Mánudagur 29.08.2011 - 11:10 - Rita ummæli

Úlfur Úlfur. Ögmundur Jónasson er risaeðla og ef hann réði værum við öll ríkisrekin. „Við“ öll ættum allt en reyndar væri það þannig að hann og félagar hans í VG myndu svo hafa umboð til að véla um öll okkar mál. Stjórnmálamenn myndu passa upp á okkur og taka góðar og skynsamar ákvarðanir handa okkur.

Við myndum ekkert vera að tala við útlendinga. Sérstaklega ekki útlendinga sem eiga peninga og langar að fjárfesta. Slíkt fólk er vont og slíkir peningar miklu verri peningar en Ögmundur getur fengið að láni með miklum tílkostnaði. Það lán borgar Ögmundur svo niður með laununum þínum…

Tími fólks eins og Ögmundar kemur alltaf af og til. Þegar eitthvað fer úrskeiðis er öruggt að Ögmundur getur glaðhlakkalegur sagt að þetta hafi hann alltaf vitað. Hann hefur verið á móti velflestu allan sinn feril og það er stundum hentugt.

Heimskrísan hefur því miður haft þær hliðarafleiðingar að grjótharðir kommar hafa komsit upp með að gjaldfella allt sem heitir einkarekstur og frelsi. Á Íslandi fórum við heilan hring og sitjum pikkföst í hugmyndafræði gamals tíma og hugmynda.

Íhald og afturhald hefur fengið andlit í þeim Jóni Bjarnsyni og Ögmundi. Við erum þjóðin sem vill fá að fara sínu fram í samstarfi við aðrar þjóðir og einstaklinga en hafa svo frið með okkar. Tvíhliða samningar eru þannig að við gerum tvíhliða samkomulag um að einhliða hagsmunir okkar ráði. Þessu öllu er svo stýrt með uppblásinni þjóðrembu…

Nýjasti óvinur Ögmundar er kínverji nokkur sem vill fjárfesta hér á landi. Sjálfvirkur viðvörunarbúnaður Ögumundar fer af stað og hann finnur til þess að þetta þurfi helst að stöðva. Og týnir til sögulegar ástæður um vonsku manna sem sem vilja græða.

Fátt er algott eða alvont og ég geri mér grein fyrir því að við þurfum girðingar utan um frelsið. En félagi Ögmundur vill bara girðingar og ekkert frelsi nema ríkisfrelsið sem veitir mjög misgáfulegum stjórnmálamönnum leyfi til að ráða öllu.

Ef Ögmundur réði alveg öllu stæðum við ein í heiminum. Engir vondir menn að kaupa neitt hér eða að fjárfesta. Við myndum bara selja hvort öðru hundraðkallinn sem seðlabankinn okkar býr til aftur og aftur með verðtryggingu og okurvöxtum.

Við værum óháð og ríkið ætti okkur öll.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur