Föstudagur 28.11.2014 - 08:36 - Lokað fyrir ummæli

Stefna eða stefnuleysi?

Á nýlegri ráðstefnu sem Financial Times hélt um bankamál kom fram að fjárfestar líta bankastarfsemi öðrum augum í dag en fyrir hrun.  Verðlagning á bönkum stjórnast nú meir af gæðum tekna en, arðsemi sem byggir á einskiptisliðum og verðbréfastússi. Sérhæfðir bankar standa öðru jöfnu betur en alhliða bankar (e. universal banks) og sérstaklega standa norrænir viðskiptabankar sig vel.  Þá kom fram að alhliða bankar með kostnaðarhlutfall yfir 50% séu stofnanir á rangri hillu!

Hvers vegna skiptir þetta máli.  Jú, vegna þess að ríkið ætlar að selja hlut í Landsbankanum til að borga til baka peninga sem það tók að láni við björgun bankans eftir hrun.  Mikilvægt er að ríkið fái tilbaka a.m.k sömu upphæð og látin var inn, en það er því miður mjög tvísýnt.  Ástæður fyrir því eru margar, þar má nefna að stóra skuldabréfið er dýrt og ófrágengið, kostnaður er of hár, tekjur of óreglulegar, lagaleg óvissa umlykur lánabók bankans og skattar eru háir.  Þá er spurning hversu margir vilja vera “áhrifalausir” minnihlutaeigendur með ríkisvaldinu?

Allir þessir þættir ýta verðinu niður.  Yfirstjórn bankans getur haft áhrif á suma þætti en aðra ekki.  Þeir þættir sem eru á valdi bankans og skipta mestu máli eru gæði tekna og kostnaðurinn.  En því miður gerast hlutirnir afar hægt hér, sem þýðir að hagræðingartækifærin verða líklega seld á útsöluverði til nýrra eigenda.  Þar með verður ríkið af peningum sem það sárvantar.

Þá vekja nýlegar ákvarðanir bankans upp áleitnar spurningar um stefnu bankans og hversu vel hún aðlagast stefnu ríkisins um hámörkun söluverðs.

Í byrjun árs keypti bankinn eina dýrustu lóð landsins, fyrir um 1 ma kr, undir nýjar aðalstöðvar.  Þetta samræmist ekki stefnu um kostnaðaraðhald.  Þá hefur bankinn upplýst að hann hafi ráðið einhverja dýrustu ráðgjafa í stefnumótun, McKinsey, til að hagræða hjá sér.  Þetta er auðvitað bruðl, yfirstjórn bankans eru borguð laun til að reka bankann sómasamlega.

Þegar kemur að gæðum tekna rekur Landsbankinn lestina af íslenskum bönkum.  Ein ástæða þess er skortu á skýrri stefnu í greiðslukortastarfsemi.  Hinir bankarnir hafa góðar og reglulegar tekjur að greiðslukortum, Arion banki í gegnum Valitor og Íslandsbanki í gegnum Kreditkort og Borgun.  Það vakti því svolitla undrun þegar ríkisbankinn sendi frá sér fréttatilkynningu um að hlutur hans í Borgun hafi verið seldur vegna áhrifaleysis.  Er þá rökrétt að álykta sem svo að 38% hlutur Landsbankans í Valitor sé líka í lokuðu söluferli?

Hvar endar ríkisbankinn með greiðslukortastarfsemi sína, ef allt er selt?  Það verður að teljast undarlegt að selja lykileignir án þess að tilkynna á sama tíma um nýja og öfluga greiðslukortastefnu.  Það verður að gera meiri kröfur til yfirstjórnar ríkisbankans en að hún láti berast fyrir vindi áhrifaleysis eða láti stjórnast af fólki sem bankar upp á og vill kaupa eignir í prívat sölu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.11.2014 - 09:23 - Lokað fyrir ummæli

Argentína norðursins

Útgönguskattur á gjaldeyri er enginn gæðastimpill á efnahagsstjórnun.  Þetta er ekki aðgerð sem er þekkt á hinum Norðurlöndunum eða almennt innan OECD. Hins vegar er þetta neyðarúrræði sem AGS þekkir vel þegar lönd eru orðin “tæknilega” gjaldþrota í erlendri mynt.  Þetta er engin töfralausn og ef illa fer getur vont versnað.

Þegar dagblöðum heimsins er flett er hugtakið „útgönguskattur á gjaldeyri“ aðeins forsíðufrétt í Buenos Aires og Reykjavík.  Gjaldeyrishöft, gengisfellingar, útgönguskattur og vondir kröfuhafar tengja þessi ólíku lönd saman á hátt sem hin Norðurlöndin tengjast ekki Íslandi.

En það er ekki aðeins hugtökin sem tengja Argentínu og Ísland.  Nú virðist sem íslensk útfærsla sé farin að sækja í vopnabúr Perónista í Argentínu.  35% útgönguskattur er nefnilega engin tala út í loftið, þetta er einmitt talan sem Argentína notar.

Það sem virðist samt hafa tapast á leiðinni yfir hafið er að kynna að 35% útgönguskattur á gjaldeyri gildir á allar erlendar kortafærslur á argentískum greiðslukortum.  Þetta er auðvitað gert til að gæta að hinum gullna “jafnræði”.

Spennandi verður að fylgjast með hinni endanlegu útgáfu á Íslandi á þessari argentínsku leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.11.2014 - 09:37 - Lokað fyrir ummæli

Ekki sama lögfræðingur og læknir

Ríkisstjórnin borgar erlenda lögmanninum Lee Buchheit, aðalsamningamanni Icesave og kröfuhafa markaðskaup, líklega er það aldrei undir 1000 dollarar á tímann.

En það er ekki hægt að borga íslenskum læknum markaðskaup.

Svona kerfi hafa menn ekki séð síðan Sovét sáluga var upp á sitt besta.  Læknar í Sovét voru góðir en illa launaðir.  Sovéska leiðin var að loka landamærunum og Ísland í dag er sönnun þess að það var ekki að ástæðulausu.

Það verður fróðlegt að fylgjast með ríkisstjórninni og sjá hvort hún finnur lausnina sem Sovét-leiðtogar fundu aldrei?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.11.2014 - 08:18 - Lokað fyrir ummæli

Krónuverkföll

Verkfall lækna er smjörþefurinn af því sem koma skal.  Lífskjaramunur þeirra sem eru fastir í krónuhagkerfinu og hinna sem búa í rífandi uppgangi gjaldeyrishagkerfisins fer vaxandi.  Þetta misrétti mun leiða til átaka og endaloka krónunnar.

Flest stærstu fyrirtæki landsins eru löngu búin að kasta krónunni, fyrirtæki á við Icelandair, Marel, HB Granda og jafnvel Landsvirkjun.  Öll þessi fyrirtæki gera upp í erlendri mynt og fjármagna sig að mestu leyti í gjaldeyri.  Þau fjármagna ekki framtíðartækifæri með krónum úr Kauphöll Íslands sem auðvitað veltur upp þeirri spurningu hvert er þá aðalhlutverk krónukauphallar?

Og það skal engan undra að það sé uppgangur í gjaldeyrishagkerfinu þegar tekjur eru í erlendri mynt en kostnaðurinn í láglaunakrónum.  Hvert lúxushótelið rís á fætur öðru, lúxusíbúðir sem kosta allt að 700,000 kr. fermetrinn renna út, á meðan krónufólkið er í miklum húsnæðisvanda og ræður ekki við vaxtaokrið.  Er lausnin virkilega gámar fyrir þennan hóp?

Það eru auðvitað ótrúlegt hvað launafólk sýnir þessu tvöfalda kerfi mikinn skilning og umburðarlyndi. En nú hafa læknar fengið nóg, enda þurfa þeir ekki að sætta sig við óréttlæti krónunnar.  Aðrir hópar munu fylgja á eftir.  Afleiðingin er þekkt. Gengisfelling og verðbólga sem bitnar mest á krónufólkinu sem aftur leysir engan vanda, gerir hann aðeins verri.

Fyrsta skrefið út úr þessari hringavitleysu er að „hagkerfin“ sameinist og að allir kasti krónunni.  Það verður aldrei hægt að skipta kökunni jafnt nema að allir noti sömu mælieiningu.  En það verður ekki sársaukalaust fyrir hvorugan hópinn.  Gjaldeyrishópurinn þarf að deila hagnaði sínum með öðrum á meðan krónuhópurinn þarf að sætta sig við meira atvinnuleysi.  Þetta mun bitna verst á miðaldra kynslóðinni og verður líkt og þegar austur-Þýskaland sameinaðist vestur-Þýskalandi.

Því miður bendir flest til að þessi nauðsynlega sameining verði ekki gerð skipulega heldur með átökum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.10.2014 - 08:16 - Lokað fyrir ummæli

Það er hægt að leysa vandann

Fyrir rúmum 5 árum skrifaði síðuhöfundur pistil sem nefndist “Lærum af reynslu Breta” og fjallaði um hættuna af flötum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu:

“Bretar fóru í flatan niðurskurð upp úr 1990 með skelfilegu afleiðingum fyrir heilbrigðisþjónustuna hjá sér.  Biðlistar lengdust, óþrifnaður og ringulreið jókst, þar sem það eru takmörk fyrir hvað er hægt að leggja á færri og færri hendur.  Á ákveðnum tímapunkti hrynur kerfið eins og við þekkjum það. Það tók Breta 10 ár að vinna kerfið aftur upp með miklum kostnaði.”

Niðurskurður hjá Bretum var í kringum 10% sem er af sömu stærðargráðu og íslenska heilbrigðiskerfið hefur þurft að þola síðustu 6 árin.  En þar með er ekki öll sagan sögð. Breska kerfið er ekki ósamkeppnishæft um kaup og kjör heilbrigðisstarfsmanna og kostnaðarþáttaka sjúklinga er mun minni en á Íslandi.

Ástandið á Íslandi 2014 er á mörgum sviðum verra en hjá Bretum upp úr 1990.  Hér er þjónustan oft á mörkum þess að geta talist viðunandi, biðlistar langir, kjör ósamkeppnishæf, húsakostur lélegur og tæki gömul og úr sér gengin.

Hvað ætli kosti að koma heilbrigðiskerfinu upp í viðunandi og sjálfbært ástand þegar allt er reiknað?  Það er nefnilega ekki nóg að byggja nýjan spítala, það þarf að reka hann sómasamlega með hæfu fólki og það kostar sitt.

Nýlega kom út skýrsla í Bretlandi um framtíð breska heilbrigðiskerfisins.  Þó fjárframlög hafi ekki verið skorin niður hjá NHS, þá vantar peninga til að sinna sjúklingum framtíðarinnar.  Þetta er m.a. vegna aldursamsetningar, fólksfjölgunar og framfara í læknisþjónustu.  Fjárframlög þurfa að aukast um a.m.k. 1.5% á ári að raungildi næstu fimm árin bara til að viðhalda núverandi þjónustustigi.

Hvar er hliðstæð greining á íslenska heilbrigðiskerfinu?  Hvar er fimm ára planið?  Hvað kostar að koma þjónustunni aftur upp á viðunandi stig og hvernig á að fjármagna það?  Það er ekki nóg að gauga milljón hér og þar inn í kerfið á aukafjárlögum og halda að þar með sé allt í lagi.

Íslensk heilbrigðisþjónusta er vandamál sem þarf að leysa.  Lausnarmengið þarf að byggja á rökréttri greiningu og skilningi á hvar takmörk hins opinbera liggja þegar kemur að greiðslu- og fjármögnunargetu.  Það er engin ein lausn til, heldur þarf að vega og meta alla möguleika og umfram allt að halda sig við það sem er framkvæmanlegt og skynsamlegt.  Í þeirri vinnu þarf að leggja hugmyndafræði íslenskra stjórnmálaflokka til hliðar og læra af reynslu nágrannaþjóða og þeirra sem hafa reynslu og þekkingu af heilbrigðisþjónustu.

Ég efa stórlega að lausnin finnist í hugarheimi íslenskra stjórnmálamanna.  Á þeim bæ hefur engin haldbær lausn komið fram frá hruni.  Er ekki kominn tími til að láta aðra spreyta sig?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.10.2014 - 10:10 - Lokað fyrir ummæli

Icesave klúðrið hrellir enn

Icesave er enn að hrella Íslendinga.  Það stendur í vegi fyrir afnámi hafta og getur leitt til gengisfellingar og verðbólgu að mati Seðlabankans.  Hvernig gat þetta gerst?  Var Icesave ekki útkljáð með frægu dómsmáli sem Íslendingar unnu?  Já og nei.

Það sem vill gleymast er að búið var að klúðra Icesave áður en það komst í þjóðaratkvæðisgreiðslu.  Mestu mistökin voru gerð í upphafi þegar Icesave var slitið í sundur og hryggjarstykkinu komið á bak skattgreiðenda.  Af einhverjum ástæðum virðast menn aldrei hafa haft nógu skýra heildarsýn á málið.  Menn drukknuðu í lögfræðilegum smáatriðum og pólitískri hugmyndafræði, en gleymdu að horfa á heildarmyndina út frá sjónarhorni andstæðingsins.  Þetta varð dýrkeypt eins og alltaf er að koma betur í ljós.

Fyrstu og stærstu mistökin voru að endurreisa Landsbankann sem ríkisbanka og fjármagna hann með sömu Icesave peningunum og felldu gamla bankann.  Önnur mistök voru að breyta þessum ótryggðu Icesave innistæðum í sértryggð skuldabréf sem hafa forgang yfir innistæðueigendur nýja bankans, þvert á neyðarlögin.  Þriðju mistökin voru að slíta þennan hluta Icesave frá restinni og setja ekki inn viðskiptalega varnagla til að tryggja hag ríkisins.  Fjórðu mistökin voru að gæta ekki að gjaldmiðla jafnvægi eigna og skulda megin við kaup á eignum þrotabús gamla bankans.

Með því að endurreisa Landsbankann meir á pólitískum forsendum en viðskiptalegum töpuðu Íslendingar fyrstu og mikilvægustu orrustu stríðsins við kröfuhafa.  Með einu pennastriki voru kröfuhafar klipptir úr snörunni og eignir þeirra sem voru nær verðlausar fengu allt í einu áhugasaman kaupanda sem var tilbúinn að borga topp verð í gjaldeyri með góðum tryggingum.

Þegar hér var komið sögu var skynsamlegasta leiðin að reyna að bjarga því sem bjargað varð með samningum.  Að láta restina af Icesave fara fyrir dóm var mikil fífldirfska. Sem betur fer unnu Íslendingar það mál, en það var ekki gefið, og eftir situr fyrsti Icesave hlutinn sem samið var um, en nú ógnar fjármálastöðuleika landsins. Og það sem er verra, er að í millitíðinni er eigendahópur Icesave-skuldabréfsins að breytast.  Hollendingar hafa selt sínar kröfur og vogunarsjóðir sem eiga keppinauta ríkisbankans eru líklega að verða ráðandi í eigendahópnum.  Þetta gerir alla samninga snúnari enda eru hagsmunir vogunarsjóðanna aðrir en ríkisstjórna Hollands og Bretlands.

Það er ekki öfundsverð staða sem ríkisbankinn er kominn í að verða að biðla til lánadrottna sinna, sem jafnframt eru meirihlutaeigendur hinna bankanna, um skilmálabreytingar á 230 ma kr. skuldabréfi sem er tryggt í bak og fyrir.  Þar liggur flókin hagsmunaflétta sem gæti reynst ríkinu dýrkeypt, t.d. þegar kemur að sölu Landsbankans.  Erfitt getur þá reynst að fá bókfært virði bankans tilbaka í ríkiskassann.

Líklega er þetta Icesave mál annað mesta klúður eftirhrunsáranna á eftir hruni heilbrigðiskerfisins.  Hér liggja mikil lærdómstækifæri fyrir nýja kynslóð sem vonandi nær að lyfta sér upp úr hrunpytti kynslóðarinnar á undan.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.10.2014 - 14:27 - Lokað fyrir ummæli

Gengisfelling á leiðinni?

Ný skýrsla Seðlabankans um fjármálastöðuleika er um margt athyglisverð. Þar er talað um að gengið þurfi að falla um 8% ef ekki er samið um lengingu á skuldabréfi Landsbankans. Þetta er eflaust vanmetið og líklegra að fallið verði á bilinu 10-15%, en látum það liggja á milli hluta.

Ef hins vegar samið er um bréfið og farið í að afnema höftin er einnig gefið í skyn að gengið geti fallið, þ.e nálgast aflandsgengið, en bilið þarna á milli er í sögulegu lágmarki. Fallið yrði líklega á svipuðu reki um 10-15%.

Þetta verður varla túlkað á annan veg en að gengisfelling sé í kortunum sama hvaða leið verði farin! Þá er það aldrei traustvekjandi þegar fjármálaráðherrar fara að lofa að gengið falli ekki. Þá er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig. Það er þvi ekki amalegt að fá skuldaleiðréttingu og lækkun á vörugjöldum á flatskjám og ísskápum svona rétt fyrir gengisfellingu.

Þeir munu fá mest út úr skuldaniðurfellingunni sem ná að kaupa varning á gamla genginu. Þetta þekkja menn vel sem komnir eru á miðjan aldur.

Á endanum verður það líklega Samsung sem græðir mest á íslensku skuldaleiðréttingunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.9.2014 - 15:36 - Lokað fyrir ummæli

„Við fjármögnum lúxus“

Á meðan Landsspítalinn er í fjársvelti og neyðist til að færa starfsemi í gáma er önnur ríkisstofnun sem hefur gert lúxus að sinni stefnu. Landsbankinn tekur nú þátt í samstarfi við að efla lúxus á Íslandi og þar getur bankinn ekki verið eftirbátur annarra enda hefur hann keypt dýrustu lóð landsins undir nýja glerhöll.  “Við fjármögnum lúxus” gætu orðið einkunnarorð ríkisbankans.

Það sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum hjá eigendum bankans er að þetta gerist á sama tíma og arðsemi bankans á eigið fé af reglulegum rekstri er undir fjármagnskostnaði ríkisins.  Bankinn er yfirfullur af fjármagni sem hann getur ekki fjárfest á viðunandi hátt.

Landsbankinn er með allt of mikið eigið fé sem aðrir geta notað betur.  Auðvelt væri að minnka bankann og færa eigið fé hans niður um fjórðung án þess að eiginfjárhlutfall FME væri í hættu. Þar með gæti ríkið losað um 60 ma kr sem myndi lækka vaxtakostnað ríkisins um 3 ma kr á ári. Þessa peninga væri hægt að nota betur hjá Landsspítalanum en Landsbankanum.  Þetta er að mestu leyti tilfærsla á peningum innan ríkisapparatsins og snýst því um forgangsröðun.

Það er bara eitt tæknilegt vandamál við þessa leið og það eru kröfuhafar bankans sem bíða eftir svari ríkisstjórnarinnar.  Á meðan situr allt pikkfast og spítalinn sveltur og sjúklingar þjást.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.9.2014 - 14:38 - Lokað fyrir ummæli

Fjárfesting í vanda

Fjárfesting í atvinnulífinu er lítil og áhyggjuefni margra. Hér er komið upp gamalt og vel þekkt vandamál sem ætti ekki að koma á óvart.

Að mörgu leyti er fjárfestingaumhverfið komið aftur til fortíðar síðustu aldar. Besta fjárfestingin er steinsteypa og ríkisskuldabréf. Þegar ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa er komin upp í 6.8% í 2.2% verðbólgu er lítill hvati fyrir fjármagnseigendur að leita annað. Til að lokka fjárfesta yfir í hlutabréf þarf arðsemi á eigið fé að vera viðunandi sem hún er ekki í mörgum tilfellum, þar sem fyrirtækin eru flest of skuldsett og sligast áfram með dýra skuldabagga sem soga allan hagnað til sín.

Þá eru lág taxtalaun á Íslandi lítill hvati fyrir fyrirtæki að fjárfesta í framlegðaraukandi verkefnum. Það er hreinlega ódýrara að ráða fólk en að fara í fjárfestingar. Þetta er leysir tímabundinn atvinnuleysisvanda en heldur launafólki í gíslingu lágra launa. Ef framlegð er ekki aukin munu launahækkanir hreinlega brenna upp í verðbólgu. Allt er þetta vel þekkt.

Til að hækka raunlaun þurfa vextir á Íslandi að vera samkeppnishæftir við vaxtaumhverfið í nágrannalöndunum. Fjármagn þarf að vera ódýrara en fólk. Þannig virka þróuð hagkerfi. Einkenni vanþróaðra landa er að fólk er ódýrara en fjármagn. Á Íslandi er sjávarútvegurinn eina stóra atvinnugreinin þar sem fjármagn er ódýrara en fólk. Ísland er því í raun hálfvanþróað.

Íslenska leiðin að redda þessu með gjaldeyrishöftum og láta lífeyrisþega “niðurgreiða” fjármagn til atvinnulífsins er engin lausn. Hún færir aðeins fjármagn frá lífeyrissjóðum til þeirra sem eru duglegir að duppa upp fyrirtæki og selja þau á bjöguðu markaðsverði til lífeyrissjóða sem hafa lítið val.

Afnám hafta mun aðeins leysa þennan vanda að hluta til, eftir situr hár fjármagnskostnaður í krónum og lágu launin sem gera framlegðaraukandi fjárfestingar “óarðbærar”. Það er vandamálið sem þarf að leysa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.9.2014 - 07:33 - Lokað fyrir ummæli

Forsetinn og NATO

Eitt hlutverk þjóðhöfðingja er að veita varnarmálum þjóðar sinnar forystu. Þjóðhöfðinginn er jú sameiningartánk þegar kemur að varnarmálum og er þar yfir stjórnmálaþras hafinn.

Hér eins og á svo mörgum sviðum er örríkið Ísland sér á báti. Ísland hefur engan her svo það er auðvitað engin hefð fyrir sterkum tengslum þjóðhöfðingjans við varnir landsins. Svo hafa varnarmál alltaf verið stórpólitísk á Íslandi og endalaust þrætuepli. Það var því viðbúið að þegar núverandi forseti færði embættið yfir á pólitískt sprungusvæði að hann léti persónulega afstöðu sína til NATO lita forsetaembættið.

Afstaða forsetans til NATO er hin vandræðalegasta og forsetaembættinu til lítils sóma. Dyr Bessastaða virðast harðlokaðar fyrir NATO en galopnar fyrir Rússum á sama tíma og ríkisstjórn bóndans á Bessastöðum ákveður að auka fjárframlög til NATO til að verjast ógninni frá Rússlandi.

Rússar horfa til forsetans og verðlauna tryggð hans og þögn með því að hlífa Íslandi við viðskiptabanni og senda helsta sérfræðing Rússlands í heimskautamálum til Reykjavíkur sem sendiherra. Á sama tíma túlkar NATO utanríkisstefnu ríkisstjórnar Íslands sem stuðning í baráttunni gegn yfirráðum Rússa í Úkraínu. Aðeins herlaust örríki kemst upp með svona barnalega tvöfeldni.

Það er orðið bráðnauðsynlegt að loka þessari gjá á milli forsetans og ríkisstjórnar hans m.t.t. varnarmála. Annars er hætta á að þjóðhöfðingaembættið glati trúverðugleika. Það er algjörlega óskiljanlegt í augum erlendra aðila að forseti lýðveldis styðji ekki varnarstefnu ríkisstjórnar sinnar opinberlega, hvað þá reki prívat pólitík sem virðist ganga þvert á samþykkta stefnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur