Þriðjudagur 01.07.2008 - 10:11 - Rita ummæli

Skaginn.

Nú syrtir verulega í álinn hjá Skagamönnum í fótboltanum. Oft hefur gefið á bátinn en samt hefur þeim yfirleitt tekist að að ná vopnum sínum og snúið við blaðinu. Skaginn er jú alltaf Skaginn…

það hefur alltaf verið mögnuð ára yfir fótboltanum uppi á Akranesi. Hnarreystir menn með kassann út í loftið. Munnurinn fyrir neðan nefið og ekkert andskotans væl. Þeir hafa fjöldaframleitt flotta fótboltamenn í gegnum tíðina. Við höfum öll borið mikla virðingu fyrir hefðina.

Auðvitað geta þeir enn snúið blaðinu við og unnið leiki. En þeir munu ekki vinna nokkurn skapaðan hlut þetta tímabilið. Þetta verður titlalaust og þeir munu ekki einu sinni vera í baráttunni að óbreyttu. Öðruvísi mér áður brá.

Ég held að ástæðan sé þjálfarinn. Trúi því mjög vel að hann sé frábær fagmaður enda oft náð afburða árangri. Ég er meira að hugsa um karakterinn sem slíkan. það eru alltaf allsstaðar þar sem hann vinnur einhver fjandans læti.

Auðmýkt og yfirvegun þekkir hann varla. Umburðarlyndi enn síður. Grjótharður mórallinn og harkan er kannski bara hætt að virka. Kannski var upphafið að endinum svarti bletturinn sem féll á Skagamenn í fyrra. Til skamms tíma fór það atriði illa í Keflvíkinga en kannski verða langtíma áhrifin verri hjá Skagamönnum.

Vandinn liggur ekki hjá mér, það er viðkvæðið. Þegar illa gengur þá vilja leikmennirnir ekki vinna, þeir leggja sig ekki fram. Guðjón er reyndar ekki eini Skagaþjálfarinn sem talar svona um leikmenn sína í mótbyr. Svona tal grefur bara undan þjálfarnum með tímanum. Auðvitað vilja allir vinna og hver leggur sig ekki fram.

Svo þegar sigrarnir detta inn þá er það vegna kænsku þjálfarans sem lagði leikinn glimrandi vel upp. Guðjón tekur hrósið en yfirgefur leikmenn sína þegar á móti blæs. Fjölmiðlamenn eiga hér stórann þátt. Þeir hafa kokgleypt þetta bull árum saman opinmynntir yfir öllu sem Guðjón hefur sagt.

Á þessu tímabili hafa aðrir þættir þó verið til að spilla gleðinni. Nefnilega dómarar og gott ef KSÍ líka. Mistök dómara verða alltaf hluti af leiknum og engir fara varhluta af þeim. Þeir sem sökkva í það fen að trúa því að þessi sannindi séu einelti og árásir ef ekki samantekin ráð munu ekki ná árangri. Þetta er ekki hugarfar sigurvegarans.

Mér sýnist neikvætt og þungt tal Guðjóns vera farið að ná til liðsins. Gleðin víðs fjarri enda hafa leikmennirnir fína fjarvistarsönnun fyrir genginu slaka. Þetta er ekki eingöngu þeim að kenna. Þeir eru í stríði við allt og alla.

Ég vona að Skagamenn nái sér á strik. Þeir eru stór partur af okkar bolta. En mig grunar að þá verði að verða alger hugarfarsbreyting og hún þarf að hefjast hjá Guðjóni. Í dag lítur helst út fyrir að þjálfun sé það leiðinlegasta sem Guðjón hefur gert um ævina.

Jákvætt hugarfar og gleði en ekki endalaus hávaði og spörk í allar áttir. Alltaf allir vondir við mig. Logi Ólafsson er frá náttúrunar hendi skemmtilegur maður og glaðsinna. Er pottþéttur á því að hann hefur ekki þá þekkingu og kunnáttu á fræðunum sem Guðjón hefur.

En hann hefur, með jákvæðu hgarfari og yfirvegðri nálgun tekist að snúa hlutunum á betri veg hjá KR. Eyðir ekki tíma sínum í að eltast við dómara og aðra jafnvel þó stundum gæti verið ærin ástæða til. Grunnafstaðan er rétt. Karaktereinkenni þjálfarans eru farin að sjást hjá KR. Og hjá Skagamönnum líka.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur