Föstudagur 18.09.2009 - 11:23 - 3 ummæli

Valur vængjum þöndum

Ég er stoltur Valsmaður og hef alltaf verið. það er óháð árangri hingað til og verður það áfram. Ég þekki félagið mitt innanfrá og eyddi mörgum árum í vinnu þar og félagsstörf og hafði gott af enda Valur öndvegis félag í öllu tilliti. Körfubolti er mín grein en fótbolti er þó flaggskip félagsins hvað sem tautar og raular.

Ég er meira og minna hættur að átta mig á hvernig knattspyrnudeild félagsins er rekin og ákvarðanir sem þar eru teknar vekja sífellt meiri furðu hjá mér og vísast miklu fleirum. Þjálfarar og leikmenn koma og fara ótt og títt og nú tók steininn úr þegar við Valsmenn réðum okkur þjálfara fyrir næsta tímabil.

Vonandi eru góðar ástæður fyrir því að þeirri ráðningu var þannig fyrirkomið að menn eru liggja sárir á öllum endum þess máls en þær ástæður blasa ekki við mér. Atburðarásin sem fór af stað er mér með öllu óskiljanleg enda er helst að sjá að Valur hafi lagt ofurkapp á að það upplýstist strax að nýr þjálfari tæki við að afloknu tímabili.

Hver tilgangurinn með því er er mér hulin ráðgáta. Það eyðileggur það sem eftir er af tímabili Valsmanna í einu og öllu og gerir núverandi þjálfara gersamlega ólíft að sinna vinnu sinni til loka. Og nýji þjálfarinn hrökklast frá frábæru tímabili hjá sínum gamla vinnuveitanda nánast með skömm.

Kannski eru á þessu óbirtar skýringar sem bæta stöðu Valsmanna í þessari mynd. Þetta er þó bara ein af nokkuð mörgum ákvörðunum íllskiljanlegum sem knattspyrnudeild félagsins hefur tekið á síðustu misserum sem ég bara skil ekki og hélt ég þó að ráðning tvíburanna til félagsins nú um mitt sumar hefði verið eitthvað sem ekki væri hægt að toppa.

Stöðugleiki og reisn skiptir máli og mér finnst hvorugt einkenna framgang knattspyrnudeildar Vals nú um stundir. Skyndilausnir og töfrabrögð blandað saman við kaupæði er ekki það sem félagið á standa fyrir, nágrannar okkar hinu meginn við lækinn eru búnir að fullreyna það.

Mér sýnist helst að menn hafi steingleymt orðum séra Friðriks sem eru þó ógleymanleg og eiga sífellt við.

Látið kappið ekki bera fegurðina ofurliði.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Við erum ekki sammála í pólitík en við erum nokkuð sammála um Val. Það verður að skúra hressilega í haust – þetta eru vond vinnubrögð.

  • Anonymous

    Þetta er þvílíkur skandall að það hálfa væri nóg. En auðvitað ber Gunnlaugur mikla ábyrgð líka. En það er grátlegt að hann hefði getað spilað á morgun og yfirgefið Selfoss sem þvílík hetja, en nú eru allir mega pirraðir og nánast búið að eyðileggja alla stemmningu fyrir morgundaginn, og þó Selfoss sé Gulla þakklátt verður hans nú ekki minnst sérstaklega í sögubókunum félagsins! Það er vægt til orða tekið þegar sagt er, þetta er SORGLEGT

  • Sammála í boltanum en eins og svart og hvítt í pólitíkinni. Nú fer ég að fletta upp hverjir sitja í stjórn knattspyrnudeildarinnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur