Fimmtudagur 04.12.2008 - 10:15 - 9 ummæli

Lýðræðinu fleygt á dyr.

Lýðræði er merkilegur hlutur. Mótmælendur styðjast að jafnaði við þetta hugtak. Þegar fólk safnast saman á Austurvelli er hrópað á lýðræði. Þeir sem þar koma saman telja sig vera hina einu og sönnu fulltrúa lýðræðis hér.

Hvenær er tími til kominn fyrir lýðræðislega kjörin stjórnvöld til að fara frá. Er það þegar 5 þúsund manns mæta eða kannski 36 þúsund? Eða þegar búið er að grýta 250 kg af eggjum? Nú eða kannski þegar skoðanakannanir mæla óánægju yfir 50%? Veit það ekki en veit samt að ekkert er ólýðræðislegt við að stjórnvöld sitji áfram. Kann að vera heimskulegt en ekki ólýðræðislegt.

Mér hefur oft fundist mótmælendur leggja undarlegan skilning í lýðræðið. Nú sást það síðast þegar Ástþór Magnússyni er hent út af OPNUM borgarafundi vegna þess að hann og hans skoðanir passa ekki inn í það sem 99% fundargesta telja vera hina réttu skoðun.

þannig að fundur þessi er varla opinn og lýðræðislegur. Af því að þó fundarmenn komist að þvi með handuppréttingu að þessi maður og hans skoðanir séu ekki velkomnar þá getur það varla verið lýðræðinu hollt að halda bara einni skoðun á lofti.

Lokaður borgarafundur skoðanabræðra er heppilegra nafn á svona samkomum. Ekkert er að því að menn haldi slíka fundi en verra að menn skreyti sig með lýðræðishjali eftir uppákomuna.

Opnar samkomur eins og til dæmis þingfundir kæmust ekki upp með svona fundarstjórn. það er vegna þess að þingið er lýðræðisleg stofnun. Þar sem hver hefur fullan rétt á skoðun sinni og frelsið til þess að koma henni á framfæri óskert á allan hátt.

En fundarstjórar á borgarafundinum lokaða þurfa ekki á lýðræðislegri kappræðu að halda. Þar ræður eitt sjónarmið og ein aðferð til tjáningar. Óvinurinn eru þeir borgarar sem ekki eru með þetta á hreinu. Efinn er óþarfur.

það er lýðræðislegur réttur manna að hafa skoðanir og mótmæla. En þeir menn sem telja sig sjálfskipaða riddara lýðræðis verða að hafa skilninginn á bak við það á hreinu. það virðist eitthvað hafa skolast til þarna.

Þarna var samankominn hópur fólks sem tók lýðræðislega ákvörðun um að vera ólýðræðislegur félagsskapur.

Það er handónýtt.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Þú ert í gríðarlegri mótsögn við sjálfan þig. Þú segir stjórnvöld vera lýðræðisleg en stjórnendur borgarafundarins ekki. Fyrir það fyrsta þá hafa skoðanakannanir sýnt bæði að meirihluta treystir ekki núverandi stjórn og að meirihluti vilji kosningar.Skoðun ríkisstjórnarinnar er að sitja þrátt fyrir niðurstöður þessara kannana. Það merkir að þeir eru á annari skoðun en meirihlutinn. Rétt eins og meirihluti stjórnenda opna borgarafundarins eru á móti því að Ástþór taki þátt.Þetta er í raun alveg sami hluturinn. Helsti munurinn er sá að stjórnvöld eru KOSIN en stjórnendur opna borgarafundarins ekki. Svo að komast að því að stjórnvöld séu meira lýðræðislegri er eiginlega bara fyndið.

  • Ástþór Magnússon er ekki velkomin á skipulagsfundina okkar frekar en Steingrímur J, Geir H., ISG og hvað þetta lið heitir nú allt saman. Af hverju? Jú, þeir sem standa fyrir framboði til Alþingis verða að gera sér grein fyrir að þeir geta ekki tekið þátt í afli sem á að veita slíkum hreyfingu lýðræðislegt aðhald.Við viljum ekki formenn flokka á okkar fundi, þeir mega koma og tjá sig á opnum borgarafundi eins og aðrir, en við viljum þá ekki á skipulagsfundi.

  • Fundurinn var ekki Opinn borgarafundur heldur skipulagsfundur fyrir Opinn borgarafund.Ástþór er velkominn á Opinn borgarafund á næsta mánudag í Háskólabíói eins og aðrir landsmenn.

  • Djöfull ferðu í taugarnar á mér þessa dagana Rögnvaldur! Það er ekki eins og mótmælendur á Austurvelli séu eina fólkið sem ekki treystir ríkisstjórninni. Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að allt að 70% þjóðarinnar vill kosningar Og það er hvaða félagsskap sem er frjálst að afþakka afskipti einstaklinga… Það er stór munur á félagsskap og ríkisstjórn!Hvernig dettur þér í hug að líkja þessu saman? Ertu að tapa þér?Bloggaðu frekar um rottuna í Seðlabankanum addnaúbs! það gengur víst ekki… þú fílar fíflið

  • Ríkisstjórnin er ekki kosin, hún er mynduð eftir kosningar, alþingismenn eru kosnir og eiga þeir þannig séð rétt á því að sitja allan sinn tíma ef þeir vilja. En ég tel og ég held að margir telji að þeir hafi ekki verið kosnir til að takast á við þær aðstæður sem eru uppi í dag og fólki finnst að þeir sem með völdin fara hafa brugðist. Þess vegna er mótmælt og þess vegna hafa margir sjálfstæðismenn yfirgefið flokkinn. Það er nú ekki allt of mikið að marka skoðanakannanir, skoðanir breytast furðu fljótt og oft er spurning hvort að fólki sé gerður greiði með því að fara í einu og öllu eftir því sem meirihlutinn vill.Hins vegar þarf að skipta um ríkisstjórn og það væri fínt að fá kosningar snemma næsta vor þar sem þeir sem nú sitja hafa brennt allar brýr að baki sér og ekki rétt að þeir reisi þær við, heldur nýtt fólk sem hefur traust.Geir missti traust fólksins þegar hann sagði að allt væri í góðu lagi, þegar hann sagði við fréttamenn eftir fundinn við Bjögga Thor að þeir væru að ræða daginn og veginn. Þetta eru bara ekki boðleg ummæli fyrir mann í hans stöðu.

  • Torfi: Já ég orðaði þetta með stjórnvöldin vitlaust, en eins og þú segir þá eru alþingismenn kosnir og flokkarnir mynda svo ríkisstjórn.

  • Anonymous

    Það væri líka fróðlegt að vita hvað þú telur að þurfi til að réttlæta kosningar?? Þarf virkilega meiri hörmungar en þær sem við stöndum frammi fyrir í dag?Ég hef ekki áhuga á þeim ósköpum. Geri ráð fyrir að það snúist ekki um egg eða mannfjölda á Austurvelli. En ef við miðum við höfðatöluna frægu, hversu marga þarf í mótmæli í USA eða Bretlandi ef það eru 5-6000 á Austurvelli. Hef trú á að slík frétt kæmist í heimsfréttirnar og veistu um stað þar sem allt það fólk kæmist fyrir.Bestu kveðjur, JG.

  • Anonymous

    RöggiAf hverju bloggar þú ekki um eitthvað sem skiptir máli?1.Hvað finnst þér, sem Sjálfstæðismanni, um ummæli foringjans, Davíðs Oddssonar og hótanir hans?2. Ummæli Styrmis, nánasta ráðgjafa Davíðs þar sem forgangsröðun hans er svona:a) innmúraðirb) Sjálfstæðisflokkurinnc) ÞjóðinHvað er að ykkur sem þykist aðhyllast frjálst og opið samfélag en verjið Davíð og náhirð hans á kostnað þjóðarinnar?

  • Mér sýnist fulltrúar ,,þjóðarinnar“ og helstu aðdáendur lýðræðisins að eigin sögn þola illa að til skuli fólk sem hefur aðrar skoðanir en það sjálft. Minnir svolítið á svíninn í Dýrabæ. Katrín

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur