Þriðjudagur 21.06.2011 - 10:45 - 2 ummæli

Kvótinn og stjórnarandstaðan

það er þægilegra líf að vera í stjórnarandstöðu en stjórn. Vera jafnvel fúll á móti og hafna öllum erfiðum málum og handvelja svo gæðamál til að halda með allt eftir stemningu í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Sumir flokkar hafa búið að slíkum lífsgæðum lengi og náð sér á endanum í nægilegt fylgi til að setjast að kjötkötlunum.

VG er eins og rifið út úr kennslubókinni þegar að þessu kemur og eitt besta dæmið er kvótakerfið. Það er system sem stór hluti þjóðarinnar hefur lært að hata og sannfærst um að þeir einir stundi veiðar sem hafa fengið allt frítt upp í hendurnar. Útgerðir eru vont fólk sem hefur yfirveðsett allt og græðir svo á öllu saman. Og ég veit ekki hvað….

Ég man hvernig útgerðin var rekin fyrir kvótann. Þá hétu kvótagreifarnir sægreifar og áttu heilu plássin og ráku alla heim þegar enginn var fiskurinn. Svo var gengið fellt eftir hentugleika og stjórnmálamenn útveguðu togara út í eitt í kjördæmapotisfíling. Allt var þetta meira og minna á hausnum og ríkisrekið með einum eða öðrum hætti og sóknargetan langt umfram það sem hentaði. Þá var þessi bransi ekki orðinn að sameign þjóðarinnar. Það kom með hagnaðinum síðar….

Af hverju öfunda aðrar þjóðir okkur af systeminu? Þjóðir sem þurfa sífellt að ríkisstyrkja útgerðir sem svo ofveiða allar tegundir stjórnlaust. Vel má vera að mistök hafi verið gerð í upphafi en er það næg ástæða til að kollvarpa kerfi sem virkar og taka upp annað sem ekki ekki virkar?

Ég get svo vel skilið reiði þeirra sem sitja eftir í sjávarplássum kvótalausum en sé ekki ljósið í því að afhenda stjórnmálamönnum völdin til að geta úthlutað kvóta eftir smekk hingað og þangað án tillits til hagkvæmni. Við höfum fullreynt það kerfi og það leysir ekki vandann en færir hann hugsanlega eitthvað til áður en allt sígur á enn verri ógæfuhlið.

Margir bundu miklar vonir við ríkisstjórnina í þessum efnum enda hafði ekki vantað stóryrðin árum saman. Nú skyldi sko tekið á þessum bévítans kvótagreifum öllum saman og auðlindinni „skilað“ til eigenda sinna. Nú eftir tvö ár hefur meira að segja ríkisstjórninni lærst að svona einfalt er málið því miður ekki.

En vandinn eru gömlu loforðin og því hefur Jón Bjarnason ráðherra sjávarútvegs lamið saman algerlega liðónýt frumvörp um málið. Vissulega getur verið erfitt að gera öllum til hæfis þegar kemur að rekstri fyrirtækis eins og Íslands en afar sjaldgæft er að koma fram með frumvörp sem enginn hagsmunaaðili hringinn í kringum borðið getur sætt sig við en það er VG að gera og Samfylking reynir án afláts að þegja og vona að enginn taki eftir því að hún er líka í ríkisstjórninni.

Tilraunir ríkisstjórnarinnar til að eyðileggja sjávarútveginn og draga úr hagkvæmni til lengri og skemmri tíma er grafalvarlegt mál og látið ekki blekkjast þó spunameistarar hafi dottið niður á það þvaður að fleira skipti máli en hagfræði þegar kemur að atvinnuvegum þjóðarinnar.

Það kann að henta lítilmótlegum hagsmunum pólitískum til skamms tíma að ganga milli bols og höfuðs á ímynduðum óvinum þjóðarinnar sem reka útgerðir með þessum kvótafrumvörpum en lengra nær það ekki. Leitun er að hagfræðingum og hagsmunaaðilum sem telja þau til bóta en þeir fagna mest sem seldu sig út úr greininni og bíða nú eftir því að kaupa sig inn aftur með afföllum. Það er líklega það sem VG kallar nýliðun í greininni….

Hún er rómantísk hugmyndin um að innkalla bara kvótann og endurúthluta til þeirra sem vilja. Og setja bara þessa skuldugu útgerðir á hausinn. „Gott á þessa skratta“ heyrist jafnvel. Fáum bara aðra til að veiða fiskinn. Svona kaffihúsatal á ekkert erindi inn á þing enda vita þeir sem hafa kynnt sér málið að þessi hagfræði heldur hvorki vatni né vindi þó sniðug sé í góðra vina hópi.

Gamli stjórnarandstöðuflokkurinn VG hefur nefnilega kjaftað sig út í horn og ratar ekki þaðan og vonar líklega að einhver nenni að stunda málþóf fram að næstu kosningum til þess að svæfa málið. Og þegar forsætisráðherra er spurð út í málið þá rær hún á gömul mið og talar um hrunflokka og bankakrísu eða frjálshyggju og reynir að eyða talinu með því að benda á annað.

Það er vilji til þess á þingi að laga það sem aflaga kann að hafa farið og gerlegt er að lagfæra án þess að eyðileggja það sem virkar. En það bara hantar ekki gamla stjórnarandstöðuflokknum VG.

Það þarf kjark og skapfestu til að standa með langtímahagsmunum en ekki bara stundar. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa því miður margsýnt að slíkan kjark og slíka skapfestu er þar ekki að finna……

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Anonymous

    Góð grein!VG fer eins langt í ruglið og lýðskrumið og hægt er. Þeir byggja röksemdir sínar á eigin hugmyndafræði og rómantík.

  • Anonymous

    Hvernig er hægt að flagga því að önnur lönd ofveiði fiskinn hjá sér á meðan að hér við íslandsstrendur veiðist nú um það bil þrisvar sinnum minna af þorski en árið 1985?Er það ekki vísbending um ofveiði og slæma fiskveiðistjórnun?Hvernig er hægt að tala svona vel um kerfi sem að skilar þessum „árangri“?Og það er fyrir utan það hversu ótrúlega fáránlegt (en sennilega hagfræðilega eðlilegt) Að menn geti átt fisk sem hefur ekki einu sinni verið klakið út.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur