efna úr tóbakinu, annarra en níkótíns sjálfs sömuleiðis eins og í sænska snusinu.

Á myndinni til hliðar má sjá að tóbak (níkótin) er almennt sterkara ávanabindandi efni en alkóhól, valíum og jafnvel rítalín, þótt sjálf vímuáhrifin séu auðvitað minni. Fíknin auk sefjandi áhrifa er hins vegar sem mestu máli skiptir í umræðunni um neyslu munntóbaks í dag og sem ber mest að varast, til að forðast áhættu á neyslu annarra sterkari vímuefna í framhaldinu. Jafnvel sem hreina viðbót við tóbaksreykingar sem fyrir er. Ekki síst meðal unga fólksins sem leitar oft líka í önnur aðgengileg vímuefni sem eru á markaðnum hverju sinni og oft hefur verið í fréttum, jafnvel tengt neyslu sterkari kannabisefna en þekkjast erlendis og sem sem framleidd eru hér á landi.

Neysla maríjúana hefur færast mikið í vöxt síðastliðin misseri og jafnvel dæmi um að fleiri hafi prófað maríjúana en tóbak í framhaldsskólum landsins. Framboðið jókst eftir hrun, þar sem hægt er að rækta maríjúana án mikils kostnaðar innanlands, jafnvel í heimahúsum. Spurningar vakna nú hvort munntóbaksnotendur séu ekki ólíklegri til að neyta kannabisefna en tóbaksreykningarfólk. Líklegra er hins vegar að þeir sem neyti kannabisefna leiti til sterkari vímuefnanna, jafnvel rítalíns og skyldra metýlfenídat-lyfja ef framboðið er til staðar á sama markaði og sem einnig var mikið í fréttum sl. vetur. Það segir auðvitað sína sögu að upp undir helmingur sjúklinga sem leitað hafa á Vog hafa misnotað rítalín og skyld lyf, flestir í upphafi eftir aðeins stutta kannabisneyslu.

Síðastliðið haust heyrði ég viðtal við Þórólf Þórlindsson, prófessor í félagsfræði á RÁS 2. Þar fjallaði hann m.a. um félagslegar ástæður fyrir neyslu fíkniefna unglinga og að ekki væri nóg að sinna fræðslu sem forvörn, heldur þyrfti að styrkja fyrst og fremst félagsleg úrræði þeirra, tómstundir og íþróttastarf. Málin snúast líka oft í höndunum á okkur og stundum fögnum við of fljótt árangri, sofnum síðan á verðinum og missum jafnvel af heildarmyndinni. Þannig er of snemmt að fagna áfangasigri nú í minnkuðum tóbaksreykingum ungs fólks, ef neysla annarra hættumeiri fíkniefna eykst í staðinn, jafnvel neysla á harðari fíkniefnum. Munntóbakið getur þannig orðið meiri hvati í þeirri þróun en gamla reyktóbakið. Sem er þá eins og úlfur í sauðagæru og jafnvel sem olía á eld, á mesta samfélagsvandamál unga fólksins.

Öflugar forvarnir, fræðsla um skaðsemi tóbaksreykinga og annarra vímuefna ásamt eflingu á félagslegum úrræðum barna- og unglinga er vænlegri til árangurs en beinhörð boð og bönn. Sem erfitt er að halda og gilda jafnvel ekki alltaf jafnt fyrir alla, unga sem aldna. Það er þannig t.d. erfitt að sjá skynsemina í því að leyfa sölu á gamla íslenska neftóbaksruddanum sem notaður er í vör í ómælum skömmtum á sama tíma og hættuminni neytendavænni pakkningar á erlendu munntóbaki eru bannaðar. Áreiðandi er þó nú að meta hvort frjáls sala á munntóbaki hér á landi sé líkleg til að draga úr tóbaksreykingum umtalsvert, en sumt bendir til að svo sé ekki. Heilbrigðisyfirvöld í sumum löndum telja svarið vera augljóst og að góð reynsla sé þegar af frjálsri sölu munntóbaks sem dragi úr tóbaksreykingum, m.a. hjá stóra bróður okkar í Svíþjóð htttp://www.cbsnews.com/video/watch/?id=6362540n.

Stóra spurningin sem heilbrigðisyfirvöld verða nú að svara er hvort hægt væri að réttlæta sölu á munntóbaki til að minnka tóbaksreykingar eða hvort við viljum treysta meira á boð og bönn og banna allan innflutning á tóbaki sem svo sannarlega er óholl neysluvara, hvernig sem á hana er litið? En ef slakað verður á ríkisklónni og innflutningur á munntóbaki (snus) leyfður, misnotum við þá ekki bara frelsið og bætum neyslunni ofan á aðra óhollustu? Gömul sannindi og ný.

 http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/03/25/serfraedingur-segir-munntobak-geta-bjargad-mannslifum-stjornvold-fari-ad-segja-sannleikann/

http://visir.is/bann-a-munntobaki-leidir-ekki-til-aukinna-reykinga/article/2012120719009

http://www.visir.is/arlega-greinast-18-med-krabbamein-i-munnholi-og-vor/article/2011111019551

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 18.7.2012 - 22:04 - FB ummæli ()

Nokkur orð í umræðunni um landið okkar og áform Grímsstaðabænda

„Huang Nubo sagði við Bloomberg fréttaveituna í morgun að hann ætlaðist til þess að búið verði að undirrita leigusamninga um Grímsstaði á Fjöllum við sveitarfélög á Norðurlandi í október. Hann mun borga tæpan milljarð króna fyrir leigu til 40 ára, en samningurinn gerir ráð fyrir framlengingu til 40 ára. Einnig kom fram í máli Huangs að hann hyggst reisa 100 glæsihýsi á Grímsstöðum sem seld verða kínverskum auðmönnum, en auk þess ætlar hann að reisa lúxushótel og 18 holu golfvöll.“

http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/07/17/100-ibuda-thorp-a-grimsstodum-kemur-sveitastjornarmonnum-ekki-a-ovart/

 

“Degi síðar var gengið eftir kolsvörtum líflausum jökulsandi, eins og hann hefur alltf verið og áður en nokkurt líf varð til. Allt þar til komið er að hundruð ára gömlum jökuluppsprettum, sem nú er lindarvatn og ölkeldur og vatnið tærara en nokkuð annað. Þar sem fagurgrænar hávaxnar hvannir vaxa eins og lítil pálmatré í séríslenskri eyðimörk og þar sem sumarið varir aðeins í nokkrar vikur. Og rétt áður en en vatnið seytlar upp úr svörtum sandinum má sjá stök blóm. Hvaðan það í ósköpunum kemur, eitt lítið hvítt blóm með græna vanga, er hulin ráðgáta nema þú þekkir landið þitt og lífsviljann sem að baki býr. Sem spannar nákvæmlega þetta sem er svo sérstakt. Allt síðan niður í þingeysku dalina sem smá saman verða grænni og grösugri eftir sem neðar dregur og líf í öllum myndum verður sýnilegra.”

„Nákvæmlega þetta sérstaka samband sem er svo viðkvæmt og dæmigert fyrir íslenska náttúru. Sem ásamt góðri menntun, landbúnaði, sjósókn, nýsköpun og vaxtarbroddum í atvinnulífinu, gerir okkur að þeirri þjóð sem við erum. Samband sem okkur einum bera að varðveita áfram í þúsundir ára fyrir komandi kynslóðir og leyfa öðrum þjóðum síðan að njóta með okkur. Vegna þess hvað Íslendingar eru heppnir þrátt fyrir allt. En um leið viðkvæmur lífsneisti lítillar þjóðar sem aldrei má fórna fyrir skammtíma gróða.“

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/06/28/einstakt-blom-a-oskjuvegi/

 

„Ein mestu verðmæti sem við eigum eru ósnortin landsvæði en þeim hefur fækkað gríðarlega á jörðinni síðastliðin eitt hundrað ár og fækkar enn. Í því ljósi er mikilvægt að við reynum eftir fremsta megni að skipuleggja nýjar framkvæmdir á þeim svæðum sem þegar hefur verið raskað og forðast í lengstu lög að hrófla við þeim sem eru ósnortin.“ (Kristín Inga Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar)

http://visir.is/osnortin-landsvaedi-ein-mestu-verdmaeti-sem-vid-eigum/article/2012707189985

 

„Þetta er mjög stór framkvæmd og snertir framtíðarráðstöfunarrétt okkar á landi. Ef menn leigja land til langs tíma getur tíminn orðið svo langur að leigan verði hreinlega ígildi eignarréttar. Þessa hluti þarf að taka til skoðunar og ég hvet Norðlendinga og alla sem koma að þessum málum til að stíga til jarðar af fyllstu gát.“ (Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra)

http://www.dv.is/frettir/2012/7/18/vid-erum-ekki-ad-tala-um-einhverja-sjoppu/

 

“Nú erum við samt minnt á hvað tímarnir hafa breyst frá því við vorum ung og óþroskuð. Þegar maður trúði að sumt yrði aldrei til sölu. Allra síst landið okkar sem kostaði svo mikil átök að eignast. Eins fyrir nokkrum árum þegar maður hafði þroskast og minnstu munaði að það yrði tekið af okkur. Þar sem við kunnum okkur ekki forráð. Aldrei aftur, vonandi. En það verða mikil þáttaskil í 1000 ára sögunni ef við nú seljum landið okkar í pörtum fyrir hæstbjóðendur. Ef tímabundnir ábúendur um allt land vilja ráðstafa því í hendur útlendinga til þess eins að græða.

Í þúsund ár höfum við glímt við landið og náttúruöflin og komist ágætlega af. Á nokkrum árum töpuðum við glímunni við fjármálaöflin, og nú er úr okkur allur vindur. Hjá þjóð sem hefur byggt styrkleikan sinn á smæðinni og kunnáttu á veikleikum, en ekki stærðinni og græðginni. Hjá þjóð sem vill vera gestgjafi, en ekki þyggjandi og leiguliði í eigin landi.”

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/09/05/thattaskil/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.7.2012 - 22:51 - FB ummæli ()

Afreksíþróttir og aðrar „þjóðaríþróttir“

Mikið er rætt um íþróttir alla daga sem er vel, enda vekja þær upp hvata til meiri hreyfingar og minna á hvað mannlegur líkami getur áorkað og hvar við getum sótt þróttinn. Líka áminning um óskina að fögur sál fylgi hraustum líkama og að maður er oftast manns gaman í leik. Ekki þarf heldur að efast um hvatninguna sem íþróttir vekja í brjóstum yngstu kynslóðarinnar. Auðvitað fyllist landinn síðan þjóðarstolti þegar íslenskir afreksmenn vinna til verðlauna úti í hinum stóra heimi. Væntingar sem við gerum m.a. til Ólympíufaranna okkar. Til að gera garðinn frægan eða bara til að vera með í samfélagi þjóðanna.

En eru sjálfar afreksíþróttir hollar fyrir þjóðina? Eru þær kannski fyrst og fremst ætlaðar til skemmtunar fyrir þá sem horfa á eða eru þær sprottnar upp af falskri ímynd afreksmannsins og óraunhæfum væntingingum? Hvar liggja síðan mörk þess mannlega og ofurmannlega og hvenær tekur eitthvað annað allt annað við í stað hins sanna íþróttaanda?

Annie kemur ekki til greina sem íþróttakona ársinsÞað þekkja samt allir þá góðu tilfinningu að geta verið góður í einhverju og skarað fram úr. Að vera hrósað sem okkur Íslendingum er ótamt að gera og jafnvel vinna til verðlauna. Ekki skal heldur neitað að gaman var að vera í stól neytandans í sófanum heima og horfa á knattspyrnuleikina á EM í sumar. Dást að leikni og elju einstakra leikmanna og njóta þess að fá að vera með, á allt annan hátt. Í dag eru enda mestu afreksmenn íþróttanna meira sjónvarpshetjur en nokkuð annað, í hörkuvinnu á ofurlaunum. Hetjurnar sem eru sprelllifandi í háskerpulitum inni á stofugólfinu okkar í stað svört hvítu taflmannanna á stofuborðinu forðum. Jafnvel þegar við sitjum sem límd yfir ofbeldinu sem birtist oft í kappleikjunum, en viðurkennum síðan ekki að hraustasta kona heims uppfylli leikreglurnar að vera kölluð íþróttkona landsins.

Nú vill svo til að einkalíf íþróttahetjanna er mjög vinsælt fréttaefni fjölmiðla. Það fylgir því að vera átrúnaðargoð, í íþróttunum eins og í skemmtanaiðnaðinum. Í sjálfu sér eru fréttirnar auðvitað ekkert merkilegar, nema af því að um afreksíþróttafólk er að ræða sem er yngstu kynslóðinni svo mikil fyrirmynd. Glansmyndinni af ofurhetjunni er sannarlega haldið á lofti af íþróttahreyfingunni sjálfri til að trekkja áhugann og allskonar fyrirtæki fá að nýta sér. Allt er undir, auglýsingatekjur sem og útsendingatekjur. Leikmenn gagna síðan jafnvel kaupum og sölum og ýmsikonar hneygslismál koma upp daglega tengt mútum og veðmálum. Fæðubótarefni og orkudrykkir eru á boðstólnum til að auka ágóða margra enn frekar. Á meðan sitjum við flest og sogum í okkur sannleikann um íþróttaandann, eins og hann birtist á skjánum.

Til að einhver geti orði afreksíþróttamaður í dag að þá þarf viðkomandi að leggja á sig ofuræfingar, jafnvel mörgum sinnum á dag alla daga vikunnar, helst frá unga aldri til fullorðinsára. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Engum dylst heldur að erfðir og líkamlegt atgervi í æsku ræður miklu um lokaárangurinn. Áður hef ég fjallað um hættuna sem fellst í ofþjálfun og hvað einkenni ofþjálfunar er algeng ástæða komu til lækna í dag. Jafnvel börn sem rétt eru byrjuð í grunnskóla og sem komin eru með vöðvabólgueinkenni og álagseinkenni við liðamót. Síðar svefntruflanir unglinga, óeðlilega megrun og ofþreytu, ekki síst hjá ungum stúlkum. Vannæring og lystarstol eru síðan meðal alvarlegustu sjúkdómseinkennanna og sem vísa þarf til sjúkrahúsmeðferðar.

Margir þjálfarar eru þannig allt of kappsamir og keyra á æfingarnar í þeim eina tilgangi að einhver í hópnum nái að skara fram úr. Foreldrar margir hverjir, eru heldur ekki á varðbergi. Alsæl að börnin séu ekki í neinum vafasömum félagsskap eða föst við tölvuna og fórnarlömb tölvufíknar. Að þau nái jafnvel að uppfylla drauma sem þeir sjálfir gátu aldrei látið rætast.

Oft eimir þá lítið eftir af gömlu ímyndinni og hugsjónamarkmiðum íþróttanna frá tímum ungmennahreyfingarinnar í gamla daga. Að stuðla fyrst og fremst að almennu heilbrigði og íþróttum fyrir alla, ánægjunnar vegna. Aldrei hefur samt verið lögð meiri áhersla á mikilvægi hreyfingar fyrir alla í almennri heilsugæslu. Til að verjast sjúkdómum eða síðar jafnvel sem hluta meðferðar frekar en lyf. En þátttaka almennings í íþróttahreyfingunni þarf að vera á réttum forsendum, lítil hreyfing eða mikil, íþróttir fyrir smáa sem stóra, unga sem aldna.

Tími er til kominn að láta af þeirri ímynd íþróttahreyfingarinnar og íþróttafélaga sem byggir fyrst og fremst á afreksíþróttum, gróða fárra, en fórnum allt of margra. Að íþróttirnar séu fyrir alla, sem hluti af heilbrigðum lífstíl og hvating til daglegrar hreyfingar. Að allir geti verið með sem hafa gaman af keppni og leik og við hin fáum að njóta og fylgjast með. Að einstaklingar fái að finna sig í hópum, ekki síst börn og unglingar sem samt oft hrökklast frá í dag. Að því að þau eru ekki nógu „góð“. Jafnvel sem hafa orðið fyrir einelti áður en leiknum líkur. Þegar sífellt sé verið að fleyta rjómann ofan af og hygla aðeins þeim bestu. Í stað þess að leggja meiri áhersluna á að tryggja fyrst og fremst liðsandann og reyna að fá alla að vera með sem lengst. Að laga bilið þarna á milli er mesta áskorunin til íþróttahreyfingarinnar og íþróttafélaganna í dag. Þetta á við flestar íþróttagreinar sem vinsælastar eru hér á landi, og tilfellin eru ófá sem foreldrar nefna síðar við lækninn sinn þegar vanlíðan barnsins er til umræðu.

Lífið sjálft sé ákveðin keppni og þar sem aðeins fáir vinna til verðlauna. Fyrir hina getur lífið engu að síður verið frábært og oft í raun miklu betra en á stormasömum toppnum. Félags- og heilbrigðisvitund þjóðarinnar að allir fái sem jöfnustu möguleikana á að fá að njóta sín í þjóðlífinu. Dr. Seiichiro Yonekura, forstöðumaður í nýsköpunarfræðum við háskóla í Japan sagði í viðtali hér á landi fyrir tveimur árum, að ein ástæða þess að hér þokaðist lítið í jákvæða átt hvað efnahagsmálin varðaði, væri að alþingismenn og aðrir sem stjórnuðu landinu væru oft með of litla sérfræðiþekkingu. Að baki þeim stæðu hins vegar sérhagsmunahópar, hver með sínar þarfir og sem toguðu hver í sína áttina. Það skilaði sér í því að þjóðin gekk ekki í takt. Í austurlöndum sé það liðsheildin, þekkingin og samstaðan sem mestu máli skiptir og sem skapar mestu framfarirnar. Sama má auðvitað segja um ýms önnur þjóðfélagsmál á Íslandi í dag, ekki síst heilbrigðismálin þar sem hver höndin er upp á móti annarri þessa daganna.

Öllu máli skiptir þannig að fá að  vera með og að allir fái ækifæri að vinna í hópum sem liðsheild. Ekki að aðeins að þeir „bestu“ dragi vagninn, hver og einn í sína átt með sín eigin markmið. Auðvitað má líka eitthvað á milli vera og að þeir „góðu“ fái að njóta sín. En það á að vera á eigin fornsendum og krafti en ekki vegna utanaðkomandi þrýstings, foreldra, skóla, þjálfara, íþróttafélaganna, fyrirtækjanna, fjölmiðla eða sérhagsmunahópa. Við erum í sama liðinu þegar upp er staðið. Gerum öll gagn, en erum með ólíkar þarfir og hæfileika. Þetta hefðum við átt að vera búin að læra sl. ár og að kapp er best með forsjá. Þeir sem fóru mestan í fjármálaheiminum og urðu jafnvel frægir með eindæmum, hafa nú týnst heim og sitja margir hverjir í dag með sárt ennið, skemmdir á sál og líkama og jafnvel búnir „að spila allt úr vösunum“. Þeim líður þannig ekki alltaf best sem ná toppnum og alger óþarfi er að reyna að telja okkur trú um að svo sé. Það gildir jafnt í íþróttunum sem og í pólitíkinni, reyndar í samfélaginu öllu.

Ímynd hjólreiðaíþróttarinnar er í molum. Stórstjarnan Lance Armstrong var stútfull af ólöglegum lyfjum á hátindi ferilsins. Umfjöllun í Fréttablaðinu 27.10.2012

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/04/24/graeni-karlinn-snyr-aftur/

Kraftakonan sem ætlar að verða læknir, viðtal við Anníe Mist, Fréttatíminn 20-22. júlí

http://www.ruv.is/frett/haett-komin-vegna-ofthjalfunar

http://ruv.is/frett/hreyfingarleysi-drepur-milljonir

http://www.bbc.co.uk/news/uk-wales-politics-18876880

http://visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP12677

http://www.dv.is/skrytid/2012/8/6/phelps-eg-held-ad-allir-pissi-i-sundlaugina/

Of mikil spenna og íþróttir, viðtal Í bítinu 9.8.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 10.7.2012 - 14:39 - FB ummæli ()

Bráðaástand í bráðaþjónustunni!

redlightAllt sl. ár hefur verið mikið rætt um álagið á heilsugæsluna og eins um hættuástand sem getur skapast á Slysa- og bráðamóttöku LSH vegna of mikils álags á starfsfólkið sem þar vinnur. Á spítala allra landsmanna þar sem skorið hefur verið niður um tæpan fjórðung á allra síðustu árum. Þökk sé íslenska fjármálakerfinu. Álagið hefur stundum verið skilgreint innanhús sem „rautt“ sem er hættuástand í starfseminni eða jafnvel „svart“ sem er glundroðastigið, og ætti helst ekki að geta orðið nema þegar alvarlegar hamfarir verða. Og þótt, sem betur fer, ekki sé hægt að rekja dauðsföll beint til niðurskurðarins og bráðveikir fá enn fyrst hjálp, sér auðvitað hver sem vill, að afleiðingarnar geta oft orðið skelfilegar fyrir þá sem þurfa á skilvirkri og góðri heilbrigðisþjónustu að halda og að óbeint megi örugglega rekja ótímabær dauðsföll til niðurskurðarins. Þar sem oft er skautað hratt á mjög hálum ís.

Mikill niðurskurður á þjónustu í heilbrigðiskerfinu og léleg uppbygging heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um árabil er staðreynd. Það versta er þó að heilbrigðisyfirvöld vilja lítið kannast við vandann og kenna nú leti starfsfólks um svo og skipulagsleysis innan starfssviðanna. Að alltaf megi gera betur og heilbrigðisstarfsfólk þurfi einfaldlega bara að bretta upp ermarnar.

Ábendingar bárust strax sl. sumar frá talsmanni ungra lækna um óeðlilega mikið vinnuálag á unglækna á deildum Landsspítalans og að þeir töldu sig ekki geta sinnt sjúklingum sem skyldi. Þar sem allt að 8 klukkustunda bið getur verið eftir læknishjálp og læknar komst ekki yfir frágang mála svo vel sé og nýlega kom líka fram í góðri yfirlitsgrein um vandann hjá formanni læknafélagi Íslands, Þorbirni Jónssyni, af gefnu tilefni. Læknaráð Landspítalans ræddi einnig um fyrir ári, að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra léti gera úttekt á starfsemi spítalans, m.a. með tilliti til mönnunar og álags, en sem lítið hefur heyrst af síðan. Hins vegar var nýlega haft eftir velferðarráðherra að íslenskir læknar væru alveg nógu margir innan heilsugæslunnar og að þeir þyrftu bara að standa sig betur og deila út verkum sínum með öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Ástandið skýrist hins vegar öðru fremur af mikilli undirmönnun lækna í grunnþjónustunni, heilsugæslunni eins og yfirlæknir hennar Lúðvík Ólafsson hefur réttilega bent á af sama tilefni. Faglega séð skiptir auðvitað miklu máli hvar og hvernig heilbrigðisþjónustan er veitt, á öllum stigum hennar. Öll heilbrigðisvandamál eiga augljóslega ekki heima á bráðamóttöku háskólasjúkrahússins og að réttur fagaðili sinni hverju erindi fyrir sig, eins og menntun hans stendur til og Lúðvík benti réttilega á. Ekki með útvötnun læknisþjónustunnar eins og vissir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta ræða mikið um og að hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og læknaritarar geti gengið í störfin af hentisemi hverju sinni (task-shifting). Eins og nú er t.d. rætt um með nýju frumvarpi velferðarráðherra og að veita eigi með nýjum lögum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum lyfjaávísanarétt á hormónalyf.

Flest erindi til heilbrigðisþjónustunnar eru sem betur fer ekki bráðaerindi og ættu fyrst og fremst heima í heilsugæslunni. Því má með sanni segja að mikið álag á vaktþjónustuna nú og margfallt meira en gerist hjá nágranþjóðunum, endurspegli rangt skipulag í heilbrigðisþjónustunni hér á höfuðborgarsvæðinu um árabil. Og að sú umræða sé þannig eins og umræðan um ofnotkun lyfja og mikið hefur verið skrifað um, aðeins toppinn á ísjakanum. Mikið álag á bráðadeildum er auðvitað í takt við mikla og vaxandi vaktþjónustu almennt á höfuðborgarsvæðinu þar sem fleiri erindum var orðið sinnt á kvöldin, nóttunni og um helgar, en yfir daginn í heilsugæslunni. En það var líka vilji heilbrigðisyfirvalda í fyrra að leggja læknisþjónustu heilsugæslulækna niður á nóttunni á höfuðborgarsvæðinu, þriðjapart sólarhringsins og auka þar með álagið á bráðadeildir spítalanna.

Sumir kalla Slysa- og bráðamóttökuna líka „deildina sem aldrei sefur“. Þar sem aðstæður geta samt breyst eins og hendi sé veifað í blóðugan vígvöll. Jafnvel árásir á starfsfólk með smitað blóð að vopni og hráka. Hvað er það annað en stríðsástand, ekki síst þegar starfsmennirnir þurfa síðan að hlaupa milli þeirra mest slösuðu og bráðveikustu, en líka milli þeirra sem aðeins þurftu að fá að hitta heilsugæslulækni?

Allt útlit er fyrir að ástandið bara versni á næstu árum með vaxandi skilnigsleysi heilbrigðisyfirvalda, enda eldist starfsstétt heimilislækna hratt með tilheyrandi vaxandi álagi á vaktþjónustuna og undirmannaðar spítaladeildir. Vonandi gera samt nú fleiri sér grein fyrir vandanum sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir. Ekki veitir heldur af liðsinni almennings og fjölmiðla til að hafa áhrif á stjórnmálamennina, því langan tíma getur tekið að byggja upp aftur þjónustu sem hefur verið rifin niður, heilsugæsluþjónustu sem tók marga áratugi að byggja upp og var orðinn vísir að einhverju miklu meiru.

Oft er ég spurður af hverju ég sé að útsetja mig fyrir að fara á þennan “vígvöll” sjálfviljugur og vinna á bráðamóttökunni jafnhliða störfum í heilsugæslunni og á Læknavakinni. Sennilega felst svarið fyrst og fremst í löngun að geta tekið þátt í óvæntri atburðarrás þar sem maður getur ennþá komið að einhverju gagni og uppsker jafnvel meira þakklæti en í sjálfri heilsugæslunni og hrun blasir við. Sennilega er heldur hvergi hægt að sjá spegilmynd þjóðfélagsins betur frá öllum könntum en á Slysa- og bráðamóttökunni. En það er löngu tímabært að við stöldrum öll við, lítum í baksýnispegilinn og hugsum okkar gang. Ekki síst nú þegar búið er blanda öllum heilbrigðismálunum þjóðarinnar saman á einu gólfi bráðadeildar Landsspítala háskólasjúkrahúss.

Svartur eða rauður, velferðarráðuneytið á samt greinilega næsta leik. Byrja verður að styrkja grunninn og mannauðinn. Áður en farið er að byggja meira úr steinsteypu, stáli og gleri. Bæta verður kjörin og tryggja góða mönnun í heilsugæslunni og á bráðmóttökunni, það er bráðamál. Svo halda megi í það minnsta bráðaþjónustunni áfram á grænu ljósi, á gulu í versta falli.

http://www.visir.is/nidurskurdur-farin-ad-ogna-oryggi-sjuklinga/article/2012120719182

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.6.2012 - 09:59 - FB ummæli ()

Einstakt blóm á Öskjuvegi

Í sjálfu sér er einstakt að ég rúmlega miðaldra kallinn skuli velja slíkan titil á pistil. Ekki vegna þess að titilinn sé verri en hver annar, heldur vegna þeirrar staðreyndar að undirritaður hefur seint verið talinn rómantískur að eðlisfari. Frekar sjálflægur, en jarðbundinn. En það er landið okkar enn einu sinni og ákveðin tímamót nú sem eru tilefni skrifanna. Samsvörun íslenskrar náttúru við lífið sjálft og sjá má í svo mörgu. Skynjun á óendanlegri fegurð í okkar nánasta umhverfi, ef því er gefinn gaumur. En líka daglegt amstur sem er mörgum erfitt og viðkvæmt. Flókinn heimur sem spannar allt frá dýrslegu eðli mannsins, til hins fullkomna heims þar sem maður og jörð virðast geta runnið saman í eitt. Þar sem við viljum alltaf eiga heima en okkur vantar sárlega leiðsögn. Og því fer oft sem fer, jafnvel hjá heillri þjóð.

Fyrir  nokkrum árum gekk ég ásamt konu minni og yngstu dóttur, svokallaðan Öskjuveg. Ein af mörgum gönguferðum um ævina og sem allar hafa verið gefandi, þótt á ólíkan hátt sé. Andlegur efniviður í málverk hugans sem breytt getur oft nútíð og þátíð í nýja vídd. Þessi ferð var einstök fyrir nýja skynjun og sem mér hefur lengi langað að reyna að koma í orð, en látið hjá líða vegna fátæktar í ræðunni. Líkt og í lífinu getur augnablik á göngu í hrjóstugu íslensku landslagi verið óútreiknanlegt. Bak við svarta gjáandi klöpp eða mosabarð er alltaf eitthvað nýtt að sjá og framandi, en samt svo kunnuglegt. Stundum eins og þér sé einum ætlað að skynja.

Öll víðáttan til allra átta, kallar á sterkar tilfinningar. Öll fjöllin og jöklarnir fyrir þig og íslenska þjóð að njóta. Eins og þau hafa verið í þúsundir ára. Sjóðheitur sumarvindurinn sem þú finnur best inni á beru hálendinu eða ísköld rigningin sem þvær þér um vangann. Gulur og grænn mosi, lyng og ilmandi kjarr. Jökulár og stundum illvígt apalhraun yfir að fara. Jafnvel í hópi með útlendingum sem við viljum getað deilt landinu okkar með, því eingin þjóð er eyland. Á tveimur fyrstu dagleiðunum var gengið í þetta sinn frá Hvannalindum og yfir í hina öskugráu Öskju. Þar sem síðan var hægt að baða sig í heitu og djúpbláu gígvatninu. Degi síðar var gengið eftir kolsvörtum líflausum jökulsandi austan Öskju, eins og hann hefur alltf verið og áður en nokkurt líf varð til. Allt þar til komið er að hundruðára gömlum jökuluppsprettum, sem nú er lindarvatn og ölkeldur og vatnið tærara en nokkuð annað. Þar sem síðan fagurgrænar hávaxnar hvannir vaxa eins og lítil pálmatré í íslenskri eyðimörk, en þar sem sumarið varir aðeins í nokkrar vikur. En rétt áður en en vatnið seytlar upp úr svörtum sandinum má sjá stakt blóm. Hvaðan það í ósköpunum kemur, eitt lítið hvítt blóm með græna vanga, er hulin ráðgáta nema þú þekkir landið þitt og lífsviljann sem að baki býr.

Allt niður í þingeysku dalina sem smá saman verða grænni og grösugri eftir sem neðar dregur og líf í öllum myndum verður augljósara. Lömb og hross í haga og birkigrænir lundir. Ganga sem endar í stígum og þar sem að lokum má sjá sveitabæi. Gangan okkar er á enda eftir sjö frábæra sumardaga. Ganga sem gaf okkur sýnishorn á því hvernig jörð og líf verður til, og allt þar á milli. Nákvæmlega þetta sérstaka samband sem er svo dæmigert fyrir íslenska nátttúru. Vegna þess hvað við Íslendingar eru heppnir þrátt fyrir allt. En um leið dæmigert um viðkvæmt samband og lífsneista lítillar þjóðar sem ekki má fórna fyrir skammtíma gróða.

Til fararinnar góðu í upphafi þurfti góðan og vinnusaman farastjóra, sem kunni vel til verka, þekkti leiðina, náttúruna og landið. Góðan ræðumann, skipulagðan og fróðan. Í okkar ferð var sá maður Ingvar Teitsson, læknir, hjá Ferðafélagi Akureyrar. Landbúnaður um aldir og sjósókn, hefur gert okkur að þeirri þjóð sem við erum. Að varðveita gömlu gildin, tryggja menntun og tækifærin í nýsköpun og ferðamennsku, gerir okkur hins vegar að þeirri þjóð sem við viljum vera. Til þeirrar leiðsagnar kýs íslenska þjóðin nú um úr hópi nokkra ágætra forsetaframbjóðenda. Og segja má að forseti íslenska lýðveldisins sé einskonar þjóðarblóm í landi elds og ísa, friðar og ófriðar á viðsjárverðum tímum í heiminum öllum. Og við eigum að velja persónuna með bestu hæfileikana sem ég tel að þessu sinni tvímælalaust vera Ari Trausti. Þjóðin og landið okkar á aðeins það besta skilið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.6.2012 - 22:06 - FB ummæli ()

Bóndi er bústólpi

Á undanförnum vikum höfum við fengið að kynnast ágætum forsetaframbjóðendum sem allir boða nýja tíma, en hver á sinn hátt. Í miðri kreppu og á viðsjárverðum tímum, um það eru allir sammála. Sitjandi forseti er hins vegar tákn síns eigin tíma, tíma sem við viljum öll gera upp sem fyrst. Gamla bóndans þar sem búskapurinn stóð ekki undir sér. Sem sló sér á brjóst en særði þjóðarsálina og tefldi framtíð búsins og landstólpans í mikla tvísýnu. Forseti sem vill treysta meira sitt eigið vald, meðan aðrir treysta meira á þingræðið og samvinnu á ögurtímum. Einskonar sameiningartákni þjóðarinnar og embættismanni sáttaumleitana í stóru þjóðmálunum, eins og á Alþingi til forna. Ekki þann sem vill horfa á einskonar vindhana á Bessastöðum og skynja á draumkenndan hátt þær bylgjur sem stundum kallast þjóðarvilji.

Til að ná sáttum milli ríkjandi stríðandi afla og hagsmuna í þjóðfélaginu þarf sterkan og vinnusaman bónda. Enginn er betur til þess fallinn í dag en Ari Trausti. Á stórbýlinu Íslandi sem allar þjóðir horfa til, ekki síst í vistvænu tilliti sem fyrirmynd annarra landa. Sem stendur með Alþingi en ekki á móti. Bóndans sem öll þjóðin kýs nú til starfsins. Því bóndi er bústólpi.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist · Vefurinn · Vinir og fjölskylda

Fimmtudagur 14.6.2012 - 22:01 - FB ummæli ()

Heyrnarlaus, tannlaus og jafnvel sjónlaus!

Oft veltir maður því fyrir sér hvar allur heilbrigðiskostnaðurinn liggur sem er að verða þjóðinni allt of dýr. Á sama tíma og fólk sem annars hefur verið heilsuhraust hefur ekki efni á að viðhalda tönnunum sínum, kaupa sér heyrnartæki og jafnvel að láta fylgjast með sjón og augnþrýstingi. Þegar tennurnar hrynja, heyrnin tapast og sjónin er smá saman að hverfa. Þegar mesta áherslan er hins vegar lögð á ódýra lækninshjálp og meðferð lífstílstengdra sjúkdóma sem við sjálf höfum ráðið mestu um. Sjúkdómum tengt heilbrigðisfaraldri 21. aldarinnar, offitu, sykursýki auk reykingatengdra sjúkdóma og sem allt stefnir í að sé að verða heibrigðiskerfinu ofviða. Eins í þjóðfélagi þar sem minna er rætt um kostnað af tilfallandi alvarlegum sýkingum eða þegar við viljum sýna fyrirhyggju og láta bólusetja okkur eða börnin okkar en sem kostar umtalsverðar fjáhæðir sem við höfum ekki öll efni á (t.d. gegn pneumókokkasýkingum barna eða leghálskrabbameini ungra kvenna og kynfæravötum unglinga). Eins þegar geðlyfin eru talin meira nauðsynleg en sálfræðihjálpin sem kostar meira. Eru þetta e.t.v. fyrstu merkin um hrakandi heilbrigðiskerfi þar sem aðeins þeir efnamestu eru vel tryggðir?

Nýlega var hjá mér hálf níræður hress maður sem hafði verið nær blindur sl. 10 ár vegna skýjamyndunar í augnsteinum. Löngu hættur að fylgjast með í sjónvarpi og lesa blöðin en heyrði þó sæmilega og gat þannig fylgst með fréttum. Hann lýsti vel fyrir mér þeirri guðsgjöf sem það í raun var og hann fékk sjónin aftur eftir augnsteinaaðgerð og sem hann taldi sig búinn að missa fyrir lífstíð. Hátækniaðgerð sem þegar allt kom til alls var ekki svo flókin eða kostnaðarsöm.

Oft gleymum við hins vegar því sjálfsagðasta og einfaldasta. Að viðhalda góðri heilsu með lágmarkshjálp læknisfræðinnar og heilbrigðiskerfisins. Annarra aðgerða en endilega stórskurðlækninga á hátæknisjúkrahúsi og flókinna rándýrra lyfjameðferða sem oft eru auðvitað mjög þarfar líka. Góð tannheilsa skiptir alla jafnmiklu máli og léleg tannheilsa getur sannarlega rústað annars góðri heilsu. Það er í raun stóralvarlegt mál að þurfa að draga allar tennur úr annars hraustum einstaklingi á besta aldri, einfaldlega af því hann hefur ekki efni á að sækja tannlæknaþjónustu og sem getur kostað hann milljónir króna í dag. Þar sem hver tannfylling með einni krónu getur kostað hundruðir þúsunda króna í peningum talið.

Víða á Norðurlöndunum er farið að ræða rándýran tannlæknakostnað og að hann sé að verða almenningi ofviða. Helst er rætt um aukna aðkomu sjúkratrygginga sem létt gætu mörgum róðurinn og sem þegar upp er staðið, skilað sér til baka í betri heilsu síðar og þannig minnkað kostnað þess opinbera í öllum læknis og lyfjakostnaði. Ekkert síður til að auðvelda þeim hinum sömu betri lífsgæði og réttlátan heilsujöfnuð.

Heyrnarleysi er auðvitað líka afskaplega alvarlegur sjúkdómur sem einangrar fólk félagslega og veldur kvíða og depurð. Ný tækni hefur rutt sér til rúms á síðsutu áratugum í gerð heyrnartækja sem hægt er að stilla eftir þörfum hvers og eins. Tæki sem komin eru með svokallaða gervigreind sem auðveldar notkun tækjanna við mismunandi aðstæður. Jafnvel hjá yngra fólki svo lítið betri á og sem í vaxandi mæli mælist með alvarlegar heyrnarskerðingar. Tækin kosta hins vegar formúgu, fleiri hundurð þúsund á aðeins annað eyrað svo margir hafa ekki efni á þeim. „Forréttindi“ að fá að heyra eins og annað fólk og sem tryggir betur og lengur viðveru á vinnumarkaðnum.

Einhvern veginn finnst mér að tryggja eigi öllum eins góða sjón, heyrn og tannheilsu og hægt er út lífið. Sumir eru heppnir að fæðast með sterkar tennur og aðrir svo óheppnir að missa heyrn eða sjón fyrir aldur fram. En það er eins og önnur viðmið ríki til þessara sjúkdóma en annarra í íslenska velferðarþjóðfélaginu og sem jafnvel nær til barnanna. Staðreyndir sem skoða ætti betur hvernig hægt er að koma á móts við, ekkert síður en alla aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Sem hluta af markvissum aðgerðum til sparnaðar til lengri tíma er litið og góðum forvörnum. Þar sem allir sitja við sama borð, ólíkt hvað sjúkdómarnir heita.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Þriðjudagur 12.6.2012 - 13:35 - FB ummæli ()

Blæðingarhætta af völdum hjartamagnýls meiri en talin hefur verið

Sl. haust fjallaði ég aðeins um náttúrulyfið magnyl (aspirín), gamalt varasamt lyf með nýtt hlutverk. Þá sérstaklega sem segavörn og til blóðþynningar fyrir sjúklinga í sérstakri áhættu fyrir æðastíflum tengt kransæðasjúkdómi. En líka í seinni tíð sem hugsanlega tengist vörn gegn ákveðnum ristilkrabbameinum. Varað var þó við aukinni blæðingaráhættu af völdum aspiríns, jafnvel lífshættulegum heilablæðingum og blæðingum frá meltingarvegi, auk hættu á miklum blæðingum sem geta orðið eftir jafnvel minniháttar slys. Þetta á ekki síst við  þegar magnyl er tekið í litlum skömmtum sem hjartamgnyl 75-150 mg á dag. Eins hefur lengi verið varað við hærri skömmtum í seinni tíð, en sem notaðir voru hér áður gegn sótthita og gigtarverkjum, ekki síst meðal barna vegna ýmissa annarra alvarlegra aukaverkana. Nú er þannig frekar mælt með inntöku parasetamóls í þeim tilgangi.

Eins og fram kemur í grein í nýjasta hefti amerísku læknasamtakana JAMA, Journal of the American Medical Association sem kom út 6. júní sl., virðist áhættan á að fá fyrirvaralausar hættulegar blæðingar aukast um 55% samanborið við þann hóp sem ekki tekur magnyl (<300 mg á dag) eða sem samsvarar í tveimur tilfellum af hverjum 1000 á hverju ári. Áhættan er þannig svipuð og að fá alvarlegt hjartaáfall vegna kransæðastíflu og þegar magnylið er ekki tekið inn reglulega og áhættan er reiknuð út undir 10% líkum yfir 10 ára tímabil. Rannsóknin sem er ítölsk náði til um 200.000 einstaklinga sem tóku aspirin yfir nokkra ára tímabil, árin 2003-2008.

Ef áhættan er þannig metin meiri en 10% (eins og t.d. reikna má út í áhættureikni Hjartaverndar) er þannig hugsanlega réttlætanlegt að gefa aspirín sem blóðþynnandi lyf. Þótt bandarísk heilbrigðisyfrvöld (US Preventive Services Task Force) hafi hingað til mælt með aspiríni sem fyrstu forvörn hjá körlum 45-79 ára og konum 55-79 sem telja sig í áhættu fyrir kransæðablóðþurrð, hafa evrópsku hjartasamtökin (European Society of Cardiology) ekki ráðlagt slíka meðfeð sem fyrstu forvörn. Og þótt koma megi í veg fyrir 7 slæm hjartaáföll hjá 1000 einstklingum á ári hverju þegar áhætta á að fá kransæðastíflu er metin milli 10-20% yfir 10 ára tímabil, að þá fáum við að meðaltali a.m.k. eina slæma heilablæðingu og 3 lífshættulegar aðrar blæðingar á móti, auk hugsanlegra annarra aukaverkana sem tengjast stöðugri lyfjagjöf með hjartamagnyli. Og til að hugsanlega 2-3 njóti þannig einhvers ávinningsins, að þá þarf að meðhöndla alla hina 997 með sömu áhættuna í upphafi og ekki gagnast meðferðin.

Þannig ætti enginn að taka hjartamagnyl nema samkvæmt læknisráði og helst aðeins þegar um staðfestan slæman kransæðasjúkdóm er að ræða. Ekki síst gamalt fólk sem þegar er í stóraukinni áættu á að fá lífshættulegar blæðingar m.a í heila. Eins hefur sýnt sig að sjúklingar með alvarlega sykursýki gagnast lyfið verr en öðrum. Annað gildir auðvitað þegar hjartamagnyl er tekið vegna gruns um bráða kransæðastíflu og sem getur þá bjargað miklu ef tekið er inn tímalega. Þetta allt bera að hafa í huga þar sem hjartamagnyl er lausasölulyf og mjög vinsælt meðal þeirra sem telja sig í aukinni áhættu fyrir kransæðasjúkdómnum.

Reyklaus lífstílsbreyting með aukinni hreyfingu og góðu mataræði er hins vegar miklu líklegri til ávinnings í þessum efnum auk þess sem stjórna þarf oft blóðþrýstingi, kólesteróli og blóðsykri með góðum lyfjum og eftirliti. Eins má ekki gleyma ýmsum öðrum lyfjum (anticoagulant) sem gefin eru þegar veruleg hætta er á blóðþurrð hvort sem um er að ræða í heila eða hjarta og eins þegar leysa þarf upp blóðtappa sem þegar hefur myndast t.d. í fæti eða lunga.

http://www.medscape.com/viewarticle/765163?sssdmh=dm1.791635&src=nldne

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/10/30/gamla-goda-magnylid-varasamt-en-med-nytt-hlutverk/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Laugardagur 9.6.2012 - 16:02 - FB ummæli ()

Erum við auðtrúa á töfralausnir og ofurlyf?

adventures_of_baron_munchausen2Það er svo sannarlega ekki alltaf allt satt sem sýnist við fyrstu sýn. Það ættum við að vita þjóða best í ljósi efnahagshrunsins mikla. Ekkert síður sem viðkemur sýn á góðri stjórnsýslu. Að auðvelt sé að fegra sannleikann þannig að við flest trúum og að við Íslendingar séum bestir í öllu.

Í dag ríkir hins vegar hálfgert náttmyrkur á ýmsum sviðum heilbrigðismála og sem þolir illa dagsljósið. Ekki síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu þar sem annað hrun blasir nú við í heilsugæslunni. Eftir áratuga aðdraganda sem koma hefði mátt vel í veg fyrir og þar sem hátt í 50 sérmenntaða heimilsilæknar vantar til starfa. Á sama tíma og við höfum státað okkur á tillidögum að vera allra þjóða heilbrigðust og með eitt besta heilbrigðiskerfi veraldar.

En hver er þá sannleikurinn á bak við huldusögurnar þótt vissulega séum við ennþá hraust þjóð, sem betur fer og mannauðurinn í heilbrigðiskerfinu mikill? Hér vil ég fyrst og fremst ræða málin út lyfjaávísunum sem ég þekki best til og álagið á skyndivaktir hvers konar. Sem eru margfalt fleiri og meira notaðar en meðal nágranaþjóðanna og sem segir auðvitað sína sögu og meira en margt annað. Spegilmyndina má nefnilega vel sjá í öllum skyndiúræðunum í heilbrigðiskerfinu og lyfjanotkun landans, einum dýrasta málaflokki heilbrigðismálanna. Ekki síst veikrar aðkomu heilsugæslunnar að málunum. Ekki í glæsilegum byggingaáformum á gömlu Landspítalalóðinni og sem mesta athyglina fær í umræðunni um heilbrigðismálin í dag. Þar sem einblínt er á framtíðardrauma en litið fram hjá fortíðavandanum og stöðunni eins og hún blasir við okkur flestum.

Fyrir rúmlega 2 árum átti reyndar að taka lyfjamálin til gagngerar endurskoðunar hjá heilbrigðisráðuneytinu með það að leiðarljósi að samþætta stjórn lyfjamála í stjórnsýslunni og sem hafði verið töluvert gagnrýnd. M.a. vegna staðreynda sem lengi hafa legið fyrir um allt of mikla lyfjanotkun í flestum lyfjaflokkum hér á landi.

Gera þarf í upphafi skýran greinarmun á heildarnotkun í hverjum lyfjaflokki fyrir sig annars vegar, og hins vegar sem ekki er síður mikilvægt, notkun einstakra undirflokka gamalla og nýrra lyfja sem mikill verðmunur getur verið á. Lyfjanotkun Íslendinga hefur reyndar verið meiri en á hinum Norðurlöndunum í flestum lyfjaflokkunum um árabil, en þó sérstaklega í nýju lyfjunum, oft svokölluðum „ofurlyfjum“.

Ofurlyf kalla ég lyfin hér sem markaðssett eru með það í huga að virka að einhverju leiti betur en eldri lyfin, þótt þau áhrif komi í reynd ekki nema takmörkuðum fjölda að gagni. Vegna meiri notkunar þessara lyfja almennt hér á landi, mætti þó eins halda að heilsa Íslendinga væri verri en meðal nágranaþjóðanna. Í flokki ofurlyfja eru m.a. nýjustu sýklalyfin, kólesteróllækkandi lyf, gigtarlyf, magalyf og geðlyfin. En skýringar á þessari miklu notkun lyfjanna eru sennilega allt aðrar.

Sennilegasta skýringin á muninum er aðgengið og vinnulag hvað varðar lyfjaávísanir lækna. Auðvitað mætti líka kalla lyf „ofurlyf“ ef þau eru notuð án læknisfræðilegrar ástæðu (non-pharmacological prescription) í þeirri trú að þau virki á einkenni sem þau gera í raun ekki, a.m.k. ekki á líffræðilegan máta eins og á við um sýklalyf sem notuð eru gegn kvefi og þar með vírusum þar sem sýklalyf virka alls ekki neitt. En stundum virðist nóg að trúa, eða skulum við segja að tilgangurinn með lyfjaávísun helgi stundum meðalið?

Ekki er síst átæða til að kanna hvernig staðið er að lyfjaendurnýjunum gegnum gáttina sem enginn læknir fær að gá inn fyrir, en allir læknar geta sent inn í. Sjúkraskráin er enda ekki samræmd milli heilbrigðisstofanna og enginn getur séð oft hvað hinir gera. Vandi sem er meiri eftir sem tímaframboð hjá læknum er minna og feliri lyfjaendurnýjanir fara hálf sjálfvirkt í gegn með rafrænum hætti. Og sjálfur heimilislæknirinn, gæsluvörður sameiginlegrar sjúkraskrár og sem endurnýjar flest lyfin, fær heldur ekki að kikja inn fyrir og sjá hvað aðrir hafa ávísað.

Eins fáranlegt það hljómar og fallað er um ofnotkun lyfja, hef ég oft fjallað um lyfjaskort í landinu á lífsnauðsynlegum gömlum lyfjum. Á sama tíma og allskonar ný lyf flæða yfir markaðinn. Skýringarinnar er að leita í þeirri staðreyns að yfirleitt eru það ódýrari lyfin sem  detta út og sem lyfjainnflytjendur og framleiðendur hagnast ekki lengur nóg á. Þannig er fyrir löngu orðin þörf á ábyrgri stofnun til að sjá um að nauðsynlegustu lyf séu líka alltaf til í landinu. Að endurvekja mætti Lyfjastofnun Ríkisins af þessari illu nauðsyn og þar sem markaðslögmálin spila á okkur og okkar heilsu. En lítum nú nánar á vandamálin tengt lyfjastjórnuninni í landinu enda um miklar fjárhæðir að ræða sem oft má spara auk þess sem ofnotkun lyfja geta verið heilsuspillandi.

Forsendur á réttri notkun lyfja í þjóðfélögum er góð þekking lækna, en fræðsla og væntingar almennings skipta einnig miklu máli. Alþjóðlegar rannsóknir á lyfjanotkun sýna oft upp undir helmings mun á milli landa og jafnvel milli svæða í hverju landi fyrir sig. Ýmislegt í þjóðarsálinni og stjórn atvinnulífsins hér á landi undanfarin ár styður þær hugmyndir að markaðslögmál nýfrjálshyggjunnar hafi ráðið mestu. Skyndiákvarðanir allsráðandi á flestum sviðum og stjórnsýsla heilbrigðismála þar ekki undanskilin. Fyrirtækin áttu jú að verða sem stærst samkvæmt kenningum markaðs- og stjórnsýslufræðarinnar, oft á kostnað mannauðssjónarmiða. Allir vita sögu sameiningu sjúkrahúsanna og heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu löngu fyrir efnahagshrun, í góðærinu þar sem mörgum blæddi og blæðir nú enn meira. Einnig lyfsölueinokun lyfsölurisanna sem nánast útrýmdu gömlu apótekunum . Allir þekkja rök útvegsmanna í dag þar sem stærðin og gróði fárra ráða mestu, jafnvel meðal sjómannanna sjálfra sem róa og sem telja að núverandi hagkvæmni í rekstri réttlæti arðrán. Menn horfa gjarna framhjá kjarnavandamálum sem blasað hafa við lengi.

Í skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og uppbyggingu sl. ára, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hefur mest verið lagt upp úr skyndimóttökum hverskonar til að mæta sívaxandi þjónustuþörf í stað uppbyggingar heilsugæslunnar. Tímaleysi læknis og jafnvel sjúklings ræður síðan miklu um hvað þrýstingurinn verður mikill á skyndilausnir og ásókn í úrræði hverju sinni. Ný og vel auglýst lyf koma þá oft til álita. Þótt nýjustu lyfin séu í mörgum tilfellum heldur virkari en þau gömlu, skiptir sá munur ekki máli fyrir fjöldann eins ogh áður sagði. Sérstaklega þegar margfaldur verðmunur er hafður í huga og hætta er á að nýjar ófyrirséðar aukaverkanir komi fram með tímanum eða ónæmi skapast fyrir lyfjum eins og þegar um sýklalyf er að ræða.

Fáfræði almennings þegar kemur að vitneskju um heilsuna og kröfu á bráðalausnir virðist þannig miklu meiri hér á landi en í nágranalöndunum. Umræða um heilsutengd mál eru þar miklu meira áberandi í fjölmiðlum og sem standa sig mikið betur að gefa heilsutengdu efni fast pláss í sinni dagskrá og á sínum síðum. Ekki síst ríkisfjölmiðlarnir. Staðreyndin er engu að síður sú að lyfjakostnaður ríkisins er mikill og auðvelt væri að spara milljarða króna á hverju ári ef menn héldu sig við ódýrari og oft jafngóð eldri lyf. Þetta hefur t.d. sannast vel með blóðfitulækkandi lyfin og magalyfin sem voru sett á Lyfjalista Sjúkratrygginga Íslands fyrir þremur árum sem fyrsta val með meiri niðurgreiðslu og sem ber að hrósa. Þá má heldur ekki gleyma að ómarkviss notkun góðra lyfja geta verið heilsunni skaðleg. Ómarkviss notkun sýklalyfja hér á landi um árabil, sem annars eru góð lyf, hefur komið illa niður á lýðheilsunni í landinu um árabil og sem verður að breytast svo ekki fari enn illa. Þróun sem Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur miklar áhyggjur af og er nálæga daglega í fréttum. Þar sem við Íslendingar stöndum miklu verr að vígi en margar nágranaþjóðirnar.

Ný lyf þurfa líka alltaf að sanna sig eftir markaðssetningu með tímanum, þegar betur er hægt að meta langtímaaukaverkanir. Fyrir skemmstu voru t.d. flestum konum um árabil ráðlagðir kvenhormónar um og eftir tíðarhvörf til að viðhalda æskublómanum, en sem síðar reyndust auka áhættu á hjartaáföllum og auka á tíðni á brjóstakrabbameini. Nýtt gigtarlyf (Vioxx) sem var mjög vinsælt um árabil fyrir áratug eða svo og var mikið notað við hverskonar gigt, en reyndist síðan auka umtalsvert áhættu á hjartaáföllum og það snarlega tekið af markaði. Nýjustu rannsóknir sýna að svipað gæti átt við önnur gigtarlyf sem hafa verið hvað vinsælust í dag (diclofenac). Mörg ný breiðvirk sýklalyf sem fyrir utan að vera notuð að óþörfu hafa allt of mikil áhrif á sýklaflóruna okkar og skapar betri aðstæður fyrir sýklalyfjaónæma stofna að blómstra, meðal annars í nefkoki barna. Staðreyndir sem allt of margir hafa látið sér fátt um finnast.

En af hverju er oftrú á lyf svona mikil hér á landi? Eins og áður segir má kenna skipulagi í heilbrigðiskerfinu mest um og þar sem kerfin tala ekki saman. Áherslan er oft á afgreiðslu einhverskonar eða úrlausn „með lyfi“  í stað ráðlegginga og fræðslu sem er oft nóg til að byrja með, en tekur meiri tíma. Tímaleysið og áherslur á skyndimóttökur virðist þannig skipta mestu máli og eins þegar sjúklingur má ekki vera að því að koma í bókaðan tíma á daginn, en óskar frekar eftir stuttum bráðatíma á kvöldvöktum.  Sem er merki um lærða slæma hegðun, sem er sjúkdómahvetjandi og leiðir frekar til oflækninga. Ungt fólk sérstaklega telur t.d. oft það ekki skipta máli til hvaða læknis það sækir, heldur aðeins að það fái þjónustu þegar því hentar, eins  fyrir börnin sín. Þarna koma gæðaþróunarmál, rannsóknir og notkun sannreyndra klínískra leiðbeininga að miklu gagni og sem mikið hefur verið unnið að í grasrótinni og sem mæla alveg með því gagnstæða. En til að svo megi vera þarf nægjanlegt tímaframboð á daginn í heilsugæslunni og að eðlilega sé staðið að uppbyggingu heilsugæslunnar og sem því miður hefur alveg vantað.

Fyrir þremur árum varð ríkisvaldið líka að taka ákvörðunarrétt á lyfjavali af læknum í ákveðnum lyfjaflokkum með reglugerðarákvæðum og útgáfu Lyfjalista í sparnaðarskyni. Þá eru aðeins ódýrustu lyfin í hverjum flokki greidd niður og er það vel, ekki síst nú á krepputímum. Hins vegar verður eftir sem áður að sinna gæðamálunum betur þegar kemur að því að ákveða hvort nota eigi lyf eða ekki og hvaða lyf. Sérstaklega á þetta að eiga við innan opinbera stofnana eins og heilsugæslunnar og leggja miklu meiri áherslu á notkun klínískra leiðbeininga. Eins verður að fræða almenning mikið betur um sjúkdóma, skynsamlegar úrlausnir og lyfjanotkun og ekki síst auka aðgengi almennings að heilsugæslunni. Þessu grundvallarsjónarmið hefur því miður ekki verið haldið á lofti af heilbrigðisyfirvöldum svo allir sjái.

Það er með ólíkendum hvað oftrú á lyf, oft sem eina lausnin á aðsteðjandi heilsufarsvandamáli, er ríkjandi hér á landi. Fólk trúir því meira sem lyfin eiga að vera öflugri. Að þessu leiti minnir þetta stundum á sögurnar af Munchausen sem taldi að sögurnar yrðu þeim mun trúverðugri því fjarstæðukenndari sem þær voru. Og fólk trúði. Á þetta hefur allt verið margbent á síðastliðin ár. Eins með bréfi til heilbrigðimálasráðherra og heilbrigðisnefndar fyrir þremur árum en sem var aldrei svarað. Virðist þannig oft sem heilbrigðisyfirvöld neiti að horfast í augu við vandann og sjálf jafnvel „trúað“ á mátt íslensku „ofurlyfjanna“.

En byrja þarf auðvitað á að viðurkenna vandamálin og greina hvað hefur farið úrskeiðis hjá okkur sl. áratugi, ekkert svipað og gert var í fjármálageiranum. Eins hverjir voru skildir eftir í kuldanum og hvar skórinn kreppir mest að í heibrigðiskerfinu í dag. Sem er m.a. í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sem ætti ekki að koma nokkrum manni lengur á óvart. Vonandi verður tekið tillit til þessara sjónarmiða, líka í nefndarstarfinu sem átti að hafa byrjað fyrir 2 árum og líta átti til samþættingu lyfjastjórnunar í landinu en sem lítið hefur fréttst af. Þar sem vandinn er auðvitað ekki heldur leystur með að dreifa lyfjaávísanaréttinum til ólíkra heilbrigðisstarfsstétta eins og nú er til umræðu í heilbrigðisráðuneytinu og á Alþingi.

Ég tel reyndar löngu orðið þörf á sérstakri rannsóknanefnd fagaðila til að skilgreina alvarlegustu vandamál íslenska heilbrigðiskerfisins í dag, fortíðarvanda sem á rætur að rekja fyrst og fremst í stjórn heilbrigðismála um árabil. Eins hvar mest er nú þörf á úrbótum strax í dag til að varanlegra tjón hljótist ekki af. Í landi sem samt virðist leggja mestu áhersluna á að byggja upp úr steypu og stáli. Lýðheilsan er í veði svo og margra milljarða sparnaður á ári hverju með bættri heilsu landans. Sem er hin eina sanna tölfræðin í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.6.2012 - 13:58 - FB ummæli ()

Skemmtilegir Íslendingar

Dægurumræðan hefur verið á lágu plani undanfarið og mest ber á þeim sem spá hamförum í mannheimum á komandi árum. Þar sem þeir einir geti hugsanlega bjargað þjóðinni frá glötun. Þar sem einskonar forsetaræði í nafni þjóðarvilja er stillt upp gegn sjálfu þingræðinu. Gegn lýðræðinu eins og við best þekkjum það og sem við höfum treyst nær undantekningalaust. Þar sem meirihluti þjóðkjörinna fulltrúa okkar á alþingi ráða för.

Sem betur fer erum við ólík. Já, svo skemmtilega ólík og með misjafna hæfileika og reynslu. Í barnshugunum ríkir oftast ró og friður. List þeirra verður ekki tærari og hreinni. Því fáum við nú að kynnast á heilsugæslustöðinni minni þar sem við njótum listaverka sem börnin á Álfasteini hafa skapað. Sjálfsmyndir af hverju og einu eins og þau sjá sig sjálf. Íslensk börn sem svo sannarlega boða ekki slæma tíma.

Mikil gleði ríkir í málverkum barnanna. Gleði sem fær mann til að staldra við, skoða og skynja daginn öðruvísi. Hvað börn eru ólík hvort öðru og allan fjölbreytileikan í mannheimum. Meðal Íslendinga framtíðarinnar sem við viljum öll tryggja lýðræði eins og best verður á kosið. Þingræði eins og forfeðurnir börðust fyrir þegar þeir höfðu flúið einræðistilburðina í Evrópu og kónga sem öllu vildu ráða.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn