Föstudagur 28.10.2011 - 23:06 - 5 ummæli

Neyðarlög og landsdómsóbragðið

Hæstiréttur hefur þá staðfest að neyðarlögin halda. Þetta er gleðitíðindi og mikilvægi þessarar niðurstöðu meira en flestir virðast gera sér grein fyrir. Mér finnst undarlega hljótt um þetta mál en á því eru auðvitað eðlilegar skýringar.

það er algerlega fáránlegt í raun að Steingrímur J Sigfússon sé sá maður sem fjölmiðlar þurfa að ræða við og leita viðbragða eftir þennan úrskurð hæstaréttar. Ef Steingrímur hefði snefil af pólitískum manndóm myndi hann vísa á Geir Haarde og biðja fjölmiðla um álit þaðan.

Sumir pennar hafa reynt að endurhanna söguna um setningu neyðarlaganna annað hvort þannig að Geir Haarde hafi ekki átt annan kost en að setja lögin eða til vara að hann hafi nú ekki verið einn í því verki. Þetta fólk vill hafa söguna þannig að Geir tók einn allar vondu ákvarðanirnar en í félagi við Jóhönnu og Össur þær góðu. Hvoru tveggja hræbillegar eftiráskýringar sem halda hvorki vatni né vindi þeim sem útbúnir er söguþekkingu og pólitískum heilindum.

Fólkið sem annað hvort kom Geir Haarde fyrir landsdóm eða skrifaði sig til ævarandi skammar með stuðningi við þann gjörning læðist með veggjum þegar þessi úrskurður hæstaréttar er til umræðu.

Steingrímur var í viðtali í útvarpi í dag og umfjöllunarefnið niðurstaða hæstaréttar. Þar var hann minntur á að VG sat hjá þegar lögin voru sett. Steingími J Sigfússyni fannst óþarfi að vera að elta söguna með þessu hætti. Litlu skipti núna hverjir hefðu verið hvað þarna.

Það skyldi þó ekki vera. Steingrímur getur trútt um talað. Fyrir hann skiptir litlu hver sagði hvað eða gerði. Hann situr ekki og bíður meðferðar fyrir landsdómi af því að hann gat ekki komið í veg fyrir hrun fjármálakerfis heimsins sem fyrst féll yfir okkur og eins og augljóst mátti vera, svo yfir alla hina líka.

Það gerir hins vegar Geir Haarde fyrir atbeina núverandi ríkisstjórnar. Ég allt að því vorkenni þeim alþingismönnum sem misstu frá sér dómgreindina daginn örlagaríka þegar sú ákvörðun var tekin.

Þeir sem á eftir okkur koma verða svo að reyna að skilgreina hvaða eiginleika fólk í stöðu Jóhönnu og Össurar þurfa að hafa til að bera til þess að geta setið áfram eins og ekkert hafi í skorist við háborðið.

Hver dagur sem líður frá þeirri ákvörðun leikur allt þetta fólk verr bæði pólitískt og persónulega. Og nú þegar hæstiréttur hefur endanlega klárað málið og þjóðin getur glaðst eru
stjórnmálamenn í ráðuneytum og meirihlutasætum á alþingi með slíkt óbragð í munni að engum dylst sem vill sjá.

Og þeir finna bara alls ekki leiðina út úr skömminni…….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Anonymous

    Ein bestu rök gegn landsdómskærunni sem ég hef heyrt er að það ætti ekki að vera ólöglegt að vera fábjáni.Þá þyrfti jú að kæra ykkur alla.Annars botna ég lítið í því hvað hæstiréttur hefur með málið að gera.Var Geir kærður fyrir neyðarlögin? Ef hæstiréttur hefði fellt neyðarlögin hefðir þú þá skrifað grein um klúður Steingríms? Maður spyr sig.

  • Venjulega ertu málefnalegur, Röggi. Hér þó ekki.A. Ákæran gegn Geir snýst ekki um setningu neyðarlaganna, það er meira segja lika búið að vísa þeim hluta ákærunnar frá þar sem hann er ákærður fyrir að „haardera“. Ákæran gegn Geir snýst helst um að hann hafi brotið gegn skýrum ákvæðum stjórnarskrárinnar um að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.B. Neyðarlögin voru samin í leyni í vikunni fyrir hrunið. Jafnvel Seðlabankanum var haldið utan við, enda treystu menn ekki skrímslinu. Þau voru kynnt stjórnarandstöðunni samdægurs. Stjórnarandstaðan samþykkti möglunarlaust að hleypa málinu í gegn á þeim hraða sem þurfti. Hún hefði vel getað farið í málþóf, eins og nú tíðkast um hin ýmsustu mál. VG og Frjálslyndir sátu hins vegar hjá við lokaafgreiðslu á 12. tímanum um kvöldið. Í ræðu sinni sagði Steingrímu að frumvarpið væri “ illskásti kosturinn, neyðarkosturinn í stöðunni eins og hún er“, en taldi engu að síður rétt að sitja hjá, enda væri ábyrgðin öll hjá ríkisstjórninni, hún hefði ekki viljað hleypa stjórnarandstöðunni að við undirbúning neyðarráðstafana.Auðvitað öndum við flest léttar – að Steingrími meðtöldum – að Jón Steinar átti sér ekki þrjá skoðanabræður í réttinum. Hvað hinn varðar sem bar mesta ábyrgð á því að stjórnvöld lugu endalaust að þjóðinni og þó mest að sjálfum sér, þannig að hrunið varð verra en það hefði þurft að vera, vonandi fær hann þann dóm sem hann á skilið og sem réttlátastur er.

  • Ertu í fullri alvöru að ásaka þingmenn fyrir að hafa setið hjá við afgreiðslu á þessu viðamikla frumvarpi sem þeir fengu að sjá klukkan fimm síðdegis og var orðið að lögum fyrir miðnætti? Frumvarp sem fékk ENGA EFNISLEGA SKOÐUN EÐA LÝÐRÆÐISLEGA ALVÖRU UMRÆÐU á Alþingi?

  • Anonymous

    Spurning: „Hvað finnst ykkur um neyðarlögin?“Svar: „Þau voru alveg frábær ráðstöfun á sínum tíma og björguðu þjóðinni frá glötun. Að vísu sáum við okkur ekki fært að styðja þau“.Sp. „Hvernig verðlaunuðuð þið mannninn sem hafði forgöngu um að koma lögunum í framkvæmd?“Sv. „Tja, við hyggjumst fá hann dæmdan fyrir landráð“.Sp. „Hvernig hyggist þið svo endurreisa atvinnulífið?“Sv. „Með inngöngu í Evrópusambandið – sem við erum að vísu algerlega mótfallin.“

  • Anonymous

    „Og þeir finna bara alls ekki leiðina út úr skömminni…….“En Röggi og FLokkurinn finnur hana:Afneiun

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur