Miðvikudagur 05.01.2011 - 11:45 - Rita ummæli

Pirringur framkvæmdavaldsins

Ég hef dálítinn áhuga á brölti þremeninganna í VG í víðu samhengi. Þetta brölt þeirra er algerlaga óþolandi fyrir alla aðila málsins. Þau sjálf eru að fara á límingum auðvitað og eru svo sannarlega erfið í samstarfi. Ég hef komist að því að ég hef samúð með málsstað beggja, þeirra og ríkisstjórnarflokkanna.

Hvorugur aðili málsins, meirihluti VG með foringjann fremstan eða þau þrjú, hafa beinlínis rangt fyrir sér. Vandinn er í grunninum. Hér sjáum við akkúrat hvernig fer þegar framkvæmda og löggjafarvaldið eru eitt og hið sama og óbreyttir þingmenn eins og þremeningarnir bara fatta það ekki og kunna ekki umferðareglur.

Í þinginu og þeirri vinnu sem þar þarf að fara fram er ekkert svigrúm fyrir sérskoðanir. Þar gilda að jafnaði bara þær skoðanir sem ráðherrar hafa. Afar sjaldan myndast meirihlutar þvert á flokkslínur í meginmálum. Það bara má ekki.

Við erum orðin svo vön þessum hugsunarhætti að við skipum okkur ósjálfrátt í lið með framkvæmdavaldinu og komum okkur upp óþoli gagnvart upphlaupsliði eins og þeir þingmenn eru kallaðir sem ekki geta gengið í takti ríkisstjórnar. Misskil ég málið kannski? Ég hélt að þannig ætti þingið einmitt að geta starfað í friði fyrir framkvæmdavaldinu.

Ef allt væri með felldu væri engin ríkisstjórn með ráðherra innanborðs sem ekki vilja vinna að samþykktri og undirritaðri stefnu stjórnarinnar. Ríkisstjórnin væri ekki háð einhverri póltískri innanflokksskák eins og nú er alsiða. Við erum orðin háð samsteypustjórnum sem þurfa að taka tillit til ótrúlegustu hluta eins og kjördæmapots einstakra þingmanna svo eitthvað sé nefnt.

Ef allt væri í lagi þyrftum við ekki að horfa á fulltrúa framkvæmdavaldsins stappa niður tótum í pirringi og óþolinmæði í hvert sinn sem löggjafanum dettur í hug að kynna sér mál betur eða setja fyrirvara.

Eitthvað er alvarlega bogið við samskipti framkvæmda og löggjafarvalds hjá okkur og mér sýnist hvorugur aðilinn geta við þetta ástand unað. Að ógleymdri þjóðinni sjálfri sem á betra skilið.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur