Laugardagur 17.10.2009 - 20:52 - 4 ummæli

Hvenær á prestur söfnuð?

Prestar eru merkileg starfstétt. þeir eru venjulegt fólk sem er fer í háskóla og les guðfræði og ef allt gengur upp fá þeir svo brauð og söfnuð sem þeim er ætlað að þjóna. þetta er ágætt system í sjálfu sér ég ber fulla virðingu fyrir guðfræðingum hvort sem þeir enda sem prestar eða eitthvað annað.

En stundum gerist það að þessum riddurum Guðs semur ekki við söfnuð sinn og þá er úr vöndu að ráða. Þessi starfsstétt virðist ekki lúta sömu lögmálum og aðrar og eru allt að þvi eins og heilagar kýr sem ekki má hreyfa við. þetta höfum við séð ítrekað nánast frá upphafi vega.

Nú er Gunnar Björnsson enn einu sinni kominn í vandræði í sínum störfum fyrir almættið. Guðsmaðurinn stóð af sér kæru um einhversskonar kynferðislegt áreiti og ég hef enga skoðun á þeirri niðurstöðu. Söfnuðurinn hans Gunnars er og hefur eðlilega verið með böggum hildar vegna þess máls og sýkna í dómsmáli hans skiptir þar ekki öllu.

Biskup tekur einu réttu ákvörðunina þegar hann ákveður að færa Gunnar til í starfi. það er ekki til marks um að hann telji niðurstöðu dómstóla ranga eins og stuðningsmenn Gunnars virðast telja kjarna málsins. Hér er hugsað stórt og langt og um heildarhagsmuni safnaðarins. þeir hagsmunir eru Gunnari ekki ofarlega í huga.

Hann bara „á“ þetta fína djobb! Söfnuðurinn er til fyrir hann en ekki öfugt. Hugsanlega mun klerkurinn reyna að kæra sig aftur til starfans af því að hann var ekki hnepptur í fangelsi.

Er það nógu góð ástæða? Prestar eru að vinna með manneskjur við merkilegustu augnablik lífsins í sorg og gleði. Þeir eru ekki í pólitík þar sem reglurnar eru að þeir sem geta sýnt fram á að að meirihluti atkvæðisbærra manna styðji þá tryggi yfirráð. Þessu gleyma prestar of oft.

Ég skil vel þau prinsipp að ekki er gott að fólk geti bara komið með ásakanir út í loftið til að losna við prest úr starfi og aldrei má gefa afslátt af sönnunarbyrði þeirra sem ákæra. Þetta mál snýst bara alls ekki um þessi gildi.

Æra Gunnars er hrein og enginn biskup getur breytt þvi en Gunnar Björnsson þarf að sætta sig við að sýknudómurinn dugar bara ekki til að um hans starf skapist sá friður sem nauðsynlegur er. Um þetta snýst málið og ekki annað.

Ég skil ekki það hugarfar að vilja starfa í óþökk umbjóðenda sinna. Menn geta hugsanlega kært sig til vinnu sem lagerstjórar séu þeirra ranglega bornir sökum en um preststarfið gilda allt önnur lögmál.

Prestur sem ekki nýtur trausts eða trúnaðar safnaðar verður aldrei sá sálusorgari sem hann var ráðinn til að vera. Sumir prestar virðast láta slíka smámuni í léttu rúmi liggja.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur