Miðvikudagur 20.10.2010 - 19:22 - 15 ummæli

Icesave vextir af verstu sort

Margir eru farnir að gleyma Icesave og halda að best sé að geyma það niðri í skúffu.  En á meðan Icesave er óleyst, er aðgangur að erlendu fjármagni á viðráðanlegu verði nær enginn, þar með er ekki hægt að fjármagna tækifæri fyrir nýja kynslóð.  Það er engin framtíð fyrir unga fólkið að borga skuldir foreldar sinna, ný kynslóð þarf að geta hrint sínum tækifærum í framkvæmd.

Ungt og athafnamikið fólk hefur ekki endalausa þolinmæði til að bíða (eins og sumir íslenskir stjórnmálamenn) og tölur Hagstofunnar sína að það er byrjað að taka til sinna ráða og flytja úr landi.

Þar með erum við farin að borga vexti af Icesave af verstu sort, í okkar besta mannauði.  Það ætti að vera algjört forgangsatriði að klára þetta Icesave mál, vextirnir hlaðast upp bæði í peningum og mannauði.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.10.2010 - 10:15 - 15 ummæli

Framtíð útlána á Íslandi

Í framhaldi af umræðum sem hafa spunnist hér á Eyjunni í kjölfar síðustu færslu minnar um gjaldþrotalögin, tel ég rétt að útskýra mál mitt ögn betur hvað varðar framtíð áhættustýringar innan fjármálastofnanna.

Léleg áhættustýring fyrir hrun, gerði skuldavandann hér verri en hann hefði orðið annars.  Bætt áhættustýring er löngu tímabær enda leggur FME mikla áherslu á að fjármálastofnanir bæti þennan þátt starfsemi sinnar.  Ný gjaldþrotalög breyta ekki þeirri stefnu en þau munu flýta fyrir innleiðingu og auka yfirgrip áhættustýringar.

Íbúðarlánasjóður er þar engin undantekning.  Eitt stærsta verkefnið sem bíður nýs framkvæmdastjóra þar, er bætt áhættustýring.  Án hennar er framtíðarfjármögnun sjóðsins stefnt í voða og er staðan ekki góð í augnablikinu.  Ríkið hefur takmarkaða getu og möguleika til að fjármagna sjóðinn til framtíðar.  Hann verður að geta staðið á eigin fótum.

Afleiðing af þessu er að Íbúðarlánasjóður verður að fara að áhættumeta sína viðskiptavini  og flokka þá í áhættuhópa.  Hver hópur fær síðan ákveðin lánskjör hvað varðar veðhlutfall og vexti.  Þannig er eðlilegt að áhættuminnsti hópurinn fái bestu kjörin, en sá áhættumesti þarf að borga meira og sætta sig við lægra veðhlutfall.  Þar með leggst af sú regla að allir eigi rétt á 80% láni á sömu vöxtum.

Með áhættustýrðum augum er þetta jafnræði, þar með hættir sá siður að bestur kúnnarnir óbeint niðurgreiði vexti fyrir hina áhættumeiri.

Með augum stjórnmálamanna og almennings er þetta grófleg mismunun sem ekki á að líðast hjá ríkisstofnun.  Og hér liggur vandinn.

Hvernig er hægt að samrýma þessi sjónarmið án þess að stefna framtíð sjóðsins í hættu og skekkja samkeppnisgrundvöll útlána?  Flest lönd afgreiða þetta með því að banna opinberum aðilum að standa í útlánum til einstaklinga (og þar með kjósenda), þannig geta stjórnmálamenn haldið sér í ákveðinni fjarlægð frá ákvörðunum fjármálastofnana.  Þetta er stefnan innan ESB enda eru dagar Íbúðarlánasjóðs líklega taldir ef við förum þar inn.

Tilvist Íbúðarlánasjóðs á einnig sinn þátt í því að áhættustýring er svo skammt á veg komin hér á landi.  Hins vegar er bætt áhættustýring algjör forsenda þess að lánastofnanir geti farið út í ábyrga og heilbrigða útlánastarfsemi.  Hér togast því á tveir þættir sem eru ósamrýmanlegir.  Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Því fyrr sem stjórnmálamenn gera sér grein fyrir þessu og fá kjark til að taka á þessu brýna verkefni, því fyrr er hægt að fara út í raunhæfa uppbyggingu með ábyrgri útlánastefnu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.10.2010 - 16:04 - 13 ummæli

Ný gjaldþrotalög kalla á áhættumat

Ný gjaldþrotalög virðast um margt góð.  Þessi lög munu veita lánastofnunum gríðarlegt aðhald.  Aðeins verður hægt að lána til þeirra einstaklinga sem standast strangt og heilstætt áhættumat.  Gamla greiðslumatið mun heyra sögunni til og það sama á við uppáskriftir ættingja.

Líklegt er að svona gjaldþrotalög kalli á áhættumat eins og gerist í Bandaríkjunum, þar sem hver einstaklingur fær áhættueinkunn frá 300 til 850, þar sem 300 er lægsta einkunn en 850 hæsta.  Aðeins þeir sem eru með einkunn upp á 700  fá lán á góðum kjörum.  Þá munu vextir einnig taka mið af veðhlutfalli.  Þannig munu þeir sem taka lán fyrir aðeins um 50% af verðmati eignar og hafa áhættueinkunn yfir 700 fá bestu kjörin.  80% lán verða aðeins í boði til allra traustustu kúnnanna.

Þó skuldir hverfi á tveimur árum mun það taka mun lengri tíma að vinna aftur upp lánshæft áhættumat.

En svona lög munu einnig hafa önnur áhrif sem fasteignasalar verða síður hrifnir af.  Þar sem erfiðara verður að fá lán og upphæðirnar verða lægri mun það hafa áhrif á framboð og eftirspurn sem mun leiða til verðlækkunar.  Afrakstur af leiguhúsnæði mun batna.

Þó þessi gjalþrotalög munu koma fólki sem verst er statt í augnablikinu til góða, munu lögin líklega í framtíðinni gagnast fjársterkum aðilum best, þeir munu fá bestu lánskjörin og geta nýtt sér fallandi fasteignaverð.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.10.2010 - 09:02 - 40 ummæli

Sálmabann = Slæðubann?

Hugmyndir mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að banna flutning á sálmum í skólum borgarinnar er skerðing á tjáningarfrelsinu.

Rök Margrétar Sverrisdóttur, eins og þau birtast í Morgunblaðinu í dag, eru nákvæmlega þau sömu og foreldrar í Bandaríkjunum notuðu til að  banna þróunarkenningu Darwins í sumum grunnskólum þar.

Hún segir:

Meginatriðið er þetta að virða þarf rétt foreldra til lífskoðana og uppeldis. Það er verið að vekja upp óþarfa hræðslu. Það var alls ekki meiningin að ógna íslenskri menningu eða þjóðararfi.

Hver ákveður hvað er bannað vegna „lífskoðana“, hver dregur línuna?  Hver er dómarinn og á hvaða forsendum eru hlutirnir bannaðir?

Franska slæðubannið er sprottið af sömu rótum, en það varð að staðfesta af æðsta dómstóli Frakka.

Er ekki eðlileg krafa í lýðræðislandi að Hæstiréttur fjalli um allar skerðingar á tjáningarfrelsinu, og dæmi hvort svona tillögur standist stjórnarskrána?  Svo þarf Hæstiréttur, auðvita, að skilgreina hvað er sálmur, alveg eins og það þurfti að skilgreina slæðu í Frakklandi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.10.2010 - 10:28 - 32 ummæli

Hvað er sálmur?

„En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Gnarr borgarstjóra að banna skyldi alla jólasálma í grunnskólum Reykjavíkur.“

En hvað er sálmur?  Hver ákveður það?

Ef banna á jólasálma í grunnskólum, verður þá ekki að banna þjóðsönginn okkar „Ó, guðs vors lands“ eftir Mattíhas Jochumsson, sem er jú kristilegur sálmur?  Og hvað með sálmaskáldið okkar, Hallgrím Pétursson?  Má lesa upp Passíusálmana í skólum Reykjavíkur og í RÚV?  Varla, ef jólasálmar verða bannaðir?

Hér eru borgaryfirvöld komin út á hættulega braut.  Kristileg gildi og hefðir eru órjúfanlegur hluti af íslenskri menningu.  Að fara að skipta út okkar besta kveðskap fyrir ameríska slagara er enn einn naglinn í líkistu íslenskrar menningar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.10.2010 - 12:30 - 42 ummæli

Noregur eða ESB?

Ef við göngum ekki inn í ESB, sem allar líkur eru á eins og staðan er í dag, munum við enda uppi sem efnahagsleg nýlenda Noregs og norska krónan mun útrýma þeirri íslensku.

Enginn verður meiri Þrándur í götu fyrir efnahagslegri endureisn hér á landi í framtíðinni en Noregur.  Efnahagslega hefur Noregur allt sem við höfum ekki og verður ómótstæðileg freisting fyrir næstu kynslóð.  Af hverju ekki að grípa tækifærið og freista gæfunnar í Noregi og tryggja afkomendum sínum efnahagslega velferð og stöðuleika?  Það má alltaf koma til Íslands á sumrin og eiga þar sumarhús, nóg verða til sölu á slikk fyrir norskar krónur!

Noregur mun alltaf geta boðið okkar besta og athafnamesta unga fólki tvöfalt betri kjör en Ísland.  Eftir sitja ellilífeyrisþegar, sjómenn, einstaka bændur, og íslenska stjórnmálastéttin og hennar embættismenn.  Það þarf sterk bein og mikla ættjarðarást til að standast norskar freistingar.

Að byggja upp í brunarústum og skuldafeni með ónýta krónu á meðan ríkasta land veraldar stendur opið sem næsti nágranni er erfitt.

Svona fór fyrir Nýfundnaland og Cook eyjum á undan okkur, bæði þessi lönd voru lítil, lendu í skuldafeni og höfðu stóra og sterka nágranna sem tóku unga fólkinu með opnum örmun – afleiðingin fyrir þá sem eftir sátu var stöðnun og á endanum uppgjöf og sjálfstæðismissir.

Nýlegar tölur frá Hagstofunni benda til að við séum einmitt byrjuð í þessu ferli sem getur tekið nokkra áratugi.  Brúttó útflutningur á Íslendingum heldur áfram á sama tíma og brúttó aðflutningur á erlendu vinnuafli byrjar.  Það er einfaldlega ekki til vinnuafl til að manna ákveðin störf, vegna þess að hæfustu Íslendingarnir eru að vinna sömu vinnu í Noregi á tvöföldu kaupi.

Þetta ferli verður ekki svo auðveldlega stöðvað þegar það er byrjað.

Hvar verður Ísland árið 2262 á 1000 ára afmæli Gamla sáttmála?  Það er umhugsunarefni ekki bara fyrir Íslendinga heldur líka Norðmenn.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.10.2010 - 23:23 - 5 ummæli

Fyrstur með fréttirnar!

Stöð 2 var með frétt í kvöld um matarkortin í New York.  Ég skrifaði um þetta fyrir nokkrum dögum undir fyrirsögninni „Að eiga fyrir mat“ þar sem ég lýsti kerfinu í Bandaríkjunum og tók New York fylki sem dæmi.

Kerfið heyrir undir landbúnaðarráðuneytið í Bandaríkjunum en er stjórnað af sambandsfylkjunum.  Upphaflega var þetta kerfi sett upp til að slá tvær flugur með einu höggi, veita fátæku fólki og börnum aðganga að hollum og næringarríkum mat og styrkja bændur til að losa þá við umframframleiðslu.

Prógrammið er því samblanda af félagslegri þjónustu og styrkjakerfi til bænda og matvælaframleiðenda.

Það fæðir fátæka og styrkir bændur.

Það er spurning hvort ekki er hægt að aðlaga styrkjakerfi íslenska landbúnaðarins, þannig að þeir sem eiga varla fyrir mat fái stærri hlut í niðurgreiðslu til neytenda í sinn hlut.  Aðrir þurfi þá að borga aðeins meira.

Það er margt hægt, ef menn eru aðeins opnir fyrir nýjum hugmyndum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.10.2010 - 10:55 - 21 ummæli

500,000 kr = 85 fm

Heimilistekjur upp á 500,000 kr. á mánuði duga fyrir 85 fm íbúð á höfuðborgarsvæðinu svo framarlega sem kaupandinn á einnig 3,750.000 kr. sparnað á bók fyrir útborgun.  Þetta yrði niðurstaðan ef íslenskir neytendur færu í greiðslumat hjá varfærnum og ábyrgum fjármálastofnunum í nágrannalöndum okkar. 

Vandamálið í húsnæðismálum landsmanna eru lág laun og hár byggingarkostnaður.  Lán og vextir eru afleiðing en ekki grunnorsök vandans.  Svona hefur þetta verið í langan tíma.  Fyrst reddaði verðbólgan málinu með því að brenna upp lánin á kostnað sparifjáreigenda, svo héldu menn að erlend lán á lágum vöxtum samhliða gervihagvexti byggðan á fölsku gengi yrði lausnin, sem eingöngu gerði vandamálið verra með því að sprengja upp verðið og lánin.  Hluta þess vanda var velt yfir á erlenda sparifjáreigendur, en þegar það dugði ekki á að láta lífeyrisþega borga brúsann.  Svona endalaust krukk í fjármálahlið húsnæðismála er engin lausn eins og flesti ættu að gera sér grein fyrir. 

Næsta kynslóð verður að taka á hinum raunverulega vanda, lágum launum og háum byggingarkostnaði.  Erfitt er að lækka byggingarkostnaðinn vegna landlegu og veðráttu hér.  Við þurfum vönduð hús.  Eina lausnin er að hækka launin en það verður ekki gert nema með raunverulegum hagvexti.  Þar liggur lausnin.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.10.2010 - 19:40 - 11 ummæli

„Great Expectations“

Ögmundur segir ekki orð um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, hann er núna í sínu uppáhaldshlutverki, kemur hlaðinn loforðum og lausnum.  Eina sem skyggir á hjá Ögmundi er flokksbróðir hans Björn Valur sem varar við of miklum væntingum.  Ögmundur slær nú létt á þær áhyggjur og segir:

„… að ekki megi einblína um of á kostnað heldur þurfi að skoða afskriftir skulda út frá fjármálakerfinu í heild.“

Hvernig á að skilja þetta?  Hvað á að afskrifa og hvað á að borga?  Hvar dregur Ögmundur línuna?  Og hvað með Íbúðarlánasjóð, hefur hann meira svigrúm til niðurfellingar en bankarnir?  Svo virðist vera,  þegar orð Ögmundar eru skoðuð.  Bankarnir virðast vandamálið hjá Ögmundi.

Ef bankarnir eru tregir í taumi, af hverju ríður ríkið þá ekki á vaðið með góðu fordæmi og lætur Íbúðarlánasjóð bjóða afskriftir að hætti Ögmundar.  Það ætti að vera auðvelt fyrir Ögmund að ná samningi við þá stofnun, ekki satt?

A.m.k.  ætti Ögmundur og Jóhanna að geta útlistað hvernig Íbúðarlánasjóður ætlar að standa að afskriftum og þar með sett rammann um hinar fyrirhuguðu afskriftir bankanna.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.10.2010 - 13:18 - 5 ummæli

Skuldir ofar heilsu

Forgangsröðun forsætisráðherra er skýr, peningar og skuldir koma ofar heilsu og heilbrigði.  Stærsta mál ríkisstjórnarinnar er að finna 200 ma kr. handa skuldsettum heimilum á sama tíma og gengdarlaus niðurskurður á sér stað í heilbrigðisþjónustu og þúsundir manna þurfa að þiggja matargjafir til að geta fætt börn sín.

Talað er um þjóðarsátt um skuldir heimilanna, en af hverju ekki þjóðarsátt um heilsu, heilbrigði og þau sjálfsögðu mannréttindi að geta fætt börn sín án þess að þurfa að standa klukkutímum saman til að fá plastpoka afhentan af góðgerðarsamtökum?  Jafnvel í mekka frjálshyggjunnar, Bandaríkjunum, er matur settur ofar skuldum.  Það er skrýtinn sósíalismi sem setur skuldir á oddinn en ekki mat og heilsu.

Ætli hluti málsins sé ekki að alþingismenn og aðrir ráðamenn eru flestir (eins og kjósendur) hraustir menn sem eiga á sig og í en eru upp til hópa lántakendur.  Að hugsa fyrst um sig er ríkt í íslensku þjóðarsálinni!

Nú er ekkert að því að taka upp skuldamálstað heimilanna, en varla á kostnað heilbrigði og heilsu.  Sumir segja, ef til vill,  að tímasetningin hjá  stjórnvöldum sé óheppileg, en varla fæða menn börn sín á „tímasetningu“!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur