Þriðjudagur 16.08.2011 - 09:37 - Rita ummæli

Hún verður sífellt flóknari staða Samfylkingarinnar. Ekki nóg með að flokkurinn sitji í dauðagildru VG í ríkisstjórn heldur verður ekki betur séð en að eina baráttumál flokksins, inngangan í ESB, sé að verða æ fjarlægari draumur.

Þjóðin bara vill ekki þarna inn ef eitthvað er að marka skoðanakannanir en reyndar er það þannig að fylgjendur inngöngunnar taka ekkert mark á slíku. Þær eru bara til brúks þegar niðurstöðurnar eru hagstæðar. Þetta er að verða plagsíður hjá þessum lýðræðiselskandi flokki sem tekur ekki heldur mark á niðurstöðum úr þjóðaratkvæðagreiðslum nema það henti. Við erum víst ekki þjóðin…

Þetta er ekki einasta vandmálið því langur vegur er frá því að aðild að ESB eigi möguleika á þingi og fylgið við slit viðræðna eykst og gildir einu þó ræstir séu út allir mögulegir og ómögulegir bloggraftar landsins til að níða þá skoðun niður.

Það er vissulega þreytandi þegar grjótvitlaus meirihlutinn ætlar að fá að hafa eitthvað um mál að segja og það sést á viðbrögðum þeirra sem vilja inn í ESB. Í stað þess að berjast fyrir málsstaðinn er farið í gamla leikinn sem gengur út á það að níða niður þá sem hafa gagnstæða skoðun.

Sem í þessu tilfelli er meirihluti þjóðar og þings hvorki meira né minna. Stundum hefði slíkt ekki verið léttvægt fundið…

Eins og mál eru að þróast er ekki ólíklegt að Sjálfstæðisflokkur geti myndað ríkisstjórn með Framsókn eftir næstu kosningar en það er mynd sem fáum datt í hug að draga upp fyrir bara nokkrum mánuðum síðan. Sú tilhugsun eykur varla á hugarró félaga Össurs…

Annars er komin upp sú sérkennilega staða að andstæðingar aðildar ættu kannski að fagna því ef kosið yrði um málið sem fyrst og fylgjendur að vona að viðræður dragist á langinn í von um betra veður í ófyrirsjáanlegri framtíðinni.

Kannski skýrist óþol Samfylkingarinnar og þeirra sem vilja skilyrðislaust inn í ESB gagnvart skoðunum meirihlutans í málinu af þeirri klemmu sem flokkurinn og málsstaðurinn er í. Ekki er í fljótu bragði að sjá að úr rætist í bráð….

…hvort heldur sem litið er til ESB afstöðu þjóðarinnar eða í samstarfi vinstri flokkanna í þessari Albaníuríkisstjórn.

Kannski verður það valkostur fyrir Samfylkingu að sprengja þetta samstarf og kjósa sem fyrst til að lágmarka skaðann. Getur verið að hagstæðara sé að berjast fyrir inngöngu í ESB í stjórnarandstöðu en í þeirri vonlausu stöðu sem Samfylkingin situr í verandi í þessari ríkisstjórn.

Það skyldi þó ekki vera

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur