Föstudagur 18.04.2008 - 23:06 - Rita ummæli

Illa launuð flugstörf.

Hvernig má það gerast aftur og aftur að starfsfólk í flugbransanum getur ekki samið við vinnuveitendur sína öðruvísi enn með látum? Gríðarlega eftirsóknarverð störf og fram til þessa hef ég haldið og heyrt að þau séu vel launuð. Launin fæla allavega ekki nokkurn mann, eða konu, frá svo mikið er víst.

Þessar starfstéttir eru eiginlega þær einu sem nýta sér verkfallsréttinn til gagns. Enda finnur ferðaóð þjóðin fyrir því ef flugmenn vanhaldnir í launum ákveða skyndilega að vinna samkvæmt kjarasamningi sínum. Það gera þeir eins og kunnugt er helst ekki nema þeir séu þvingaðir til þess af ósveigjanlegurm vinnuveitendum! Hver skilur svona system?

Svoleiðis kalla þeir reyndar ekki aðgerðir. Þó er það þannig að þetta undarlega háttarlag þeirra setur allt úr skorðum. Þetta nægir venjulega til þess að þeir fá óskir sínar að mestu uppfylltar. Þá taka þeir að sjálfsögðu til við að vinna eftir gamla kerfinu sem er ekki samkvæmt kjarasamningi þeirra! Hjálp.

Þeir nefnilega standa ekki bakvaktir nema þeir séu ánægðir. Þegar þeir verða óánægðir með kjör sín er bakvakta fyrirkomulagið ómanneskjulegt og slítandi. Samt vita það allir er það ekki að ekki er hægt að reka flugfélög án þessa kerfis.

Auðvitað er ekki hægt að kenna einum um þegar tveir deila. Mér er þó enn í fersku minni fyrr í vetur þegar flugmenn neituðu að fá félagsdóm til að úrskurða um ágreining þeirra vegna kjarasamnings þeirra við Icelandair. það var kostuleg uppákoma sem í mínum huga veikti þeirra málatilbúnað allan verulega.

Flugfreyjur eru líka óánægðar. Þó vilja allir vinna þau störf líka, enda alkunna að þau störf þykja vel launuð og fríðindi talsverð. Stefnir í verkfall. Þá man ég skyndilega eftir árvissri ólund flugumferðastjóra með sín kjör. Flestum þykja laun þeirra skítsæmilega samanburðarhæf við önnur.

En þessum stéttum dugar þó að jafnaði ekki þær kjarabætur sem bjóðast almennt. Hvurslags er það.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur