Fimmtudagur 23.12.2010 - 11:55 - 7 ummæli

Afleikur órólegu deildarinnar

Nú er komin upp áhugaverð staða í stjórnmálunum. Farlama ríkisstjórn sér nú allt einu opnast gullið tækifæri til framhaldslífs til loka kjörtímabilsins. Það mun geta gerst með innkomu Framsóknarflokksins.

Það er rétt hjá Steingrími Sigfússyni að það er ekki annar valkostur en að þessi stjórn sitji. Flokkarnir á þingi þora ekki í kosningar og Sjálfstæðisflokkurinn hefur hvorki þor né vilja til að koma að stjórn landsins núna. Þeim er því nauðugur einn kostur….

Þegar órólega deildin í VG studdi ekki fjárlögin leystist úr læðingi illa dulinn pirringur og reiði meirihluta VG í þeirra garð. Reiði sem þurfti svo sannaralega að finn sér farveg upp á yfirborðið. Þarna datt tækifærið upp í hendur forystunnar sem hefur gernýtt það. Snúið knappri vörn í sókn og komið þessum háværa og allt of valdamikla hópi á flótta.

Það er alveg augljóst að vægi þesa hóps hefur snarminnkað og einungis tvær leiðir héðan í boði fyrir hópinn. Annað hvort fullur stuðningur eða brotthvarf úr flokknum. Klofningurinn er nú öllum ljós og þá er hægt að halda áfram veginn með þeim sem fyrir eru og án þeirra hinna sem ekki gera annað en að vera fyrir á forsendum sem ekki standast alltaf skoðun.

Þá galopnast dyrnar fyrir Framsóknarflokkinn enda ekki lengur sú hætta að ógnarsterk óróleg deild muni setja sig upp á móti þeim ráðhag. Þessi pólitíski afleikur órólegu deildarinnar í VG hefur að mínu mati gert ríkisstjórninni gott og hreinsað andrúmsloft sem var orðið hættulega mengað og styrkt samstarfið við Samfylkinguna.

Svona sé ég þetta nú

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Anonymous

    Skarplega athugað og gleðileg jól.

  • Skarplega athugað, nema ef væri fyrir það að þér hefur yfirsést að Framsóknarflokkurinn (amk. formaðurinn og hans menn) hefur nánast í öllum umdeildu málumum stillt sér upp við hliðina á órólegu deildinni.Það er því vandséð hvort vænlegt sé fyrir ríkisstjórnina að fá nýja villiketti í stað hinna órólegu.

  • Anonymous

    Sé það rétt hjá þér, sem ég því miður óttast að sé, að forysta Sjálfstæðisflokks treysti sér ekki til að taka við stjórnartaumunum þá er ekki nema eitt að gera: Koma liðleskjunum frá og fá inn fólk sem getur og þorir. Hafi einhvern tímann verið þörf á því að vel meinandi fólk sem hefur bæði kjark og þor taki við stjórn landsins þá er það nú. Það er sorglegra en allt sem sorglegt er ef við og okkar fólk víkur sér undan þeirri ábyrgð, standi það okkur til boða á annað borð. Mér liggur við að nota orðin „svíkur“ sér undan þeirri ábyrgð.Þórður Áskell Magnússon

  • Anonymous

    Hvenær hefur þriggja flokka ríkisstjórn lifað kjörtímabilið af? Síðast þegar þetta var reynt, endaði tilraunin með skelfingu. Þá var Ólafur „skattmann“ Grímsson fjármálaráðherra. Skattpíningin þá var mikil, en er engu að síður „kids stuff“ á miðað við það sem nú er að gerast. Það á að fækka ráðuneytum. Framsókn á síðan að fá ráðuneyti í ofanálag. Það verður þá til ekki bara óróleg deild, heldur órólegar deildir í VG og SF, því þessir flokkar eru stofnaðir utan um það eitt að vera við völd, og halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar. Það mun leggjast illa í þá sem sitja núna í ráðherraembættum að missa spón úr aski sínum. Hverja ætlar t.d. VG að setja út á kantinn sem núna eru á ráðherrastólum? Vinsælir ráðherrar á borð við Rögnu og Gylfa var fórnað til að koma flokksmönnum VG og SF inn í ríkisstjórnina. Þetta mun verða eins og skvetta olíu á eld.Framsóknarflokkurinn hefur að auki gagnrýnt mjög stefnu ríkisstjórnarinnar. Fari framsókn inn í þetta ESB makk vinstri flokkanna, munu and-sinnaðir ESB framsóknarmenn færa sig yfir í sjálfstæðisflokkinn, þegar siðan verður kosið (fyrr en menn grunar), þá verður Sjálfstæðisflokkurinn með öll trompin á sínum höndum. Ég er ekki viss um að Árni Páll og Össur væru tilbúnir í þá niðurstöðu.Þess vegna mun þessi stjórn lafa þangað til nægur styrkur verður í þinginu til að bera á hana vantrausttillögu. Það gerist ef og þegar nægilega margir þingmenn VG verða nægilega óánægðir til að styðja vantrausttillöguna, þangað til sitjum við uppi með þennan bastarð við landstjórnina.

  • Ég held að athugasemdir á borð við „reiði meirihluta VG í þeirra garð“ og „er alveg augljóst að vægi þesa hóps hefur snarminnkað“ bendi til þess að þú mislesir illilega ástandið í VG.Lestu t.d. greinina sem formenn VG í Reykjavík og Kópavogi skrifa í Fréttablaðið í gær („Hverjir þurfa að hugsa sinn gang?“). Hún bendir svo ekki verður um villst til þess að grasrótin standi með „þremenningunum“ (sem réttara væri að nefna „sexmenningana“) enda standa nú öll spjót á Steingrími, svo mikil er óánægjan með störf hans innan flokksins. Taktu eftir því að Steingrímur, þessi mikli kjaftaskur sem hingað til hefur ekki sparað stóru orðin, yfirlýsingarnar og sleggjudómana, læðist nú með veggjum, lætur ekkert eftir sér hafa og engan í sig ná. Það segir nokkuð.Standi grasrótin með sexmenningunum, eins og virðist vera, þá er þetta ekkert annað en hallarbylting í VG og sjálfsagt úrslitatilraun þeirra sem réttilega telja Steingrím og hans klíku hafa svikið allar hugsjónir, stefnu og loforð VG. Þetta fólk, ásamt Ögmundi, Jóni Bjarna og Guðfríði Lilju, er ekkert á leið út úr VG: þau vilja þvert á móti losa flokkinn við fólk sem með réttu á heima í Samfylkingunni.Ég held einnig að Sigmundur Davðíð sé of skynsamur til að láta plata sig út í að kljástra saman þessari hræðilegu ríkisstjórn: hann tók að sér að verja minnihlutastjórnina falli fyrir 2 árum og man örugglega vel eftir því hvernig Samfylkingin valtaði algerlega yfir Framsókn í allri umræðu þar. Heldurðu virkilega að hann sé spenntur fyrir því að endurtaka þá auðmýkingu?

  • Vonandi ert þú ekki draumspakur maður. Framsókn er ekki girnilegur samstarfsaðili amk ekki þessa dagana.

  • Anonymous

    Röggi af öllum mönnum ert þú ekki spámannlega vaxinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur