Laugardagur 26.01.2008 - 11:33 - Rita ummæli

Styð ég meirihlutann?

Ég hef verið spurður að því undanfarið hvort ég styðji nýja meirihlutann. Þetta er bráðeinföld spurning en svarið eitthvað flóknara.

Ég styð sjálfstæðisflokkinn jafnvel þó mér finnst hann stundum alveg ferlegur. Þeir sem eru hættir að efast um flokkinn sinn eru að mínu viti búnir að tapa hæfileikanum til þess að þroskast pólitískt. Grundvallarskoðanir mínar fara almennt vel saman við flokkinn. Daglegur rekstur hans ekki alltaf.

Sumir fulltrúar hans eru heldur ekki allir að mínu skapi. Ég held að það hljóti að vera eðlilegt. Réttrúnaðarofstækið sem við höfum orðið vitni að undanfarið er skemmandi. Hvernig er hægt að þrífast í pólitík ef enginn er efinn? Fullkomnun náð. Sannleikurinn eini fundinn.

Er ekki bráðhollt að láta eftir sér að hrífast af fólki og jafnvel hugmyndum sem aðrir hafa komið með? það er nefnilega þannig að enginn einn flokkur getur rúmað allt það sem mér finnst skynsamlegt. Og víða geta leynst áhugaverðir aðilar í öðrum flokkum. Ef maður leyfir sér að opna blinda augað.

Ég hrífst meira af hugmyndum en fólki í pólitík. Fólk kemur og fer en hugmyndirnar og stefnan verður eftir. Í sumu er ég bókstafstrúarmaður. Grunnreglur og gagnsætt lýðræði hentar mér betur en skyndileg upphlaup og eftirsókn eftir vindi um stundarsakir. Nauðsyn brýtur lög er frá mínum bæjardyrum mjög hæpið fyrirbrigði. Enda er það svo að túlkunin á því hvað telst nauðsyn verður alltaf umdeild. Lögin aftur á móti svíkja engann og allir eru jafnir fyrir þeim.

Ég er sumsé sjalli þó ég verði iðulega skotinn í hinu og þessu sem kemur frá öðrum. Fanatík þreytir.

Ég er ekki ánægður með flokkinn minn í Reykjavík. Við státum ekki af nógu öflugu fólki. Leiðtoginn er búinn á því og nýtur hvergi trausts. Leitun að öðru eins í sögunni. Ég bý í hafnarfirði og er ekki kjósandi í borginni en myndi án efa kjósa flokkinn. Af því að ég trúi á það sem flokkurinn á að standa fyrir og ég veit að Villi og hinir eru ekki eilífðin.

Ég held að fyrsti meirihluti þessa kjörtímabils hafi verið settur saman til þess að stjórna borginni. Stunda stjórnmál. Hinir tveir voru báðir einungis settir saman utan um völdin. Þörfina til þess að komast að. Þeir sem sjá einhvern mun á Degi og Villa í þessu eru blindir.

Í báðum tilfellum er þessu hespað af á nokkrum tímum. Í tilfelli Dags snérust þeir tímar eingöngu um það hverjir ættu að sitja hvar. Og þar með lauk samningsgerðinni. Í tilfelli Villa var verið að stinga nógu miklu upp í Ólaf til þess að gengi saman. Í hvorugu tilfellinu mjög rismikið.

Lýðræðið er skrýtið atriði. Allt þetta má af því að þetta fólk er réttkjörið. Þess vegna stoðar ekki að kvarta. Þetta völdu borgarbúar. Allt tal um skort á lýðræði í þessum tilellum sýnir fullkominn skort á næmni fyrir því hvað lýðræði stendur fyrir. Lýðskrum er allt annað en lýðræði. Mér finnst garfalvarlegt þegar reynt er að eyðileggja og kenna rangtúlkanir á þessu mikilvæga atriði í okkar stjórnskipan.

Hver var spurningin aftur? Jú ég styð meirihlutann en áskil mér fullan rétt til þess að vera óánægður með margt. Þó ekki hvernig hann varð til því þar voru engar reglur brotnar. Og sennilega forherðist ég í afstöðunni þegar ég upplifi það hvernig málsmetandi menn eru teknir af lífi vegna þess eins að þeir skiptu um samferðafólk í pólitík. Ég spái því eindregið að þeir sem standa fyrir því munu uppskera ævarandi skömm þó síðar verði.

Ég segi já, með fyrirvörum.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur