Í framhaldi af umræðum sem hafa spunnist hér á Eyjunni í kjölfar síðustu færslu minnar um gjaldþrotalögin, tel ég rétt að útskýra mál mitt ögn betur hvað varðar framtíð áhættustýringar innan fjármálastofnanna.
Léleg áhættustýring fyrir hrun, gerði skuldavandann hér verri en hann hefði orðið annars. Bætt áhættustýring er löngu tímabær enda leggur FME mikla áherslu á að fjármálastofnanir bæti þennan þátt starfsemi sinnar. Ný gjaldþrotalög breyta ekki þeirri stefnu en þau munu flýta fyrir innleiðingu og auka yfirgrip áhættustýringar.
Íbúðarlánasjóður er þar engin undantekning. Eitt stærsta verkefnið sem bíður nýs framkvæmdastjóra þar, er bætt áhættustýring. Án hennar er framtíðarfjármögnun sjóðsins stefnt í voða og er staðan ekki góð í augnablikinu. Ríkið hefur takmarkaða getu og möguleika til að fjármagna sjóðinn til framtíðar. Hann verður að geta staðið á eigin fótum.
Afleiðing af þessu er að Íbúðarlánasjóður verður að fara að áhættumeta sína viðskiptavini og flokka þá í áhættuhópa. Hver hópur fær síðan ákveðin lánskjör hvað varðar veðhlutfall og vexti. Þannig er eðlilegt að áhættuminnsti hópurinn fái bestu kjörin, en sá áhættumesti þarf að borga meira og sætta sig við lægra veðhlutfall. Þar með leggst af sú regla að allir eigi rétt á 80% láni á sömu vöxtum.
Með áhættustýrðum augum er þetta jafnræði, þar með hættir sá siður að bestur kúnnarnir óbeint niðurgreiði vexti fyrir hina áhættumeiri.
Með augum stjórnmálamanna og almennings er þetta grófleg mismunun sem ekki á að líðast hjá ríkisstofnun. Og hér liggur vandinn.
Hvernig er hægt að samrýma þessi sjónarmið án þess að stefna framtíð sjóðsins í hættu og skekkja samkeppnisgrundvöll útlána? Flest lönd afgreiða þetta með því að banna opinberum aðilum að standa í útlánum til einstaklinga (og þar með kjósenda), þannig geta stjórnmálamenn haldið sér í ákveðinni fjarlægð frá ákvörðunum fjármálastofnana. Þetta er stefnan innan ESB enda eru dagar Íbúðarlánasjóðs líklega taldir ef við förum þar inn.
Tilvist Íbúðarlánasjóðs á einnig sinn þátt í því að áhættustýring er svo skammt á veg komin hér á landi. Hins vegar er bætt áhættustýring algjör forsenda þess að lánastofnanir geti farið út í ábyrga og heilbrigða útlánastarfsemi. Hér togast því á tveir þættir sem eru ósamrýmanlegir. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.
Því fyrr sem stjórnmálamenn gera sér grein fyrir þessu og fá kjark til að taka á þessu brýna verkefni, því fyrr er hægt að fara út í raunhæfa uppbyggingu með ábyrgri útlánastefnu.