Miðvikudagur 23.01.2008 - 23:48 - Rita ummæli

Kálið er ekki sopið.

Nú verður spennandi að sjá hvort nýji meirihlutinn kemst úr sporunum og lifir til loka. Eins og vænta mátti er brekkan brött. Aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Fjölmiðlar kynda undir og trúa öllu sem Dagur segir eins og nýju neti. Segi hann Villa hafa boðið Svandísi eitthvað þá hlýtur Villi að hafa boðið henni eitthvað. Nema hvað.

Ég þekki þá tvo, Vilhjálm og Ólaf ekkert. Augljóst er þó að þeir eru klaufar í fjölmiðlum og báðir gersamlega lausir við sjálfstraust. Ekki er það að hjálpa því svona samstarf eins og þeir hafa komið á er niðursoðið á stuttum tíma í sömu reykfylltu bakherbergjum og Bingi og Dagur notuðust við síðast. það verður alltaf tilefni til gagnrýni og þá reynir á menn. Feluleikur og farið á bak við fólk. þannig var það síðast og þannig er það núna. Og verður næst sama hver á í hlut. Þá er góður eiginleiki að geta talað við fjölmiðla.

Við þessar aðstæður verður ekki séð við öllu. Léttar misfellur í málefnaplaggi verða skyndilega matur fjölmiðla og annarra sem þola þetta ekki. Þetta virðast þessir tveir menn ekki getað talað sig í gegnum. Ótrúlegt hvernig þeir láta hrekja sig í vörn aftur og aftur.

Spái því samt að þetta haldi alla leið. Hér er ekki um að ræða fjóra aðila eins og síðast þegar samið var um að vera við völd og ekkert annað. Það reyndist erfitt og límið hélt ekki. Kannski nennti Dagur ekki að gera samning um málefni til þess að negla þetta niður. Hugsanlega taldi hann það engu skipta. Völdin ein dygðu. Er nánast tilbúinn að trúa því að það hafi skipt sköpum. Ólafur kemur mér fyrir sjónir sem hárnákvæmur og hégómalegur maður. Smámunasamur. Engu máli skiptir hversu litla virðingu þú berð fyrir honum í samstarfi. Þú hlýtur að verða að bera virðingu fyrir möguleikum allra fjögurra til þess að slíta sig lausa. Allt annað er í besta falli kæruleysi. Sér í lagi hjá manni sem rétt nýlega hefur verið á hinum endanum á þannig atburðarás.

Ólafur fer bratt af stað. Talar og túlkar af hjartans list. Hann mun komast upp með það því Villi er of sjóaður til þess að láta svoleiðis smotterí skemma það sem raunverlega skiptir hann máli. Ef okkur sjálfstæðismönnum tekst ekki að skipta um skipstjóra í brúnni fyrir næstu kosningar verður okkur refsað grimmilega. Villi var búinn með sinn tíma og þessi niðurstaða breytir engu þar um. Skítt með það þó hann mælist ekki sterkur þessa dagana á meðan moldviðrið gengur yfir.

Hann er fyrir löngu hættur að mælast hjá sínu eigin fólki. Það sjá allir og það er eitthvað sem hann getur ekki kjaftað sig frá. Alveg er sama hver afrek hans pólitísk verða. Mér finnst þetta blasa við. Borgarstjórnarflokkurinn stendur að baki honum núna af því að ekkert annað er í stöðunni.

Orustan vannst en hef sterkar efasemdir með stríðið.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur