Þriðjudagur 07.02.2012 - 20:50 - 5 ummæli

Lífeyrissjóðir og eftiráspekin

Nú er það vandi lífeyrissjóðanna sem fólk talar um. Þeir töpuðu stórfé í hruninu og virðist koma mörgum á óvart. Og nú vilja menn sjá blóð renna og finna einhverja til að axla ábyrgð. Mér finnst umræðan áhugaverð fyrir margar sakir.

Á Íslandi er glæpur þeirra sem eru gabbaðir talinn meiri en þess sem stundar gabbið og hleypur á brott með gróðann. Það er vel kunn staðreynd að fjármálakerfi heimsins hrundi með látum. Loftbóluhagkerfi byggt á allsherjar blekkingu undir það síðasta.

Og það er bókstaflega leitun að þeim sem ekki bitu á agnið hvort heldur er um að ræða eftirlitsstofnanir, ríkisstjórnir, efnahagsbandalög, matsfyrirtæki eða fagfjárfesta. Enginn sá þetta fyrir í tíma.

Og nú viljum ganga milli bols og höfuðs á þeim sem stjórnuðu lífeyrissjóðunum og fjárfestu í fyrirtækjum sem þóttu sallafín, sum meira að segja löngu eftir hrun. Flestir eru búnir að gleyma háværum kröfum um virka þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Hvar eru þeir nú sem vildu koma heim með eigur sjóðanna til að „bjarga“ bönkunum dagana örlagaríku þegar Guð gleymdi að blessa Ísland?

Umræðan hefur snúist að ótrúlega miklu leyti um það hvort ferðir starfsmanna eru vinnuferðir eða hreinlega mútuferðir eins og lýðskrumarinn Saari kallar þær en hann fer mikinn núna og gleymir því þá að hann á sæti á löggjafarsamkomu okkar og þar eru sett lög m.a um lífeyrissjóði.

Stutt er síðan ráðherra einn varð að biðjast afsökunar þegar hann nefndi vinnuferðir og hagsmuni í sömu setningunni en nú tekur umræðan skrýtinn krók og allt er leyfilegt. Auðvitað verður að fara vel og gagnsætt með slíka hluti en ég ber litla virðingu fyrir tali um að allar slíkar ferðir séu alltaf óeðlilegar. Slík prinssipp hitta þá án efa mun fleiri en starfsmenn lífeyrissjóða illa.

Nú er tími eftiráspekinga sem allt vita nú en þögðu þá. Rithöfundur einn þótti orðsnjall þegar hann sagðist hreinlega ekki viðurkenna þau vísindi að menn segðu auðvelt að vera vitur eftir á. Heimurinn væri betri staður ef bara væri hægt að skrifa söguna áður að hún gerist eins og sumir bæði utan rithöfundastéttarinnar og innan virðast telja mögulegt. Það er staðreynd að stundum er ekki við öllu séð þrátt fyrir einbeittan vilja og sum mistök eru heiðarleg mistök.

Auðvitað á ekki að gefa afslátt hafi menn gerst sekir um lögbrot og ég ber mikla virðingu fyrir málefnalegri og uppbyggilegri gagnrýni á bæði strúktur lífeyrissjóðanna, restrarkostnað, fjölda þeirra og því hvernig valið er í stjórnir og valdinu dreift eða viðhaldið.

Ég er auðvitað ekki ósnortinn af umræðum um fjárfestingar lífeyrissjóðanna en mér sýnist þeir sem bjóða hæst og stundum ódýrast í umræðunni hafa orðið því miður og þá er hætta á að lítið gagn verði að til lengri tíma litið.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • rétt hjá þér Röggi Fólk lætur eins og bestíur og gerir ráð fyrir að fjármálastofnanir geti alltaf grætt.Lífeyrirsjóðirnir græddu óhenju á árunum fyrir hrun og notuðu þann gróða til að auka greiðslur úr sjóðunum. Þetta er staðreynd . Þegar að hrunið varð hérna fylltust bloggheimar af fóki sem skildi ekki hversvegna lífeyrissjóðir hefðu ekki bara fjárfest erlendis, hvernig fóki hefði dottið í hug að fjárfesta innanlands.Síðan 2 árum seinna verður fólk enn geggjað en nú hvað lífeyrissjóðirnir hafi verið að fjárfesta erlendis

  • Anonymous

    Vá,,sæll.Eftir á speki.Hvernig er annað hægt þegar gögnin koma eftir á.Byggðir þú þess rusl samsetningu á einhverri vitrænni hugsun ?

  • Eftiráspeki?Það var varað við krosseignatengslum mörgum árum fyrir hrun.Einnig er það eðlileg ráðstöfun fjárfestinga að setja þær ekki í sömu atvinnustarfsemi, fá stór fyrirtæki eða í fyrirtækja samsteypur.Nægar upplýsingar voru til staðar sem sýndu að kerfið væri mjög brothætt.Eftiráspeki þeirra sem stýrðu landinu er sú að þeir hafi ekki vitað neitt og verið gabbaðir.

  • Anonymous

    Ef að þú vinnur við fjárfestingar og ert plataður upp úr skónum er þá rétt að fá sér einhverja vinnu sem þú ræður við????

  • Anonymous

    Góður pistill hjá þér Röggi og sjaldan þessu vant er ég þér sammála.Það gleymist svolítið í umræðunni að um lífeyrissjóði gilda lög sem þeir verða að starfa samkvæmt. Ef þeir gera það ekki eru þeir að brjóta þau og fá á sig kærur.Það gleymist líka að fjárfestingakostir hér fyrir hrun voru afar fáir í skráðum félögum því mörg fyrirtæki var búið að taka af markaði eins og t.d. útgerðarfyrirtæki. Ávöxtunarkostir sjóðanna voru einfaldlega fáir hér innanlands nema í bönkunum og stórfyrirtækjum og við vitum núna hvað var í gangi þar.Meira að segja fjárfesting í Össur og Marel skilaði neiðkvæðri ávöxtun við hrunið og hefur þó aldrei nokkurn tíman vaknað grunur um eitthvað misjafnt á þeim vígstöðum.Hverjum hefði t.d. dottið í hug fyrir hrun að UBS sá stóri svissneski banki væri beinlínis í ránsferð á Íslandi? Þar var á ferð erlendur banki með góða og langa sögu. En auðvitað var hann með góða greiningardeild og gerði sér grein fyrir því að allt væri að fara til fjandans hér. Þessvegna var sett inn klásúla í skuldabréfaútboð hans um að ef tilgreind íslensk fyrirtæki döluðu um 7% þyrfti ekki að greiða upp lánið. Tæplega 100 milljarða tap þar. Auðvitað má segja að sjóðirnir hefðu ekki átt að kaupa bréf bankans en allir vonuðu sjálfsagt að gripið yrði til einhverra ráðstafana til að hér færi ekki allt í kalda kol.Ég held að fáir hafi búist við því 2007 að ekki yrði brugðist við á neinn hátt og ekkert gert og allt látið danka.Þorsteinn Úlfar Björnsson

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur