Mánudagur 03.12.2007 - 15:19 - 4 ummæli

Fréttamat og Hannes Smárason.

Hvað ætli sé nú í fréttum? Jú Pútin heldur velli. Vesen hjá strætó. Og menn halda áfram að slást hingað og þangað. Svo er fjallað létt um að FL group eigi í vandræðum og þar verði skipt um forstjóra.

Þetta er fréttin ef ég er spurður. Stórkuldugur verðbréfamiðlari er nú loks að fá það á baukinn að hafa verið of kaldur. Bíræfinn og útsjónarsamur segja margir en í mínum huga er hann nánast þjófur. Alveg frá því í árdaga þegar hann seldi okkur ÍE hefur hann stundað spákaupmennsku og sjónhverfingar.

Hann hefur aldrei rekið fyrirtæki svo neinu nemi. Ekkert hefur hann skapað heldur. Það sem hann hefur gert er að eiga nógu mörg eignarhaldsfélög sem hafa keypt og selt fram og til baka af honum sjálfum og félögum. Flugfélagið okkar fer sennilega verst útúr æfingum hans því það fína fyrirtæki var notað til þess að kaupa ótt og títt og með þeim hætti hurfu ófáir milljarðarnir í útvíða vasa þessara fulltrúa nútíma græðgi.

Hvar fann drengurinn peninga til að gera alla þessa hluti? Hann hlýtur að vera skuldugasti núlifandi Íslendingurinn. Kannski eru einhverjir bankaforkólfar svefnlitlir núna. Nei annars, á hann ekki banka?

Það skyldi þó ekki fara svo á endanum að Davíð hafi haft rétt fyrir sér. Eru þetta ekki bara bölvaðir götustrákar. Jón Ásgeir ætlar að koma með einhverja pappíra inní þrotabúið en ekki það mikla að hann þurfi að gera yfirtökutilboð. Samt vita allir að hann og hans eiga þetta allt saman. Þessi þétti hópur auðmanna sem við tilheyrum orðið öll á þetta þvers og kruss. Varla að nokkur maður geti áttað sig á hver er hvað nema með mikilli vinnu og athugun á eignarhaldsfélögum og kennitölum.

Og það þykir ekki vera nógu merkilegt að fjalla um það Hannes Smárason virðist kominn að fótum fram. Nú ætti einhver grúskarinn í fjölmiðlastétt sem ekki er í eigu þessara manna að kafa nú djúpt því mig grunar að skíturinn sem upp kæmi sé magnaður.

Vonum bara að ekki verði margir sem Hannes Smárason dregur með sér í fallinu. Svona kallar eru dýrkeyptir þegar þeir tapa í lottóinu. En hann er auðvitað töframaður hann Hannes og kannski galdrar hann einhversstaðar fram lausn.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Ég verð nú að furða mig á ummælum þínum um Hannes, þar sem þú virðist byggja allt sem þú segir á slúðri, sögusögnum og lygum.Mér vitanlega seldi Hannes þjóðinni aldrei deCODE á einhverju óraunhæfu verði. Það voru aðrir sem versluðu á 60 dali. Raunar veit ég frá fyrstu hendi að hann taldi líklegast að gengi bréfa í deCODE yrði í kringum 4 dalir og allt fyrir ofan 8 dala væri mjög gott. Hann talaði um það við starfsmenn deCODE að þetta uppsprengda gengi sem var á gráa markaðnum væri að eyðileggja fyrir fyrirtækinu, eins og síðar kom í ljós.Þú segir hann aldrei hafa rekið fyrirtæki. Þvílík vitleysa. Hann var aðstoðarforstjóri deCODE í fjölda mörg ár og sá um daglegan rekstur fyrirtækisins. Það var algjörlega honum að þakka að fyrirtækið hélst á réttum kili öll uppbyggingarár þess.Hvar fann hann peningana? Hann var einfaldlega útsjónarsamur og síðan var hann í félagi við tengdaföður sinn í mörg ár og kom vel út úr því. Hann fékk mikinn kauprétt í deCODE og nýtti sér þann pening líka.Það getur vel verið að Hannes fari illa út úr fjárfestingum sínum, en hann fór út í þær á eigin forsendum og stendur og fellur með sínum ákvörðunum. Það gerir hann hvorki götustrák né þjóf.

  • Ég þekki manninn auðvitað ekki eins vel og þú segist gera. En ég ætla ekki að afsala mér réttinum til þess að hafa skoðun á manninum þrátt fyrir það.Hitt er rétt að sumt af því sem ég trúi um hann hef ég ekki séð með eigin augum. Hann er í mínum huga hluti af hópi manna sem hefur braskað með fyrirtæki eins og Icelandair og keypt og selt sjálfum sér og sínum fram og til baka.Ættum við kannski að tala um kaupin á sterling? Frá mínum bæjardyrum séð er af nógu að taka.

  • Það er gott og blessað að hafa skoðun á einhverjum, en það fer minnst fyrir þeim í skrifum þínum. Þú setur fram sleggjudóma og ferð með staðreyndavillur sem ég ætla ekki að elta ólar við.Svo er eitt sem ég skil ekki. Til þess að geta tapað öllum þessum peningum (eins og þú segir), þá hlýtur hann að hafa eignast þá. Ef ég man rétt greiddi hann 15 milljarða eða eitthvað í námunda við það fyrir Icelandair sem síðar varð FL Group. Nú eru þessir peningar orðnir það miklir að FL Group hefur tapað tugum milljarða á stuttum tíma. Mér finnst nú nokkuð gott að geta breytt 15 milljörðum í svo háa upphæð að hægt er að tapa þessum tölum án þess að vera gjaldþrota.Ég er alveg viss um að Hannes hefur tekið margar rangar ákvarðanir, en líka alveg svakalega margar réttar. Ég veit af mönnum sem hættu að vinna fyrir hann vegna þess að þeim gekk ekki nógu vel að vinna saman. Mér var aftur sagt að Hannes hefði náð að halda aftur af viðkomandi en ekki öfugt. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um það, að þú ert opinber pistlahöfundur fyrir fréttamiðil og skrifar (í skjóli a.m.k. nokkurs konar nafnleyndar) hálfgerðar níðgreinar um nafngreinda einstaklinga.Eitt svona í lokin. Allir sem stunda verðbréfaviðskipti eru í spákaupmennsku vegna þess að það er ómögulegt að vita hvað framtíðin ber í skauti sér, við getum bara spáð í hana.

  • Sæll Marinó.Nafn mitt er ekki leyndarmál frekar en skoðanir mínar. Vel má vera að stílbragðið sé á köflum harkalegt en þannig er það nú bara. Ekki er með neinum hætti ætlunin að meiða. Virðing mín fyrir þeim hópi manna sem ég tel Hannes tilheyra er takmörkuð og það kann að vera skýringin á orðavalinu.Stend við hvert orð og gæti bætt við en læt þetta duga í bili.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur