Fimmtudagur 19.3.2015 - 08:32 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn rassskelltur

Á aðalfundi í gær var Landsbankinn rækilega rassskelltur og stjórn bankans vakin upp af þyrnirósasvefni sínum.  Ekki stendur steinn yfir steini af hinni margrómuðu stefnu bankans frá 2010.  Stefnu sem hefur dregið hagnað af reglulegum rekstri niður í 5-6%, selt eignir í lokuðu ferli og keypt eina dýrustu lóð landsins við Hörpu undir nýjar aðalstöðvar.

Nú er það Bankasýslan og erlendir ráðgjafar sem sitja í framsætinu en stjórn og bankstjóra hefur verið vísað aftur í.  Það verður þó að virða það við stjórn bankans að hún viðurkennir veikleika í stjórnun bankans í skýrslu sinni, en án þess þó að reifa nákvæmar lausnir þar á.  Þar segir:

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að endurskoðun á stefnu bankans með aðstoð öflugs, erlends ráðgjafarfyrirtækis. Gríðarleg greiningarvinna með samanburði við það sem best gerist erlendis er að baki. Við stefnumótunarvinnuna komu í ljós mörg tækifæri fyrir bankann til úrbóta og búið er að móta langtímaáætlanir sem byggja á nýrri stefnu.”

Það eru alltaf veikleikamerki þegar stjórnir viðurkenna að ráða þurfi ráðgjafa við hlið stjórnenda til að finna tækifæri til úrbóta.  Til hvers eru stjórnendum borguð laun?  Það er yfirleitt mun ódýrara að ráða stjórnendur með rétta þekkingu og reynslu en að styðjast við ráðgjafa.  Þá vekur þetta upp spurningar um gæði þeirrar vinnu sem stóð að baki stefnunnar frá 2010, sem stjórnin taldi einn mesta styrk bankans fyrir aðeins ári síðan!

Þegar kemur að rekstri bankans virðist bankaráð loksins hafa vaknað upp af þyrnirósasvefni, en í skýrslu stjórnar segir:

Bankasýslan sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum hefur lagt að bankaráðinu að bæta reglubundinn rekstur með lækkun kostnaðar og aukningu þjónustutekna. Við erum sammála þeirri kröfu og einmitt þess vegna höfum við mótað nýja stefnu fyrir bankann sem miðar að því að ná arðsemi af reglubundnum rekstri yfir 10% á næstu fjórum árum.”

Allir þeir sem hafa lesið skýrslur Bankasýslunnar síðustu 5 árin, vita að í nær öllum þeim er varað við að arðsemi af reglulegri starfsemi Landsbankans er ekki viðunandi.   Þetta vandamál er löngu þekkt og Seðlabankinn hefur einnig varað við lágri arðsemi.  Hægt hefði verið að bregðast við þessu þekkta vandamáli strax 2010.  Í staðinn þarf bankinn nú a.m.k. 4 ár til að ná settu markmiði.  Þetta er töf sem mun verða dýrkeypt.  En hvers vegna var ekki gripið í taumana strax 2010?

Því miður virðist skýrsla stjórnar Landsbankans frá 2015 velta upp fleiri spurningum en svörum.

Þetta er ekki gott veganesti fyrir eiganda sem vill hámarka söluverð á hlut sínum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 18.3.2015 - 07:32 - Lokað fyrir ummæli

Stefnulaus ríkisbanki?

Nýlegt ársuppgjör Landsbankans hlýtur að valda eigendum hans vonbrigðum.  Hreinar vaxtatekjur dragast saman um 18% á sama tíma og launakostnaður hækkar um 10%, sem svarar til 90,000 kr hækkunar á mánuði per stöðugildi.

Svar bankaráðs er að endurskoða stefnu bankans.  Þetta er í sjálfu sér ekki undarlegt, en það sem er athyglisvert er að það hefur tekið yfirstjórn bankans rúm 4 ár að átta sig á að stefnan frá 2010 var alltaf byggð á sandi.  Uppgjörið 2014 sýnir það svart á hvítu.

Til upprifjunar er rétt að benda á að í ársskýrslu 2013 er yfirskrift formanns bankaráðs í ávarpi hans eftirfarandi:

Einn helsti styrkur Landsbankans felst í mjög skýrri stefnu.  Árið 2010 setti bankinn sér markmið um að komast í forystu á íslenskum bankamarkaði á árinu 2013.  Því markmiði teljum við okkur hafa náð og vinnum nú að því að Landsbankinn verði til fyrirmyndar og sambærilegur bestu bönkum á Norðurlöndum á árinu 2015.  Þó vissulega sé enn margt óunnið, þá miðar í rétta átt og markmiðin standa óhögguð.

Í nýlegum ársreikningi fyrir 2014, tæpu ári seinna er tóninn frá bankaráði allt annar, enda segir þar:

Án hreinna virðisbreytinga hækkaði kostnaðarhlutfall bankans í 56,0%, sem er umfram sett markmið bankans.  Þessa hækkun má rekja til lækkunar á hreinum vaxtatekjum og öðrum rekstrartekjum, hærri starfsmannakostnaði og fjárfestingu í mótun stefnu til framtíðar.  Bankinn hefur endurskoðað stefnu sína með það að markmiði að bæta afkomu grunnrekstrar bankans til framtíðar.”

Svona u-beyja er ekki traustvekjandi, sérstaklega ekki korteri áður en ríkið hyggst selja hlut í bankanum til fjárfesta sem munu líklega fara fram á afslátt ef “einn helsti styrkur Landsbankans” svo notuð séu orð bankaráðsformanns, er allt í einu horfinn?

Því miður hefur Landsbankinn tapað dýrmætum tíma sem samkeppnisaðilar hafa notað vel til að styrkja stöðu sína.  Landsbankamenn hafa sofið á verðinum, enda þarf ekki að hafa mikið fyrir hlutunum þegar hægt er að stóla á 20 ma kr. árlegan hagnað af uppfærslu lánasafna sem keypt voru á “afslætti” .  En slíkur tekjustofn er ekki sjálfbær og hin mikla spurning er hvernig á að brúa tekjutapið sem mun myndast þegar uppfærslu á lánasöfnum líkur og hagnaður af sölu Borgunar, Valitors, Prómens og annarra eigna þurrkast upp?  Hvernig á þá að fjármagna 10% hækkun á launakostnaði?

En þetta er ekki eina áskorun Landsbankans.  Fjármögnun bankans og greiðslukortaþjónusta eru stórir póstar þar sem ríkisbankinn rekur samkeppnislestina.  Þá er ekki nóg að fjárfesta í stefnumótun til framtíðar það þarf einnig að huga að framkvæmd nýrrar stefnu.  Hefur bankinn, t.d. nauðsynlega reynslu og þekkingu af hagræðingu og breytingastjórnun?

Fyrir fjárfesta sem byggja ákvarðanir sínar á viðskiptalegum forsendum er hætta á að óvissuþættirnir í rekstri og stefnu Landsbankans séu of margir til að auðvelt verði að ná saman um ásættanlegt verð. Það getur opnar leið fyrir þá sem hafa áhuga á að eignast banka á öðrum forsendum!

Það er því vonandi að bankinn noti tækifærið á aðalfundi í dag, til að létta þokunni af óvissuþáttum í rekstri og stefnu bankans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.1.2015 - 09:02 - Lokað fyrir ummæli

Vaxtagjöld Íslands hærri en Grikklands!

Grískir stjórnmálamenn segja að Grikkland sé að kikna undan lánum.  En er svo, er vaxtabyrði gríska ríkisins t.d. hærri en íslenska ríkisins?

Við fyrstu sýn virðist svo.  Miðað við landsframleiðslu eru skuldir Grikklands 175% en 97% á Íslandi. En höfuðstóllinn segir ekki allt.  Hver er vaxtakostnaðurinn af þessum lánum?

Vaxtagjöld íslenska ríkisins eru áætluð um 84 ma kr fyrir árið 2015 eða um 4.5% af landsframleiðslu.  Samkvæmt nýlegum útreikningi sem birtist í Financial Times voru vaxtagjöld gríska ríkisins 2.6% af landsframleiðslu árið 2014. M.ö.o. vaxtagjöld í Grikklandi eru um 40% lægri þó höfuðstólinn sé um 80% hærri!

Hver er útskýringin? Jú Grikkir njóta þess að vera í ESB og hafa aðgang að ódýru fjármagni frá ESB rikjunum og Seðlabanka Evrópu.  Íslenska ríkið er hins vegar fast í krónunni eða þarf að fara á rándýra erlenda markaði þar sem spekúlantar og hrægammar ráða kjörum.

Ef Ísland hefði aðganga að lánsfé á sömu kjörum og Grikkland væru vaxtagjöld ríkisins fyrir 2015 ekki áætluð 84 ma kr heldur 28 ma kr eða um 56 ma kr. lægri.  Fyrir þessa peninga væri hægt að tvöfalda fjármagn til Landsspítalans og eiga um 20 ma kr í afgang til að borga niður skuldir.

Það eru nógir peningar til í landinu til að bæta innviðina og fjárfesta í framtíðinni.

Ísland hefur val.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.1.2015 - 10:33 - Lokað fyrir ummæli

Er fasteignaverð of lágt?

Það er ekki aðeins framboð og eftirspurn sem ákvarðar fasteignaverð.  Staðsetning og væntingar um raunvaxtastig skipta oft meira máli.

Í dag er raunvaxtamunur á milli Íslands og hinna Norðurlandanna í hæstu hæðum og erfitt að sjá að sá munur haldi.  Til að átta sig betur á því er gott að skoða dæmi.

Í Danmörku er verðbólgan 0.1% og fasteignalán til 30 ára bjóðast á 2% föstum vöxtum.  Hækki verðbólgan í Danmörku eftir 10 ár ber lánveitandinn allan þann kostnað.  Á Íslandi er verðbólgan 0.8% og fasteignalán til 40 ára bjóðast á 4.2% föstum vöxtum verðtryggt (hjá ÍLS).  Hækki verðbólgan á Íslandi eftir 10 ár ber lántakandinn allan þann kostnað.

Raunvextir í Danmörku eru því 1.9% á móti 4.2% á Íslandi.  Munurinn hér er um 100% ef við leiðréttum fyrir mismunandi lánstíma, en í raun er hann mun meiri því lántakandinn tekur alla verðbólguáhættu á Íslandi en lánveitandinn í Danmörku.  Það er erfitt að útskýra þennan mun með viðskiptalegum eða áhættu rökum.  Jafnvel þótt Ísland haldi í krónuna og allan hennar kostnað er þessi munur samt of mikill.  Þetta er því líklega tímabundið ástand á meðan reynt er að aflétta höftum.  Ef það er rétt, mun fasteignaverð hækka þegar markaðurinn leiðréttir þennan mun.  Það er vegna þess að fólk ræður við hærri lán eftir því sem vextir lækka.

Þetta skiptir máli þegar fólk er að gera samanburð á því hvort það eigi að leigja eða kaupa.  Því ef þessi raunvaxtaleiðrétting kemur verða það aðeins þeir sem eiga fasteignir sem njóta verðhækkunarinnar sem kemur í formi hærra eiginfjárhlutfalls.  Þetta verður svipað og þegar fólk fór að taka erlend lán til húsnæðiskaupa hér fyrir hrun, þá snarhækkaði verðið.  Hækkunin nú verður líklega ekki eins skörp, en engu að síður kærkomin búbót fyrir marga.  Vandamálið verður unga kynslóðin og þeir lægst launuðu, því með lækkandi raunvaxtastigi hækkar fasteignaverð oft umfram kaupgetu þessara hópa.  Þeir sem aftur á móti eiga sínar fasteignir skuldlaust “græða” mest.  Það er því ekki undarlegt að margir fjársterkir aðilar skuli hafa verið að kaupa vel staðsettar fasteignir upp á síðkastið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.1.2015 - 10:52 - Lokað fyrir ummæli

Íslenskir Grikkir

Það er margt líkt með Grikklandi og Íslandi þegar kemur að peningum.  Bæði löndin hafa langa sögu af bruðli.  Í báðum löndunum var það lítil klíka sem hafði stjórnmálastéttina í vasanum og gat platað erlenda sparifjáreigendur, sérstaklega Þjóðverja, til að dæla peningum til sín, sem siðan voru notaðir í alls konar bruðl og vitleysu.

Mjög lítið af því ótrúlega fjármagni sem Ísland og Grikkland höfðu úr að moða fyrir hrun var notað innanlands til að byggja upp infrastrúktúr eða arðsöm atvinnutækifæri, hvað þá til að auka framlegð eða gera löndin samkeppnishæfari.  Nú eru peningarnir gufaðir upp en eftir standa lánin og kröfurnar sem menn vilja fá borgað til baka.

Eftirá að hyggja er þetta kannski ekki skrýtið.  Bæði Grikkir og Íslendingar kunnu ekkert með alvöru peninga að fara.  Klíkurnar voru vanar krónum og drachma sem alltaf var hægt að gengisfella, og skuldirnar gufuðu upp í verðbólgu eða voru afskrifaðar eftir pólitískum leiðum.  Nú sitja menn uppi með kröfur í evrum og leita allra leiða til að láta þær hverfa.

Það er auðvitað ekki undarlegt að ný kynslóð vilji ekkert með þetta sukk foreldra sinna hafa.  Það kýs flokka sem lofa hærri launum, skuldaniðurfellingum, nýjum opinberum störfum, osfrv. Vandamálið er bara hvernig á að fjármagna öll þessi loforð?  Hvar eiga peningarnir að koma í þetta sinn?  Ekki frá Þjóðverjum, svo mikið er víst.  Brennt barn forðast eldinn!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.1.2015 - 16:16 - Lokað fyrir ummæli

Krónan er hávaxtahaftaevra

Þegar prentvélar Evrópska Seðlabankans voru ræstar nýlega og evran féll, fylgdi króna í kjölfarið eins og þægur kjölturakki.  En Íslendingar fengu aðeins gengisfellinguna, ekki lágu vextina eða frelsið.

Íslenska krónan hefur nú verið aðlöguð að gengi evrunnar með hjálp hafta og hárra vaxta. Þetta kalla menn sjálfstæða peningamálastefnu!  Já, það er ekki öll vitleysan eins.

Þetta er bara enn ein staðfesting á því að aðlögun Íslands að ESB og evru er á fullri ferð, alveg óháð ESB umsókn!  Í raun má segja að aðlögun að ESB og evru hafi náð nýjum hæðum hjá núverandi ríkisstjórn. Alþingi tekur skipanir frá Brussel í gegnum EES en það sem er nýtt er að Seðlabankinn er farinn að aðlaga sig að peningstefnu sem kemur frá Frankfurt.

Þetta sýnir auðvitað hugmyndalegt tómarúm þegar kemur að stefnumótun.  Menn hanga í frösum um fullveldi og sjálfstæði en geta ekki tengt það raunveruleikanum.  Útkoman verður annars flokks Evrópuríki þar sem haldið er dauðahaldi í pilsfald ESB og evrunnar í gegnum samninga og aðgerðir sem aðrir stjórna.  Aðeins á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 24.1.2015 - 10:03 - Lokað fyrir ummæli

Bankamistök

Rauði þráðurinn í íslenskri bankasögu eru mistök.

Það voru mistök gerð þegar bankarnir voru einkavæddir, það voru herfileg mistök gerð sem leiddu til þess að þeir hrundu allir og svo voru auðvitað mistök gerð þegar þeir voru endurreistir og það verða gerð mistök þegar þeir verða loksins seldir aftur.

Afleiðing af öllum þessum mistökum er að heimilin og atvinnulífið taka á sig skellinn, það eru þau sem borga endanlega.

Nýjasta útspilið er að kröfuhöfum hafi verði “gefnar” 400 ma kr.  Maður gefur ekki hluti sem maður á ekki, svo þeir sem halda þessu fram þurfa að útskýra hvernig ríkið eignaðist 400 ma kr af einkafyrirtækjum?  Neyðarlögin geta aldrei “gefið” þessa peninga eins og ýjað er að, einfaldlega vegna þess að 72. grein stjórnarskrárinnar sendur þeim ofar.  Eignir verða ekki teknar af fólki nema fullar bætur komi fyrir.  Sú spurning sem þessi umræða veltur auðvitað upp er hversu langt er hægt að ganga með neyðarlög án þess að þau stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar?

Hefði ríkisstjórn Jóhönnu ekki samið við kröfuhafa hefði allt endað fyrir dómstólum og líklega hefði þessi “Robin Hood” túlkun neyðarlaganna fallið á stjórnarskrárprófinu?  Það var nú kannski það sem menn voru að forðast, enda hefði slíkur dómur getað sett allt fjármálakerfið í uppnám.

En þetta breytir ekki því að það voru gerð mistök við endurreisn bankakerfisins.  Það voru t.d. mistök að endurreisa bankana í sinni gömlu mynd, en það er efni í heila bók.  En mistökin sem komu þessum 400 ma kr. snjóbolta, sem nú er rifist um, af stað var sú aðgerð að tryggja allar innistæður óháð upphæð.  Þar sem innistæður eru skuldir hjá bönkum þurfti eignir á móti til að stemma efnahagsreikninga nýju bankanna.  Útlán eru eignir hjá bönkum og þau áttu kröfuhafar.  Eftirpurn eftir eignum kröfuhafa var því í réttu hlutfalli við innistæðutryggingu ríkisins.  Um leið og allar innistæður voru tryggðar á Íslandi urðu eignir kröfuhafa allt í einu eftirsóttar og verðið tók því að hækka á skuldabréf gömlu bankanna á eftirmarkaði.  Þetta sáu hrægammasjóðir en því miður ekki menn á Íslandi, eins og t.d. lífeyrissjóðir.  Þá hjálpaði það hrægömmum að íslenski seðlabankinn var ekki gjaldfær í erlendir mynt og ríkið því ófært að veita þeim samkeppni.  Allt lagðist því á eitt að hjálpa skarpskyggnum erlendum hrægömmum.  Þeir notuð sér einfaldlega tækifæri sem aðrir gáfu þeim.  Eins dauði er annars brauð, eins og sagt er.

Mistök eru tækifæri til að læra, en því miður endar þetta alltaf í endalausu þrasi á Íslandi og mistökin eru sífellt endurtekin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.1.2015 - 11:12 - Lokað fyrir ummæli

0.73% lánsvextir í Danmörku

Vaxtamunur á íbúðarlánum í Danmörku og á Íslands er orðinn næstum 10 faldur.

Það kostar það sama að fjármagna bíl á Íslandi og íbúð í Danmörku!

Fastvaxtalán til 5 ára bera 0.73% vexti í Danmörku en 7.1% á Íslandi.  Þetta er þrátt fyrir höftin og allt það skjól sem þau veita!  Á sama tíma hafa vextir á 30 ára fastvaxtalánum fallið niður í 2% hjá dönskum fjármálastofnunum.

Kostnaðurinn sem fylgir krónunni og lélegri efnahagsstjórnun er óheyrilegur en vaxtamunurinn segir ekki allt.  Þetta vaxtaokur heldur líka launum niðri.  Atvinnurekendur geta ekki bæði borgað háa vexti og há laun, menn verða að velja og á Íslandi hafa menn valið krónuna og vaxtaokrið.

Eina leiðin til lækka þetta vaxtaokur og hækka launin er að fara leið Dana og ganga í ESB.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.1.2015 - 15:47 - Lokað fyrir ummæli

Frá París til Davos

Nú fer fram hin árlega Davos ráðsefna þar sem áhrifamestu leiðtogar heims í stjórnmálum og viðskiptum hittast og skiptast á skoðunum.

Og eins og í París á dögunum er enginn áhrifamaður frá Íslandi þar á dagskrá.  Líklega er Ísland eina Evrópulandið þar sem Davos er ekki fjölmiðlaefni.  Þetta undirstrikar þá alþjóðlegu einangrun sem nú einkennir utanríkisstefnu Íslands.

Ef ríkisstjórnin ætlar að aflétta gjaldeyrishöftunum á þessu ári er varla til betri vettvangur til að kynna slíka áætlun og afla henni alþjóðslegs stuðnings en í Davos.  Þar gefst líka tækifæri til að kynna Ísland sem áfangastað fyrir erlenda fjárfestingu.  Án stuðnings erlendis frá og flæði fjármagns til landsins er vandséð hvernig aflétta á höftunum nema um stundarsakir.

Með því að sýna sig hvorki í París né Davos á sama tíma og allt kapp er lagt á að draga ESB umsóknina tilbaka er ríkisstjórnin að senda út mjög skýr skilaboð um að Ísland vill aðeins erlend samskipti á eigin forsendum.

Hvort svona “leave me alone” strategía virkar hjá þjóð sem byggir velferð á erlendum viðskiptum á eftir að koma í ljós.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 19.1.2015 - 10:11 - Lokað fyrir ummæli

Verðmæti í ESB umsókn

Það geta falist mikil verðmæti í ESB umsókn sem liggur á ís.  Til að átta sig á þessum verðmætum þurfa menn að leita í smiðju afleiðufræða, nánar tiltekið verðlagningar valréttar (e. option pricing).

Samþykkt umsóknarferli felur í sér valrétt sem Íslendingar geta tekið upp hvenær sem er.  Afturkölluð umsókn eyðir þessum valrétti án þess að efnahagslegur ávinningur komi á móti þeim verðmætum sem tapast þegar valrétturinn hverfur.

Í raun má færa fyrir því sterk rök að ESB valrétturinn sé verðmeiri nú en áður enda er verðmætið í hlutfalli við hversu erfitt og tímafrekt það er að koma umsókn í gegnum öll þjóðþing ESB landanna.  „Tíminn er peningar“, eins og sagt er.  EES kemur ekki í staðinn fyrir ESB valrétt, þvert á móti, því meiri óvissa sem ríkir um framtíð EES, því verðmætari er ESB valrétturinn.  Þá styrkir það stöðu Íslands innan EES að vera umsóknarríki.  Án umsóknar er Ísland lítið annað en aftaníkerra hjá Norðmönnum.  Eru menn búnir að gleyma hvernig Norðmenn snéru á Íslendinga í makríldeilunni?

Þeir sem vilja afsala sér þessum valrétti fyrir hönd þjóðarinnar þurfa, í það minnsta, að koma fram með efnahagsleg rök.  Þar sem það kostar ekkert að hafa umsóknina á ís, þarf valrétturinn að hafa neikvætt verðgild til að réttlæta afturköllun, en hvar eru rökin fyrir því?  Menn “eyða” nú varla verðmætum nema að fullar bætur komi fyrir?

Sú staðreynd að Svisslendingar liggja enn með sína umsókn á ís gefur sterka vísbendingu um að allt tal um “neikvætt verðgildi” sé byggt á fölskum forsendum, enda gerir afleiðufræðin ekki ráð fyrir neikvæðu verði á valrétti í alvöru markaðshagkerfi.  Hins vegar gæti ESB valrétturinn haft neikvætt pólitískt verðgildi, það er annað mál.  Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að vilji menn afturkalla ESB umsóknina er ekki skynsamlegt að gera það fyrr en samningar hafa tekist um langtíma útfærslu og kostnað við EES.

Það yrði í klassískum íslenskum anda að afsala sér langtíma verðmætum og veikja eigin samningsstöðu gagnvart ESB og Noregi til þess að ná í innlendan pólitískan stundargróða!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur