Föstudagur 16.10.2015 - 10:05 - 3 ummæli

Erindi jafnaðarmanna 2

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það er mikil ólga í stjórnmálunum um þessar mundir. Og hún er ekki aðeins hér á Íslandi. Fólk kallar eftir einhverju nýju. Einhverju öðru en það hefur haft. Í Bretlandi hefur Verkamannaflokkurinn valið til forystu nýjan leiðtoga, eldri mann, sem virðist hafa kveikt einhvern neista hjá ungu fólki. Hann hefur stundum þótt róttækur og umdeildur en hann er jafnaðarmaður. Fróðlegt verður að sjá hvaða línur hann mun leggja.

Spurningin sem við þurfum að svara er einföld: Eigum við jafnaðarmenn eitthvert erindi á 21. öldinni? Grunngildi jafnaðarstefnunnar hafa frá fyrstu tíð verið jafnræði þegnanna, réttlæti, samhjálp og friður og eru það enn. Að allir einstaklingar skipti máli og leggi sitt að mörkum til samfélagsins. Grunngildin eru sígild og verða ávallt meginstefið í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur. Þetta kemur fram í baráttu jafnaðarmanna fyrir velferð einstaklinga, eflingu atvinnulífs, sanngjörnum viðskiptum og félagslegu réttlæti . En ekki síður í vilja til að skila lífvænlegri veröld til komandi kynslóða með baráttu fyrir umhverfisvernd í anda sjálfbærrar þróunar. Þeir berjast gegn hvers kyns spillingu og hindrunum sem standa í vegi góðra stjórnunarhátta og gegn þeim stjórnmálaöflum sem styðja hag forréttindahópa. Jafnaðarmenn standa vörð um frjálsa fjölmiðlun, óháð og óvilhallt réttarkerfi og virðingu fyrir réttindum minnihlutahópa og einstaklinga.

Svarið við spurningunni er því augljóslega því gunngildi jafnaðarmanna eiga jafn vel við nú og áður.

Traust
Þegar fólk velur að styðja við stefnu jafnaðarmanna, getur það verið visst um út frá hvaða megin sjónarmiðum unnið verður úr hagsmunamálum þjóðarinnar. Í kosningum eftir efnahagshrunið völdu Íslendingar jafnaðarmenn til að byggja upp efnahag og samfélag. Fólkið í landinu treysti því að áherslur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna myndu reynast almenningi best í glímunni við þær fordæmalausar aðstæður sem hrunið skóp. Nú sjö árum eftir hrun hafa fræðimenn skoðað hvernig þjóðir tókust á við kreppuna.

Ísland og Írland
Hægri stjórnin á Írlandi fór þveröfuga leið á við vinstristjórnina á Íslandi svo dæmi sé tekið. Írar lækkuðu bætur, hækkuðu almenna skatta, styttu atvinnuleysistímabilið og settu þar strangari skilyrðingar og lækkuðu vaxtabætur. Íslendingar hækkuðu bætur, lækkuðu skatta á lágtekjuhópa, lengdu atvinnuleysistímabilið, hækkuðu almennar vaxtabætur og bættu sérstökum vaxtabótum við. Afleiðingin var sú að á Íslandi urðu lágtekjuhóparnir fyrir minnstri kjaraskerðingu og jöfnuður fór vaxandi en á Írlandi varð sá hópur fyrir mestri kjaraskerðingu og ójöfnuður fór vaxandi.

Það skiptir mál hverjir stjórna!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.9.2015 - 10:56 - 3 ummæli

Erindi jafnaðarmanna

Jöfnuður, jafnrétti og samhjálp eru grunngildi jafnaðarstefnunnar og einnig þau gildi sem mynda undirstöður velferðarkerfisins. Almannatryggingar, heilsugæsla, húsnæðismál, skattar og menntastefna eiga að mynda eina samofna heild sem stuðlar að hagsæld og farsælu mannlífi. Jafnaðarstefnan leggur áherslu á að þessi heildarmynd sé skýr og að allir hlutar hennar sinni vel því hlutverki að skapa réttlátt og gott samfélag fyrir alla. Þegar jafnaðarmenn meta stöðuna í íslensku samfélagi um þessar mundir, blasir við að erindi þeirra er ærið.

Stoðir velferðarkerfisins gliðna nú þegar að almannatryggingar ná ekki lágmarkslaunum og einstæðir foreldrar og öryrkjar eiga í fjárhagslegum erfiðleikum, þegar æ fleiri börn búa við fátækt, þegar greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðisþjónustu er of mikil, ungt fólk getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið eða leigt á eðlilegum kjörum, sköttum er létt af þeim ríkustu, fjöldatakmarkanir eru í framhaldsskólum og kostnaður vegna menntunar eykst. Við slíkar aðstæður verða jafnaðarmenn að láta hendur standa fram úr ermum!

Almannatryggingar Lög um almannatryggingar gera ráð fyrir að bætur hækki með ákvörðun í fjárlögum, miðað við vísitölu eða almennar kjarabætur. Þrátt fyrir þessi lagaákvæði hlýtur það að vera skýlaus krafa að bætur almannatrygginga hækki í takt við lágmarkslaun þegar þau hækka hlutfallslega meira en aðrir launataxtar. Það er óásættanlegt að þeir sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga verði að lifa á launum sem eru lægri en lægsti launataxti gefur á vinnumarkaði og fái auk þess hækkun bótanna mun seinna en aðrir.

Heilsugæsla Þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda hér á landi greiða sjálfir yfir borðið samtals um 30 milljarða króna á ári sem er hlutfallslega mun meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Heilbrigðiskerfið þarfnast styrkingar en ekki á kostnað sjúklinga. Við viljum traust opinbert heilbrigðiskerfi. Lausn vandans í heilbrigðiskerfinu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum sjúklinga um land allt. Það á að vera forgangsverkefni.

Húsnæðismál Afar slæmt ástand er á húsnæðismarkaði og harðast kemur það niður á ungu fólki og leigendum. Húsnæðisráðherrann boðar breytingar til batnaðar en þær hafa látið á sér standa. Meðal aðgerða sem grípa þarf til við lausn vandans eru nýjar húsnæðisbætur sem tryggja leigjendum sambærilegan stuðning og veittur er þeim sem búa í eigin húsnæði og finna leiðir til að halda aftur af hækkunum á leiguverði. Gera fólki sem kaupir íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn og tekjulágu fólki kleift að fjármagna kaupin. Breyta reglum til að auðvelda sveitarfélögum kaup á félagslegum íbúðum og vinna að samkomulagi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbinda sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði. Við núverandi ástand má ekki una lengur.

Skattar Ríkissjórnin lofaði einfaldara skattkerfi. Í því fólust engin loforð um réttlátara skattkerfi enda hafa nýlegar aðgerðir þeirra létt sköttum af ríkasta fólkinu í landinu. Skattar gegna ekki aðeins því hlutverki að afla ríkissjóði tekna heldur einnig því mikilvæga hlutverki að stuðla að jöfnuði í samfélaginu. Þrepaskiptur tekjuskattur skilar báðum hlutverkunum. Góðar barnabætur jafna auk þess stöðu barnafólks.

Menntastefna Aldurstengdar fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla tóku gildi um áramótin. Þá var fólki 25 ára og eldri, vísað í bóknám í einkaskóla með ærnum tilkostnaði sem verður til þess að færri munu afla sér menntunar. Það er óhagstætt bæði fyrir einstaklingana og samfélagið. Snúa verður af þeirri braut og auðvelda aðgengi að námi hvar sem er á landinu óháð aldri og efnahag nemenda.

Jafnaðarmenn þurfa að tala hátt og skýrt og vinna markvist að því að auka tiltrú þjóðarinnar á jafnaðarstefnunni. Undir merkjum hennar fáum við afl til að tryggja aukna hagsæld, réttlæti og farsælt mannlíf.

Kjallari DV 1. september 2015

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.6.2015 - 11:06 - Rita ummæli

Baráttan fyrir réttlæti

Á þessu ári minnumst við mikilvægs áfanga í kvenréttindabaráttunni þegar konur fengu í fyrsta sinn kosningarétt fyrir 100 árum. Þó kosningaréttur kvenna hafi verið mikilvægur þá var baráttan fyrir bættum kjörum verkalýðsins, almannatryggingum, læknaþjónustu, mannsæmandi húsnæði og almennum mannréttindum einnig stórt mál á svipuðum tíma. Sú barátta má ekki heldur ekki gleymast. Stundum látum við eins og réttindi almennings og velferð hafi dottið af himnum ofan. Svo er sannarlega ekki. Baráttan var hörð en árangur náðist sem við verðum að sjá til að glatist ekki.

Baráttan fyrir jöfnum tækifærum kvenna og karla, sömu launum fyrir sömu vinnu, baráttan gegn misskiptingu auðs og misbeitingu valds, baráttan fyrir bættum aðbúnaði og lífskjörum láglaunafólks, aldraðra og fatlaðra er í mínum huga allt ein og sama baráttan. Ég trúi því að þannig verði samfélag okkar betra og mannúðlegra en til þess að svo megi verða þurfum við að vinna fleiri sigra. Við skulum samt halda upp á og minna okkur reglulega á hvern áfangasigur sem vinnst.

Konur fá kosningarétt
Það var sannarlega stór dagur í sögu jafnréttis kynjanna þegar að konur fengu kosningarétt, en það var einnig stór dagur í sögu stéttabaráttu, því rýmkaður kosningaréttur náði þá einnig til vinnuhjúa. Kosningaréttur kvenna var takmarkaður og miðaðist við fertugsaldur, á meðan kosningaaldur karla miðaðist við 25 ár. Fátækt almúgafólk sem var talið „standa í skuld við hreppinn“ eins og það var kallað, var áfram án kosningaréttar. Sú skuld var yfirleitt þannig til komin að fjölskyldur höfðu neyðst til að leita aðstoðar við framfærslu barna eða greiðslu húsaleigu. Á þessum tíma fyrri heimsstyrjaldar voru margar vinnufúsar hendur án atvinnu og sú vinna sem bauðst var stopul og erfið. Fyrst og fremst bjó þetta fátæka fólk sem var lengst án kosningaréttar við kröpp kjör, hungur, vosbúð og sjúkdóma.

Kosningaréttur kvenna árið 1915 var sannarlega mikilvægur sigur en samt náði kosningaréttur aðeins til 45% þjóðarinnar eftir þessa breytingu. Kosningaaldur kvenna og karla var jafnaður 1920 og það var ekki fyrr en árið 1933 sem svokallaðir þurfamenn fengu fullan kosningarétt.

Kvenréttindabarátta
En stærsti vandinn sem við var að etja var baráttan við hugarfarið. Það var hreint ekki vel séð að konur væru að blanda sér í stjórnmál yfirleitt og ef þær gerðust svo djarfar áttu þær að sinn málefnum fjölskyldna. Stjórnmálakonur og ekki síst kvenfélögin unnu framan af síðustu öld merkt starf á sviði velferðar- og menntamála.

Það hefur kostað átök og baráttu að standa jafnfætis körlum við landstjórn og rekstur sveitarfélaga og þeirri baráttu er ekki lokið. Það þekki ég af eigin reynslu. Við kosningarnar árið 2009 náðu konur því að verða 40% Alþingismanna, kona varð forsætisráðherra í fyrsta sinn og konur skipuðu helming ríkisstjórnar í fyrsta sinn. Og í fyrsta sinn varð kona fjármálaráðherra á Íslandi. Mér finnst mikilsvert að stjórnvöld festi jafnræði með kynjunum í sessi með því að tryggja jafnan fjölda karla og kvenna við ríkisstjórnarborðið eins og var í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það þurfti sérstakan kvennalista til að koma fyrstu konunni á þing og það þurfti sérstakan kvennalista til að fjölga konum á þingi eftir það. Og það þurfti hrun efnahags- og samfélags til að kona yrði forsætisráðherra.

Okkur miðar áfram í jafnréttisbaráttunni en við erum ekki komin alla leið. Við skulum því halda áfram að skapa börnum góðar fyrirmyndir, bæði karl- og kvenkyns sem kenna þeim að það er réttlátt að jafnræði með kynjum ríki á öllum sviðum.

(Þessi grein birtist fyrr á þessu ári á vefmiðlinum grindavik.net þar sem höfundur er fastur penni og í 1. maí blaði Samfylkingarinnar á Suðurlandi)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.5.2015 - 17:04 - 7 ummæli

Gott tilboð

Stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum hefur fengið byr undir báða vængi undanfarið eða eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram frumvarp um makrílkvóta. Við í Samfylkingunni höfum bent á það árum saman að við úthlutun veiðileyfa eigi lögmál markaðarins að ráða og kostir þess fái að njóta sín við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Við höfum talað fyrir tilboðum og tilboðsmörkuðum sem beinast liggur við að nota þegar að kvótum nýrrar fiskveiðitegundar er útdeilt. Við teljum reyndar að sátt náist aldrei um upphæð veiðigjalds yfir höfuð fyrr en það verði ákvarðað á markaðslegum forsendum.

Kostir tilboðsleiðar
Einn af kostum tilboðsleiðar er að leigugjaldið sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæðin ekki á matskenndum ákvörðunum og eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu, geta treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan. Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgengi að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum á milli kjörtímabila.

Svigrúmið innan kerfisins verður meira með tilboðsmörkuðum og nýliðun möguleg, sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri hvort sem þau eru gömul eða ný. Í útfærslu tilboðsleiðar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Reynsla af tilboðsleið til úthlutunar auðlinda er víðtæk um allan heim og auðvelt væri að leita í smiðju nágrannaþjóða eftir góðum fyrirmyndum. Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlætið sem felst í því að ávinningurinn af hagræðingunni innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn.

Góðar fyrirmyndir
Fiskmarkaðir á Íslandi eru góðar fyrirmyndir þar sem markaðslausnir ráða. Þar kaupa fiskvinnslur án kvóta fisk daglega á tilboðsmarkaði.  Þessi fyrirtæki hafa enga aðra rekstrartryggingu en þá að tilboðsmarkaðurinn verði starfandi á morgun. Aldrei er deilt um fiskverð á fiskmarkaði enda hafa bæði kaupandi og seljandi boðið verðið sem samið var um. Allar fiskvinnslur landsins hafa jafnan aðgang að fiskmörkuðum. Nýliðun í fiskvinnslu er því miklu auðveldari en í útgerðinni.

Fleiri góð dæmi má nefna. Loftslagsheimildir eru boðnar út og flugfélögin okkar, álverin og fleiri verksmiðjur gera tilboð í loftslagsheimildir á evrópskum markaði en tekjurnar renna í ríkissjóð. Við notum útboð til að velja á milli símafyrirtækja þegar úthluta þarf tíðnisviðum fyrir fjarskipti og þegar ríkið felur einkaaðilum verkefni í samgöngum gera menn tilboð í sérleyfin. Þegar við kaupum okkur þak yfir höfuðið gerum við tilboð á markaði sem stýrt er af fasteignasalanum. Það er því góð og víðtæk reynsla af tilboðsleiðinni í ýmsum myndum og hún á mjög vel við þegar úthluta á takmörkuðum gæðum s.s. náttúruauðlindum.

Brýnasta verkefnið
Jafnaðarmenn vilja að tryggt sé að arður af sameiginlegum auðlindum skiptist á réttlátan hátt á milli fólksins í landinu og þeirra sem nýta auðlindirnar. Á sama hátt þarf að tryggja réttláta skiptingu á þjóðarauðlindum milli kynslóða. Það þýðir að nýting auðlinda, hvort sem er til lands eða sjávar, þarf að vera í samræmi við skilyrði sjálfbærrar þróunar. Brýnasta verkefnið í auðlindamálum hér á landi er að fylgja eftir afgerandi niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár frá því í október 2012. Þar lýstu stuðningi sínum 84.760 kjósendur eða 83% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum. Þar er áskilið að nýtingarétti verði aðeins úthlutað á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma, gegn fullu gjaldi og með gagnsæjum og hlutlægum hætti.

Á vefnum thjodareign.is hafa þegar að þessi grein er skrifuð um 35.000 manns skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að hann vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra. Beðið er eftir viðbrögðum við þessum skýru skilaboðum fólksins í landinu til stjórnvalda um auðlindarákvæði í stjórnarskrá.

Þessi grein birtist í helgarblaði DV 21. maí 2015

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.5.2015 - 18:00 - 2 ummæli

Auðlind á silfurfati

Allar viðvörunarbjöllur landsins hringja nú um að hægristjórnin sé að stíga stórt skref í að einkavæða auðlindir þjóðarinnar. Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi sem í raun er gjöf á makrílkvóta til nokkurra útgerða til langs tíma. Skýrt kemur fram í frumvarpinu að óheimilt er að fella 6 ára úthlutun úr gildi með minna en sex ára fyrirvara og gildistíminn framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn. Við álagningu veiðigjalds á makríl er engin tilraun gerð til þess að nálgast sannvirði nýtingaréttarins á auðlindinni, til dæmis með útboðum.  Engin kvótasetning hefur enn átt sér stað á makríl og því er tækifæri nú til að skipta um stefnu með þessa nýju fisktegund sem ratað hefur á Íslandsmið.

Tillaga hægristjórnarinnar er að festa nýju tegundina rækilega í gamla kerfinu sem leyfir enga nýliðun í greininni nema gegn greiðslu til þeirra útgerða sem fá makrílkvóta gefins. Þjóðin ber hins vegar skarðan hlut frá borði þegar auðlind hennar er metin til fjár.

Hvað gerir forsetinn?

Getur verið að hagsmunaðilar í útgerð og ríkisstjórnin hafi fundið leið til þess að læða í gegn stórtækri breytingu á úthlutun aflaheimilda og útreikningi veiðigjalda án þess að þjóðin taki eftir því? Forseti Íslands sagði árið 2012 að mál sem varða auðlindir þjóðarinnar séu vel til þess fallin að setja í dóm þjóðarinnar. Honum bárust 35.000 undirskriftir árið 2013 og hann beðinn um að staðfesta ekki lög um veiðigjöld sem fólu í sér mikla lækkun gjaldanna. Hann réttlætti staðfestingu þeirra laga með þeim rökum að lögin væru aðeins til eins árs. Hann hlýtur því að bregðast við ótímabundinni úthlutun á makrílkvóta.

Makrílfrumvarpið kann að láta lítið yfir sér við fyrstu sýn, en þegar betur er að gáð er það líklega eitt stærsta skref í átt að einkavæðingu auðlinda þjóðarinnar sem tekið hefur verið. Og auðlindaákvæði vantar enn í stjórnarskrá Íslands.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 27. apríl 2015

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.4.2015 - 14:19 - 2 ummæli

Ósætti á vinnumarkaði

Það dylst engum að alvarleg staða er komin upp á vinnumarkaði. Æ fleiri félög boða verkföll sem munu hafa víðtæk áhrif. Nú þegar hefur alvarlegt ástand skapast í heilbrigðiskerfinu, einkum á Landspítalanum þó aðrar stofnanir fari ekki varhluta af vandanum. Fagmenn í heilbrigðisstéttum hafa lýst yfir áhyggjum af verkföllunum og bent á að það sé sérstaklega slæmt að þau komi í kjölfar læknaverkfalls sem enn hefur ekki verið unnið úr.

Launafólk kallar eftir bættum kjörum og réttlæti og neitar að taka eitt ábyrð á stöðugleikanum í hagkerfinu sem fjármála- og efnahagsráðherra er svo tíðrætt um. Það er eðlilegt því ábyrgðin á ástandinu er fyrst og fremst ríkisstjórnarinnar sem hefur ýtt undir ójöfnuð og misskiptingu með verkum sínum undanfarin tvö ár. Auðvitað vill launafólk ekki taka á sig byrðar þegar ríkisstjórnin hefur slag í slag sýnt algjört skilningsleysi á kjörum venjulegs fólks.

Svikin loforð
Nokkur dæmi um aðgerðir hægristjórnarinnar skera sig úr og hafa magnað enn frekar reiði launafólks sem hefur átt í erfiðleikum með að lifa af launum sínum. Fyrst skal nefna kosningaloforð Framsóknarmanna um niðurfellingu skulda með milljörðum frá hrægammasjóðum, sem reyndist vera 80 milljarðar af skattfé úr ríkissjóði. Áætlað er að því almannafé sé skipt á þann hátt að þau 30% sem best eru sett fái 50 milljarða á meðan jafnstór hópur tekjulægsta fólksins fái 5 milljarða! Ekkert er gert fyrir leigendur.

Í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016-2019 er það eitt sagt um húsnæðisfrumvörp húsnæðismálaráðherrans sem beðið hefur verið eftir „að unnið sé að þeim“ en að ekkert verði að samþykkt þeirra ef kjarasamningar skila kjörum sem ógna þessum margumtalaða stöðugleika sem ríkisstjórnin telur að launafólk eitt eigi að skapa með lágum launum.

Ríkir greiða minna
Afnám auðlegðarskatts sem gaf um 10 milljarða króna í ríkissjóð árlega er sannarlega umdeilt. Sá skattur er eignaskattur og ýmsir gallar á honum sem auðveldlega hefði mátt sníða af. Það að fella skattinn með öllu niður og lækka þannig skatta á ríkasta fólk landsins en hækka gjöld á sama tíma á veikt fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda, skerða kjör langtímaatvinnulausra til að spara ríkissjóði útgjöld og setja fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum er óásættanlegt.

Arður af auðlindum
Hægristjórnin lækkaði veiðigjöld sem útgerðin greiðir fyrir það sérleyfi að nýta auðlind þjóðarinnar. Arðurinn við einstök rekstrarskilyrði fyrirtækjanna rennur því að stærri hluta til eigenda útgerða en þjóðin fær minna, t.d. til að styrkja heilbrigðiskerfið eða lækka tryggingargjaldið sem öll fyrirtæki í landinu greiða. Steininn tók úr þegar að ríkisstjórnin lagði fram frumvarp á dögunum um að færa útgerðum makrílkvóta á silfurfati en gera enga tilraun til að meta auðlindina til fjár og tryggja þjóðinni sanngjarnan hlut.

Lausnir á vanda
Til að leysa vandann verða launagreiðendur með ríkisstjórnina í fararbroddi að skilja hvers vegna fólk er ósátt. Krafan snýst um réttlæti. Ég tel að auk kjarabóta til almenns launafólks gætu breytingar á skattkerfinu verið til bóta sem festu þrepaskiptingu þess í sessi og það tvíþætta hlutverk að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla jafnframt að jöfnun í samfélaginu. Tryggja þarf sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks í gegnum skattkerfið en létta byrði þeirra sem minna hafa. Einnig legðist með sáttargjörð hækkun barnabóta, virkt húsnæðisbótakerfi og hækkun persónuafsláttar sem eru öflugustu tekjujöfnunartæki hins opinbera. Ég tel að ef stjórnvöld gripu einnig tækifærið sem þau hafa nú til að fara nýjar leiðir í fiskveiðistjórnun hefði það góð áhrif í leitinni að sátt um kjör og velferð. Þau gætu sett leikreglur um makríl sem gefur þjóðinni sanngjarnan arð til að styrkja velferðarkerfið í stað þess að gefa hann til fárra útgerða og festa í gamla kvótakerfinu sem deilt hefur verið um árum saman.

Kjallaragrein í DV 24. apríl 2015

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.3.2015 - 17:05 - 3 ummæli

Orð og athafnir ríkisstjórnar ríka fólksins

Ríkisstjórn ríka fólksins sýnir ekki bara Alþingi óvirðingu með bréfaskriftum til Evrópusambandsins þar sem Alþingi er sniðgengið með skýrum og meðvituðum hætti, heldur er framganga hennar í öðrum málum einnig forkastanleg.

Afkoma ríkissjóðs
Afkoma ríkissjóðs frá árinu 2004 hefur tekið miklar dýfur eins og öllum er kunnugt um. Gulu súlurnar á meðfylgjandi mynd sýna mjög vel hvernig afkoma ríkissjóðs féll við bankahrunið og hvernig vinstristjórninni tókst að forða ríkissjóði falli og endurreisa sjóðinn á síðasta kjörtímabili. Vinstristjórnin fékk því miður ekki brautargengi í síðustu kosningum til að byggja upp réttlátt samfélag á þeim árangri. Nú notar hægristjórnin sér árangur vinstristjórnarinnar til að auka að nýju ójöfnuð í samfélaginu og mismunun eftir efnahag.

Picture1

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar kveinkar sér undan því að vera kölluð ríkisstjórn ríka fólksins. Til að reka af sér það orð hefur forsætisráðherrann meira að segja tekið undir kröfur launafólks, talað um að 300 þúsund krónur á mánuði séu nú ekki miklir peningar til að framfleyta fjölskyldu og að mikilvægt sé að fólk geti lifað af launum sínum. Hann talar líka um að hækka þurfi laun þeirra sem eru lægst launaðir og fólks með meðaltekjur. En sitt er hvað orð og athafnir. Þessi orð forsætisráðherrans verða svolítið skondin þegar litið er á hvað ríkisstjórn ríka fólksins hefur gert til að hafa áhrif á kjör fólksins í landinu og hvaða hópar það eru sem hafa hagnast mest undir stjórn hans. Ég ætla að nefna nokkur dæmi:

Matarskattur
Ríkisstjórnin hækkaði virðisaukaskatt á matvæli og lækkaði efra þrep skattsins í leiðinni. Þau reiknuðu út að breytingin myndi skila kjarabótum. Kjarabótin skilar sér vel til þeirra tekjuhæstu en þeir tekjulægri bera minna úr bítum. Þetta sýnir meðfylgjandi mynd ágætlega.
vsk-breytingar

Skert kjör og samningsrof
Ríkisstjórnin ákvað að stytta bótarétt langtímaatvinnulausra og spara ríkissjóði milljarð á því. Án alls fyrirvara var samkomulagi ríkisins við samtök atvinnurekenda og launþega um þriggja ára atvinnuleysisbótarétt rofið sem hefur verulega slæm áhrif á kjör hundruða manna sem voru í slæmri stöðu fyrir. Þessari aðgerð fylgir aukinn kostnaður fyrir sveitarfélög því þeim fjölgar sem leita eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Með þessari aðgerð mun fátækt aukast enn frekar, en hún er skammarlega mikil hér á landi og nýlegar greiningar sýna að fátækum börnum á Íslandi er að fjölga.

Stóra millifærslan

Ríkisstjórnin ákvað að greiða niður verðtryggðar skuldir íbúðarlána samkvæmt reiknireglu og viðmiðum sem kemur best út fyrir þá allra ríkustu. Þau heimili sem eru tekjulægst fá um 6% af þeim 80 milljörðunum margumtöluðu sem ganga til niðurgreiðslu húsnæðislána sem eru tæpir 5 milljarðar króna en tekjuhæstu heimili fá 64% upphæðarinnar, eða rúma 50 milljarða króna. Enn og aftur eru þau ríkustu að fá góða fyrirgreiðslu hjá ríkisstjórninni eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
millifærslan

Fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum
Ríkisstjórnin setti fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og sem þýðir að þeir sem eru 25 ára eða eldri og vilja stunda bóknám þurfa að sækja einkaskóla á Suðurnesjum eða í Borgarfirði. Þar með geta þeir sem huga á bóknám og hafa náð ákveðnum aldri ekki nýtt sér námsframboð í heimabyggð og klárað það á þeim tíma sem þeim hentar. Á yfirstandandi skólaári eru 1.650 nemendur í bóknámi í framhaldsskólum landsins sem náð hafa 25 ára aldri. Skólagjöldin í einkaskólunum eru um 225.000 kr. á önn en önnin í opinberu framhaldsskólunum kostar um 13.000 kr. Fjöldatakmarkanirnar verða til þess að færri sækja sér nám og þeir sem það gera þurfa að kosta miklu til bæði vegna skólagjalda og búsetuflutninga. Enn og aftur er þrengt að þeim sem minna hafa handa á milli, t.d. ungum mæðrum sem hafa þurft að fresta skólagöngu sinni en vilja halda áfram bóknámi í heimabyggð.

Réttlæti krafist
Á sama tíma og ríkisstjórnin þrengir að almennu launafólki og eykur greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu, lætur hún auðlegarskattinn renna sitt skeið og gefur afslátt á veiðigjöldum til útgerðarinnar. Fórnir fólksins í landinu vegna hrunsins og árangur vinstristjórnainnar í ríkisfjámálum hefur ríkisstjórn ríka fólksins notað til að auka óréttlæti og ójöfnuð. Það er því skiljanlegt að launafólk krefjist réttlætis í komandi kjarasamningum og treysti ekki orðum forystumanna ríkisstjórnarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.2.2015 - 22:13 - Rita ummæli

Framtíð norðurslóða

Mikilvægi samstarfs Grænlands, Íslands og Færeyja hefur sennilega aldrei verið meira í 30 ára sögu Vestnorrænaráðsins en um þessar mundir. Ráðið er skipað þingmönnum landanna þriggja og undanfarin ár hefur það lagt áherslu á að styrkja stöðu Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum og verja sameiginlega hagsmuni gagnvart þeim áskorunum sem þar blasa við. Á ársfundi ráðsins í Gjógv í Færeyjum árið 2012 samþykkti ráðið ályktun um að styrkja enn samstarf um málefni norðurslóða og skilgreina ítarlega þau svið þar sem hagsmunir landanna fara saman.

Á þemaráðstefnu ráðsins í janúar 2014 kynnti Egill Þór Níelsson, fræðimaður við Heimskautastofnun Kína, skýrslu sem hann hafði unnið fyrir ráðið. Í skýrslunni er fjallað um stöðu Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum með sérstakri áherslu á efnahagslega hagsmuni þeirra. Meginverkefnið fyrir fundi ráðsins í ágúst á þessu ári verður að vinna úr skýrslunni. Ekki aðeins þarf að ræða á hvaða sviðum sé unnt að auka samstarf og hvar helstu hindranir eða hagsmunaárekstrar eru á milli landanna, heldur þarf að huga að mikilvægum umhverfissjónarmiðum. Skýrsluhöfundur bendir á marga samstarfsmöguleika sem nauðsynlegt er að hugsa til framtíðar s.s. á sviði sjávarútvegs, fjárfestinga, vöruskipta, samgangna, heilbrigðis- og menntamála, leitar- og björgunarstarfa, olíu- og gasvinnslu, vatnsafls- og jarðhitavinnslu, ferðaþjónustu, rannsókna og menningarmála.

Næstu skref

Þau samstarfssvið sem mest hefur verið rætt um hingað til og augljóslega virðist grundvöllur fyrir, eru á sviði flutninga með skipum og flugvélum bæði á milli landanna þriggja og annarra fjarlægari landa ásamt markaðsetningu á alþjóðavettvangi í sjávarútvegi og í ferðamannaiðnaði. Samstarf í heilbrigðismálum er nokkuð nú þegar en þarf að styrkja frekar líkt og í menntamálum. Mikið hefur einnig verið rætt um sameiginlega miðstöð leitar og björgunar og nauðsyn hennar með auknum flutningum um norðurslóðir.

Fyrirtæki sem sýna áhuga á viðskiptum sem byggja á samstarfi landanna þurfa á skýrum leikreglum að halda. Þess vegna þurfa löndin þrjú að leggja áherslu á að koma sér saman um þær leikreglur og vinna markvisst að því að sameina kosti þeirra samninga sem fyrir eru á milli Íslands og Færeyja annars vegar og Íslands og Grænlands hins vegar og liðka fyrir viðskiptum sem allir geta hagnast af. Vestnorrænaráðið er sá samstarfsvettvangur sem ætti að sjá til þess að slíkur rammi verði tilbúinn fyrir öll löndin þrjú sem fyrst.

Stefna Íslands

Alþingi samþykkti þingsályktun um stefnu í málefnum norðurslóða í mars 2011. Með henni er gert ráð fyrir auknu samstarfi við Færeyjar og Grænland og auknu pólitísku vægi landanna þriggja á norðurslóðum. Einnig er stefnt að því að byggja upp viðskiptasamstarf ríkja á norðurslóðum og auðvelda Íslendingum að keppa um atvinnutækifæri sem verða til í kjölfar aukinna efnahagsumsvifa á svæðinu. Hér þarf þó að fara gætilega því aukin umsvif geta dregið dilk á eftir sér. Því þarf að tryggja að byggt verði á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna, að réttindi frumbyggja verði varin, unnið verði gegn loftlagsbreytingum, stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda, ábyrgri umgengni um viðkvæm vistkerfi og verndun lífríkis.

Nú eru margir sem líta til norðurslóða. Ýmsir hugsa sér gott til glóðarinnar og vilja græða á stöðunni. Það er afar mikilvægt að Grænland, Ísland og Færeyjar bindist enn sterkari böndum og verji sameiginlega hagsmuni sína. Í því sambandi er lykilatriði að umræða og þekking á norðurslóðum verði aukin meðal íbúa landanna þriggja og að við á Vestur-Norðurlöndum látum ekki aðra um að ákveða framtíð okkar. Það skulum við gera sjálf.

Kjallari DV 6. febrúar 2015

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.1.2015 - 11:47 - Rita ummæli

Bensínlaust Ísland

Olíunotkun á mann hér á landi er um tvö tonn á ári. Það er nokkuð mikið miðað við að húshitun með olíu heyrir að mestu sögunni til. Við erum stolt af þeirri sérstöðu Íslands að orka til raforkuvinnslu og húshitunar hér á landi er talin nánast að öllu leiti endurnýjanleg, þ.e. úr jarðvarma og vatnsafli. Við megum sannarlega vera ánægð með þá stöðu en þrátt fyrir hana er staða Íslands hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda ekki nægilega góð. Ástæðan er einkum að við erum mjög háð samgöngum og nær allir flutningar í lofti, um land eða sjó eru knúnir með brennslu olíu og olíuafurða. Við búum í strjálbýlu landi og þurfum að flytja afurðir og hráefni langa vegalengdir bæði í viðskiptum milli landshluta og til annarra landa. Ein brýnasta áskorun 21. aldar er að þjóðir verði færar um að afla og nýta orku þannig að markmiðum sjálfbærrar þróunar sé náð. Hér á landi eigum við góða möguleika á að gera betur á því sviði með því að nota innlenda orku í samgöngum sem veldur engum útblæstri eða mengun.

Orkuskipti í samgöngum

Stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu skilaði skýrslu árið 2011. Eitt af meginmarkmiðum orkustefnunnar var að finna leiðir til að draga úr notkun olíu. Olíunotkun okkar skiptist þannig að um 61% er nýtt í samgöngum og 29% við fiskveiðar. Innflutningur á olíu vegur þungt í efnahagsreikningi ríkisins enda um 12% af öllum vöruinnflutningi til landsins. Áhrifin eru því veruleg á viðskipta- og gjaldeyrisjöfnuð.. Það myndi muna miklu ef af orkuskiptum í samgöngum gæti orðið.

Á síðasta kjörtímabili átti sér stað víðtæk stefnumörkun í orkumálum. Hópar störfuðu ekki aðeins um samningu orkustefnu fyrir Ísland heldur einnig um orkuskipti í samgöngum, jöfnun húshitunar og auðlindastefnunefnd skilaði af sér sínum tillögum. Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkusvæða var samþykkt og einnig ný náttúruverndarlög. Allt eru þetta plögg sem mynda grunn fyrir umræðu og ákvarðanir um markmið og leiðir í orkumálum þjóðarinnar og möguleika á að nálgast enn frekar markmiðin um sjálfbæra þróun. Við búum einnig að góðri reynslu af orkuskiptum við húshitun sem nýta mætti við framkvæmd orkuskipta í samgöngum.

Fleiri rafbílar

Bílaframleiðendur hafa flestir ákveðið að veðja á rafbíla og bíla sem nota bæði rafmagn og olíu. Þróun í framleiðslu slíkra bíla hefur verið hröð undanfarið. Sú þróun hentar okkur mjög vel því við eigum nóg af rafmagni til að fjölga rafbílum á götum landsins. Aðeins þyrfti um eina TWstund á ári af raforku til að knýja allan bílaflota Íslendinga. Það jafngildir um 6% aukningu núverandi orkuvinnslu. Að öllum líkindum þyrfti lítið sem ekkert að virkja til viðbótar þar sem mestur hluti hleðslunnar færi fram á nóttinni þegar almenn raforkunotkun er í lágmarki. Rafbílar stuðla því að betri nýtingu fyrirliggjandi raforkukerfis.

Sameiginlegt átak

Til að vinna að orkuskiptum í samgöngum þarf sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga, fólksins í landinu og fyrirtækja. Fyrir slíku átaki eru bæði efnahagsleg rök og umhverfisrök en þjóðaröryggissjónarmið eiga þar einnig við.

Ég lagði það til sem fjármálaráðherra árið 2012 að virðisaukaskattur á rafbíla yrði afnuminn. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015 var ákveðið að viðhalda þeirri ákvörðun en sjálfsagt er að leita að öðrum leiðum til að ýta undir þróunina. Norsk stjórnvöld hafa einnig beitt efnahagslegum hvötum til að auka hlutdeild rafbíla á norskum vegum og leita mætti eftir samstarfi við Norðmenn um málið.

Til þess að orkuskiptin geti orðið að veruleika þurfa stjórnvöld að beita sér fyrir málinu og fá orkufyrirtækin í samstarf um að setja kerfisbundið niður hleðslustaði fyrir bílana. Það verður að vera auðvelt og eftirsóknarvert fyrir fólk að skipta yfir í rafbíla en efnahagslegur ávinningur ásamt þeim umhverfislega ætti að vera öllum ljós.

Kjallagrein í DV 20. janúar 2014

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.1.2015 - 10:17 - 1 ummæli

Agaleysi í ríkisfjármálum

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu á þrettándanum. Ég birti hana aftur hér fyrir ykkur sem ekki sáuð Fréttablaðið:

Stjórnarliðar ýmsir tala gjarnan um nauðsyn þess að halda aga í ríkisfjármálum fyrir efnahag og kjör fólksins í landinu. Stjórnarandstæðingar taka margir undir þetta. Einn mælikvarði á aga í ríkisfjármálum er hversu vel tekst til við að halda fjárlög og að frávik frá fjárlögum í fjáraukalögum sé sem minnst. Á síðasta kjörtímabili tókst að minnka það frávik verulega. Meðfylgjandi mynd sýnir þessa þróun mjög vel.

Því miður virðist sem þessi árangur muni tapast á þessu kjörtímabili og allt fari í sama horf og fyrir hrun. Vísbendingar um það eru fyrst og fremst skortur á samráði við stjórnendur og starfsmenn ríkisstofnana og framkoma forystumanna stjórnarliða við forstöðumenn. Það má m.a. lesa út úr upphrópunum og sleggjudómum forystumanna fjárlaganefndar í fjölmiðlum. Slíkt skapar andrúmsloft sem ekki er líklegt til árangurs. Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin gangi fram með góðu fordæmi og sýni sjálf aðhald um leið og aðhalds er krafist í öðrum ríkisrekstri. Fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna getur ekki talist gott fordæmi í þessu tilliti. Agi í ríkisfjármálum byggir á samvinnu fjárveitingarvaldsins, framkvæmdavaldsins og ríkisstofnana. Þar þurfa að fara saman skýr markmið um gæði þjónustu og fjármögnun hennar. Áætlun um nauðsynlega uppbyggingu eða þróun mála til lengri tíma er lykilatriði.

Skortur á vandaðri stefnumótun sitjandi ráðherra er einkennandi og virðist sem lítil skilningur sé fyrir slíkri vinnu í núverandi ríkisstjórn en það leiðir okkur að annarri vísbendingu um að fjárlög 2015 muni ekki standast.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
Í fyrsta lagi er í fjárlögunum aðeins gert ráð fyrir broti af því fjármagni sem þörf er á til að fjármagna uppbyggingu á ferðamannastöðum og á innviðum friðlýstra svæða. Aðeins er gert ráð fyrir 145 milljónum króna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á árinu 2015 þó hver maður sjái að það mun ekki nægja nema til örfárra af þeim aðkallandi verkefnum sem bíða víða um land. Vegna fjölgunar ferðamanna er átroðningur mikill á vinsælum stöðum og sums staðar er nauðsynlegt að bregðast skjótt við til að tryggja öryggi ferðamanna. Einnig ætti að leggja áherslu á að auka aðdráttarafl fleiri staða til að dreifa álagi. Skortur á stefnumótun og framtíðarsýn í þessari ört vaxandi atvinnugrein er himinhrópandi en á meðan bíða óafgreiddar umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða upp á um tvo milljarða króna. Líklegt er að í næstu fjáraukalögum verði beiðni um aukið fjármagn vegna þessa nema að ráðherra ferðamála hugsi sér að láta málefni greinarinnar reka áfram á reiðanum en þá mun illa fara.

Greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu
Í öðru lagi virðist sem svo að gagnrýni okkar í stjórnarandstöðunni á aukna greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu hafi borið árangur, því á heimasíðu Sjúkratrygginga var skrifað 30. desember: „Einnig er vakin athygli á að skv. upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu verða ekki gerðar neinar breytingar á reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við heilbrigðisþjónustu fyrr en eftir áramót.“ Að vísu er þetta skrifað á næst síðasta degi ársins en reglugerð um aukna gjaldtöku átti samkvæmt forsendum fjárlaga að taka gildi 1. janúar 2015 og sjúklingar áttu að bera allan kostnað vegna samninga við sérgreinalækna. Þeirri aðgerð hefur sýnilega verið frestað og ef hækkunin mun ekki eiga sér stað er um rúman milljarð í frávik frá fjárlögum að ræða. Stjórnarandstaðan lagði hins vegar til að gert yrði ráð fyrir kostnaði við samningana í fjárlögum upp á 1,1 milljarð króna en stjórnarliðar greiddu atkvæði á móti þeirri tillögu og vildu velta kostnaðinum yfir á sjúklinga.

Ný Vestmannaeyjaferja
Í þriðja lagi er ekki gert ráð fyrir fjármagni til byggingar nýrrar Vestmannaeyjaferju í fjárlögunum. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar segir þó: „Þá er vakin athygli á því að áform um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju eru óbreytt. Unnið verður að fjármögnunarleiðum samhliða undirbúningi útboðs sem fyrirhugað er á fyrri hluta komandi árs.“ Áformin sem eiga að vera óbreytt samkvæmt þessu, eru um útboð í febrúar 2015 en ekki er gert ráð fyrir útgjöldunum í fjárlögum. Talið er að bygging nýrrar Vestmannaeyjaferju kosti nær fjórum milljörðum króna. Bygging hennar er afar mikilvæg fyrir þróun atvinnulífs og mannlífs í Vestmannaeyjum. Skilningsleysi stjórnvalda á mikilvægi öruggra samgangna milli lands og Eyja kemur á óvart því ef raunverulega ætti að tryggja fjármagn á árinu 2015 stæði fjárhæðin í nýsamþykktum fjárlögum. Verið getur að beiðnin komi í fjáraukalögum sem staðfestir þá það agaleysi sem ríkir í ríkisfjármálunum.

Helguvík
Í fjórða lagi segist iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætla að leggja fram á vorþingi frumvarp um ívilnandi sérlög vegna iðnaðarsvæðisins við Helguvík á Suðurnesjum en greiddi samt atkvæði gegn því að í fjárlögum yrði gert ráð fyrir framlagi til framkvæmda á því svæði.

Blekkingar
Hér hafa verið nefnd örfá dæmi en því miður er af fleiru að taka. Í fjárlögum er gert ráð fyrir afgangi upp á 3,6 milljarða króna. Sá afgangur verður fljótur að fuðra upp þegar bregðast þarf við vegna slæmrar áætlunargerðar ráðherranna. Öllum má vera ljóst að agi í ríkisfjármálum næst ekki með þessu ráðslagi ríkisstjórnarinnar þar sem skortur er á vönduðum vinnubrögðum og langtímahugsun við undirbúning ákvarðana um opinber fjármál. Nauðsynleg útgjöld eru ekki sýnd í fjárlögum svo þau virðist hallalaus rétt á meðan þau eru samþykkt. Það er blekkingarleikur og fullyrðingar stjórnarliða um aga í ríkisfjármálum verða marklausar þar sem orðunum fylgja ekki athafnir.

Agaleysi í ríkisfjármálum

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur