Mánudagur 26.05.2008 - 09:53 - Rita ummæli

Vændið.

Vændi hefur aukist. Atli Gíslason segir það og þetta veit hann af því að hann hefur talað við lögreglumenn. Mjög vísindalegt og stæðist örugglega fyrir dómi. Annars vill ég alls ekki að menn skilji mig þannig að mér finnist Atli slæmur maður eða illa úr garði gerður.

Mér finnst nefnilega allt annað en það. Augljóslega afburðagóður maður og vel gerður. Mannvinur og ekki síst kvennvinur. Lætur sig málefni kvenna í víðasta samhengi varða. Ekki veitir af. Feministi af Guðs náð og hefur ekkert fyrir því. Gott og blessað allt saman.

Hann er á móti vændi og var á móti því að það yrði lögleitt. Enn allt gott og blessað. Hann er VG og VG trúir á boð og bönn. Það sem er bannað er ekki til heimspekin. þar greinir okkur Atla á.

Vel má vera að fólki líði betur með það að banna hlutina. Þá finnst mörgum sem það hafi gert sitt til að uppræta syndina, í þessu tilfelli vændið. Í mínum huga vinnur bann ekki að hagsmunum þeirra sem það á að gera. Eftirspurn eftir vændi hefur alltaf verið til staðar og verður um ókomna tíð því miður. Og þar sem er eftirspurn verður framboð. Enginn vafi.

Þess vegna og aðeins þess vegna er óheppilegt að banna vændið. Það verður alltaf til en fer bara undir yfirborðið, hverfur sjónum okkar en hverfur alls ekki af yfirborði jarðar þó Atli og lögreglumennirnir sem hann talar við sjái það ekki.

Varla þjónar það hagsmunum stúlknanna að vinna undir yfirborðinu því þar þrífst oft allskyns óþverri eftirlitslaust. Mér finnst miklvægt að löggjöf ná markmiðum sínum. Ekki er nóg að hlutirnir líti vel út á pappír ef markmiðin nást ekki.

það að vændi sé núna sýnilegra er ekki til endilega marks um að það hafi aukist. kannski er það að koma upp á yfirborðið af því að það er ekki lengur bannað. Þá er tilgangnum náð er það ekki?

Þá getum við farið að vinna með raunverulega hluti. Hættum að banna fólki að stunda vændi eða að kaupa það. Það þjónar litlum tilgangi. Reynum ekki að sópa vandanum undir teppið. Það er skítaredding og kemur bara í bakið á okkur síðar.

Þó ég vilji ekki bera sama póker og vændi þá er notuð sama aðferðin á póker og vændi. Allir vita að bannið hefur engin áhrif, alls engin. Önnur en að ýta undir ólöglega glæpastarfsemi.

Viljum við það?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur