Mánudagur 26.05.2008 - 09:01 - 2 ummæli

Guðjón fríkar út.

Það væri synd að segja að þeir fari með friði Skagamennirninr allir þessa dagana. Auðvitað getur fokið í þann þjóðflokk eins og aðra. Varla er hægt að svipta menn skapgerð sinni eða skerða tjáningarfrelsið?

Guðjón Þórðarsson er af þeirri tegund manna sem gernýtir sér rétt sinn til skoðana. Hann er gjarnan alveg við jaðarinn og mörgum finnst það gaman og fréttamönnum finnst það reyndar æði. Þeir mæta stundum með olíu til að bæta í eldinn. Þá verður fjandinn laus.

Og eldurinn logaði í gærkvöldi, hann skíðlogaði. Ástæðan, jú samantekin ráð allra gegn honum. Hversu ótrúlegt er það að KSÍ hafi ákveðið að herja nú á Guðjón og hans menn. Stofna til herferðar gegn skaganum á leynifundum í bakherbergjum. Þeir sem fylgst hafa með fótbolta eftir að Guðjón kom heim úr víking hafa ekki getað komist hjá því að sjá að karlinn hefur ítrekað komist upp með ótrúlegt kjaftæði órefsað.

Hann hefur ekki hikað við að saka dómara um svindl og í gær gerði hann það aftur. Ég fullyrði að hvergi á byggðu bóli sæjum við þjálfara láta eins og hann lét eftir leikinn í gær. En ef svo ótrúlega vildi til er alveg víst að viðkomandi hlyti refsingu.

Getur verið að menn séu hreinlega orðnir vanir þessari framkomu hans? Kæmist hinn mjög svo dagfarsprúði þjálfari HK upp með svona framkomu? Er KSÍ batteríið í heili lagi skíthrætt við að taka á manninum? Við vitum að líklega mun ekki draga úr hávaðanum þó hann hljóti refsingu en þá er að endurtaka hana þangað til að maðurinn lærir almenna mannasiði.

Vel má vera að Guðjón hafi eitthvað til síns máls. En framsetning hans og nálgun er langt út fyrir það sem við ætlumst til af mönnum í hans stöðu. Þjálfarar eru andlit fótboltans. Þeir eru fyrirmyndirnar, eða ættu að vera það. Ef litið er yfir feril Guðjóns þá sést að honum er skítsama um þetta. Skapillska og annað hvort áunninn eða ómeðvitaður ruddaskapur hefur ítrekað verið opinberaður.

Þjálfarar eiga að hafa skoðanir á öllum þáttum leiksins. Þeir eru fagmenn þegar vel tekst til og þeim kemur flest við. Leikurinn er ekki gerður fyrir dómara eða KSÍ. Gagnrýni sú sem Guðjón hafði upp í gær á ekkert erindi í sjónvarp eins og hún var framsett. Í fullkomnu ójafnvægi eftir tapleik. Stóryrtur og ærumeiðandi.

KSÍ getur alls ekki sleppt honum við leikbann og sekt. Það yrði heimsmet í aulaskap. Handboltinn tók af myndarskap á svipuðu í vetur og ef tekin yrði inn í jöfnuna stighækkandi refsing væri meistari Guðjón í klípu. Undanfarin tímabil hafa aðrir þjálfarar fengið refsingu fyrir mun minna. Það vita allir en fáir skilja.

Nú verður KSÍ að hætta að skjálfa á beinum þegar Guðjón talar og hysja upp um sig. Jafnvel þó það kosti hávaða. Annars veður hann áfram uppi og mun skaða ímynd fótboltans og KSÍ.

Ímynd hans sjálfs virðist honum léttvæg. KSÍ getur ekki leyft sér slíkan munað.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Anonymous

    Áður en menn missa sjónar á aðalatriðinu og fara að röfla um það hvort Guðjón hafi rétt fyrir sér eða ekki, varðandi dómarann, spjöldin, bakherbergið eða fituprósentuna, þá er rétt að minna á að agabrot er agabrot, hvort sem einhver var vondur við þig eða ekki. Það þarf sem sagt að refsa Guðjóni fyrir framsetninguna og blammeringarnar, algerlega burtséð frá því hvort dómarinn var að spila rassinn úr buxunum eða ekki. Að mínu mati á GÞ að fá hörð viðurlög – viðtal og viðbrögð af þessu tagi eiga eftir að bergmála niður í 5. flokk og alþjóðlegur þjálfari hagar sér ekki svona. Punktur. En hvað spjöldin varðar þá voru þau bæði vafasöm. Vissulega brot í fyrra skiptið og kannski gult spjald. Skriðtækling að framan er svolítið sérstök aðferð og getur endað illa jafnvel þótt takkarnir séu ekki fram. Seinna tilvikið var ekki einu sinni brot heldur brilljant boltaþjófnaður að svo miklu leyti sem ég gat séð á myndunum.F.

  • Anonymous

    .. góð grein og það er snnarlega áhugavert sjónarmið Guðjóns um hans rétts til að tjá sig, væntanlega á kostnað þess sem „aurað er yfir“ hverju sinni, sem væntanlega hafa ekki sama rétt til að vera varðir.Það er lítil reisn yfir þessu hjá kallinum og honum til vansa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur