Mánudagur 12.12.2011 - 12:29 - Rita ummæli

Ég horfði á Guðmund og Heiðu fulltrúa nýjasta stjórnmálaflokksins í silfri Egils í gær. Ég er alveg örugglega ekki nógu jákvæður almennt til svona framboða en ég er að reyna.

Kannski er ég risaeðla sem sér ekki framtíðina og skil ekki breytingar en mér finnst eins og ég hafi séð þetta áður og ekki fundist reynslan góð.

Ég veit að fólk leggur af stað með góðan vilja og heilbrigðar hugmyndir. Stundum hefur málið snúist um beinhörð stjórnmál og eitthvað sem brennur á það augnablikið. Þá stofnar fólk flokk utan um málið og lætur svo restina ráðast.

Í þessu tilfelli er vandséð utan um hvað flokkurinn á að standa. Ég get þó ekki gert lítið úr því að þau vilja breyta stjórnmálamenningunni og finna nýjar nálganir og aðferðir. Núna er frjór jarðvegur fyrir slíku. Góður stjórnmálabusiness að tala um slíkt án þess að útfæra það frekar.

Ég hef litla trú á flokkum eða hvað við viljum kalla hóp fólks sem hyggst rotta sig saman í framboð sem lýtur engri forystu utan um ekki neitt annað en að vera flokkur sem býður fram.

En kannski mun það ganga betur en þær tilraunir sem gerðar hafa verið til að mynda flokka utan um fastmótaðar hugmyndir í smáatriðum. Flokka sem mörgum finnast vera ónýtir og gerspilltir valdaflokkar.

Reyndar er sagan þannig að nýjir flokkar/framboð lúta þeim lögmálum að þar endar stundum allt í þrasi um völd og styrki. Það gerist þegar stemningin breytist og fólk fer að þurfa að taka afstöðu til daglegra pólitískra álitamála.

Þá verða til klíkur sem styðja þennan sem erfitt er fyrir aðra að túlka öðruvisi en sem andstæðinga hinna.

Hvað er pólitík? Er hún eitthvað annað en það sem hún er? Breytast viðfangsefnin ef bara Guðmundi Steingrímssyni tekst að finna sér formannsstól?

Talað er um aukið lýðræði og hver getur verið á móti slíku? En hvernig og utan um hvað er látið liggja á milli hluta.

En kannski er ég bara ferkannataður gamall miðaldra kall en eins og allir vita erum við rót alls vanda. Kannski eru menn eins Guðmundur Steingrímsson framtíðin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur