Sunnudagur 27.01.2008 - 13:14 - Rita ummæli

Ný hugsun dana í handbolta.

Meira um handbolta. Viggó og Óskar Bjarni eru að tala um handbolta í sjónvarpinu núna. Þar er rætt um dani og aðferir danska þjálfarans. Ryfjast þá upp fyrir mér það sem ég skrifaði um muninn á Alfreð og danska þjálfaranum í heimsmeistaramótinu í fyrra.

Mín skoðun er sú að aðferðir Alfreðs og reyndar flestra þjálfara í dag séu á undanhaldi. Gamli austurevrópski hugsunarhátturinn hlýtur að víkja. Þar eru þjálfarar eru guðir sem allt vita og reynt er að hafa mikla fjarlægð milli leikmanna og þeirra.

Heimspekin gengur út á að nota fáa leikmenn. „Bestu“ leikmennirnir eru þeir sem byrja leikinn. Varamenn eru ekki heilir leikmenn heldur leikmenn sem eru settir inná þegar „bestu“ leikmennirnir ná sér ekki á strik. Frammistaða varamannanna skiptir svo ekki máli. Um leið og bestu leikmennirnir eru búnir að kasta mæðinni eða að fá ræðuna eru þeir svo settir inná aftur.

Varamennirnir eru frekar notaðir sem viðbrögð við slökum leik bestu spilaranna eða sem refsing. Þeir hafa ekkert hlutverk, þeim er ekki endilega treyst. Á sama tíma er talað um skort á breidd. Hvernig verður hún til spyr ég?

Þessi ofurhræðsla við að leyfa þeim sem ekki byrja leikinn að spila hefur lengi verið mér óskiljanleg. Landslið eru eðli máls samkvæmt skipuð góðum leikmönnum eingöngu. Stórkeppnir spilast þéttar en önnur mót og því mikil þörf á að dreifa álaginu og BÚA til breidd.

Leikur okkar við dani á heimsmeistaramótinu í fyrra er kennslubókardæmi um þetta. þar lentu danir í meiðslum í rétthentu skyttunni og það var í raun þriðji valkostur í stöðuna sem vann okkur. Enda hafði hann leikið mjög mikið í mótinu. Hann byrjaði reyndar illa í þessum leik og klúðaði þremur sóknum. Því hefði hann aldrei náð hjá Alfreð. Miklu betra að láta byrjunarliðsmann klúðra en varamann.

Stórstjarnan Lars Cristhiansen fékk kærkomna hvíld í síðari hálfleik. Varamaður hans stóð sig vel og hann kláraði því leikinn, sem var framlengdur og æsispennandi. Þarna gerðist tvennt.

Lars fékk mjög góða hvíld og varamaðurinn hans spilatíma. þetta styrkir liðsheildina og býr til breidd. Við þekkjum svona vinnubrögð helst ekki. Betra er að láta Guðjón Val spila örþreyttan en að leyfa öðrum að spreyta sig í stöðunni. Við förum í hvert æfingamótið á fætur öðru þar sem okkar styrkustu stoðir spila allt of mikið.

Við eigum ekki marga heimsklassaleikmenn. Þess mikilvægara er að búa til breidd og skapa liðsheild. Til þess þarf nýja hugsun. Hugsun þar sem menn endurhugsa fyrirbrigðið, varamenn. Varamenn eru leikmenn sem byrja á bekknum. Þeir eru ekkert úrkast.

Vona að danir vinni Króata. Jafnvel þó það gerist ekki í dag þá vona ég að hugmyndafræðin sem er að baki liðinu er nái fótfestu.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur