Sunnudagur 17.11.2013 - 17:55 - 1 ummæli

Ráðaleysi og óvissa

Ég hef vaxandi áhyggjur af ríkisfjármálunum. Markmiðið um hallalaus fjárlög fjarlægist æ meir eftir því sem stjórnarþingmenn gefa skýrar í skyn að þeir ætli ekki að styðja fjárlagafrumvarpið. Þeir gagnrýna helst tillögur um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu og sóknaráætlun landshluta. Ég tek undir með þeim hvað þessi mál varðar en til að leggja aukin framlög til þessara málaflokka þarf að auka tekjur ríkissjóðs. Það er augljóst mál en það vilja stjórnarliðar ekki gera. Og alls ekki auka skatttekjur af auðlindum eða innheimta aukinn neysluskatt af ferðamönnum þó það séu tekjur sem munu lítil eða engin áhrif hafa á framleiðslugetu eða eftirspurn.

Við þetta bætist að óljóst er hvort samtals 22 milljarðar króna skili sér eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á vaxtakjörum á Seðlabankabréfinu, sem á að skila 10,7 makr lægri vaxtagjöldum. Því hefur ekki verið svarað hvort það gengur yfirleitt eða hvort því fylgja aukaverkanir sem draga úr ávinningi. Í öðru lagi er boðuð 11,3 makr hækkun á bankaskatti sem fjármálafyrirtækji í slitameðferð eiga að greiða. Þar eru einnig tæknileg álitamál sem ekki hafa verið leyst og alls óljóst hvernig fara.

Helstu skilaboð í nýrri hagspá eru að við þurfum að auka framleiðslugetu þjóðarinnar og að viðskiptajöfnuðurinn er okkur óhagstæður. Þetta eru stórmál. Til að auka framleiðslugetu og ýta undir hagvöxt ættum við að stuðla enn frekar að nýsköpun og þróun og hlúa að skapandi greinum. Þar liggja vaxtamöguleikarnir og það er fjárfesting sem við greiðum með íslenskum krónum og nýtist vel. Ríkisstjórnin sker hins vegar þessa liði harkalega niður. Samtals eru framlög til rannsókna, þróunar og skapandi greina skorin niður um tæpa 2 milljarða króna á árinu 2014 og því til viðbótar er boðuð 25% lækkun á skattaafslætti til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar. Þarna eru fjöldi starfa skorin niður og það bitnar helst á ungum vísindamönnum. Stefna ríkisstjórnarinnar fer í þveröfuga átt við það sem við þurfum að setja í forgang í atvinnumálum til að ýta undir hagvöxt og styrkja grunn hans til framtíðar.

Hálfur mánuður er í aðra umræðu fjárlaga en fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið í ár er enn ekki komið fram! Ómögulegt er að gera tillögur um næsta ár án þess að vita hvaða ákvarðanir verða teknar á þessu ári með fjáraukalögum.

Mér sýnist ríkisstjórnin vera í miklum vanda og það erum við hin einnig ef góðar lausnir finnast ekki innan fárra daga.

Óvissan er óviðunandi og ráðaleysið er sláandi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.11.2013 - 10:12 - 2 ummæli

Brothættar byggðir undir hnífinn

Undanfarin ár hefur umræða um byggðamál verið með öðrum og skýrari hætti en áður. Eftirtektarverð er vinna Byggðastofnunar um  byggðir sem skera sig úr hvað varðar mikla fólksfækkun, erfitt atvinnuástand og óhagstæða aldursþróun undangengin ár. Sú vinna hefur ekki fengið mikla athygli utan byggðanna sem um ræðir en er sannarlega athyglinnar virði. Unnið hefur verið með íbúum Raufarhafnar, Bíldudals, Skaftárhrepps og Breiðdalshrepps.

Í þessari nýstárlegu nálgun felast sértækar aðgerðir og vinna með íbúum þar sem hin almennu stuðningsúrræði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og byggðaaðgerða duga ekki ein til.

Verkefninu hefur verið fylgt úr hlaði með fjölsóttum íbúafundum um framtíðarsýn byggðanna, styrkleika og tækifæri. Þó aðferðin sé miðuð við brothættar byggðir snertir hún stefnumótun í byggðamálum í heild. Má þar nefnda stefnu í fjarskiptamálum, samgönguáætlun, jöfnun húshitunar á köldum svæðum, dreifnám og menntastefnu og yfirfærslu málaflokka frá ríki til sveitarfélaga.

Byggðastofnun var tryggt fé, 50 milljónir króna, á fjárlögum yfirstandandi árs til að vinna samkvæmt þessari nýju aðferð. Sú fjárveiting, ásamt sóknaráætlunum landshlutanna með 400 milljónum króna, sýnir ótvíræðan  vilja ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til að vinna að bættum búsetuskilyrðum í brothættum byggðum þrátt fyrir þröngan fjárhag ríkisins.

Þau slæmu tíðindi eru hins vegar boðuð með fjárlagafrumvarpinu að ný ríkisstjórn hefur slegið þessa mikilvægu vinnu Byggðastofnunar af ásamt sóknaráætlun landshluta í heild sinni. Auk þess hefur hægristjórnin hætt við byggingu húnsæðis fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri í Skaftárhreppi sem hefja átti á þessu ári. Þekkingarsetrið er vel undirbúið samstarfsverkefni sem heimamenn höfðu bundið miklar vonir við og samtök sveitarfélaga á Suðurlandi sett ofarlega á forgangslista í sóknaráætlun landshlutans. Eftir standa byggðirnar vonsviknar.

Enn er ekki útilokað  að stjórnarliðar sjái að sér við vinnslu fjárlagafrumvarpsins á Alþingi  og taki upp   stefnu fyrri ríkisstjórnar í byggðamálum. Slík stefnubreyting bæri vott um raunsæi og skynsemi og blési krafti í byggðirnar út um landið sem eiga undir högg að sækja.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 4. nóvember 2013)

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.10.2013 - 15:08 - 2 ummæli

Greinin mín í Viðskiptablaðinu fyrir viku:

Orð og athafnir

Forsætisráðherra hefur nú flutt stefnuræðu sína og fjármála- og efnahagsráðherra mælt fyrir fjárlagafrumvarpi 2014. Fjárlagafrumvarpið er helsta stefnuplagg ríkisstjórnarinnar. Þar eru kosningaloforðin sett í samhengi, áherslurnar raungerðar og forgangsröðun lítur dagsins ljós.

Mikilvægi fjárfestinga

Þegar stefnuræða forsætisráðherra er rýnd og borin saman við þær áherslur sem birtast í fjárlagafrumvarpinu vantar áberandi oft upp á samræmið. Forsætisráðherra segir t.d. í ræðu sinni: „Til að fjölga störfum og bæta kjör verður fjárfesting að aukast til mikilla muna á Íslandi.“

Þetta er rétt hjá ráðherranum, en fjárfestar halda nú að sér höndum vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórn hans hefur skapað með miklum loforðum um alheimsmet um skuldaniðurfellingar til tæplega helmings heimila í landinu. Við slíkar aðstæður bíða þeir átekta, þeir sem ætla út í fjárfestingar sem gætu fjölgað störfum og bætt kjör. Óvissunni er haldið enn, því ekki er minnst á heimsmetið í fjárlagafrumvarpinu og engar tillögur um heimildir hvað það varðar settar fram. Óvissan er kostnaðarsöm fyrir öll heimili í landinu.

Opinberar fjárfestingar skipta máli til að bæta innviði samfélagsins, skapa störf og ýta undir hagvöxt.  Þrátt fyrir orð forsætisráðherra um mikilvægi fjárfestinga og uppbyggingu innviða eru flest fjárfestingarverkefni sem undirbúin hafa verið á vegum ríkisins slegin út af borðinu. Bráðnauðsynleg verk eru þar á meðal, s.s. við heilbrigðisstofnanir á Suður- og Vesturlandi og bygging nýs Landspítala er ekki áformuð samkvæmt frumvarpinu.

Menntamál

Ásamt því að hætta við byggingu á verknámshúsi við FSu eru framlög til framhaldsskólanna skorin niður, framlag til að greiða fyrir aðgengi ungs fólks í framhaldsskóla og til að stuðla að fjölbreyttara námsframboði er skorið niður og Þróunarsjóður fyrir starfsnám er lagður af.

Samt sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni að á sviði menntamála verði lögð áhersla á að fjölga fólki með menntun í tækni- og iðngreinum.

Talað er fjálglega um mikilvægi hagvaxtar til framtíðar en litið fram hjá því að ef auka á þann hagvöxt sem hver einstaklingur skapar, er nauðsynlegt að  raða menntun framar og tryggja gott aðgengi að námi á framhaldsskólastigi um allt land. Í fjárlagafrumvarpinu er hvergi að finna þær áherslur heldur þvert á móti.

Byggðamál

Forsætisráðherra sagði orðrétt í stefnuræðu sinni: „Til að hægt verði að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem birtast okkur í öllum landshlutum er mikilvægt að styrkja innviði um allt land. Heilbrigðisþjónustu, skólahald og aðra opinbera þjónustu“. Þetta eru falleg orð en stuðningur við þennan fína ásetning vantar í fjárlagafrumvarpið.   Hætt er við fjárfestingar í einu viðkvæmasta sveitarfélagi landsins og áætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum eru tekin niður þrátt fyrir að ör  fjölgun ferðamanna kalli á slíkar framkvæmdir.

Sóknaráætlun landshluta er slegin af en því fylgir jafnframt að ákvörðun um þróun byggða er færð frá sveitarfélögum. Flutningsjöfnun er tekin aftur og framlag til húshitunar á köldum svæðum er lækkað umtalsvert. Hafinn er á nýju niðurskurður í rekstri heilbrigðisstofnanna þó fyrri ríkisstjórn hafi ekki gert slíka kröfu í fjárlögum 2013 enda ekki talið að heilbrigðiskerfið þyldi frekari niðurskurð. Góð heilbrigðisþjónusta er ein af grundvallar búsetuskilyrðum á landsbyggðinni.

Atvinnumál

Í atvinnumálum er sama upp á teningnum. Forsætisráðherra segir að stuðningur við nýsköpun og skapandi greinar verði aukinn en fjárlagafrumvarpið sýnir aðra stefnu. Skattaafsláttur til nýsköpunarfyrirtækja er lækkaður um 25%. Áform um verulega hækkun til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs eru slegin af, en sjóðirnir skornir niður og markáætlun á sviði vísinda og tækni lækkuð um helming. Framlög til Kvikmyndamiðstöðvar eru skert verulega, sem og ýmsir aðrir sjóðir sem styðja skapandi greinar. Fjárveitingar til græna hagkerfisins eru strokaðar út, framlag í Húsafriðunarsjóð lækkað um 82% og til uppbyggingar ferðamannastaða um þriðjung. Þá er framlag til atvinnuuppbyggingar og fjölgun vistvænna starfa er slegið af.

Það er sitt hvað orð og athafnir og munurinn er áberandi mikill á orðum forsætisráðherra í stefnuræðunni og þeim athöfnum sem fjármála- og efnahagsráðherra boðar með fjárlagafrumvarpinu. Gera verður þó ráð fyrir að það sé fjárlagafrumvarpið sem taka eigi mark á enda samþykkt í ríkisstjórn. Því er ljóst að horfið verður frá atvinnustefnu þar sem sprotar og skapandigreinar eru studd til vaxtar, byggðastefnu þar sem sveitarfélög hafa meira um forgangsröðun fjárfestinga og uppbyggingu innviða að segja, velferðarstefnu með bættri heilbrigðisþjónustu og  menntastefnu með áherslu á tækni- og iðngreinar. Ástæða er til að haga áhyggjur af því að stefnubreytingin hafi slæm áhrif á þróun hagvaxtar og hagsældar á kjörtímabilinu sem hefði annars átt að vera uppvaxtartímabil í kjölfar endurreisnar efnahags og samfélags eftir hrun.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.9.2013 - 13:58 - Rita ummæli

Mikilvæg en flókin viðfangsefni

Í sérstakri umræðu á Alþingi þriðjudaginn 17. september sl. vakti Steingrímur J. Sigfússon athygli á stórum og mikilvægum málum. Hann varpaði fram spurningum til fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu vinnu við endurskoðun áætlunar um afnám gjaldeyrishafta, samráð við stjórnarandstöðuna í þeim efnum og aðkomu Seðlabankans og nefndar um fjármálastöðugleika. Einnig var í umræðunni komið inn á uppgjör gömlu bankanna, hæfi nefndarmanna sem eru starfandi í fjármálafyrirtækjum á markaði og svigrúm við uppgjör bankanna.

Óvissan

Ég tók þátt í umræðunni og benti á að málefnin tengjast öll með einum eða öðrum hætti en það sem er sammerkt með þeim er að um þau ríkir mikil óvissa. Og óvissan er okkur kostnaðarsöm. Á meðan óvissan ríkir halda menn að sér höndum og bíða. Þess vegna er svo mikilvægt að ríkisstjórnin svari með skýrum hætti hverju þau ætla að breyta frá áætlun fyrri stjórnvalda og leggi fram plan sem er líklegt til að virka. Skýr svör fengust því miður ekki frá fjármála- og efnahagsráðherra í þessari umræðu.

Kostnaður til lengri tíma

Sennilega er losun gjaldeyrishafa eitt mikilvægasta og flóknasta viðfangsefnið í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir. Höftin reyndust nauðsynleg til að ná stöðugleika eftir bankahrunið í framhaldi af því fjármálaáfalli sem það leiddi af sér. Það er líka nauðsynlegt að afnema þau eins fljótt og hægt er. Það er ekki aðeins vegna þess að alþjóðlegir samningar gera ráð fyrir því heldur vegna þess að þau hafa í för með sér kostnað sem verður til lengdar meiri en ávinningurinn og versnandi lífskjör.

Stefna í gjaldeyris- og gengismálum

En hvað gerist þegar höftin hafa verið afnumin og veruleikinn án hafta blasir við? Mun íslenska krónan nýtast okkur án þess að hún verði í einhvers konar höftum til framtíðar?

Mér finnst mikilvægt að kannað verði betur hvernig losun hafta tengist vali á stefnu í gjaldeyris- og gengismálum og hvort kostir í þeim efnum geri losun haftanna auðveldari. Einnig ættum við að nýta okkur þá möguleika sem kunna að skapast í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar, í gegnum aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Utanríkisráðherra hefur að vísu tilkynnt að gert hafi verið hlé á viðræðunum. Alþingi hefur samt ekki enn falið ríkisstjórninni að slíta umsóknarferlinu og því er enn von til þess að sú skynsamlega niðurstaða náist að umsóknarferlið allt verði klárað og niðurstaðan borin undir þjóðina.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.9.2013 - 11:58 - 2 ummæli

Forgangsmál ríkisstjórnarinnar

Kjallari DV í dag:

Fyrstu verk ríkisstjórnarinnar hafa vakið athygli. Í forgangi var að  gefa  erlendum ferðamönnum afslátt á neyslusköttum og útgerðarmönnum afslátt af veiðigjaldi. Í  sömu andrá kvörtuðu þau undan slæmri stöðu ríkissjóðs og boðuðu niðurskurð. Það sýnir ekki mikinn skilning á stöðu ríkisfjármála að afsala ríkissjóði milljarða króna tekjum og boða um leið niðurskurð í ríkisrekstri til að bæta slæma stöðu. Það er ekki trúverðugt eða líklegt til að auka skilning á fækkun starfa á ríkisstofnunum, skertri þjónustu við þá sem reiða sig á velferðarkerfið eða frestun á mikilvægum atvinnuskapandi verkefnum.

Veiðigjald

Þegar stjórnarliðar verja afsláttinn á veiðigjaldinu fullyrða þau að þetta hafi þurft að gera til að létta óhóflegum gjöldum af  litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sú fullyrðing er röng. Minnihluti þingsins gerði tillögu ( http://www.althingi.is/altext/142/s/0060.html )á sumarþingi sem leitt hefði til þess að 324 litlar útgerðir greiddu ekkert sérstakt veiðigjald og 102 aðeins hálft gjald á meðan stóru útgerðirnar greiddu áfram fullt gjald. Þessari leið höfnuðu stjórnarþingmenn og stærsti hluti afsláttarins kom í hlut stóru útgerðarfyrirtækjanna. Fyrirtækja sem standa afarvel og skila miklum arði til handhafa sérleyfanna.

Óréttlætið í þessari aðgerð stjórnvalda er mikið vegna þess að útgerðarfyrirtækin skila svo miklum arði til eigenda sinna fyrst og fremst vegna falls krónunnar og ódýru sérleyfi sem veitir aðgang að auðlindum þjóðarinnar. Þetta hefur ekki farið fram hjá almenningi. Þeim sama og  tapaði  umtalsvert á falli krónunnar og það gerði ríkissjóður einnig og samdráttur á þjónustu við almenning varð óhjákvæmilegur.

Hlutdeild sveitarfélaga

Í stað afsláttar á veiðigjaldinu til útgerðarmanna hefði verið nær að veita sjávarútvegssveitarfélögum sanngjarna hlutdeild í því. Sveitarfélögin hafa borið kostnað af framsali og hagræðingu í sjávarútvegi. Útgerðin og þjóðfélagið í heild hafa hagnast af hagkvæmum sjávarútvegi en sjávarbyggðirnar greiða fyrir hagræðinguna með fækkun starfa og fækkun íbúa í kjölfarið. Kvótakerfið með framsalsrétti hefur þannig í för með sér kostnað sem fallið hefur á sjávarbyggðir landsins í formi atvinnuröskunar og tekjumissis. Með hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu fengju sveitarfélögin stuðning við uppbygginu innviða, atvinnuþróun og fjölgun starfa bæði í afleiddum greinum sjávarútvegs og á öðrum sviðum.

Ferðaþjónusta

Fjölgun erlenda ferðamanna hér á landi er fagnað einkum vegna þeirra gjaldeyristekna sem þeir skila en um leið er kvartað undan ágangi á viðkvæmum svæðum, að erfiðleikar fylgi því að taka á móti miklum fjölda og skorti á uppbyggingu innviða við ferðamannastaði. Samt gefa stjórnvöld sama afslátt á hótelgistingu frá almennu þrepi virðisaukaskatts og gefinn er á matvæli. Stjórnvöld ræða gjaldtöku við ferðamannastaði en líta fram hjá einföldum leiðum í gegnum neysluskatta og afnámi afsláttar. Athyglisvert er að í skýrslu Ferðamálastofu um fjármögnun uppbyggingar og viðhald ferðamannastaða er dregið fram að frá árinu 2004 hafa tekjur til ríkisins af hverjum ferðamanni lækkað um 40%. Þetta er sláandi mikil lækkun og nauðsynlegt er að finna skýringar á þessu. Skoða þarf allt umhverfi ferðaþjónustunnar vandlega með framtíðar stefnumótun í huga. Best er að gera breytingar í uppsveiflu og þá stefnu hafði fyrri ríkisstjórn markað en núverandi hafnað. Markmiðið til framtíðar fyrir ferðaþjónustuna hlýtur að vera að atvinnugreinin styrkist, skapi verðmæt störf og skili um leið góðum tekjum til samfélagsins.

Niðurskurður

Fulltrúar stjórnarliða í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar hafa verið fyrirferðarmiklir í fjölmiðlum og undarlegustu hugmyndir verið  hafðar eftir þeim. Þau hafa talað um niðurskurð, m.a. til menningarmála, hjá ríkisútvarpinu og einnig hjá eftirlitsstofnunum sem verja eiga hag almennings og voru fjársveltar í hinu svokallaða góðæri. Fyrir hrun þótti eftirlitsstarfsemi frekar aum starfsemi og skapaði ýmiskonar vesen fyrir þá sem eftirlitið átti að beinast að. Því var starfsemin veikt með slæmum afleiðingum fyrir almenning. Og nú á að endurtaka leikinn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.7.2013 - 15:43 - 8 ummæli

Ríkissjóður og vondir menn í útlöndum

Eftir hrun efnahags og samfélags haustið 2008 skuldar ríkissjóður um 1.500 milljarða. Vaxtagreiðslur af þessum skuldum eru um 90 milljarðar á ári. Ef við skulduðum ekkert ættum við semsagt 90 milljarða til viðbótar til að reka velferðarkerfið, menntakerfið og til að vinna að rannsóknum og þróun í átt að aukinni verðmætasköpun. Það er því augljóslega almenn aðgerð, aðgerð sem kemur öllum Íslendingum til góða, að stýra rekstrinum þannig að sem fyrst verði mögulegt að grynnka á skuldum og lækka vaxtagreiðslur. Ef aðstæður hér á landi eru metnar þannig að áhættusamt sé að lána Íslendingum verður vaxtakostnaðurinn meiri. Hvert prósentustig til hækkunar getur hlaupið á milljörðum í kostnaði bæði hjá ríkinu og þeim fyrirtækjum sem þurfa á erlendum lánum að halda. Þess vegna eigum við að taka alvarlega þau aðvörunarorð og það mat á stöðu landsins sem lánshæfismatsfyrirtæki setja fram. Við vorum á réttri leið þar til áform hægristjórnarinnar um nefndir og óvissu litu dagsins ljós. Stjórnvöld verða að svara gagnrýninni en ekki eyða kröftum sínum í að sannfæra okkur Íslendinga um að allir aðrir séu vitlausir og vondir við okkur en að þau séu að gera allt rétt. Það skiptir nefnilega miklu máli þegar mat annarra hefur áhrif á vaxtakjörin á erlendum lánum.

Afsláttur og niðurskurður

Það sýnir ekki mikinn skilning á stöðu ríkissjóðs að gefa útgerðum stórkostlegan afslátt af veiðigjaldi eða að gefa erlendum ferðamönnum afslátt á neysluskatti. Hægristjórnin afsalar ríkissjóði tekjum upp á um 12 milljarða króna á ári og boðar um leið niðurskurð í ríkisrekstri. Það er ekki trúverðugt eða líklegt til að auka skilning á erfiðum uppsögnum ríkisstarfsmanna eða frestun á mikilvægum verkefnum sem t.d. auka umferðaröryggi og skapa atvinnu eins og Norðfjarðargöng. Formaður fjárlaganefndar sagði í morgunþætti á Rás 2 í morgun þegar arðgreiðslur og ofurlaun í sjávarútvegi voru rædd, að við ættum að gleðjast yfir því að vel gengi í sjávarútvegi og að fyrirtækin gætu greitt góð laun. Hún minntist hins vegar ekki á hvernig sú staða er til komin. Fyrirtækin standa nú fyrst og fremst svona vel vegna falls krónunnar og ódýru sérleyfi sem veitir aðgang  að auðlindum þjóðarinnar. Almenningur tapaði hins vegar umtalsvert á falli krónunnar og það gerði ríkissjóður líka og samdráttur á þjónustu við almenning varð óhjákvæmilegur.

Nýr Landspítali

Formaður fjárlaganefndar sagði í sama útvarpsþætti að Íslendingar hefðu ekki efni á nýjum Landspítala. Hún líkti þar hátæknisjúkrahúsi  við steinsteypukubb. Greiningar hafa verið gerðar af innlendum og erlendum sérfræðingum á áhrifum bættrar aðstöðu með nýrri byggingu á rekstur og líðan bæði sjúklinga og starfsmanna. Kostnaður við að reka starfsemi spítalans á 17 stöðum í oft óhentugu húsnæði hafa líka verið gerðar. Greiningarnar sýna rekstrarsparnað við að byggja nýjan spítala. Vonandi skoðar niðurskurðarhópurinn stóru myndina og hefur í huga mikilvægi þess að  landsmenn eigi góðan spítala sem með bættum starfsaðstæðum laðar að fagfólk í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúkra.

Forgangsmálin

Á meðan niðurskurðarhópur finnur leiðir til að skera niður fyrir afslætti til útgerðar og erlendra ferðamanna  verja aðrir stjórnarþingmenn og ráðherrar  kröftum sínum í að ræða um gallabuxur,  útihátíðir og vonda menn í útlöndum. Algjör óvissa er um stór mál og áhrif þeirra á ríkissjóð. Hætta er á að Ísland tapi þeim trúverðugleika sem áunnist hefur á síðastliðnum fjórum árum, eftir að landið stóð á barmi gjaldþrots og rúið trausti haustið 2008. Ef ekki á illa að fara verður að grípa strax í taumana.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.6.2013 - 12:08 - 6 ummæli

Ríkisstjórn sérhagsmuna

Tekjutapið af frumvarpi um breytingar á veiðigjöldum er rétt um 10 milljarðar króna í ár og á því næsta. Þetta er umtalsvert tekjutap enda hafa forsvarsmenn hægristjórnarinnar boðað að öll útgjöld verði endurskoðuð og nefnt sérstaklega fæðingarorlof og stuðningur við skuldug heimili með lánsveð í því sambandi. Fleira þyrfti að koma til því fyrir 10 milljarða er t.d. hægt að reka helming allra framhaldsskóla landsins eða reka sjúkrahúsið á Akureyri ásamt Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og eiga samt um tvo milljarða í afgang upp í nýtt og betra almannatryggingakerfi, svo upphæðin sé sett í samhengi. Við þessari forgangsröðun í þágu þeirra sem allra síst þurfa á stuðningi ríkissins að halda mátti búast af hálfu hægristjórnarinnar þó hún gangi reyndar lengra í sérhagsmunagæslunni en ég gerði ráð fyrir.

Beinar tekjur af auðlindinni

Það er afar mikilvægt fyrir þjóð sem byggir efnahag sinn eins mikið á nýtingu náttúruauðlinda og Íslendingar, að hafa beinar tekjur af nýtingu þeirra. Þjóðaratkvæðagreiðsla um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár í október síðastliðnum, leiddi í ljós afgerandi stuðning þjóðarinnar við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum, að nýtingarrétti verði úthlutað til ákveðins tíma gegn fullu gjaldi og með gagnsæjum og hlutlægum hætti. Fylgja þarf þeirri niðurstöðu eftir og innleiða heildstæða auðlindastefnu á forsendum sjálfbærrar þróunar þannig að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum.

Álagning veiðigjalds sem tekur mið af reiknaðri auðlindarentu í sjávarútvegi er skref í þá átt að skipta arðinum sem sérleyfi til nýtingar verðmætrar auðlindar í þjóðareign skapar. Auðlindarenta (e. Resource Rent) myndast í atvinnugrein sem byggir á sérleyfum til nýtingar náttúruauðlinda. Hún er sá umframarður sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni, með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst.

Veiðlieyfagjald eins og önnur aðföng

Líta  þarf á kostnað vegna sérleyfisins eins og kostnað við önnur aðföng við rekstur útgerðarinnar. Sá kostnaður á ekki að miðast við stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig heldur byggjast á viðmiðum sem varða greinina í heild. Þannig er auðlindagjaldið hugsað í lögum um veiðigjald.

Kostir auðlindagjalda umfram aðra skattheimtu eru ótvíræðir. Þar er hagnaður sem myndast vegna sérleyfisins eingöngu skattlagður og ákvörðun gjaldsins tekur ekki mið af hegðun hvers og eins fyrirtækis, til dæmis  hvort þau eru vel eða illa rekin hvert um sig, heldur er gjaldið fundið út sem hlutfall af umframhagnaði greinarinnar í heild. Í góðu árferði eins og útgerðin hefur búið við undanfarin ár ætti auðlindagjaldið að vera hátt en í verra árferði yrði það lægra. Þannig má segja að auðlindagjaldið sé sveiflujafnandi þar sem það er til dæmis hátt þegar krónan er veik og skilyrði hagstæð fyrir útgerðina eins og hefur verið undanfarin ár en lægra þegar krónan  styrkist.

Makaðslögmálin ekki nýtt

Til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind þjóðarinnar væri best að nýta markaðslögmálin. Best væri ef veiðileyfin yrðu boðin út og ákveðið hlutfall markaðsverðs væri gjald fyrir sérleyfið og allur fiskur færi á markað. Þar sem slíkar aðstæður eru því miður ekki til staðar hér á landi er næst best að láta sérfræðinga meta út frá bestu fáanlegum upplýsingum, auðlindarentuna í greininni og leggja auðlindagjaldið á sem ákveðið hlutfall af henni. Versta leiðin er að fela stjórnmálamönnum að ákveða gjaldið því í þeirri tilhögun býr áhætta og spillingargildra. Sérstaklega viðkvæm væri sú leið ef útgerðin hefði kostað kosningabaráttu viðkomandi stjórnmálamanna.

Í lögum um veiðigjald er gert ráð fyrir ákveðnu gjaldi fyrir þorskígildið en lítil fyrirtæki greiði að jafnaði lægra gjald sökum þess að af fyrstu 30 tonnum hverrar útgerðar greiðist ekkert gjald og af næstu 70 tonnum hálft gjald. Ef hægristjórnin meinar eitthvað með orðum sínum um sérstakar áhyggjur af minni útgerðum þá hefði hún auðvitað lagt til að þessi gjaldfrelsismörk verði hækkuð. Auk þess yrðu ráðstafanir gerðar svo nýta megi nauðsynlegar upplýsingar til að reikna út veiðleyfagjaldið eins og að var stefnt. Hægristjórnin gerir hvorugt heldur velur að lækka álögur á útgerðina í heildina tekið með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð.

Sjávarbyggðir og Noregur sem fyrirmynd

Gjaldtaka fyrir olíuvinnslu í Noregi fer eftir sömu hugmynd og gert er í lögunum um veiðigjald. Þar myndast mikil auðlindarenta og hún er skattlögð með auðlindarenntusköttum. Í norsku vatnsafli myndast einnig töluverð auðlindarenta. Hún er skattlögð með auðlindarentuskatti sem nemur 58% af hagnaði umfram eðlilegan hagnað og til viðbótar því gjaldi eru greidd nýtingargjöld til sveitarfélaga.

Sú hugmynd að hluti auðlindagjaldsins, hluti veiðigjaldsins hér á landi renni til sjávarbyggða tel ég vera afar skynsamlega og sanngjarna. Sveitarfélögin hafa þurft að færa fórnir og bera kostnað vegna kvótakerfisins. Veiðigjaldið ætti að hluta að renna til sjávarbyggða og stuðla þannig að bættri búsetu á þeim stöðum. Sjávarplássin hafa myndað með sér samtök sem krefjast hlutdeildar í veiðigjaldinu og þá kröfu þeirra styð ég heils hugar.

Skert þjónusta við almenning?

Með frumvarpi sem nú er til umræðu í þinginu og rúmlega 33 þúsund Íslendingar hafa, þegar þetta er skrifað, mótmælt með undirskrift á slóðinni www.veidigjald.is fylgir umtalsvert tekjutap fyrir ríkissjóð sem fyrir er í viðkvæmri stöðu. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af afleiðingum tekjutapsins og að það bitni helst á velferðarkerfinu. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að almenningur finni áþreifanlega fyrir tekjutapinu með skertri þjónustu, t.d. í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða í löggælsu. Nær hefði verið að hækka veiðigjaldið í því árferði sem útgerðin býr við og tryggja að ríkissjóður fyrir hönd fólksins í landinu njóti beinna tekna af auðlindinni og stuðli þannig að aukinni velsæld og bættum innviðum landsins.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.6.2013 - 12:53 - 2 ummæli

Jafnlaunaátak og kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð

Launamisrétti kynjanna má ekki viðgangast. Með því skrefi sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur steig í þá átt að útrýma launamuninum með jafnlaunaátaki þokast málið í rétta átt. Á kvennafrídaginn síðastliðið haust var lagður grunnur að átakinu og markmiðið er að undirbúa næstu gerð kjarasamninga. Ákveðið var síðan að byrja á kvennastéttum innan heilbrigðiskerfisins en átakinu er ætlað að taka á launamun innan stétta en einnig á milli stétta. Tæknileg mál eins og skráning í mannauðskerfi þurfa einnig að fylgja í átakinu og greining á því hvað óútskýrður launamunur er eða öllu heldur hvað eru sanngjarnar skýringar. Kyn er ekki ein af þeim breytum sem eiga að koma til greina í þeim skýringum. Það er ótrúlegt að við skulum enn þurfa að berjast fyrir því að svo sé ekki og setja í gang sérstakt átak til að útrýma kynbundnum launamun.

Á krepputímum þurfum við að gæta sérstaklega að okkur því að þekkt er að þá er hætta á því að kynbundinn launamunur aukist, að fjármunir til kvennastarfa séu skornir niður á vegum ríkisins en atvinnuátak sett af stað sem nýtist frekar körlum.

Ellilífeyrir kvenna ber einnig mark áratugalangrar kynjamismununar í íslensku samfélagi. Ólaunuð vinna kvenna inni á heimilum ásamt kynbundnum launamun hafa leitt til þess að gjá er á milli lífeyrisgreiðslna karla og kvenna. Vinna þarf í brúargerð yfir þá gjá.

Ég vona að áfram verði haldið með jafnlaunaátakið þó að ný ríkisstjórn sé tekin við. Það sama á við um áherslu fyrri ríkisstjórnar á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð sem er öflugt hagstjórnartæki ef vel er á haldið og mun skila auknu jafnrétti til framtíðar. Þó að nauðsynlegt sé að fara í sérstakt jafnlaunaátak til að rétta kúrsinn er lausnin til framtíðar að efla kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð þar sem markmiðið er að tvinna saman jafnrétti og efnahagslega velferð, tvinna saman jafnréttisstefnuna og þjóðhagsstefnuna og taka meðvitaðar ákvarðanir í ríkisfjármálum til að auka jafnrétti og útrýma kynbundnum launamun.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.6.2013 - 17:47 - 3 ummæli

Forgangsröðun hægristjórnarinnar

Allra fyrsta mál hægristjórnarinnar var að leggja það til að virðisaukaskattur á hotel- og gistiþjónustu verði áfram með sömu undanþágu frá almennaþrepinu og virðisaukaskattur á matvæli. Forgangsmálið eftir allar yfirlýsingarnar um verri stöðu ríkissjóðs en reiknað var með og kosningaloforð um almenna niðurfellingu skulda er að halda neyslusköttum sem greiddir eru að mestu af erlendum ferðamönnum með sömu undanþágu og íslenskur almenningur fær vegna kaupa á nauðsynjavörum.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir tekjutapi upp á um 500 milljónir í ár og síðan árlega 1.500 milljónir miðað við óbreyttan fjölda gistirýma en eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið er gert ráð fyrir byggingu hótela víða um land til að mæta gífulegri fjölgun ferðamanna, þannig að tekjutapið er sennilega vanmetið.

Eftir hrun efnahags og samfélags haustið 2008 var ljóst að mikill kostnaður hafði fallið á ríkissjóð og tekjustofnar hans höfðu veikst verulega. Við vorum reyndar á barmi gjaldþrots og grípa þurfti til róttækra aðgerða til að forða velferðakerfinu frá óbærulegu tjóni og ríkissjóði frá óviðráðanlegri skuldasöfnun. Ásamt breytingum á skattkerfi var bæði rekstur stjórnsýslustofnanna dregin saman og velferðarþjónusta skorin niður. Margar sársaukafullar ákvarðanir voru teknar hvað það varðaði sem koma niður á fólkinu í landinu, þeim sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda þó hagur þeirra verst settu hefði verin varinn.

Öllum steinum var velt við í þessari fordæmalausu stöðu og þar var virðisaukaskatturinn ekki undanþeginn. Ein af stóru aðgerðunum sem gripið var til var að hækka almenna skattþrepið í 25,5%. Undanþágu vegna matvæla í lægri skattþrepi eða 7% var haldið óbreyttri og einnig var ákveðið hlífa öllum liðum ferðaþjónustunnar við skattahækkunum í ljósi þeirrar óvissu sem ríkti um stöðu hennar á heimsvísu eftir að kreppan hófst. Þessari óvissu var framlengt með gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og aftur með gosinu í Grímsvötnum árið 2011.

Nú hefur framgangur greinarinnar hinsvegar sýnt að óvissan er að baki, skattaumgjörðin í heild þannig að samkeppnisstaðan er enn góð þrátt fyrir hækkunina og ekki rík ástæða til að hótelþjónusta njóti sömu undanþágu frá almennu virðisaukaskattsþrepi og matvæli og nauðsynjavörur til almennings.

Þegar ríkisbúsakurinn er í vanda af þeirri stærðargráðu sem hagstjórnarmisstök fyrri ríkisstjórna sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks komu honum í, þá er útilokað annað en að endurmeta alla tekjustofna og útgjöld. Í þröngri stöðu var valin sú leið að hækka virðisaukaskatt á hótel- og gistiþjónustu frekar en að skera enn meira niður í velferðarkerfinu.

Slök stjórnun ríkisfjármála
Þegar hagur vænkast hins vegar og hægt er að gefa til baka kemur forgangsröðun stjórnvalda í ljós. Hægristjórnin sýnir forgangsröðunina með skýrum hætti þegar allra fyrsta mál hennar er að draga til baka fyrirhugaða hækkun á neysluskatti sem erlendir ferðamenn greiða að mestu.

Þetta er gert jafnvel þó erlendum ferðamönnum hafi fjölgað gífurlega hér á landi og langt umfram bjartsýnustu spár. Fjölgun sem reyndar skapar mörg kostnaðarsöm óleyst vandamál.

Í því ljósi mætti draga þá ályktun að staða ríkissjóðs væri afskaplega góð og þá hljóti næstu mál að vera frekari breytingar svo sem í formi aukinna framlaga til heilbrigðisstofnana, menntastofnanna og til bættra almannatrygginga. En svo er ekki.

Hvaða heilbrigðisstofnun þarf ekki á frekari fjármunum að halda til að mæta betur sjúkum og öldruðum? Hvaða framhaldsskóli landsins þarf ekki á frekari fjármunum að halda til að mæta betur þörfum nemenda sinna og starfsfólks? Í mínum huga ætti við batnandi efnahag frekar að gefa þessum stofnunum til baka en hætta við hækkun virðisaukaskatts á hótelþjónustu með 1.500 milljón króna tekjutapi. Til að setja þá upphæð í samhengi þá dugar hún bæði fyrir rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eða fyrir rekstri Flensborgarskóla ásamt rekstri Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af slakri stjórnun hægristjórnarinnar á ríkisfjármálum. Styrk og skynsamleg stýring þess málaflokks skiptir hag fólksins í landinu afar miklu máli.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.6.2013 - 11:53 - 3 ummæli

Þverpólitísk sátt um framfaramál

Á síðasta þingi lagði Guðbjartur Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, fram  nýtt frumvarp um almannatryggingar. Frumvarpið byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum. Hópurinn vann frábært starf undir stjórn Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns. Í mörg ár hefur verið talað um að gera grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu. Í gegnum tíðina hefur kerfið orðið æ flóknara þannig að þeir, sem eiga að njóta þess, hafa átt erfiðara með átta sig á því og  skilja hver réttur þeirra er.
Meginmarkmiðið nýja almannatryggingafrumvarpsins er  að einfalda löggjöfina, skýra betur réttindi lífeyrisþega og styrkja stöðu aldraðra. Verði frumvarpið að lögum er bætt úr margvíslegum réttindamálum ellilífeyrisþega. Einnig munu greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega hækka í kjölfarið.

Annar þverpólitískur starfshópur á vegum velferðarráðherra, undir forystu Lúðvíks Geirssonar fyrrverandi alþingismanns, lagði til haustið 2012 að tekið yrði upp nýtt og gjörbreytt húsnæðisbótakerfi sem tryggði öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera, óháð búsetuformi. Tillögur vinnuhóps um húsnæðisbætur er áfangi í innleiðingu nýrrar húsnæðisstefnu og stærsta skrefið til að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera.
Meginmarkmiðið er að smíða stuðningskerfi til framtíðar sem ekki hvetur til skuldasöfnunar heimila og tryggja að  allir sitji við sama borð. Gert er ráð fyrir að húsnæðisbætur taki mið af fjölskyldustærð, óháð aldri fjölskyldumeðlima. Fyrstu skrefin að nýju kerfi voru tekin með fjárlögum 2013 en varða þarf í næstu fjárlögum fleiri áfanga kerfisbreytingarinnar.

 Forgangsmál á sumarþingi
Bæði málin voru undirbúin í sátt þingflokka og hagsmunaaðila. Þar sem starfshóparnir voru þverpólitískir bind ég miklar vonir við að ný ríkisstjórn muni vinna að framgangi þeirra strax á sumarþinginu. Upphafsorðin í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar ýta  enn frekar undir þær væntingar. Þar er talað um að hún muni leitast við að vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennir íslenskt samfélag, að framfarir og bætt lífskjör hafi einmitt byggst á samvinnu og Íslendingar leysi sameiginlega helstu verkefni þjóðfélagsins.

Þessi tvö mikilvægu framfaramál, nýtt og betra almannatryggingakerfi og nýtt og betra húsnæðisbótakerfi sem bæði voru unnin í þverpólitískri samvinnu, eru tilbúin og smellpassa inn í stefnuyfirlýsinguna.

 Vonandi liggur nýrri ríkisstjórn ekki meira á að afnema veiðileyfagjaldið, uppfylla sérhagsmuni eða lækka framlög þeirra til samfélagsins sem gnótt hafa handa á milli. Framar í forgangsröðinni verði að bæta kjör þeirra fjölmörgu sem eiga allt sitt undir góðum almannatryggingum og sanngjörnum almennum húsnæðisbótum.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur