Sunnudagur 27.01.2008 - 23:56 - 3 ummæli

Þrískipting valds.

Ólafur Páll heimspekingur fékk alltof lítinn tíma til þess að ræða þrískiptingu valds í silfrinu í dag. Ég hef verið með þetta á heilanum síðan ég heyrði Vilmund ræða þessi mál fyrir 1000 árum eða svo.

Það á ekki að vera umsemjanlegt að vald á að vera þrískipt hér. það fæst af einhverjum ástæðum ekki rætt. Gildir einu um hvaða stjórnmálaflokk er að ræða. Fyrir því geta verið margar ástæður en engin þeirra góð.

Hættum dægurþrasi um heimskupör ráðherra sem komast upp með hvað sem þeim dettur í hug meðal annars vegna þess að ekki er tryggt að valdið sé þrískipt. Mennirnir breytast ekki svo glatt sama hvaða flokksskírteinum þeir flagga. Sagan bara segir okkur það.

Þess vegna er reynt að fyrirbyggja mögulega misbeitingu með skiptingu valds í þrennt. Ráðherrar skipa ekki dómara. Hver skilur ekki af hverju? Notum nú tækifærið og tökum málið á dagskrá. Ekki til þess endilega að ganga milli bols og höfuðs á Árna Matt heldur af því að við eigum skilið að systemið okkar sé í samræmi við stjórnarskránna. Við ræðum þessi mál helst þegar einhver notar tækifærið og misbýður okkur. Þá er erfitt að fá málið rætt því stjórnmálaflokkar eru þannig að þeir verja hvaða bull sem er hjá sínum. það er þeirra eðli. Þetta er ekki flokkspólitískt mál. Hagsmunir okkar allra fara hér prýðilega saman.

Ráðherrar eru ekki heldur þingmenn. Hver skilur það ekki heldur? Hverjum finnst þetta ekki skipta máli? Rökin fyrir því að framkvæmdavaldið ráði því ekki hver er dómari eru skotheld. Hvernig viljum við styrkja þingræðið og deyfa áhrif framkvæmdavaldsins þar?

Aðskiljum að fullu, löggjafar, dóms og framkvæmdavald. Það yrði góð byrjun.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Guðmundur

    Því miður gengur þessi hugsun ekki alveg upp, en burtséð frá því þá er ég algerlega sammála að þetta eru málin sem þarf að ræða.Sjálfstæði hvers hluta valdsins fyrir sig á að vera algert í ákvörðunum þess. Hér er hins vegar ekki verið að tala um ákvarðanir þess, heldur nýliðun í hópi þeirra sem síðan sinna starfinu.Þjóðin velur þingið, þingið ráðherrana, ráðherrar dómarana og svo lokast hringurinn með því að dómararnir geta haft úrskurðarvald gagnvart lagasetningum löggjafarvaldsins. Þetta er hugmyndafræði þingbundinnar stjórnar, þó svo að þetta sé ekki nákvæmlega svona hér. Gallinn liggur samt helst í sambandinu milli þings og ráðherra.Varla viljum við þó fá slíkt sjálfstæði framkvæmdavaldsins að það velji sína eftirmenn sjálft. Þá sæti þjóðin eftir með áhrifavald gagnvart einungis einum hluta valdsins, löggjafarvaldinu.Ef við gefum okkur að nú séu pólitískar ráðningar í störf dómara, án þess að ég ætli beint að taka afstöðu til þess, og að pólitískar ráðningar haldi áfram þar til við aðskiljum þetta alveg framkvæmdavald og dómsvald, þá mun sú samsetning sem þá er ríkjandi geta viðhaldið sér um aldur og ævi. Þeir sem eru í meirihluta gætu náð að fylla dóminn sínum pólitísku trúbræðrum ef vilji þeirra stæði til þess. Aðkoma almennings yrði aldrei nein framar, ef ekki kæmi til einhver alveg ný leið til að velja dómara.Það er hins vegar ekki sátt um þetta eins og er og því þyrfti að vera hægt að ræða þetta eitthvað áfram á réttum vettvangi.

  • Sæll.Var hugmynd Vilmundar ekki á sínum tíma sú að kjósa forsætisráðherra beint? Af hverju má það ekki? Og ekki á sama tíma og kosið er til þings. Hvernig viljum efla sjálfstæði þings gagnvart framkvæmdavaldinu? Í mínum huga stendur það miklu nær löggjafarvaldinu, þinginu, að velja dómara en ráðherrum, framkvæmdavaldinu.

  • Guðmundur

    Ég þekki nú ekki nákvæmlega tillögur Vilmundar (siðbótina ertu væntanlega að vísa í) en af umræðunni sem verið hefur að dæma, og eftir því sem mér fannst koma skýrt fram á máli Ólafs Páls, þá hefur verið einhver misskilningur í gangi með það að sjálfstæði dómsvaldsins sé betur tryggt með sjálfstæði þess við nýliðun. Menn hafa viljað að dómaranefndin sem gaf álit um hæfi ætti að ráða meiru og mér fannst Ólafur Páll segja það skýrt út í þættinum að einmitt þetta sjálfstæði þyrfti að tryggja – en mundi þó vilja hlusta aftur áður en ég fullyrði það.Þú segir hér: „Ráðherrar skipa ekki dómara. Hver skilur ekki af hverju?“ án þess að skýra það neitt að þú viljir hafa það hjá löggjafarvaldinu frekar en dómsvaldinu sjálfu, eða almenningi.Ef við viljum fara að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, þá höfum við fyrirmynd af því. Ég er þó ekki viss um að reynslan af bandaríska stjórnkerfinu sé neitt betri en af því íslenska. Líklega væri betra að styrkja þingræðið með því að hafa ekki bara þegjandi samkomulag um ríkisstjórn heldur láta þingið kjósa hvern ráðherra fyrir sig, jafnvel með eitthvað auknum meirihluta. Enginn gæti kosið sjálfan sig og enginn gæti setið bæði á þingi og í ríkisstjórn.Ég held að ef að bætt verður úr þessu vandamáli geti alveg verið rétt að halda því þannig að ráðherra, eða kannski ríkisstjórnin öll, velji dómara. Þá helst þetta jafnvægi sem þrískipting hefur umfram tvískiptingu, að ef að einhverjum mislíkar eitthvað eða vill ná fram með öllum ráðum, þá getur hann ekki hefnt sín beint, það er alltaf einn aðili í mill.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur