Mánudagur 06.02.2012 - 12:17 - Rita ummæli

Það ER gott að vera vitur eftir á

Ekki er það fallegt. Lífeyrissjóðirnir töpuðu peningum á hruninu. Það er að koma í ljós núna og tölurnar eru hrikalegar. Sér í lagi er hægt að gera þær stórar þegar dregin er upp dramatíseruð mynd af því hvernig peningar sem lífeyrissjóðirnir hafa til umráða eru til komnir. Nefnilega með brauðstriti almennings.

Ég ætla ekki að bera blak af mönnum hafi þeir gerst sekir um lögbrot. En ég ætla heldur ekki að vera sá sem allt veit best eftir á eins og sumir vel skrifandi menn leyfa sér stundum. Engu skiptir þó menn af hentisemi gefi ekkert fyrir það að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Það er auðvelt að vera vitur eftir á og ekkert sérstaklega smart heldur alltaf.

Ég hef heldur ekki dregið lappirnar í gagnrýni á eigendur banka sem stálu úr þeim peningum en þó leyft mér að benda á að bankakreppan var ekki fundin upp á Íslandi og ekki fjárfestingakreppan heldur.

Það voru ekki bara Íslenskir fagfjárfestar hvort sem þeir heita lífeyrisssjóðir eða annað sem töpuðu. Margar af stærstu peningstofnunum heims á þeim tíma hafa nánast farið á hliðina eftir viðskipti og fjárfestingu í Íslenska undrinu. Ég man varla hversu mikið var verið að afskrifa núna síðast í Actavis….

Þetta er stofnanir sem hafa kennitölu í löndum með mikla reynslu af fjárfestingum og virkt eftirlit en allt kom fyrir ekki.

Krafan um að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í Íslensku viðskiptalífi var gríðarmikil allan velgengnistímann og þá auðvitað ekki síst í fyrirtækjum sem voru að skila góðum tölum. Ekki fór mikið fyrir gagnrýni á þetta þá hvorki frá frístundasérfræðingum eða fagmönnum hvar sem þá var að finna.

Ekki voru eftirlitsstofnanir með viðvörunarorð hvorki hérlendis né erlendis. Öðru nær. Öll mælitæki möguleg sýndu að fjárfesting í undrinu okkar var bæði skynsamleg og vænleg leið. En nú spretta upp menn sem taka ekki mark á sögunni.

Margir vilja sjá blóð renna og því liggja lífeyrissjóðirnir nú vel við höggi. Tölurnar eru sláandi og óþolandi og gera verður kröfu um að skýringar verði gefnar að svo miklu leyti sem það er mögulegt og ekki er ástæða til að gefa afslátt sé maðkur í mysunni.

Tap lífeyrissjóðanna er vissulega grafalvarlegt mál en datt einhverjum í alvöru í hug að lifeyrissjóðir einir fjárfesta slyppu við tap og hversu sanngjarnt er það?

Margir hafa mikla andúð á lífeyrissjóðunum af öllum ástæðum mögulegum og ég get skilið eitt og annað í þeirri afstöðu. En það verður að skoða mál eins og þessi af yfirvegun og einmitt að læra af sögunni og skoða þær ákvarðanir sem teknar voru í sannsjörnu ljósi þess sem sagan kennir okkur.

Menn sem hugsa eins og Guðmundur Andri þykjast ekki þurfa að taka mark á neinu eftir á. Við hvern var hann að tala öll góðærisárin? Af hverju skrifaði hann ekki pistil?

Ég man reyndar eftir fólki sem fékk þá afbragðshugmynd að lífeyrissjóðirnir kæmu „heim“ með eigur sínar og reyndu að „bjarga“ bönkunum þegar allt var þar brunnið innandyra sem brunnið gat á síðustu dögum fyrir hrun.

Þá voru til sérfræðingar sem voru tilbúnir að setja öll eggin í eina körfu. Ég fagna því að ekki voru til menn í lifeyrissjóðunum þá sem létu undan þess tíma fyrirfram sérfræðingum.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur