Laugardagur 22.11.2014 - 10:39 - 13 ummæli

Ill meðferð

Það er mikilvægt að mæta vanda þeirra sem keyptu íbúð á allra versta tíma þegar verð húsnæðis var sem hæst og vextir í hæstum hæðum. Þetta var kosningaloforð Samfylkingarinnar og einnig var ætlunin að koma til móts við lánsveðshópinn og leigendur með sanngjörnum hætti. Ég get illa sætt mig við óréttlætið sem fylgir efndum á stóra kosningarloforði Framsóknar. Tæpur þriðjungur heimila í landinu fær niðurgreiðslu húsnæðislána, jafnvel þau sem hagnast hafa ágætlega á húsnæðiskaupum sínum, en önnur heimili skilin eftir sem sum eru í miklum vanda.

Meðferð hægristjórnarinnar á almanna fé er óásættanleg. Vel stæðu fólki eru færðir milljarðar rétt si svona á meðan að heilbrigðis- og menntakerfið er í vanda og aðrir innviðir samfélagsins í slæmu ástandi, einkum vegir og ferðamannastaðir. Með skuldaniðurgreiðslunni færir hægristjórnin þeim heimilum sem hafa meira en eina milljón og þrjúhundruðþúsund krónur í laun á mánuði 20 milljarða svo dæmi sé tekið. Fyrir 20 milljarða má reka allt framhaldsskólakerfið í eitt ár og rekstur allra heilbrigðisstofnana landsins kostar 17 milljarða á ári.

Úr ríkissjóði
Forsætisráðherra hélt því fram bæði fyrir og eftir kostnaður að kosningaloforð Framsóknarflokksins myndi ekki lenda á ríkinu. Hann sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni 19. mars 2013: „Jájá. Við höfum nú talað mjög skýrt í því, held ég að mér sé óhætt að segja, að þessi kostnaður ætti ekki að lenda á ríkinu vegna þess að það væri framkvæmanlegt að gera það öðru vísi, það væri sanngjarnt að gera það öðru vísi og eðlilegt.“ Og í kastljósi 11. september 2013: „Menn þurfa ekki að … svo sem að hafa áhyggjur af því í neinu þessara tilvika að kostnaðurinn eigi að lenda á ríkinu.“

En nú er hann að lenda á ríkinu og bæta á við 16 milljörðum króna í ár vegna þess að ríkissjóður „stendur svo vel“ og gott sé að spara vexti sem annars þyrfti að greiða síðar. Um leið og fjármunum úr ríkissjóði er veitt til margra sem ekki þurfa á þeim að halda segja stjórnarþingmenn að ekki séu til peningar í heilbrigðiskerfið eða vegakerfið og boða fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og svo krefjast þau enn aukinnar greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Þau stuðla með gjörðum sínum að misskiptingu í landinu með margvíslegum hætti, líka með skuldaniðurgreiðslunni. Kostnaðurinn sem aukinn ójöfnuður hefur í för með sér, er mun meiri en sparnaðurinn af því að flýta áætlunum um kosningaloforð Framsóknar. Sá kostnaður lendir á þeim sem síst skyldi. Það sem verra er þá mun aðgerðin sjálf valda verðbólgu og lánin munu hækka aftur sem henni nemur.

Hrossakaup
Kostnaðurinn sem þessi ómarkvissa aðgerð veldur mun ekki bara lenda á þeim sem fá niðurgreiðslu lána heldur á öllum, bæði fátækum og ríkum, sjúkum og frískum. Ég gæti sagt að ég sé undrandi á því að Sjálfstæðismenn hafi fallist á að fara svona illa með fjármuni ríkisins, því það var allt annað hljóð í þeim fyrir kosningar. En þeir hafa áður sýnt að þeir séu til í ýmislegt þegar að kemur að hrossakaupum. Þessi umdeilda aðgerð er orðin staðreynd og ákvörðunin ósanngjarna ekki aftur tekin. Niðurstaðan er ill meðferð á almannafé.

Kjallari í DV 21.11.2014

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.10.2014 - 17:33 - 6 ummæli

Áhyggjur

Ég hef áhyggjur af mörgu í íslensku samfélagi nú um stundir, m.a. af því að:

  • Hagkerfið á Íslandi í dag býr til ný störf sem eru nær eingöngu láglaunastörf.
  • Menntunarstig Íslendinga í Noregi er mun hærra en íslensku þjóðarinnar í heild.
  • Menntunarstig fólksins sem flytur til landsins er lægra en þjóðarinnar í heild.
  • Stjórnvöld takmarka aðgengi að framhaldsskólum og halda menntunarstigi þjóðarinnar niðri.
  • Gjaldeyrishöftin stuðli að einhæfu atvinnulífi.
  • Krónan verði til þess að kjör fólksins í landinu batni ekki.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.10.2014 - 15:32 - 36 ummæli

Sjúklingaskattur

Heimir Már Pétursson var með athyglisverða frétt á Stöð 2 í gærkvöldi um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðis- og menntakerfinu. Í fréttinni kom fram að þeir sem þurfa að nýta sér heilbrigðisþjónustu greiði yfir borðið um 30 milljarða króna og þeir sem nýta sér menntakerfið greiði um 14 milljarða króna. Heimir varpaði fram mikilvægri pólitískri spurningu um stefnuna í þessum málum. Hvað á að greiða stóran hluta velferðarkerfisins með sköttum og hvað á almenningur að greiða fyrir þjónustuna yfir borðið þegar á henni þarf að halda? Þetta er grundvallarspurning sem við sem þjóð verðum að svara.

Hugsjónir jafnaðarmanna

Hvernig ætlum við að láta velferðarkerfið þróast og greiðsluþátttöku almennings nú þegar við erum að rétta úr kútnum og sjáum fram á betri tíma eftir efnahagshrunið? Jafnaðarmenn eiga ekki í erfiðleikum með að svara þessari spurningu. Við eigum að byggja upp gott velferðarkerfi með skattfé. Það að rukka veika einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og að þeir taki æ meiri þátt í kostnaði vegna hennar er óásættanlegt. Það sama má segja um þá sem sækja sér menntun. Góð menntun og menntunarstig þjóðarinnar er grundvallarstoð samfélags okkar. Við eigum öll að bera kostnaðinn saman af þessum mikilvægu stoðum ef við viljum kallast velferðarríki.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna virðist ekki vera sama sinnis. Hún lækkar skatta og gjöld á þá sem eru vel aflögufærir í samfélaginu en hækkar greiðsluþátttöku þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu þá miða þær gjaldskrárbreytingar sem tóku gildi 1. janúar 2014 allar að því að lækka ríkisútgjöld. Áætlað er að gjaldskrárhækkanirnar skili samtals um 541 m.kr. á ári í ríkissjóð, en þær eru eftirtaldar:

  • 91,2 m.kr. vegna hækkunar komugjalda í heilsugæslu.
  • 200 m.kr. vegna hækkunar gjalda fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsóknir og myndgreiningu á stofum lækna og göngudeildum sjúkrahúsa.
  • 150 m.kr. vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum.
  • 100 m.kr. vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í þjálfun.

Þann 7. júlí hækkuðu gjöld fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsóknir og myndgreiningu. Gert er ráð fyrir að sú hækkun skili a.m.k. um 70 m.kr. til lækkunar ríkisútgjalda á árinu. Hækkunin er liður í fjármögnun nýs samnings við sérgreinalækna, sem tók gildi 1. janúar sl., þar sem komugjöld sem sjúklingar greiddu áður utan reglugerðar meðan ósamið var við læknana, voru færð inn í reglugerð. Samtals er því um að ræða áætlaða lækkun á ríkisútgjöldum í ár sem nemur um 611 m.kr. vegna þess að þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda greiða meira yfir borðið. Þetta eru hækkanir á árinu 2014 og enn er gert ráð fyrir frekari greiðsluþátttöku á árinu 2015 þar sem S merktu lyfin svokölluðu eru færð inn í greiðsluþátttökukerfið. Við það hækkar greiðsluþátttaka vegna lyfja um 145 milljónir króna.

Hver er stefnan?

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna segjast boða „enn frekari skattalækkanir“. En þeir verða að gera fólkinu í landinu grein fyrir hvað þær skattalækkanir hafa í för með sér, hvaða tekjuhópar njóti þeirra og með hvaða hætti þær veikja velferðarkerfið. Hvaða þjónustu missum við fyrir vikið og hvað þurfum við að greiða mikið umfram almenna skatta fyrir þá þjónustu sem við þó fáum? Með svörum við þessum spurningum liggur hin pólitíska lína á milli velferðarflokka og hinna sem vilja að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda greiði fyrir hana sjálfir án tillits til lífsafkomu og tekna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.10.2014 - 18:27 - 1 ummæli

Lokað og læst

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er fyrirhugað að takmarka innritun í framhaldsskóla á árinu 2015 þannig að ársnemendum fækki um 916. Þetta er tæpleg 5% fækkun ársnemenda sem eru nemendur í fullu námi. Einstaklingarnir eru enn fleiri. Til að setja þessa fjöldatakmörkun í samhengi er þetta álíka og að neita öllum nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja um skólavist og segja upp 90-100 starfsmönnum í kjölfarið. Þessi fyrirhugaða fækkun framhaldsskólanemenda sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu mun dreifast um allt land og það mun að sjálfsögðu fækkun starfsmanna einnig gera. Þetta mun fyrst og fremst bitna á nemendum sem eru eldri en 25 ára, en nú eru þeir um 4.000 eða tæplega 17% af heildinni. Meðalaldur nemenda á verknámsbrautum er rúmlega 25 ár.

Brottfall
Það helsta sem aðgreinir okkar framhaldsskólakerfi frá nágrannalöndunum er að nám í framhaldsskóla er lengra hér á landi og brottfall er hér meira. Um 98% grunnskólanemenda fara í framhaldsskóla en hætta of mörg námi án þess að ljúka prófi. Íslenskir framhaldsskólar hafa verið óþreytandi í baráttunni gegn þeim vanda sem brottfallið er. Sá möguleiki að koma aftur í skóla með auknum þroska og reynslu hefur staðið brottfallsnemendum til boða. Það að geta lokið námi þótt seint sé, skiptir miklu máli fyrir einstaklingana og framtíðarmöguleika þeirra en einnig fyrir menntunarstig þjóðarinnar sem aftur hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og almenna hagsæld. Enn er ekki búið að stytta námstíma í framhaldsskóla þó áform séu þar um en nú á hins vegar að takmarka sveigjanleika kerfisins sem hefur verið þess helsti kostur hingað til.

Menntastefna
Meðalaldur er hæstur í verknámsskólum og skólum sem sinna fjarkennslu og meðalaldur í skólum sem starfa á landsbyggðinni er hærri en skólanna á höfuðborgarsvæðinu. Hér er tafla með nokkrum dæmum um áhrif menntastefnu ríkisstjórnarinnar:
Skóli                                           Hlutfall nemenda 25 ára og eldri* Fækkun ársnemenda 2015**
Tækniskólinn                                         42,2%                                                     5,3%
Fjölbrautaskólinn í Ármúla                      32,90%                                                  12,20%
Menntaskólinn á Tröllaskaga                 19,90%                                                   17%
Framhaldsskóli Norðurlands vestra        17,20%                                                  11,70%
Fjölbrautaskóli Snæfellinga                    13,9%                                                    18,4%
Menntaskólinn á Egilsstöðum                10,20%                                                  15,70%
                                                  * Tölur frá menntamálaráðuneyti. ** Tölur úr fjárlagafrumvarpi 2015

Hæst er hlutfall eldri nemenda í Tækniskólanum. Þar verður nemendum fækkað um 95 eða um 5,3%. Fjölbrautaskólinn í Ármúla hefur bæði sinnt eldri nemendum af höfuðborgarsvæðinu og einnig utan af landi með fjarkennslu. Þar fækkar nemendum um 12,2%. Á töflunni má sjá áhrif á fjóra skóla á landsbyggðinni. Skólarnir þyrftu í raun enn meira fjármagn, ættu þeir að mæta menntunarþörfinni í nærsamfélaginu og vera færir um að standa undir nægilega fjölbreyttu námsframboði. Með áformum ríkisstjórnarinnar um fjöldatakmarkanir mun rekstrarstaða framhaldsskóla úti á landi versna til muna og námsframboð mun þar væntanlega einnig verða einhæfara.

Byggðastefna
Rannsóknir sýna að gott aðgengi að námi skiptir miklu máli ef hækka á menntunarstig þjóðar. Menntamálaráðherra ferðast nú um landið og heldur erindi um mikilvægi læsis og menntunar fyrir hagvöxt og hagsæld í landinu. Á sama tíma skerðir hann aðgengi að menntun sem mun koma harðast niður á ungu fólki á landsbyggðinni. Þeim er boðið í staðinn að flytja búferlum og fara í einkaskóla á Suðurnesjum eða í Borgarfirði með ærnum tilkostnaði. Enginn vafi er á að með þessari ráðstöfun mun opinberum störfum á landsbyggðinni fækka enn frekar. Byggðastefna ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er í skötulíki og ómögulegt er að átta sig á hvort ráðherrarnir eru að koma eða fara í þeim efnum.

Kjallari DV 30. september 2014

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.9.2014 - 16:03 - 2 ummæli

Heimiliserjur og fyrirvarar

Eftir fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið og tekjufrumvörp þess sækja á mig áleitnar spurningar um hvað sé eiginlega að gerast á stjórnarheimilinu.

Gera má ráð fyrir að talnabálkar fjárlagafrumvarpsins og megintexti hafi verið tilbúinn í lok júní áður en flestir starfsmenn ráðuneyta fara í sumarfrí. Ágúst hefur síðan verið notaður til töflugerða og frágangs til prentunar þannig að allt væri tilbúið fyrir framlagningu frumvarpsins 9. september. Ef þessar tímasetningar eru réttar þá hefur ríkisstjórnin og væntanlega stjórnarmeirihlutinn verið sammála því í lok júní að breyta virðisaukaskattskerfinu þannig að efra þrepið lækkaði í 24,5% og neðra þrepið hækkaði í 11%, eins og fram kemur í prentuðu útgáfunni. Almenn vörugjöld yrðu felld niður en sykurskatturinn ekki afnuminn. Mótvægisaðgerðir yrðu í gegnum tekjuskatt einstaklinga og næmu einum milljarði króna en barnabætur hækkuðu aðeins um 2,5%.

Svo kom sumarfrí. Flestir mættu aftur til vinnu eftir verslunarmannahelgi og þingflokkar fóru að undirbúa þingveturinn. Þá hefur væntanlega eitthvað gerst því þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt voru aðrar tillögur en þær sem sjá má í fjárlagafrumvarpinu lagðar fram. Ég get mér til um að einhverjir hafi gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og fjármála- og efnahagsráðherra hafi séð sig knúinn til að gera breytingar. Það hefur varla verið þingflokkur Framsóknar sem gerði þær athugasemdir því þau hafa nefnilega gert athugasemdir við nýju tillögurnar.

Nýju tillögurnar eru á þann veg að efra þrepið er lækkað í 24% og það neðra hækkað í 12%. Sykurskatturinn er afnuminn, matarskatturinn hækkaður meira og efra þrepið lækkað um hálft prósentustig til viðbótar. Þá eru dregnar til baka mótvægisaðgerðir með breytingum á tekjuskatti einstaklinga en skipt yfir í hækkun á barnabótum um einn milljarð, frá 10 makr í 11makr.

Þegar hér er komið sögu gerir þingflokkur Framsóknar almennan fyrirvara við frumvörpin. Sjálfur forsætisráðherra og allir aðrir ráðherrar Framsóknar, ásamt öllum þingmönnum flokksins gera formlegan fyrirvara við helsta stefnuplagg ríkisstjórnarinnar!

Ríkisstjórnir hafa sprungið af minna tilefni enda er það einfaldlega þannig að ef ekki er nægur stuðningur við fjárlagafrumvarpið þá hefur ríkisstjórnin ekki stuðning meirihluta þingsins. Hvenær hefur það gerst áður að forsætisráðherra setur fyrirvara við meginstefnuplagg eigin ríkisstjórnar?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.8.2014 - 09:09 - 9 ummæli

Þau læra ekki

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna hóf feril sinn með því að fjölga ráðherrum og vill fjölga þeim enn frekar. Lekamál innanríkisráðuneytisins er nú beitt sem rökum fyrir því að endurreisa gamla dómsmálaráðuneytið og koma þar með núverandi innanríkisráðherra í varanlegt skjól. Áður höfðu þau klofið atvinnuvegaráðuneytið og velferðarráðuneytið í tvennt og fært umhverfis- og auðlindaráðuneytið í rassvasa landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Rökin fyrir þeim breytingum voru af skornum skammti. Mér skildist að þeim þætti mikilvægt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og landbúnaði hefðu greiðan aðgang að sínum eigin ráðherra. Það samband mætti ekki trufla með einhverju vafstri um samræmda atvinnustefnu, nýsköpun og áherslum um breytta samfélagsþróun. Enda eru þarna hagsmunaárekstrar því niðurgreiðslur til landbúnaðar og lág veiðigjöld minnka svigrúm ríkisins til að styrkja þróun og nýsköpun í öðrum atvinnugreinum. Breytingar er varða áherslur á málefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis lýsa vel viðhorfum stjórnarliða til þeirra.

Bitur reynsla

Það virðist hafa gleymst að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir breytti lögum um Stjórnarráð Íslands að gefnu tilefni. Breytingarnar voru afleiðing og lærdómur biturrar reynslu. Fólkið í landinu hafði gengið í gegnum stórkostlegt hrun efnahags og samfélags og stjórnvöld vildu gera allt sem mögulegt var til að slíkt gerðist aldrei aftur. Ein af afdráttarlausum niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis var að styrkja þyrfti stjórnsýsluna og auka skilning á því hversu mikilvægt það er fyrir litla þjóð að stunda góða stjórnsýsluhætti og nýta fjármagn og mannauð til þess sem best. Vandað var til breytinga á lögum um Stjórnarráðið á síðasta kjörtímabili þar sem lagt var til að ráðuneytum yrði fækkað úr 12 í 8. Breytingarnar byggðu á niðurstöðum skýrslu starfshóps forsætisráðherra og voru viðbrögð við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Nefndin lagði til að ráðuneytin yrðu færri og stærri.

Fagmennska og fjármagn

Rökin fyrir færri og stærri ráðuneytum eru fyrst og fremst fagleg en einnig fjárhagsleg því til lengri tíma skilar sú ráðstöfun fjárhagslegum ávinningi. Faglegu rökin eru þau helstu að með stærri ráðueytum fylgi eftirsóknarverð samlegðaráhrif á milli málaflokka. Þannig sé komið í veg fyrir óskýra verkaskiptingu og að sömu verk séu unnin mörgum sinnum í mismunandi ráðuneytum með tilheyrandi kostnaði. Ákvarðanir verði síður teknar með óformlegum hætti í stærri einingum, þar séu möguleikar á meiri sveigjanleika og getu til að takast á við breytingar. Nýsköpun og starfsþróun auk sérhæfingar séu einnig auðveldari og alþjóðlegt samstarf markvissara. Ráðuneytin yrðu þannig öflugari starfseiningar, þekking starfsfólks betur nýtt og samstarf á milli ráðuneyta aukið til muna. Smærri ráðuneyti með takmarkaðan mannafla standa veikari fyrir gagnvart hagsmunaaðilum sem skapar hættu sem við höfum slæma reynslu af og eigum að krefjast af stjórnvöldum að varast.

Lærdómur

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna stefnir í allt aðra átt og vill að ráðuneytin verði aftur lítil og veikburða. Þau láta eins og af því stafi engin hætta og að við þurfum ekki að læra af reynslunni sem hrunið kenndi okkur. Þau gera einnig lítið úr vandaðri stjórnsýslu með reglum, formlegum boðleiðum og skráningu upplýsinga. Það sýnir m.a. lekamálið okkur glögglega og einnig skætingur forsætisráðherra í bréfi til Umboðsmanns Alþingis þegar sá síðarnefndi spyr um siðareglur ríkisstjórnarinnar sem lögum samkvæmt eiga að vera til staðar. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórn sem ekkert hefur lært af biturri reynslu hrunsins , sem fer fram með hroka gagnvart eftirliti og eyðileggur umbótastarf sé að leiða okkur í verulegar ógöngur. Efnahagsleg mistök sem þau hafa gert eða eru að leggja drög að og aðgerðarleysi í öðrum málum eru efni í fleiri greinar. Því fyrr sem þessi dáðlausa ríkisstjórn fer frá því minna tjón verður af hennar völdum. Því fyrr því betra.

(Kjallari í helgarblaði DV 22. ágúst 2014)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.8.2014 - 14:36 - 4 ummæli

Blekkingarleikur

Við afgreiðslu frumvarpa um skuldaniðurgreiðslu verðtryggðra fasteignalána á síðasta vorþingi voru gerðar breytingar á skattalögum. Ég nýtti það tækifæri til að leggja fram frekari breytingar á þeim lögum sem leitt hefðu til kærkominnar hækkunar á barnabótum til þeirra fjölskyldna sem lægstu launin hafa. Barnabótum hafði þá þegar verið úthlutað tvisvar sinnum á árinu og mér þótti ljóst að umtalsverðir fjármunir sætu eftir í ríkissjóði í lok árs ef ekkert yrði að gert.

Von

Ég stóð í þeirri trú að meirihluti alþingismanna myndi fagna þessum breytingartillögum og væru sammála mér um sanngirni þess að öll upphæðin sem þeir höfðu samþykkt til barnabóta, gengi að fullu til barnafjölskyldna. Ekki síst eftir að stjórnarþingmennirnir höfðu þá þegar samþykkt að veita tugum milljarða af ríkisfé til skuldaniðurgreiðslu fólks sem var ekki í nokkrum greiðsluvanda. Allar greiningar höfðu hins vegar sýnt svo ekki væri um villst að barnafjölskyldur, hvort sem þær skulduðu verðtryggð húsnæðislán eða væru á leigumarkaði, ættu við mikinn greiðsluvanda að stríða. Það væri sá hópur sem þyrfti fyrst og fremst á stuðningi að halda. Einnig taldi ég að skýrsla með upplýsingum um aukinn fjölda fátækra barna á Íslandi styrkti málflutning minn verulega. Tillögurnar voru hóflegar og gerðu ekki ráð fyrir að farið yrði út fyrir ramma fjárlaga þó aðstæður barnafjölskyldna gæfu sannarlega tilefni til þess.

Samkvæmt gildandi reglum byrja barnabætur að skerðast við 200 þúsund króna mánaðarlaun. Allar viðmiðunarupphæðir í skattalögunum voru ákveðnar haustið 2012 og þeim hafði ekki verið breytt síðan í samræmi við breytingar á launavísitölu, neysluvísitölu né að öðru leyti.

Ég vonaði líka að ríkisstjórnin stæði við loforð sín um að gæta sérstaklega að hag barna og því yrðu breytingartillögur samþykktar.

Vonbrigði

En það fór ekki svo. Það voru mér gríðarleg vonbrigði að líta á atkvæðaspjaldið við afgreiðslu breytingartillögu minnar og sjá að allir stjórnarþingmennirnir í salnum greiddu atkvæði gegn henni. Allir sem einn! Tillagan var felld með 36 atkvæðum stjórnarþingmanna, 21 þingmaður minni hlutans greiddi henni atkvæði sitt en einn sat hjá. Fimm þingmenn voru fjarverandi.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarps ársins 2014 lagði meirihluti fjárlaganefndar til niðurskurð barnabóta um 300 milljónir frá tillögu fjármálaráðherra, en hann hafði þá þegar lagt til lækkun á barnabótum frá fjárlögum 2013 um annað eins. Tillögum meirihluta fjárlaganefndar var harðlega mótmælt bæði innan þings og utan og þær voru loks dregnar til baka. Uppgjör á útgjöldum ríkissjóðs frá Fjársýslu ríkisins og nýjar tölur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu gefa til kynna að í árslok muni mun meira en 300 milljónir af áætluðum barnabótum sitja eftir í ríkissjóði í árslok. Þar sem breytingar á viðmiðunartölum barnabóta í skattalögum voru ekki samþykktar ná tillögur formanns fjárlaganefndar og félaga hennar í fjárlaganefnd um frekari skerðingu fram að ganga og gott betur.

Þeim tóks að skerða hlut barnafólks bakdyramegin. Létu bara líta út fyrir að hægristjórnin ætlaði að verja hag barna. Stjórnarliðar hika ekki við að hygla vildarvinum ríkisstjórnarinnar með milljarða gjalda- og skattaafslætti en beita blekkingum til að skerða hlut þeirra sem verst standa. Finnst fólki þessi vinnubrögð virkilega ásættanleg?

(Kjallari DV 6. ágúst 2014)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.6.2014 - 10:07 - 2 ummæli

Krónan og krakkarnir

Ef gjaldeyrishöft yrðu losuð hér á landi snögglega er sennilegt að miklir fjármunir flyttust úr landi á stuttum tíma. Fyrstu afleiðingar þess kæmu fram í lítilli spurn eftir krónum, verðfalli krónunnar og hækkun á innfluttum vörum. Í kjölfarið fylgdi verðbólga, verðtryggð lán myndu hækka og kjör almennings versna. Skellinn tækju að mestu þeir sömu og tóku skell vegna efnahagshrunsins.

Slík skyndilosun gjaldeyrishaftanna yrði því nýtt áfall ofan á áfallið af hruninu og gæti gert að engu þær varnarráðstafanir sem gripið var til vegna þess. Sennilega yrði það áfall ofviða mörgum heimilum sem illa standa. Að vísu er líklegt að ástandið lagist smám saman á nokkrum árum en fórnarkostnaðurinn yrði mikill.

Ef losun gjaldeyrishafta er á hinn bóginn of hæg bitnar það einnig á kjörum almennings, einkum vegna brotthvarfs fyrirtækja sem myndu frekar kjósa að vaxa erlendis.

Þegar kostir og gallar aðferða við losun gjaldeyrishafta eru skoðaðir við núverandi aðstæður þarf að taka mið af samspili vaxta, verðbólgu og gengis og áhrifa þessara þátta á kjör fólksins í landinu. Þetta samspil sýna sviðsmyndir sem KPMG hefur sett fram á myndrænan hátt nýverið og finna má á heimasíðu fyrirtækisins.

Kostnaður vegna krónunnar

Það er kostnaðarsamt fyrir þjóðina að halda uppi minnsta gjaldmiðli í heimi. Enn hef ég ekki heyrt nein haldbær rök fyrir að halda því áfram. Einu rökin sem heyrst hafa eru þau að með krónunni sé hægt að rýra kjör launafólks án þess að semja við það sérstaklega. Það getur ekki talist vera kostur fyrir almenning en ágætt fyrir sum fyrirtæki og stjórnmálamenn sem falið geta mistök sín með slíkum aðgerðum.

Erfitt er að sjá fyrir sér heilbrigða þróun fjölbreytts atvinnulífs með alþjóðlegum tengingum, sem er eftirsótt fyrir kraftmikil ungmenni, í því umhverfi sem krónan skapar. Ómögulegt er að sjá slíka framtíðarsýn fyrir unga Íslendinga rætast með krónuna í höftum. Litlar líkur eru á öðru en að krónan verði til frambúðar í einhvers konar höftum og því ástandi fylgja slæmar aukaverkanir.

Hvert fara krakkarnir?

Þjóð sem sér fram á staðnað atvinnulíf og sem getur ekki skapað fjölbreytt og krefjandi verkefni fyrir unga fólkið er í miklum vanda. Með krónuna sem gjaldmiðil og í höftum er líklegt að það fari eins fyrir unga fólkinu og fyrirtækjunum. Þau munu kjósa að vaxa í öðrum löndum. Það er framtíðarsýn sem ekki má una við.

Til þess að breyta þessari mynd sótti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd, eftir ályktun Alþingis. Sú umsókn stendur enn. Ef þar nást ásættanlegir samningar sem þjóðin samþykkir, og með þátttöku í ERM II fastgengissamstarfi og síðan upptöku evru, mun myndin breytast. Þar eru möguleikar sem nýst gætu til kjarabóta fyrir fólkið í landinu.

Samspil vaxta, verðbólgu og gengis yrði með öðrum hætti með evru en krónu. Vaxtarskilyrði fyrirtækja, ekki síst í nýjum atvinnugreinum, og framtíðarmöguleikar ungmenna hér á landi færu batnandi. Líkur ykjust á því að þau vilji vera og vaxa hér á Íslandi.

Gagnlegt væri að fá greiningu þessarar sviðsmyndar og stilla henni upp með myndrænum hætti við hlið sviðsmynda KPMG um losun gjaldeyrishafta.

Til þess að halda þessum möguleika opnum þurfum við að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og bera niðurstöðuna undir þjóðina. Annað er óásættanlegt.

Kjallari DV 17. júní 2014

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.1.2014 - 09:57 - Rita ummæli

„Hvað boðar nýárs blessuð sól?“

Við upphaf á nýs árs  horfum við fram á veginn og veltum fyrir okkur hvað árið muni bera í skauti sér og leggjum á ráðin um hvernig við best náum markmiðum okkar. Þá er gott að líta um öxl og nýta reynslu fyrri ára til að gera enn betur á því nýja.

Skörp kaflaskil
Í stjórnmálunum urðu skörp kaflaskil með kosningunum síðastliðið vor. Í stað vinstristjórnar, sem forðaði landinu frá gjaldþroti og endurreisti samfélagið við fordæmalausar aðstæður í kjölfar efnahagshruns, kom hægristjórn. Með aðgerðum vinstristjórnarinnar var jöfnuður í landinu aukinn og margt fært til betri og sanngjarnari vegar. Aðgerðir hægristjórnarinnar hafa hins vegar miðað að því að auka ójöfnuð og færa fjármuni til þeirra sem nóg hafa fyrir frá þeim sem ekki eru aflögufærir.

Vinstristjórnin náði ekki að gera allt sem nauðsynlegt var að gera við þessar aðstæður á aðeins fjórum árum en lagði grunn að mörgu sem unnt hefði verið að byggja á. Hægristjórnin hefur nú afturkallað margt það besta úr áætlunum sem fyrri ríkisstjórn gerði til lengri tíma. Þar á meðal eru mál er varða atvinnustefnu, byggðastefnu, stefnu í utanríkismálum og náttúruvernd. Allt eru þetta málaflokkar sem brenna á öllum landsmönnum.

Hægristjórnin lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum var að skera niður styrki við nýsköpunarverkefni og skapandi greinar. Þar eru þó helstu vaxtasprotar atvinnulífsins og tengjast fjölbreyttum atvinnutækifærum og óhefðbundnum leiðum til að efla byggðalög sem hafa verið í lægð. Okkar mikilvægasta atvinnugrein, sjávarútvegurinn, er háð náttúrulegum takmörkunum. Það er stóriðjan einnig og reyndar  ferðaþjónustan líka. Allt eru þetta greinar sem lifa á auðlindum þjóðarinnar. Þær takmarkanir há hins vegar ekki nýsköpunargreinum sem geta, m.a. byggt á afurðum frá fiskverkun. Þá starfsemi eigum við að styrkja í sjávarbyggðum og aðra nýsköpun, hugvit og skapandi greinar um allt land og hlúa að sprotum sem geta vaxið og gefið af sér arð þó síðar verði.

Aukinn jöfnuður
Stjórnarandstöðinni tókst með baráttu sinni í tímahraki stjórnarmeirihlutans fyrir jól, að fá aukið fjármagn til nýsköpunar, skapandi greina og til að halda áfram vinnu með brothættar byggðir. Einnig tókst okkur að tryggja greiðslu desemberuppbótar fyrir atvinnulausa, afnám sjúklingagjalds og færa efra viðmið lægsta skattþreps ofar. Þannig tókst okkur að bæta fjárlagafrumvarpið en það er eftir sem áður langt frá því að samræmast stefnu jafnaðarmanna.

Ég hef verið hugsi yfir því sem ein ágæt kunningarkona mín sagði þegar ég var að gleðjast yfir þeim árangri sem stjórnarandstæðan náði fyrir jól og hvað sá árangur skipti marga máli. Hún sagði: „Já, þíð létuð stefnu ríkisstjórnarinnar líta betur út. Þið gerðuð ásýnd hennar mildari og hafið sennilega lengt líf hennar líka og það hefur slæm áhrif á líf margra til lengri tíma litið.“ Þetta er umhugsunarefni en samt held ég að við hefðum alltaf barist gegn eyðileggjandi áformum hægristjórnarinnar vegna þess að við vitum hversu margir hefðu annars liðið fyrir þá stefnu. Í þessari lotu hefðu það verið  atvinnulausir, þeir sem eru svo veikir að þeir þurfa sjúkrahússvist, fólk með lág laun, ungir vísindamenn, frumkvöðlar á ýmsum sviðum og  brothættar byggðir með erfið búsetuskilyrði.

Það er von mín að á nýju ári verði fleiri til að leggja hönd á plóg til að auka jöfnuð í okkar annars ágæta samfélagi og til að auka fjölbreyttni í atvinnulífi með stuðningi við ungt fólk, nýsköpun og skapandi greinar. Með því búum við enn betra samfélag fyrir alla.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.11.2013 - 18:10 - 3 ummæli

Stóru orðin

Þingmenn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna fóru mikinn á síðasta kjörtímabili og fussuðu og sveijuðu í umræðum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Nú þegar þau eru komin til valda skera þau niður öll atvinnuskapandi verkefni í Suðurkjördæmi. Oftast nota þau falsrök að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi ekki verið fjármögnuð. Þá er mikilvægt að rifja upp þá staðreynd að endurbætur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og bygging verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands voru ekki í þeirri fjárfestingaráætlun. Undirbúningur þeirra nauðsynlegu verka hafði staðið yfir lengi og fjármunir veittir til þeirra á síðustu árum. Þegar búið var að skera þau verk niður þá er engu líkara en að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna hafi hugsað: „Hvaða fleiri atvinnuskapandi verkefni getum við skorið niður í Suðurkjördæmi?“

Fleira undir hnífinn

Og þau fundu fleiri. Uppbygging ferðamannastaða er skorin niður um tvo þriðju þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna um kjördæmið hrópi á aukin framlög. Framlög til nýsköpunar og skapandigreina eru harkalega skorin niður þó í þeim búi hagvöxturinn til framtíðar og þau nauðsynleg vaxtarbroddum samfélaganna í Suðurkjördæmi. Meira að segja Þekkingarsetrið á Kirkjubæjarklaustri er látið fjúka þó öllum sé kunnug brothætt staða Skaftárhrepps. Sunnlendingar geta auðvitað ekki setið þegjandi undir þessari aðför og gera það ekki.

Sunnlendingar láta í sér heyra

Stjórn Bárunnar, stéttafélags mótmælti harðlega á dögunum niðurskurði á atvinnuskapandi verkefnum á Suðurlandi sem fram koma í framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar segir enn fremur: „Ljóst er að á sama tíma og atvinnulíf á Suðurlandi á undir högg að sækja þá kemur þessi niðurskurður sér sérstaklega illa fyrir fyrirtæki, stofnanir og launafólk á svæðinu. Skornar eru niður milli 400 og 500 milljónir í hin ýmsu verkefni sem til atvinnumála teljast og ættu að öllu eðlilegu að stuðla að atvinnuaukningu og styrkingu atvinnulífs á Suðurlandi.“ Stjórnin vekur einnig athygli á því að á meðal ráðherra eru þingmenn kjördæmisins og segir: „Stjórn Bárunnar krefst þess að þessir sömu fulltrúar fólksins og harðast gagnrýndu aðra fyrir kosningar noti völd sín og áhrif til að standa við orð sín og afstýra þeirri ógæfu sem við Sunnlendingum blasir.“

Hagur Suðurkjördæmis

Berjast þarf fyrir því að áður en fjárlög verða samþykkt verði hagur Suðurkjördæmis réttur. Það mun ég gera í fjárlaganefnd og á Alþingi. Það hafa sveitarfélög einnig gert með heimsókn til fjárlaganefndar, ályktunum og fundahöldum. Við hljótum að krefjast þess að ráðherrar og stjórnarþingmenn standi við stóru orðin.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur